Ekki látin vita af lífs­hættu­legum loft­púðum

Frá árinu 2008 hafa bílaframleiðendur um allan heim þurft að innkalla bíla vegna gallaðra loftpúða. Þetta er stærsta innköllun á bílum sem nokkurn tímann hefur verið gerð og tekur til tugmilljóna bíla – líka á Íslandi.

Gallinn sem þarf að laga í bílunum er heldur ekkert smáatriði. Loftpúðar sem framleiddir voru af japanska fyrirtækinu Takata eiga það nefnilega til að springa. Bókstaflega. 29 hafa látið lífið í slíkri sprengingu, víðs vegar um heiminn síðasta áratuginn, nú síðast í sumar.

Það þarf að skipta um 50 milljón Takata-loftpúða í 35 milljón bílum. Búið er að skipta um stóran hluta þeirra, en ekki alla. „Það hafa orðið banaslys og mjög alvarleg slys víða um veröldina. Þetta varðar 19 framleiðendur sem notuðu þennan búnað á frekar löngu tímabili,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. „Þetta er mjög stór innköllun, sú stærsta í bílasögunni, og mikið öryggismál.“

Bílunum fjölgar með tímanum

Nokkur ár eru síðan gallinn var uppgötvaður en síðan þá hafa sífellt fleiri púðar reynst gallaðir.

Teitur Atlason, fulltrúi hjá Neytendastofu. (Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

Teitur Atlason, fulltrúi hjá Neytendastofu, hefur fylgst með gangi hennar. „Hún er yfirleitt að stækka innköllunin. Loftpúðar sem taldir voru í lagi frá Takata eru skyndilega ekki í lagi eftir eitthvað atvik. Þannig að það eru fleiri loftpúðar undir. Þannig að málið er alltaf að stækka og þeir bílar sem eru með hættulega púða er alltaf að fjölga,“ segir hann.

„Það má reikna með því að fjöldi þeirra bíla sem eru með Takata púða á Íslandi skipti tugum þúsunda. Það er búið að gera við á milli 40 og 50 prósent af þeim. Og það er ágætis gangur í innkölluninni en tölurnar í þessu dæmi eru svakalegar. Og það má nefna að Toyota innkallaði í desember fjögur þúsund bíla á einu bretti. Ég held að það sé ekki til það bílastæði sem rúmar fjögur þúsund bíla.“

Toyota, sem selur flesta bíla á Íslandi á hverju ári, er einn þeirra framleiðanda sem notaði þessa gölluðu Takata-púða. „Þetta er búið að vera töluvert verkefni fyrir okkur undanfarin ár. Og það eru nokkuð margir bílar sem eru kallaðir inn út af loftpúðunum. Hjá okkur, hjá Toyota, eru þetta um 19.500 bílar og það er náttúrulega unnið í þessu daglega,“ segir Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota.

„Það er góður gangur í innkölluninni. Við hjá neytendastofu sjáum ekki betur en að allir séu af vilja gerðir til þess að klára málið en stærðin á því er bara svo svakaleg að þetta tekur tíma að klárast,“ segir Teitur um gang mála hér á landi.

En, hvað er góður gangur? Við byrjuðum á að innkalla bíla fyrir þremur, fjórum, fimm árum síðan, eftir því hvaða týpu af bílum við erum að tala um en það er, miðað við hvað þú segir, ennþá um það bil helmingurinn af þessum bílum enn þá með takata púða, enn þá á götunum.

„Já. Það er bara eins og ég segi, það er... Þetta er ekkert skemmtilegt að eiga við. Þetta er rosaleg áskorun fyrir umboðin og viðgerðarþjónustuna að kljást við þetta. Ef maður leikur sér að tölunum með þetta þá myndi ég ætla að það væru tugir manna á hverjum degi bara í því að skipta um loftpúða í bílum á Íslandi,“ segir Teitur.

Og það er raunin. Hjá Toyota, sem er aðeins eitt af umboðunum sem nú takast á við þessa innköllun hér á landi, er heilt teymi sem vinnur að því að laga gallann.

„Við erum með fjóra starfsmenn sem gera lítið annað en að skipta um loftpúða. Og við erum búin með svona um það bil, 44-45 prósent, af öllum þessum bílum, en erum að ná í hverjum mánuði núorðið í kringum þúsund bílum. Þannig að það gengur ágætlega á listanum,“ segir Páll.

Eftirlitið takmarkast við Evrópu

Bökkum aðeins. Hvernig virkar þetta innköllunarkerfi, sem á að halda okkur öruggum?

Þegar bílaframleiðandi uppgötvar galla í sínu innra eftirliti lætur hann umboðin í hverju landi vita af því, og tilkynnir það inn í samevrópskt upplýsingakerfi – Safety-gate. Yfirvöld í hverju landi, Neytendastofa í okkar tilviki, fá svo bæði tilkynningu í gegnum þetta kerfi og frá bílaumboðunum. Umboðin sjá svo um að hafa samband við eigendur þessara bíla.

Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota. (Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

„Við fáum lista yfir bílana frá Toyota í Evrópu. Evrópa er sér markaðssvæði og það er haldið sérstaklega utan um bíla sem eru í Evrópu. Allir bílar hafa verksmiðjunúmer, sem er eins konar kennitala bílsins,“ útskýrir Páll.

„Hér á Íslandi eru síðan allir bílar tengdir við kennitölu eigandans og kennitalan tengd við heimilisfangið, svo það er mjög auðvelt að ná í eigendur bíla á Íslandi. Og við byrjum á að senda þeim ábyrgðarbréf og ef að menn svara ekki, sem kemur nú fyrir, þá hringjum við á eftir. Og við erum með tvo starfsmenn í því, sem gera lítið annað en að hringja á eftir þessum innköllunum.“

Grái markaðurinn erfiður

En hvað með bíla sem koma annarsstaðar frá en Evrópu? Ef ég fer til dæmis til Bandaríkjanna og kaupi mér bíl þar á bílasölu, flyt hann heim í gámi eða flugi, sá bíll er ekki inni í þessu eftirlitskerfi? Teitur hefur einfalt svar við því: „Nei.“

Hver lætur mig vita ef það er öryggisinnköllun, alvarlegur öryggisgalli í þeim bíl? „Enginn,“ svarar hann.

„Grái markaðurinn er mjög erfiður hvað þetta varðar vegna þess að bílaumboðin hafa engar upplýsingar um þann tiltekna bíl. Eini aðilinn sem hefur upplýsingar, allar upplýsingar, um þann tiltekna bíl er framleiðandinn. Þannig að þetta er svolítið snúið að eigandi bíls sem keyptur er á gráa markaðinum, hann þarf að hafa beint samband við framleiðanda til að fá allar upplýsingar um þann tiltekna bíl,“ útskýrir Teitur.

Páll segir að þessir eignedur falli á milli skips og bryggju. „Vegna þess að við höfum ekki upplýsingar um innkallanir í Bandaríkjunum og við fáum ekki lista yfir það og erum ekki að elta þá bíla,“ seigr hann. „Þannig að það er í raun undir eigendum þessara bíla komið að athuga hvort að bílarnir eru í innköllun eða ekki, hvort sem það er öryggisinnköllun eða önnur.“

„Ef þú flytur bíl á milli markaðssvæða, þá situr þú uppi með þessa ábyrgð, að athuga sjálfur hvort að, hvort að innköllun er í gangi eða ekki. Það eru ekki margir bílar. Þetta á ekki við um marga bíla hjá Toyota. En einn sem sleppur er einum bíl of mikið, við viljum ná í alla.“

Svona á loftpúðinn að vera eftir að hann hefur sprungið út.

Ekki umboð fyrir alla

Það eru nokkur fyrirtæki á Íslandi sem sérhæfa sig í því að aðstoða fólk við að flytja inn bíla frá Bandaríkjunum og það er misjafnt hvort fyrirtækin hafa aðgang að einhverjum upplýsingum um bílinn eftir að hann kemst í hendur nýrra, íslenskra eigenda.

Svo eru það allir bílarnir sem koma til Íslands án þess að nokkuð umboð sé hér á landi.

Runólfur, hjá FÍB, segir að eftir því sem þau best sjái, sé þarna eyða í kerfinu. „Og við erum til að mynda með mjög stóran framleiðanda, bandarískan framleiðanda, sem allir þekkja frá gamalli tíð, General Motors í Bandaríkjunum, sem meðal annars er með merki eins og Chevrolet og Cadillac og Pontiac og fleiri, fleiri merki, sem eru í rauninni ekki með opinberan umboðsmann á Íslandi, ekki það ég best veit,“ segir hann.

„Þar er enginn sko að halda utan um fyrir hönd framleiðandans hér á landi. Og í þeirra skrám, ef bíllinn hefur verið fluttur inn frá Bandaríkjunum, þá er þetta bara bíll skráður fyrir Norður-Ameríku markað og þeir setja út tilkynningu vegna þessa ökutækis í Bandaríkjunum eða Kanada en það fer engin tilkynning til Íslands.“

Neytendur geta kannað málið

Neytendur sem ætla að fylgjast með innköllunum þurfa að vita nokkra hluti. VIN-númer bílsins, sem er ýmist kallað grindarnúmer eða framleiðslunúmer, er kennitala bílsins. Hún er yfirleitt skráð í kringum bílstjórasætið, ýmist í glugganum eða í hurðarfalsinu.

VIN-númer er yfirleitt staðsett í kringum bílstjórasætið. (Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

Þessum númerum er hægt að fletta upp á vefsíðum hinna ýmsu framleiðenda og hjá eftirlitsstofnunum ytra og fá upplýsingar um allar innkallanir sem tengjast bílnum. Hvort sem það eru minniháttar innkallanir eða lífshættulegar. Þeir sem eiga bíla sem eru með umboð á Íslandi, geta leitað til þeirra og fengið aðstoð við næstu skref.

„Bílar sem koma til okkar í þjónustuskoðanir og ef við sjáum að það er innköllun á bílnum, þá er gert við það eins fljótt eins og hægt er, þannig að bílar eru í rauninni stoppaðir hjá okkur. En bílar geta farið í gegnum skoðun, venjulega skoðun, þó það sé innköllun á þeim vegna þess að það er ekki skráð þar,“ segir Páll. „Það væri mjög æskilegt ef bílar væru stoppaðir þar.“

Fljúga í gegnum skoðun

Teitur segir að bílar fara í gegnum bifreiðaskoðun með alvarlega öryggisinnköllun einfaldlega vegna þess að eftirlitið veit ekkert af innkölluninni. Það sé þó ekki allstaðar þannig. „Í Þýskalandi, þá er það þannig að ef að bíll fer í gengum skoðun og það er innköllun á honum, öryggisinnköllun, þá fær hann ekki skoðun,“ segir hann.

„Þetta bara skiptir miklu máli, þetta er spurning upp á líf og dauða. Það var bruni í London á síðasta ári, þar fórust tugir manna. Það mátti rekja til þurrkara sem var með innköllun á sér. Það er enginn að gera að gamni sínum að innkalla vörur, þær eru metnar lífshættulegar,“ segir Teitur og bætir við:

„Og varðandi ökutæki þá viljum við náttúrulega að þau ökutæki sem eru á götum borgarinnar séu í lagi. Það er ekki bara hagur ökumannanna að bílarnir þeirra séu í lagi, heldur líka vegfarenda og annarra ökumanna. Þetta bara skiptir mjög miklu máli.“

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. (Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

Runólfur tekur undir það. „Eins og í tilviki þessara loftpúða hefur fólk bara látið lífið vegna þess að það eru einhverjar járnflísar sem springa með búnaðinum og fólk hefur sem sagt, dáið eftir atvik,“ segir hann. „Og nýjasta tilvikið varðandi banaslys tengt þessu er bara frá því í síðasta mánuði í Bandaríkjunum. Þannig að þetta er enn að gerast.“