Jaðarhópar ungra karla mest áberandi

Útköllum þar sem vopn eru höfð við hönd hefur fjölgað mikið hjá sérsveit ríkislögreglustjóra. Það sem af er ári eru þau þegar orðin helmingi fleiri en öll útköll ársins 2015, eða 474 fram að lokum september.

Jaðarhópar ungra karla mest áberandi

Í um 60% mála voru egg- eða stunguvopn notuð og í um fjórðungi tilvika um að ræða skotvopn. Málin eru ekki brotin niður með hliðsjón af aldri og kyni þeirra sem málið snertir, en Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur, segir margt benda til þess að jaðarhópar ungra karla séu mest áberandi, þótt frekari rannsókna sé þörf.

„En það er svo sannarlega ástæða til að hafa áhyggjur af þessari þróun, af þessum jaðarhópum, yngri karlum, sem eru með þá hugmyndafræði að það sé bara sjálfsagt að beita ofbeldi ef þeir verða fyrir einhverri ögrun,“ er mat Helga.

En hvað veldur breytingunni? Helgi segir oftast einhverja forsögu sem geti útskýrt tilkomu hugmynda sem réttlæta ofbeldi og vopnaeign.

„Þetta kemur ekki alveg úr lausu lofti. Þetta getur oft á tíðum verið stopul skólaganga, erfið fjölskyldusaga og saga af því tagi. En síðan spilar þetta saman við alþjóðamenninguna. Menningin flæðir yfir öll landamæri. Þá blandast hún oft við forsögu yngri karla á jaðrinum sem tileinka sér þessa hugmyndafræði. Til dæmis það að vera í stríði við eða vera í nöp við einhvern, eitthvað sem er eitthvað aðeins öðruvísi, út fyrir normið. Að okkur standi ógn af einhverju tilteknu og það þurfi einhver að berja í borðið og stöðva þetta til að vekja upp þjóðina“, segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands.

Fjallað verður um skotvopnaeign og mikla fjölgun hálfsjálfvirkra og sjálfvirkra vopna, sem oftast eru kölluð vélbyssur, í Kveik í kvöld.