Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hótar að sekta Gauta fyrir Audi Q5-færslur

08.04.2019 - 15:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Neytendastofa hefur bannað Gauta Þey Mássyni og bílaumboðinu Heklu að auglýsa vörur frá Heklu á samfélagsmiðlum eins og þeir hafi gert hingað til. Neytendastofa segir að ekki hafi komið skýrt fram að færslur Gauta, þekktastur undir nafninu Emmsjé Gauta, væru auglýsingar. Fari rapparinn og bílaumboðið ekki að fyrirmælum Neytendastofu geti þau átt yfir höfði sér dagsektir.

Þetta kemur fram í tveimur úrskurðum sem birtust á vef Neytendastofu í dag.  Rannsókn málsins hófst í október þegar Neytendastofu bárust ábendingar um að Hekla hefði notað duldar auglýsingar á Facebook og Instagram til að auglýsa vörur félagsins.

Bílaumboðið hefði meðal annars fengið rapparann Gauta Þeyr, Emmsjé Gauta, til að auglýsa Audi Q5 en engin af færslunum væri merkt sem auglýsing.  Hér má sjá dæmi um Gauta og glæsibifreiðina.

Neytendastofa óskaði eftir skýringum frá bæði Heklu og Gauta. Í svari Heklu kemur fram að Gauti hafi ekki fengið neinar peningagreiðslur en gerður hafi verið rekstrarleigusamningur fyrir Audi Q5-bílinn. Í samningnum hafi verið kveðið á um að Gauti þyrfti að borga minna ef myndir birtust á samfélagsmiðlum en hann hafi líka komið fram á viðburðum á vegum Heklu.

Í svari Heklu kom jafnframt fram að bílaumboðið hefði gert samning við atvinnumann í íþróttum sem búsettur er erlendis. Hann fær lánaðan Audi-bíl þegar hann kemur til Íslands og Hekla fær að nota myndefni af honum á samfélagsmiðlum sínum. Íþróttamaðurinn er ekki nafngreindur í úrskurðinum og Hekla sagðist ætla að bíða með það samstarf þar til niðurstaðan í máli Gauta Þeys lægi fyrir.

Hekla taldi af og frá að það hefði verið að leyna því að þetta væru auglýsingar. Sett hafi verið skilyrði að allar myndirnar væru merktar með myllumerkinu #audi_island. Þá hafi það ekki verið neitt leyndarmál þegar Gauti fékk Audi-jeppann, það hafi verið sett inn á bæði Facebook og Instagram-síðu Audi á Íslandi. Eins og sést hér.

Gauti Þeyr, sem er einn vinsælasti rappari landsins, fékk einnig bréf frá Neytendastofu þar sem honum var boðið að svara.  Fyrsta bréfið var sent þann 27. nóvember en því var ekki svarað. Bréfið var ítrekað 3. janúar og aftur 18. janúar en enginn svör bárust frá listamanninum.

Neytendastofa segir í úrskurði sínum um Heklu að myndirnar á samfélagsmiðlum hafi verið með þeim hætti að vafi hafi leikið á því að þær væru auglýsingar.  Það væri ósanngjarnt gagnvart neytendum að setja auglýsingu fram með mynd á Instagram án þess að merkja hana sem slíka þannig að neytendur geti með góðu móti áttað sig á að um auglýsingu sé að ræða. 

Var Heklu og Gauta Þey því bannað að auglýsa Audi Q5 með þessum hætti. Yrði ekki látið af þessari hegðun ætti bílaumboðið og tónlistamaðurinn yfir höfði sér dagsektir.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV