Sáralitlar neyðarbirgðir í landinu

Heimsfaraldur, eldgos og stríð í Evrópu hafa vakið spurningar um fæðuöryggi þjóðarinnar. Sáralitlar neyðarbirgðir eru á Íslandi ef stóráföll dynja yfir.

Sáralitlar neyðarbirgðir í landinu

Stríðið í Úkraínu hefur þegar haft keðjuverkandi áhrif á matvælaframleiðslu í heiminum. Auk stríðsógna hafa kórónuveirufaraldurinn, eldgos og aðrar náttúruhamfarir minnt á fallvaltleika kerfisins og knúið fólk til að hugsa meira um fæðuöryggi: hvort framboð af fæðu í landinu sé tryggt ef stóráföll dynja yfir.

Neyðarbirgðir á Íslandi eru sáralitlar. Engar reglur eru til um lágmarksbirgðir af matvælum, olíu eða öðrum aðföngum sem þarf til að halda matvælaframleiðslu gangandi, að því er fram kom í skýrslu á vegum forsætisráðuneytisins fyrir fáeinum vikum. Þá hafa ekki verið gerðar áhættugreiningar sérstaklega vegna ógnana við fæðuöryggi landsmanna né sérstakar viðbragðsáætlanir vegna þeirra.

Hér er hægt að horfa á umfjöllunina.

Helmingur fæðunnar innfluttur

Um það bil helmingur af því sem meðal Íslendingurinn borðar er flutt inn frá útlöndum. Nánast öll kornvara og ávextir sem við neytum er innflutt og stór hluti grænmetis. Þá er ótalið það mikla magn af unnum matvælum sem er innflutt.

Við erum sjálfum okkur nóg um fisk, mjólkurvörur og egg, og innflutningur á kjöti er hlutfallslega lítill.

Veikleikinn er sá að það sem þó er framleitt hér innanlands er mjög háð innflutningi.

Þjóðaröryggisráð hefur bent á að í aðstæðum þar sem innflutningur lamast, til dæmis vegna alvarlegrar fjármálakreppu, stríðsátaka eða farsótta, væri fæðuöryggi hérlendis í hættu. Ekki bara vegna skorts á innfluttum mat og framleiðsluaðföngum heldur einnig á olíu til að dreifa matvælum. Auk þess væri fæðuöryggi ógnað ef innviðir lömuðust og þar með geta til að frysta og dreifa mat.

Mælt með þriggja daga birgðum á heimili

Almannavarnir mæla með þriggja daga birgðum á hverju heimili en þó hafa kannanir sýnt að almennt eiga heimili ekki neyðarbirgðir af matvælum.

Í Facebook-hópnum „Prepparar á Íslandi“ deilir fólk ráðum um birgðahald á heimili. Hjördís Guðlaugsdóttir, einn stjórnenda síðunnar, segir að orðið preppari vísi til einhvers sem er að undirbúa sig.

„Við segjum stundum í gríni að við séum að undirbúa okkur undir stríð,“ segir Hjördís og brosir. „Að eiga nóg fyrir sig og sína, helst í svona, ja, margir hugsa mánuð eða svo.“

Hjördís Guðlaugsdóttir, einn stjórnenda Facebook-hópsins „Prepparar á Íslandi“.

Hjördís passar að eiga alltaf nóg af niðursuðu- og þurrvörum, nýtir öll tilboð, kaupir skrokka og tekur slátur. Frystikistan á heimilinu er full af kjöti, fiski og fleiru. Þá er hún með stóran kæli og birgðir af þurrvörum, bæði í bílskúrnum og í eldhúsinu.

„Við búum á Íslandi, það gæti þess vegna komið jarðskjálfti og valdið því að við erum föst einhvers staðar. Þá er nú gott að eiga nóg,“ segir Hjördís. Hún nefnir einnig kórónuveirufaraldurinn, þegar margir þurftu að einangra sig.

„Eða, sem við vonum nú að verði aldrei, að það verði stríð,“ segir hún. „En það er bara gott að eiga nóg. Þetta líka hjálpar manni að kaupa hagkvæmt.“

Í garðinum við húsið er hún með stóran matjurtagarð, þar sem hún ræktar kartöflur, gulrætur, salat og rófur, auk ýmissa tegunda af káli.

„Fram í september, og jafnvel október, þá fer maður bara út og sækir í pottinn,“ segir Hjördís. Hún segir að birgðahald eins og þetta sé auðvelt, engin þörf sé á miklum geymslum eða stóru búri.

„Margir ímynda sér að maður þurfi alveg sér búr. En þetta er bara nóg. Það geta allir gert þetta,“ segir Hjördís og bendir á eldhússkápana sína.

„Ekki raunhæft að framleiða allt hér“

Neyðarbirgðir af matvælum er eitt, en það er ekki síður mikilvægt að tryggja að innlend matarframleiðsla geti haldið áfram þrátt fyrir áföll. Gallinn er sá að hún er einnig mjög háð innflutningi á aðföngum og sem fyrr segir eru engar reglur um lágmarksbirgðir af þeim.

Jóhannes Sveinbjörnsson var fenginn, ásamt Erlu Sturludóttur, til að ritstýra úttekt á fæðuöryggi á Íslandi. Sú skýrsla kom út í fyrra og á grundvelli hennar var Jóhannes umsjónarmaður tillagna til matvælaráðherra um aðgerðir til að auka fæðuöryggi.

Jóhannes Sveinbjörnsson ritstýrði, ásamt Erlu Sturludóttur, úttekt á fæðuöryggi á Íslandi.

Þar kemur fram að í raun og veru er Ísland í þeirri öfundsverðu stöðu að framleiða miklu meiri mat en landsmenn gætu nokkurn tímann torgað – og það er fiskurinn.

„Við erum náttúrulega nettó útflytjendur á matvælum. Alveg margfalt, eiginlega. Við framleiðum 1,3% af þeim fiski sem er veiddur í heiminum,“ segir Jóhannes. Þannig geti Íslendingar tæknilega verið sjálfum sér nægir um fæðu.

„Við gætum verið sjálfum okkur næg um fæðuorku og næringarefni. Þannig að já, fræðilega séð getum við verið það. En ekki um þá fjölbreytni sem bæði  almennar og svona meira sértækar neysluvenjur í dag krefjast. Það er ekki raunhæft að framleiða allt hér.“

Auk sjávarfangs eru Íslendingar sjálfum sér nógir að miklu leyti með kjöt.

Framleiðsla á lambakjöti er umfram þarfir. Framleiðsla á mjólkurvörum og eggjum er næg.

Framleiðsla lambakjöts er umfram þarfir og við framleiðum meirihluta þess nauta-, svína- og alifuglakjöts sem er borðað í landinu. Framleiðsla á mjólkurvörum og eggjum er næg.

En þegar kemur að fæðuöryggi landsmanna eru mikilvægir veikleikar á þessari framleiðslu.

„Í fyrsta lagi, hversu háð við erum innfluttum aðföngum,“ segir Jóhannes. „Og þá líka að við höfum mjög litlar neyðarbirgðir af þessum aðföngum.“

Sjávarútvegur lamast án olíu

Þar má helst nefna olíu, eða jarðefnaeldsneyti, sem allar framleiðslugreinar eru háðar. Allur fiskiskipaflotinn gengur fyrir olíu og nánast öll landbúnaðartæki. Það verður lítil framleiðsla í landinu á kjöti, fiski og grænmeti án hennar.

Olíubirgðir í landinu fara allt niður í þriggja vikna birgðir. Engar lögbundnar kvaðir eru um lágmarksbirgðir.

Þjóðaröryggisráð benti síðast á það í fyrra að sjávarútvegurinn myndi lamast án olíu. Í fjölmörgum úttektum fyrir stjórnvöld síðustu ár er kallað eftir því að öryggisbirgðir af eldsneyti séu tryggðar til níutíu daga líkt og í flestum öðrum löndum. Það hefur enn ekki gerst þó að í undirbúningi sé nú lagabreyting þess efnis.

Erum háð innflutningi á áburði og fóðurkorni

Truflanir eða stöðvun á innflutningi myndi þannig valda vandamálum í allri framleiðslu matvæla í landinu.

Auk olíunnar, er það mikill veikleiki hversu háð við erum innfluttum áburði. Þá skilur það okkur helst frá nágrannaþjóðum okkar hversu mikið korn við þurfum að flytja inn í skepnufóður.

„Þar er ákveðinn veikleiki hjá okkur sem er ekki hjá til dæmis hjá Norðurlandaþjóðunum hinum. En á móti kemur að þetta er þá svona þurrvara sem er auðvelt að geyma og væri hægt að hafa birgðir af,“ segir Jóhannes.

Engar reglur um slíkar lágmarksbirgðir eru til. Raunar kom í ljós í bankahruninu að þá var aðeins til korn til nokkurra vikna í landinu.

Í framleiðslu dýraafurða hefði skortur á innfluttum fóðurefnum þau áhrif að eggja- og alifuglaframleiðsla myndi alfarið stöðvast og svínakjötsframleiðsla líka. Það yrði samdráttur í framleiðslu á nautakjöti og mjólk en lítil eða engin áhrif yrðu á lamba- og hrossakjötsframleiðslu.

Skortur á innfluttum fóðurefnum myndi stöðva framleiðslu á alifuglum, svínakjöti og eggjum.

Það er fleira sem ógnar. Skortur á innflutningsvörum eins og fræjum og útsæði, undirburði, plasti til fóðurverkunar, og íblöndunarefnum myndu hafa áhrif innan árs á mjólkur- og kjötframleiðslu. Engar reglur um lágmarksbirgðir af þessum vörum eru til.

Mesta sóknarfærið í kornrækt

Í úttekt Jóhannesar og samstarfsfólks hans kemur fram að við stöndum veikast varðandi plöntuframleiðslu. Mesta sóknarfærið varðandi fæðuöryggi liggi þar  – að rækta meira korn, bæði til manneldis og fóðurs, og auka framleiðslu á grænmeti.

Staðreyndin er sú að Íslendingar flytja inn nánast allt korn sem hér er borðað, eða 99%, og stóran hluta þess korns sem er notað í skepnufóður. Samt sem áður er hægt að rækta töluvert korn á Íslandi.

Íslendingar flytja inn nánast allt korn til manneldis og stóran hluta þess korns sem er notað í skepnufóður.

Það kemur kannski mörgum á óvart en Ísland telst vera gott grasræktarland. Á sumrin eru dagarnir langir yfir sprettutímann og víðast er næg úrkoma. Gróflega áætlað er gott ræktunarland á Íslandi um 600 þúsund hektarar, en við nýtum aðeins um 90 þúsund hektara, eða 15%, og þetta hlutfall fer minnkandi.

Á Íslandi er því mikið vannýtt ræktunarland – og það hefur verið metið sem svo að á meirihluta þess sé vel mögulegt að rækta korn.

Á Þorvaldseyri er eitt stærsta kornræktarbú landsins.

Á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum er rekið eitt stærsta kornræktarbú landsins með áratuga reynslu af kornrækt, aðallega byggi. Þar er lögð mikil áhersla á sjálfbærni og eru bændur þar alveg óháðir innfluttu korni. Auk þess fer hluti kornsins í bakarí landsins og heilt bygg er selt í ölgerð.

Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, segir kornræktina ganga vel þrátt fyrir að sumrin séu stutt á Íslandi.

„Við erum með ýmsar tegundir af kornyrkjum sem við höfum prófað okkur áfram með hérna á Íslandi, bæði útlenda stofna og ekki síður stofna sem er verið að kynbæta hjá Landbúnaðarháskólanum, svo þetta fer að verða miklu viðráðanlegra að eiga við þetta víðar á landinu en bara hér, miðað við það sem var fyrir nokkrum áratugum þegar það var miklu kaldara og erfiðara, aðrar tegundir og minni kunnátta,“ segir Ólafur.

Byggakur á Þorvaldseyri í vor.

Ólafur segir mikinn ávinning af því að geta framleitt allt sitt fóður á jörðinni fyrir kýrnar til að framleiða mjólk og kjöt.

„Það er eitthvað sem uppfyllir löngun okkar til þess að gera sem mest sjálf. Og sjáðu moldina! Þetta er ekki nokkru lagi líkt hversu svakalega fín mold þetta er. Og hvers vegna ekki að nota hana hér, þessa frjóu íslensku mold?“ segir Ólafur.

Hann segir að kolefnissporið geti varla verið styttra á bænum.

„Það skemmtilega er að það er verið að rækta hérna byggið, eða kjarnfóðrið, bara hérna rétt við hliðina á fjósinu þar sem að kýrnar fá að snæða.“

Fóðurgjöf á Þorvaldseyri.

Bygginu er blandað við repjuköggla og fiskimjöl í kjarnfóðrið fyrir kýrnar.

„Til hvers að flytja þetta inn, þegar það er hægt að fá þetta hérna úti á túni?“ spyr Ólafur.

Framfarir í kornrækt komi ekki af sjálfu sér

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, segir ýmislegt hafa verið gert til að bregðast við því hversu matvælaframleiðslan er háð olíu, innfluttu fóðri og tilbúnum áburði — sem einmitt nær tvöfaldaðist í verði í fyrravetur.

„Það sem við höfum verið að gera til skemmri tíma er í raun og veru bara að leggja fjármagn til bænda til að koma til móts við þessi áföll,“ segir Svandís.

„En til lengri tíma, og meðallangs tíma, þá verðum við að fara að nýta meira möguleika hringrásarhagkerfisins. Við erum að sóa og farga alveg gríðarlegu magni af lífrænum efnum sem við gætum notað til að framleiða innlendan áburð. Og svo erum við líka að setja á laggirnar áætlun með Landbúnaðarháskólanum varðandi það að stórauka kornrækt,“ segir hún.

Jóhannes Sveinbjörnsson leggur áherslu á að það þurfi að vinna markvisst að þeim sóknarfærum sem eru í kornrækt.

„Það kemur ekkert af sjálfu sér. Það þarf að fjárfesta í kornrækt til þess að hún verði öflugri,“ segir hann.

Jóhannes bendir á að síðustu árin hafi ekki verið neitt fast fjármagn til kornkynbóta.

„Það þarf einfaldlega að vera til þess að það verði einhverjar framfarir. Svo er líka mikilvægt að hafa innviði eins og kornþurrkun og kornsamlög til þess að það sé hægt að vera með markað fyrir fóðurkorn, að ekki sé talað um korn til manneldis,“ segir hann.

„Það myndi allt stoppa“

Við flytjum inn tæplega 60% af því grænmeti sem við borðum en framleiðum aðallega gúrkur, paprikur, salat og tómata. Sú framleiðsla er mjög háð innfluttum tilbúnum áburði. Þá eru nánast eingöngu notaðar innfluttar umbúðir, innflutt sáðvara, yfirbreiðslur, innréttingar, plöntuvarnarefni og humlur til frævunar.

Í garðyrkjustöðinni Gróðri á Hverabakka við Flúðir eru ræktaðir tómatar í gróðurhúsum og ýmsar tegundir káls í útirækt.

Ræktunin nýtur jarðhitans og er gróðurhúsið tæknivætt.

„Það er stillt þannig að á ákveðnum tíma, eftir því hvenær lýsingin byrjar á morgnanna, þá er byrjað að vökva, og þá er líka passað upp á hitastigið, tölvan passar að opna gluggana ef það verður of heitt eða of kalt og slekkur á ljósunum þegar að sólin skín,“ segir Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi í Gróðri.

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, bóndi í garðyrkjustöðinni Gróðri.

Halla segir að ræktunin sé mjög háð innfluttum aðföngum.

„Tómatarnir eru ræktaðir í tilbúnum áburði sem er innfluttur alveg. Og fræin, hérna í kínakálið inni og öll fræin í alla útiræktun, þau eru öll innflutt. Og líka moldin sem það er ræktað upp úr og bakkarnir,“ segir Halla.

Hún segir að það yrði erfitt að halda áfram ræktuninni án innfluttra aðfanga.

„Það eru náttúrulega til birgðir af hinu og þessu. Svo eru til plöntur sem er hægt að taka fræ af og nýta, en það myndi allt stoppa í einhvern tíma. Og það myndi þurfa að gera hlutina allt öðruvísi líka, til að koma sér aftur af stað,“ segir Halla.

Guðríður Helgadóttir, sérfræðingur í garðyrkju, telur að auðveldlega megi auka grænmetisframleiðslu og gera landið alveg sjálfbært með tómata og salat, en við framleiðum nú þegar nóg af gúrkum.

„Við gætum líka farið í fleiri tegundir. Við gætum til dæmis ræktað melónur, við höfum prófað það og það er brjálæðislega gott að fá íslenskar melónur beint af plöntunni,“ segir Guðríður.

Þá segir hún að hægt sé að rækta eggaldin, kúrbút og fleiri smáar tegundir.

„Við gætum gætum verið sjálfbær með þetta í gróðurhúsum. Í útiræktuninni þá skiptir veðurfarið gífurlega miklu máli. En við getum verið sjálfbær með kartöflur, gulrætur og rófur,“ segir hún.

Guðríður bendir á að ýmsar hindranir standi í vegi fyrir því að Íslendingar séu sjálfbærir í ræktun þessara tegunda.

„Í fyrsta lagi þurfum við nýliðun í þessar greinar. Það þarf að koma inn nýtt fólk, það þarf að vera vel menntað, það þarf að kunna vel til verka, en það þarf líka að hafa aðgang að landi. Vandinn er sá að okkur vantar forgangsröðun á nýtingu lands. Og svo þarf fjárhagslegan stuðning til að fólk geti lagt af stað,“ segir Guðríður.

Íslenskur banani á nokkur þúsund krónur

Við flytjum inn nánast alla ávexti og framleiðsla á þeim, ásamt baunum og hnetum, er fjarlægur draumur vegna hnattstöðu landsins. Fólk hefur þó spurt sig hvort ekki sé hægt að rækta meira af slíku hér og bent á hversu rík við erum af jarðhita.

Í hinu svokallaða Bananahúsi í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi stendur yfir tilraunaræktun á ýmsum framandi plöntum og ávöxtum, til dæmis kaffi, kakói, og fíkjum.

„Við lítum kannski meira á þetta hús sem tækifæri til að sýna fólki hvaða möguleikar geta verið ef þú ert með gróðurhús og jarðhita: Þú getur ræktað hvað sem er,“ segir Guðríður.

Í húsinu eru einnig ræktaðir bananar en við prófanir kom í ljós að ekki er hægt að framleiða þá í því magni að ræktunin borgi sig.

Íslenskir bananar í gróðurhúsi Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi.

„Menn prófuðu þetta á sínum tíma og það bara kom í ljós að þetta gat ekki keppt við innflutta banana sem eru ræktaðir utanhúss,“ segir Guðríður.

Bananarnir yrðu of dýrir. Innfluttur banani kostar um það bil fimmtíu krónur í verslunum hér á landi en banani ræktaður á Íslandi yrði töluvert dýrari.

Íslenskur banani kostar margfalt á við þá innfluttu sem eru ræktaðir utanhúss.

„Hann þyrfti örugglega að kosta mörg þúsund krónur,“ segir Guðríður.

„Þetta er svo dýr fjárfesting. Þú þarft að byggja gróðurhús og svo þarftu að bíða í eitt og hálft ár. Þú þarft einhvern veginn að standa undir fjárfestingunni.“

Eldsneyti ræktað á ökrum

Á Þorvaldseyri hafa bændur nú byrjað að framleiða lífdísil úr repjufræjum af ökrum búsins til að minnka þörf fyrir innflutta olíu.

Repjuakur í blóma á Þorvaldseyri. Mynd: Ólafur Eggertsson.

Repjufræin eru agnarsmá og virka þurr viðkomu. Í þeim er þó um það bil 30% olía sem kemur í ljós þegar þau hafa farið í gegnum pressu. Hratið er svo nýtt í kjarnfóðurblöndu fyrir kýrnar.

„Þetta nýtist allt,“ segir Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri. „Hratið sem kjarnfóður, olían á vélarnar. Það fer ekkert til spillis.“

Lífdísil-vélin á bænum var tekin í notkun í haust og er sú fyrsta sinnar tegundar í landinu.

„Þetta er bíódísil-vél sem aðskilur glýseról úr repjuolíu sem við framleiðum sjálfir og gerir hana þannig þunnfljótandi þannig að hún gangi á allar vélar sem við erum með á búinu, bæði nýjar og gamlar,“ segir Páll Eggert Ólafsson, bóndi á Þorvaldseyri.

Páll segir það góða tilfinningu að framleiða olíuna úti á akri í staðinn fyrir að flytja hana milli landa. Lífdísillinn er notaður á öll tæki búsins, ýmist hreinn eða blandaður við jarðefnaeldsneyti.

Ólafur segir að gangurinn í dráttarvélunum á lífdísilnum sé góður.

„Það verður meira að segja þýðari gangur og svo lyktar hann öðruvísi. Það verður eins og bökunarlykt,“ segir hann. Hann segir að framleiðslan á lífdísilnum lofi afar góðu.

„Og ef þetta sýnist vera áhugavert, hvers vegna ekki þá að stuðla að því að fleiri fari í þetta og gera þetta á stærri skala, og nota landið,“ segir Ólafur.

Sáralitlar neyðarbirgðir í landinu

Það hefur verið metið sem svo að þrátt fyrir skort á aðföngum sé hægt að tryggja að stór hluti íslenskrar matvælaframleiðslu haldi áfram í einhver misseri eða jafnvel nokkur ár ef öryggisbirgðir eru viðunandi.

„Við höfum ekki mikla reynslu af því að halda neyðarbirgðir,“ segir Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands.

„En við hljótum að líta til reynslu annarra þjóða. Til dæmis Finnar, þeir eru nú ýmsu vanir og hafa átt erfiða nágranna og lent í krísum.“

Finnsk stjórnvöld hafa í áratugi lagt mikla áherslu á að halda neyðarbirgðir. Á síðustu árum hafa þau einbeitt sér meira að því að tryggja fæðuöryggi með sjálfbærni í innlendri framleiðslu og viðskiptasamböndum, í samstarfi stjórnvalda og viðskiptalífsins.

„Þeir eru samt núna, í ljósi þeirra atburða sem hafa átt sér stað í heiminum undanfarið að fara aftur í meira neyðarbirgðahald,“ segir Jóhannes.

„Og við erum náttúrulega eyja hérna úti í miðju Atlantshafi, og við erum ekki með jafn fjölbreytta framleiðslu og Finnar til dæmis, hvað þá aðrar stærri þjóðir. Þannig að ég held að við megum ekki vanmeta það, án þess að við þurfum endilega að hafa neyðarbirgðir til margra ára eða á hverju heimili, heldur svona að hafa einhvern lágmarksviðbúnað.“

Jóhannes segir að í landinu séu sáralitlar neyðarbirgðir.

„Það eru auðvitað birgðir í ýmsum aðföngum sem eru bara vegna þess að það er flutt inn ákveðið magn í einu, varla hægt að kalla það neyðarbirgðir.“

Hann segir ekki bara nauðsynlegt að halda neyðarbirgðir af aðföngum til fæðuframleiðslu, heldur einnig af ákveðnum fæðuflokkum.

