Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir Neytendastofu reyna að hræða áhrifavalda

08.04.2019 - 18:58
Mynd með færslu
 Mynd: Emmsjé Gaut - facebook
Rapparinn Emmsje Gauti telur augljóst að Neytendastofa sé að taka sig fyrir til þess að sýna fordæmi og hræða áhrifavalda. Hann segir engan þræta fyrir það a ðhann sé á samningi við bílaumboðið Heklu. 

Neytendastofa hefur bannað Gauta Þey Mássyni, betur þekktur sem Emmsje Gauti, og bílaumboðinu Heklu að auglýsa vörur frá Heklu á samfélagsmiðlum eins og þeir hafi gert hingað til. Neytendastofa segir að ekki hafi komið skýrt fram að færslur Gauta væru auglýsingar. Fari rapparinn og bílaumboðið ekki að fyrirmælum Neytendastofu geti þau átt yfir höfði sér dagsektir. Þetta kemur fram í ákvörðun sem Neytendastofa birti á vef sínum í dag. 

„Ég keyri um á AUDI Q5 með höfuðið hátt. Enda nettasta og þægilegasta bifreið sem ég hef átt. Mæli eindregið með því að allir landsmenn stefni að því markmiði að eignast einn svona bíl til þess að fullkomna lífið sitt,“ segir Gauti í færslu á Facebook.  

Gauti segir að eftir langt og gott spjall hafi hann komist að því „að "lögin" kringum þessi mál eru mjög götótt og er það vel skiljanlegt þar sem þetta er nýtt fyrirbæri fyrir alla, bæði áhrifavalda, neytendur og neytendastofu.“ 
Gauti segir að ef Instagram aðgangurinn hans er skoðaur sé augljóst að hann sé í samstarfi við Heklu. Hann sé stoltur af þessu samstarfi og sjái ekki hvar duldar auglýsingar megi finna. 

„Neytendastofa sendi mér bréf 03.04.2019 og í því bréfi kemur fram að ég hafi 4 vikur til að svara og kæra úrskurðinn og ég ætla að fá að taka mér þann tíma í að svara þeim,“ segir Gauti. 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV