Sagan af vél­byssu­söfnurunum og föður ríkis­lög­reglu­stjóra

Vélbyssum hefur stórfjölgað á Íslandi, á löglegan hátt. Grái og svarti markaðurinn blómstra. Byssusmiður segir Kveik að faðir ríkislögreglustjóra hafi smíðað og selt ólögleg skotvopn, lík þeim sem notuð hafa verið til voðaverka í Bandaríkjunum.

Skotárásir heyra til undantekninga á Íslandi. Fyrirsagnir um skotvopnaárásir eða voðaverk þekkjast ekki hér á landi, nema þegar fjallað er um atburði erlendis. En þó virðist þetta vera að breytast.

Nýjar tölur frá sérsveit Ríkislögreglustjóra sýna það svo ekki verður um villst. Útköllum vegna vopna, hvort sem er hnífa, skotvopna eða annarra vopna, hefur fjölgað mikið.

Í flestum tilvikum eru vopnin sem beitt er lögleg og skráð vopn. Sama gildir um vopn sem lögreglan leggur hald á, þau eru langoftast löglega skráð. Eru þá engin ólögleg vopn í umferð?

Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn greiningardeildar Ríkislögreglustjóra

Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn greiningardeildar Ríkislögreglustjóra segir að af þessu megi draga þá ályktun að lögreglan sé ekki að leita á réttum stöðum. Eftirlitið sé fyrst og fremst með löglegum skráðum skotvopnum.

Löglega skráð skotvopn á Íslandi eru heldur ekkert fá, ríflega 87 þúsund eða um eitt skotvopn á hverja fjóra Íslendinga.

Í nokkurra ára gamalli úttekt var Ísland í tíunda sæti á heimsvísu yfir fjölda skotvopna á hverja 100 íbúa.

Ísland var í tíunda sæti yfir fjölda skotvopna miðað við höfðatölu í úttekt sem gerð var fyrir nokkrum árum. 

Vopnaeignin dreifist þó ekki á alla, heldur eru ríflega þrjátíu þúsund með skotvopnaleyfi einhvers konar. Þeir 20 einstaklingar sem eiga flest skotvopn eru 19 karlar og ein kona. Þau eiga samanlagt 2052 vopn, eða að meðaltali 103 vopn hvert, samkvæmt svari dómsmálaráðherra á þingi í vetur sem leið.
Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, segir að Íslendingar hafi fyrst og fremst notað byssur til bústarfa, til veiða og í íþróttum. Það sé menningarlegt samhengi skotvopna á Íslandi.

Byssusmiðirnir

Á Íslandi eru átján byssusmiðir, það er að segja menn sem hafa fengið heimild lögreglu til byssusmíða í atvinnuskyni. Þau réttindi fá þeir sem sýna fram á nám eða reynslu sem nýtist við smíði og lagfæringar slíkra vopna, eins og það er orðað. Eftir því sem næst verður komist hafa einungis tveir eða þrír byssusmíði að atvinnu.

Í lítilli skonsu í gamalli verslunarmiðstöð í Grafarvoginum, á milli bakarís og kirkju sem kallast Catch the Fire, er verkstæði og verslun feðganna Agnars Guðjónssonar og Guðjóns Agnarssonar.

Þeir sýna Kveik margt af því sem til þeirra berst, frá þrívíddarprentuðum byssupörtum út plasti til íhluta sem hægt er að panta með einföldum hætti frá netverslunum – en jafnvel merkt sem eitthvað allt annað en hluta út skotvopni.

Guðjón Agnarsson dregur fram einfaldan málmhólk sem pantaður var frá AliExpress. Hann var þar seldur sem olíupumpa og sendur þannig til Íslands. En olíupumpan reyndist lélegur hljóðdeyfir.

Guðjón Agnarsson með málmhólf frá AliExpress sem sendur var til landsins sem olíupumpa, en er í raun hljóðdeyfir. 

Og svo má  breyta löglegum vopnum, til dæmis venjulegum riffli í hálfsjálfvirkan. Eða breyta skotgeymum, eins og Agnar sýnir okkur. Hann dregur fram geymi af því tagi sem þekktur er úr hasarmyndum, festur neðan á skefti byssu. Svoleiðis skotgeymsla eða magasín má taka tvö haglabyssuskot, en með því að fjarlægja einfaldan plastbút á nokkrum sekúndum er hægt að bæta fleirum við, svo að geymslan tekur allt í einu 10-12 skot. Guðjón bætir við að það sé álíka flókið að eiga við venjulega haglabyssu. Einungis þurfi að taka lítinn plastpinna burt.

Agnar sýnir hversu auðvelt er að fjarlægja stoppara úr skotgeymslu svo hún taki mun fleiri skot en lög og reglur heimila.

Þetta, segja feðgarnir Kveik, er allt einfalt að læra á youtube. Og skotmenn segja raunar algengt að svona breytingar séu gerðar á ósköp venjulegum veiðivopnum, til að þurfa til dæmis ekki að hlaða í sífellu á veiðum. Löglegum vopnum er breytt svo þau verða ólögleg.

Skotvopnaleyfin

Það er ekkert óskaplega flókið að fá skotvopnaleyfi á Íslandi.

Þessu til viðbótar er til D-leyfi, fyrir þá sem stunda skotíþróttir, að skjóta í mark.
En það er S-leyfið, safnaraleyfið, sem er umdeilt.

Safnarar með vélbyssur

Jóhannes Vilhjálmsson, byssusmiður, hefur verið í þeim geira um áratugaskeið. Hann segist þekkja til ástríðusafnara en allt í einu hafi streymt inn menn sem vilji eignast gamlar vélbyssur og fái til þess safnaraleyfi.

Jóhannes Vilhjálmsson, byssusmiður

Það kemur ugglaust einhverjum á óvart að hægt sé að fá leyfi til að kaupa vélbyssur, en það er hægt með safnaraleyfi.

Þar til fyrir fáeinum árum voru örfáir slíkt leyfi, en það heimilar innflutning vopna sem framleidd voru fyrir lok seinni heimsstyrjaldar og eiga að hafa tengingu við sögu landsins. Þessum umsóknum var til langs tíma öllum hafnað hjá Ríkislögreglustjóra þar sem tenging flestra vopna þótti langsótt. Þar til einn umsækjandinn lét á túlkun lögreglunnar reyna.

Dátar ganga fram hjá verslun Ásgeirs G. Gunnlaugssonar í miðborg Reykjavíkur á stríðsárunum

Runólfur Þórhallsson, hjá greiningardeild Ríkislögreglustjóra, segir að niðurstaða lögfræðinga dómsmálaráðuneytisins hafi verið sú að synjun lögreglu stæðist ekki undanþáguákvæði skotvopnalaganna um safnaravopn. Og í kjölfarið hafi fjöldi þeirra sem jókst um söfnunarleyfi aukist sem og fjöldi vopna.

Og lögreglan hefur af því áhyggjur eins og fram kemur í skýrslu greiningardeildar um hryðjuverkaógn sem gerð var í fyrra.

Feðgarnir Agnar og Guðjón gera við svona vopn og eru með nokkur í umboðssölu fyrir safnara með leyfi. Þeir segja algengt að þessi vopn séu virk, hægt sé að skjóta út þeim. En lögreglan eigi að fá veður af því ætli eigendur þessara vopna að nota þau á skotæfingu og svo sé hámark á fjölda skota sem kaupa megi á hverju ári. En fjöldi þessara vopna tekur eins skot og aðrar, löglegar byssur, svo erfitt er að hafa nákvæmt eftirlit með magni skotfæra.

Jóhannes byssusmiður segir engan mun á vélbyssu sem framleidd var 1939 og 1999.

Og Runólfur, hjá Ríkislögreglustjóra, er á því að vilji löggjafinn áfram heimila innflutning þessara vopna vegna söfnunargildis þeirra, ætti að taka afstöðu til þess hvort þau yrðu gerð óvirk. Agnar er sammála því.

Til þess að fá þetta safnaraleyfi þarf ekki að undirgangast nein próf eða skoðun. Sá sem hefur verið með skotvopnaleyfi í fimm ár og örugga skotvopnageymslu getur sótt um og fengið auðveldlega. Kveikur ræddi við fjölda skotáhugamanna sem fannst læknisskoðun eiga að vera forsenda leyfis til að eiga svona vopn – til að tryggja að allir væru með kollinn í lagi.

Agnar hefur verið byssusmiður frá því á níunda áratug síðustu aldar og þekkir skotvopnaheiminn vel. Hann segir að þorri safnara séu ábyrgir áhugamenn, en ekki allir. Sumir mæti með ótrúlegustu hluti á skotsvæði og séu jafnvel engan veginn í ástandi til að fara með vopn. Æsingurinn sé stundum þannig að hann hafi bakkað út, þegar menn æfi sig með hálfsjálfvirkum og sjálfvirkum byssum. Slík séu lætin að menn gleymi sér hreinlega.

Viðmælendur Kveiks, frá skotáhugamönnum til lögreglu, voru undantekningarlítið á því að eftirlit með skotleyfum, ekki síst safnaraleyfum, væri lítið og handahófskennt enda lögregla tæpast mönnuð til að sinna því skipulega. Sömu sögu væri að segja um getu tollsins til að fylgjast með því sem kæmi með póstsendingum eða væri smyglað inn, til dæmis í gegnum hafnir landsins.

Páll Svansson, aðstoðaryfirtollvörður, segir geta verið örðugt að finna skotvopn sem komi í hlutum til landsins, hvort sem það sé með gegnumlýsingu eða ekki. Til það þekkja íhluti í vopn þurfi sá sem leitar að búa yfir þekkingu á skotvopnum.

Skotvopn feðranna

Fáir hérlendis hafa bæði safnaraleyfi og eru byssusmiðir. Einn þeirra rataði í fréttir nýlega, þegar Ríkislögreglustjóri varð að segja sig frá rannsókn meintrar fyrirætlaðrar hryðjuverkaárásar.

Skömmu eftir að sú rannsókn hófst var efnt til blaðamannafundar þar sem greint var frá því að Ríkislögreglustjóri hefði sagt sig frá rannsókninni þar sem að ættmenni hefði komið við sögu.

Frá fréttamannafundi lögreglunnar þar sem greint var frá að Ríkislögreglustjóri þyrfti að segja sig frá rannsókn meintra hryðjuverka

Daginn fyrir þennan fréttamannafund gerði lögreglan húsleit á heimili Guðjóns Valdimarssonar, föður Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra.
Guðjón hefur lengi verið byssuáhugamaður mikill, á stórt safn vopna og, miðað við það sem finna má með einfaldri netleit, umsvifamikill í kaupum og sölu.
Fyrir réttu ári var karlmaður sakfelldur í Landsrétti fyrir að eiga riffil sem er ólöglegur á Íslandi. Hríðskotabyssu sem jafnan er kölluð AR-15.

NPR, almannaútvarpið í Bandaríkjunum, hefur fjallað um vinsældir AR-15 hjá þeim sem framið hafa voðaverk.

Hálfsjálfvirkur riffill sem er hannaður til þess að skjóta hratt og ná mörgum sem hraðast. AR-15 hefur ítrekað verið notaður í skotárásum í Bandaríkjunum, svo sem voðaverkunum í Stoneman Douglas skólanum á Flórída, Pulse-næturklúbbnum í Orlando, Sandy Hook grunnskólanum í Connecticut, og víðar.

Samtök byssueigenda í Bandaríkjunum, NRA, kölluðu AR-15 vinsælasta skotvopn þjóðarinnar í grein á vefsíðu sinni árið 2016

Maðurinn neitaði því fyrir rétti að hafa breytt riflinum heldur hefði hann keypt hann hálfsjálfvirkan, óbreyttan, fyrir eina og hálfa milljón króna af vopnasala, Guðjóni Valdimarssyni, föður ríkislögreglustjóra.

Guðjón var kallaður fyrir sem vitni og neitaði því að hafa breytt byssunni. Ekki er að sjá að aðkoma hans hafi verið könnuð frekar. En Agnar fékk í kjölfarið til sín menn, sem keypt höfðu eins riffla af Guðjóni, sem líka voru hálfsjálfvirkir og því ólöglegir. Byssusmiðurinn breytti rifflunum svo þeir stæðust lög.

Feðgarnir Agnar og Guðjón í verslun sinni í Grafarvogi

„Þeir voru ekki þegar þeir keyptu þá af Guðjóni. Þeir komu með þá til mín og ég breytti þeim í straight-pull. Þannig að það er ekki hægt að fara til baka. Þeir komust að því þetta væri ekki löglegt. Og ég breytti tveimur rifflum,“ segir Agnar.

„Svo Guðjón hefur verið að selja frá sér vopn sem ekki voru lögleg? Sem þú hefur svo fengið til að breyta?“

„Já. Alla vega tvo riffla.“

„Og voru þeir eins og riffillinn í þessu dómsmáli?“

„Já. Það er skrítið, því að lögmaðurinn talaði um þetta, að það væru fleiri rifflar og annað. Ég var aldrei kallaður fyrir að nokkru leyti í þessu máli,“ svarar Agnar byssusmiður.

Samkvæmt heimildum Kveiks kom samskonar skotvopn í ljós við húsleit hjá einum þeirra sem upphaflega voru handteknir vegna hryðjuverkarannsóknarinnar. Grunur beindist þá að Guðjóni.

Kveikur leitaði viðbragða Guðjóns, sem vildi ekkert ræða við fjölmiðla. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, dóttir Guðjóns og ríkislögreglustjóri, sagðist með öllu vanhæf í öllu sem snerti föður sinn og að hún hefði allt frá upphafi lögregluferils sagt sig snarlega frá öllu sem sneri að honum og viðskiptum hans.

Úr gráu í svart

Ef kalla má þetta gráa markaðinn, þá fara feðgarnir Agnar og Guðjón sonur hans ekki varhluta af aukinni ásókn í skotvopn á svarta markaðnum, sem þeir segja orðinn gífurlega stóran. Byssur flæði inn til landsins með fraktskipum.

Páll, aðstoðaryfirtollvörður, segir ekki ólíklegt að vopn berist þá leið til landsins.
Og alveg góðar líkur að vopn komi í annað hvort heilu eða pörtum til landsins og ef við förum í leit um borð í skip þá erum við að fara í svolítið heildstæða leit þar sem kemur upp sem er athugavert og er ekki gefið upp við komu skipsins, við gerum athugasemdir við það.

Agnar og Guðjón segjast reglulega fá beiðnir frá mönnum um að klára byssur eða útvega smáhluti sem þeir geti ekki nálgast eða flutt inn sjálfir. Og að þeir sem mæti með ólögleg skotvopn séu ekkert feimnir við að segja frá því hvernig þeir hafi komist yfir vopnin. „Menn eru alveg svellkaldir í þessu. Svellkaldir,“ segir Agnar.

Helgi Gunnlaugsson, prófessor við Háskóla Íslands og afbrotafræðingur

Þessar breytingar, sem og meint, fyrirætluð hryðjuverk, eru ógnvekjandi og kalla á viðbrögð. En hver? Helgi Gunnlaugsson, prófessor og afbrotafræðingur, bendir á það viðbrögð við svona tíðindum séu oft mjög afgerandi. Það geti verið með því að auka vopnabúnað lögreglu, herða refsingar, eða jafnvel með einhvers konar forvirkum rannsóknarheimildum, að veita valdhöfum rýmri heimildir til að takast á við ógnir. Of geti reynst erfitt að vinda ofan af slíku.

Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er frumvarp í smíðum hjá dómsmálaráðuneytinu um breytingar á vopnalögum, sem eru í grunninn frá árinu 1998. Í umsögn í þingmálaskrá segir: „Frumvarpinu er ætlað að breyta reglum um innflutning á skotvopnum með það að markmiði að herða reglur um skotvopn og veitingu undanþága frá banni við innflutningi sjálfvirkra og hálfsjálfvirkra skotvopna. Jafnframt er ætlunin að breyta lögunum vegna innleiðingar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 frá 21. mars 2021 um eftirlit með öflun og eign vopna.“

Og föstudaginn 21. október var svo óvænt tilkynnt um breytingar á viðmiðunarreglum um innflutning safnvopna. Þar var hert verulega að möguleikum á innflutningi og meðal annars kveðið á um að vopn eða vopnagerð yrði að hafa ótvíræða, sannanlega tengingu við hernámsliðið á Íslandi í seinni heimsstyrjöldinni. Þannig þyrfti vopnið t.d. að sjást á ljósmyndum frá Íslandi og mætti ekki einungis hafa verið um borð í flugvél eða skipi sem hér átti viðkomi. Þá var innflutningur alsjálfvirkra vopna bannaður.

Aðalmynd: Bexar Arms / Unsplash