„Það sem auðvitað liggur beinast við að geyma það er það sem er auðvelt að geyma. Og það vill þannig til að þetta eru líka þær vörur sem við eigum erfiðast með að framleiða. Það er að segja, kornvara, baunir, hnetur,“ bendir Jóhannes á.

Stjórnvöld hafa rétt nýhafið vinnu, þvert á ráðuneyti, við að meta hvað þarf mikið af neyðarbirgðum, af matvælum, eldsneyti, og öðrum aðföngum til framleiðslu á mat, ákveða skipulag þeirra, og gera viðbragðsáætlanir varðandi dreifingu þeirra. Þessari vinnu á að ljúka fyrir næsta vor.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.

Hins vegar hafa síðustu ár sýnt að staðan getur breyst mjög skjótt. Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, segir að verið sé að vinna hratt að breytingum.

„Við erum að undirbúa heildarstefnu í matvælaframleiðslu fyrir landið og höldum matvælaþing núna í nóvember. Við erum að vinna að því að fylgjast með öllum breytum sem lúta að fæðuöryggi almennt. Og með því ekki síst að vera í sambandi við innflytjendur og aðra þá sem hafa með þetta að gera í milliríkjasamskiptum. Þannig að við erum að hlaupa hratt í mínu ráðuneyti, já,“ segir Svandís.

Gætum borðað loðnu, síld og hrossakjöt

Jóhannes Sveinbjörnsson segir erfitt að segja til um hversu lengi yrði til nægur matur í landinu ef áföll dyndu yfir á næstu mánuðum eða árum.

„Við höfum ekki tekið þetta fyrir og krufið það til mergjar eins og rannsókn. Ég hugsa að það sé nú hægt að lifa drjúglengi á því sem sjórinn gefur og grasbítarnir, með einhverjum lágmarksaðföngum. Það er eiginlega ekki hægt að svara því hvað þetta er til langs tíma, en það er hægt að færa hluti til. Það er hægt að ákveða það að forgangsraða til dæmis eldsneytinu þannig að það sé notað á þann flota sem getur komið með mestan fisk að landi,“ segir Jóhannes.

Hann tekur dæmi af uppsjávarfiskiskipaflotanum. Það er sá floti sem veiðir mestan afla fyrir olíuna sem hann notar. Aflinn er loðna, síld, kolmunni og makríll, sem fer nú að mestu í fiskimjöl. Það gæti breyst ef skortur yrði á olíu.

„Og þá þurfum við að borða loðnu og síld kannski, í staðinn fyrir að borða það sem við erum vön,“ segir Jóhannes.

Jóhannes Sveinbjörnsson.

Í skýrslu Jóhannesar og samstarfsfólks um fæðuöryggi á Íslandi er líka meðal annars bent á að hrossastofninn í landinu sé stór. Tíu þúsund hross gætu gefið tvö þúsund tonn af kjöti. Ef til þess kæmi að skortur yrði á mataraðföngum gæti hrossastofninn skipt máli, segir í skýrslunni, og að það yrði þá ekki í fyrsta skipti í sögu landsins.

„Það eru ákveðnar neyðarbirgðir,“ segir Jóhannes.

Hann bendir þó á að jafnvel í síðari heimsstyrjöldinni, þegar Ísland var hernaðarlega mikilvægur staður, hafi ekki lokast alveg fyrir innflutning.

„En það gætu orðið einhverjar öðruvísi hamfarir sem eru einhvern veginn allt öðruvísi. Það er aldrei nein leið að útiloka neitt í þessu. En það er hægt að gera áhættugreiningar og það er kannski það sem við þurfum líka að herða okkur í, að gera greiningar á afleiðingum af mismunandi áhættu fyrir fæðuöryggi og líkunum á að slíkir hlutir komi upp,“ segir Jóhannes.