Með hálfa milljón manns í vasanum
Benjamin Hardman er ungur Ástrali sem hefur lífsviðurværi sitt af því að mynda Íslenska náttúru. Hann flutti hingað með 1.000 fylgjendur á Instagram. Fjöldinn hefur núna fimmhundruðogfimmtíufaldast.
Árið 2015 komu rúmlega 47 þúsund manns í Fjaðrárgljúfur yfir sumarmánuðina. Í júní, júlí og ágúst í fyrra heimsóttu næstum því þrefalt fleiri þennan sama stað. Það sem gerðist í millitíðinni? Justin nokkur Bieber drap þar niður fæti.
Það hefur verið horft 440 milljón sinnum á myndbandið sem hann birti af heimsókninni á YouTube. Og hann fór reyndar víðar. Hann renndi sér til dæmis á hjólabretti á flaki flugvélarinnar á Sólheimasandi, þar sem indversku leikararnir Shah Rukh Khan og Kajol höfðu staðið skömmu áður í faðmlögum. Slæðuknúsið þeirra hefur verið spilað 250 milljón sinnum á YouTube.
Það hefur verið talað um Bieber-áhrifin og Instagram-áhrifin. Markaðssetning Íslands hefur, eins og flestir vita, tekið stakkaskiptum með samfélagsmiðlum. Það veit þessi maður mætavel.Það hefur verið talað um Bieber-áhrifin og Instagram-áhrifin. Markaðssetning Íslands hefur, eins og flestir vita, tekið stakkaskiptum með samfélagsmiðlum. Það veit þessi maður mætavel.
Einn af þeim stærstu frá Íslandi
Benjamin Hardman vissi ekki fyrir fimm árum að Ísland væri til. Núna er hann einn af þeim sem heldur orðspori landsins hvað hæst á lofti.
Hann er með 550 þúsund fylgjendur á Instagram, þar sem hann birtir aðallega myndir af Íslandi. Þegar hann flutti hingað, fyrir nokkrum árum síðan, voru fylgjendurnir í kringum 1000.
Hardman var búinn að koma sex sinnum til Íslands þegar hann áttaði sig á því að kannski væri bara best að setjast hér að, í stað þess að ferðast sí og æ yfir hnöttinn þverann til þess að taka myndir og dást að náttúru landsins. Hann segir að íslenski veturinn hafi verið það sem einn helst togaði í hann. Og það er augljóst á síðunni hans á Instagram.
Hann segir að það sé erfitt að útskýra nákvæmlega við hvað hann vinni, en hryggjarstykkið í starfinu gangi út á að þvælast um hálendið og taka myndir.
Það eru ekki margir „íslenskir“ Instagrammarar með fleiri fylgjendur en Hardman. Yfirborðskennd rannsókn sýnir að Crossfit-meistararnir Katrín Tanja og Annie Mist - og fjallið; Hafþór Júlíus Björnsson, séu með fleiri. En þau eru hins vegar ekki mikið að birta landslagsmyndir.
Fylgjendur = áhrif
Hardman telur að síðan hans skipti máli fyrir Ísland, að því leyti að myndirnar hans fara víða. Sem dæmi má nefna að líklega horfa í kringum 60-70 þúsund manns á Kveik í hverri viku, en Hardman er með meira en átta sinnum fleiri fylgjendur en það. Honum er annt um að fólk temji sér góðar ferðavenjur og spilli ekki náttúrunni sem það skoðar, svo hann leggur áherslu á það á síðunni sinni.
„Oft finnst mér best að halda því fyrir mig hvar ég tek myndirnar mínar og forðast að gefa upp nöfnin á stöðunum. Ég vil vernda þessa staði og fólk sem getur fundið þá upp á eigin spýtur finnst mér líklegt að sé sama sinnis,“ segir Hardman.
En það tók hann samt sjálfan tíma að læra hvernig best væri að umgangast landið.
„Ég byrjaði sjálfur sem túristi. Ég veit hverju þeir eru á höttunum eftir. Ég hef verið í þessum sporum og gert allt sem þeir gera. Og ég held að vandamálið sé bara skortur á upplýsingum.“
Ljósmyndari eða áhrifavaldur?
Aðspurður að því hvort hann líti á sjálfan sig sem ljósmyndara eða áhrifavald segist hann án efa líta á sig sem ljósmyndara. Hann skilji að fólk líti á hann sem áhrifavald, en honum sé í sjálfu sér hálf illa við þann titil. Hann beri enda blendnar tilfinningar í garð samfélagsmiðla, jafnvel þótt þeir skapi honum lífsviðurværi.
„Ég er tiltölulega laus við það að nota samfélagsmiðla sem beina tekjulind en auðvitað hefur það gerst að ég hef auglýst eitthvað sem er mér mikilvægt. Hvort sem það er myndavél eða fatnaður eða annað. Ef ég get látið það passa inn þá styð ég það,“ segir Hardman.
Aukið álag á Neytendastofu
Neytendastofa hefur eftirlit með því að lögum um viðskiptahætti og markaðssetningu sé fylgt. Stofnunin hefur brugðist við duldum auglýsingum á samfélagsmiðlum með ákvörðunum um bann. Nú síðast varðandi samstarf tónlistarmannsins Emmsjé Gauta og bílaumboðsins Heklu.
„Það má náttúrulega klárlega auglýsa með þessum hætti en það þarf að koma fram að um auglýsingu sé að ræða,“ segir Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri neytendaréttarsviðs hjá Neytendastofu.
Þá skipti engu máli hvort greitt hafi verið fyrir auglýsinguna í beinhörðum peningum eða með gjöf. Hvort afsláttur hafi verið veittur eða eitthvað gefið að láni. Í öllum tilfellum þurfi að taka fram með skýrum stöfum að um auglýsingu sé að ræða eða færslan sé birt í samstarfi við ákveðin fyrirtæki.
„Við höfum ekki ennþá sektað fyrir brot með þessum hætti en við höfum heimildir til þess,“ segir Þórunn. „Ég held það nái nú svo sem enginn að anna þessu miðað við hvað þetta er stór markaður en við reynum að fylgjast með.“
Hún segir það ekki markmið Neytendastofu að sekta eða að gefa út sem flestar ákvarðanir. En eftir því sem þær verða fleiri vonast hún til þess að fleiri átti sig á reglunum sem þurfi að fylgja.
Beinar og óbeinar tekjur af Instagram
Hardman segist lítið þurfa að reiða sig á auglýsingar á Instagramsíðunni sinni. Hún skilar honum samt verkefnum og viðskiptavinum, sem koma til dæmis með honum í ljósmyndaferðir um landið. Þannig er síðan þungamiðjan í starfinu hans þótt það sé ekki endilega í formi auglýsinga.
Þegar heim er komið sest Hardman við tölvuna og hefst handa við að velja réttu myndirnar til þess að birta. Hann segir að það geti tekið hann allt frá hálftíma upp í hálft ár að vinna í myndunum þar til honum finnist þær nægilega góðar til þess að birta þær á Instagram.
„Þetta er flókið ferli,“ segir hann að lokum.