Hundruð eftirlitslausra eftirlitsmyndavéla um allt land

Þúsundum eftirlitsvéla er beint að almenningi víðsvegar um land. Rannsókn Kveiks bendir til að persónuvernd og netöryggi séu í ólestri. Óljóst sé með aðgang og jafnvel hver setti vélarnar upp.

Fyrir réttu ári voru þrír ungir karlar stungnir í átökum á skemmtistaðnum B5 í miðbæ Reykjavíkur. Hópur 20-25 manna réðst inn á staðinn og á ungu mennina þrjá. Myndavélar inni á staðnum sýndu atburðarásina.

Myndir úr öryggismyndavélum á skemmtistaðnum B5, þar sem til átaka kom.

En þegar kom að dómsmálinu voru það ekki myndirnar að innan sem mestu skiptu, heldur myndir úr vélum fyrir utan sem lögreglan hefur aðgang að.

Vélar af því tagi skipta hundruðum í miðborg Reykjavíkur og víðar.

Fjöldi véla – en ekkert yfirlit

„Þetta eru svona á milli sex og sjö hundruð vélar“, segir Rannveig Þórisdóttir, sviðsstjóri þjónustusviðs Ríkislögreglustjóra aðspurð um fjölda véla sem lögreglan hefur beinan aðgang að. Þessar vélar eru í miðbæjum stærri bæja og þar sem ekið er inn og út úr bæjum víða um land. Rannveig telur tvö- til  þrjú hundruð vélar bætast við, vélar sem sveitarfélög hafa sett upp á opnum svæðum svo sem í Reynisfjöru, Landeyjarhöfn og víðar.

Rannveig Þórisdóttir, sviðsstjóri þjónustusviðs Ríkislögreglustjóra.

Mat Rannveigar á fjölda véla er ekki nákvæmt, samkvæmt gögnum sem Kveikur hefur aflað.

Þegar Kveikur óskaði svara frá 20 af stærstu sveitarfélögum landsins gerðist lítið í fyrstu. Ekkert sveitarfélag gat svarað um hæl. Oft þurfti að ítreka ósk um svör og í flestum tilvikum tók það margar vikur og mánuði að fá svör, sem í fæstum tilvikum voru fullnægjandi.

Þannig gat hluti sveitarfélaga alls ekki svarað því hversu margar myndavélar hefðu verið settar upp. Hveragerði, til dæmis, áframsendi svör frá öryggisfyrirtæki sem vélarnar voru keyptar af, því svörin lágu ekki fyrir hjá sveitarfélaginu sjálfu. Ekki um fjölda, staðsetningu eða hver hefði aðgang að myndefninu.

Reykjavíkurborg þurfti að taka saman gögn og taldi í fyrstu að 243 vélar hefðu verið settar upp á vegum borgarinnar.

Þegar allt var talið saman reyndist um 1500 vélum á vegum sveitarfélaganna vera beint að svæðum sem almenningur hefur aðgang að. Í vor óskaði Kveikur upplýsinga um hvort eitthvað hefði breyst. Og þá hafði myndavélunum fjölgað, úr 1500 í rúmlega 2200. Mestu munaði um að myndavélar í Reykjavík höfðu verið vantaldar. Voru ekki 243, heldur nærri 500 fleiri, eða 830.

Ekki öll sveitarfélög gátu sagt til um fjölda eftirlits- og öryggismyndavéla en m.v. þær upplýsingar sem Kveikur aflaði eru þær í það minnsta um 3000 víðsvegar um land.

Til viðbótar lögreglu og sveitarfélögum eru fleiri stofnanir með eftirlit, til dæmis Vegagerðin sem er með rétt um 500 eftirlitsvélar á þjóðvegum landsins. Það þýðir að lágmarki 2700 vélar – þrátt fyrir að stór sveitarfélög eins og Kópavogur hafi ekki getað upplýst um fjölda véla og ekki hafi verið leitað til ríkisstofnana annarra en lögreglu.

Árborg

29

Norðurþing

5

Seltjarnarnes

43

Múlaþing

Óljóst

Hafnarfjörður

282

Mosfellsbær

Óljóst

Ísafjörður

25

Akureyri

100

Borgarbyggð

33

Vestmannaeyjar

Óljóst

Garðabær

296 + 12 í umferðarvöktun

Fjarðabyggð

140

Akranes

48

Reykjanesbær

154

Grindavík

4

Kópavogur

Óljóst

Suðurnesjabær

Á milli 1 og 5

Skagafjörður

59

Hveragerði

12

Reykjavíkurborg

830

Vegagerðin

500

Persónuvernd og merkingar

Í svörunum sem Kveikur fékk var oft vísað til verklagsreglna um meðferð myndefnis og persónuverndarstefnu sveitarfélagsins. Þar er kveðið á um merkingar, eins og lög gera ráð fyrir. Þar sem myndavélaeftirlit fer fram á það ekki að fara fram hjá neinum. En á höfuðborgarsvæðinu voru merkingar almennt í ólestri þar sem Kveikur kannaði stöðuna. Þar sem finna mátti einhverjar merkingar voru þær sjaldnast í samræmi við það sem lög kveða á um.

Persónuvernd hefur það lögbundna hlutverk að fylgjast með því að rétt sé staðið að uppsetningu öryggismyndavéla. Og sveitarfélög eiga að halda svokallaðar vinnsluskrár um myndavélarnar.

Valborg Steingrímsdóttir, sviðsstjóri öryggis og úttekta hjá Persónuvernd.

„Það á að liggja skýrt fyrir hjá sveitarfélögunum, ef þau eru ábyrgðaraðilar að þessari tilteknu rafrænu vöktun, þá ættu þau að geta svarað því, í hvaða tilgangi hún fer fram. Þá ætti almenningur að vera upplýstur um í hvaða tilgangi vöktunin fer fram og hverjir hafa aðgang að myndefninu og hvenær má miðla því og til hverra,“ segir Valborg Steingrímsdóttir, sviðsstjóri öryggis og úttekta hjá Persónuvernd.

Persónuvernd hefur birt leiðbeiningar um uppsetningu og notkun öryggis- og eftirlitsmyndavéla á vef sínum, þar sem ítarlega er farið í gegnum hver má hvað og hvernig.

Þar er líka að finna sniðmát að merkingu sem uppfyllir skilyrði laga:

Öryggismyndavélar eru reyndar ekki allar jafnar. Hluti telst löggæslumyndavél og fellur undir lögreglulög, þar sem enginn utan lögreglu hefur aðgang að myndefninu og það ætlað til löggæslu. Þær vélar þarf ekki að merkja jafngreinilega. En allar aðrar myndavélar, hvort sem sveitarfélög setja þau upp við skóla og sundlaugar eða þær eru hluti nettengdrar snjalldyrabjöllu, falla undir persónuverndarlög.

Hvar eru vélar og hvers vegna?

Árásin á B5 væri dæmi um mál sem hægt var að upplýsa að hluta með aðstoð myndavéla. Rannveig Þórisdóttir hjá Ríkislögreglustjóra segir það ítrekað hafa gerst að myndavélarnar hafi gagnast við leit að fólki, til dæmis þegar grunur hafi verið um að það hafi ætlað að skaða sig. Þá hafi leit byrjað í myndavélakerfunum og myndirnar getað vísað lögreglu og leitarliði í rétta átt. Vélarnar komi að gagni við að skanna vettvang, veita þeim sem bregðast við útkalli upplýsingar – ekki bara lögreglu, heldur sjúkraliði, til dæmis.

En hún segir myndir úr öryggismyndavélum hafa nýst við rannsókn alvarlegra brota, þótt hún nefni engin dæmi um slíkt. Rannsóknir á gagni vélanna á Íslandi vanti.

„Í Reykjavík og á Selfossi og Akureyri er myndavélaeftirlit á miðsvæði þar sem afbrot eru tíðust. Og þar er horft til tíðni atvika. Á höfuðborgarsvæðinu hefur farið fram mjög nákvæm greining á því hvar afbrot og sérstaklega ofbeldisbrot hafi átt sér stað,“ segir Rannveig. „Síðan er það kannski þessar vélar sem við sjáum í sveitarfélögunum á inn- og útakstursvæðum sveitarfélaganna. Þar er meira verið að horfa í það að geta auðkennt þá sem eru að koma inn eða fara út ef eitthvað kemur upp.“

Veggur hjá lögreglunni sýnir hluta myndavéla sem eru í vöktun

Erlendar rannsóknir benda til þess að gagnið sé nokkru minna en ætla mætti. Fraser Sampson er breskur fræðimaður og yfirmaður breska eftirlitsins með notkun eftirlitsmynda og lífauðkenna. Í viðtali við Kveik segir hann að yfirvöld hafi tröllatrú á vélum af þessu tagi en rannsóknir séu misvísandi. Sumar bendi til þess að glæpir færist til vegna véla sem settar hafa verið upp, flytjist annað. Forvarnargildið virðist hins vegar takmarkað.

Í skólanum er eftirlit

Eitt er að öryggismyndavélar séu víða, annað er hver hefur aðgang að efninu. Í nýrri úttekt Reykjavíkurborgar kom fram að ekki væri að öllu leyti ljóst hver væri með aðgang að efni úr vélum við skóla, svo dæmi séu tekin. Í það minnsta 195 eftirlitsmyndavélar reyndust hafa verið settar upp í leikskólum, grunnskólum og félagsmiðstöðvum borgarinnar, þótt tveir skólar hafi reyndar ekki getað svarað til um fjölda véla þegar Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar óskaði upplýsinga.

„Vissar áhættur geta þó skapast þegar eftirlit er jafnumfangsmikið og raun ber vitni. Ekki er að öllu leyti ljóst hvernig fer með aðgang að myndefni úr þeim vélum sem til eru og þeim sem til stendur að setja upp. Samræmt verklag virðist ekki vera til staðar, sem kallar á ítarlegri skoðun og greiningu á fyrirliggjandi vinnsluskrám fagsviðsins. Ýmis álitaefni geta vaknað við afhendingu myndefnis, t.a.m. þegar um ofbeldi er að ræða og aðgangur hlutaðeigandi takmarkaðri af þeim sökum,“ segir í skýrslu Innri endurskoðunar. Mælt var með aðgerðum:

• Útfæra þarf skýrt verklag varðandi það hvernig fer með beiðnir þegar óskað er eftir aðgangi að upptökum og hvernig aðgangur að upptökum er veittur, með hag barna og hinna skráðu í huga. Mælst er til þess að verklagið sé kynnt með skýrum hætti öllum þeim sem geta sætt eftirlitinu.

• Greina þarf hversu oft óskað er eftir aðgangi að myndefni og hvaða takmarkanir er æskilegt að setja gagnvart afhendingu myndefnisins innan þess ramma sem persónuverndarlög setja, með hliðsjón af þeirri sérstöku vernd sem persónuupplýsingar barna njóta samkvæmt ákvæðum laganna.

• Athygli vekur að einungis einn leikskóli af 71 er með eftirlitsmyndavélar til staðar. Óljóst er á hvaða grundvelli þær vélar voru settar upp og hvort til standi að setja upp eftirlitsmyndavélar í öðrum leikskólum í sama tilgangi. Á fundi skóla- og frístundaráðs þann 6. febrúar 2023 var lagt fram minnisblað ásamt skýrslu um öryggismál í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar, dagsett í mars 2020, þar sem mælt var fyrir um uppsetningu eftirlitsmyndavéla í níu leikskólum og 15 grunnskólum Reykjavíkurborgar. Ef til vill hefur uppsetning á eftirlitsmyndavélum í einum leikskóla Reykjavíkurborgar verið hluti af þessari framkvæmd, sem er þó í ósamræmi við þá fasa sem tilkynntir eru í skýrslunni.

• Að öðru leyti er talið að yfirsýn og utanumhald vegna rafrænnar vöktunar á vettvangi sé viðunandi á vettvangi skóla- og frístundasviðs að frátöldum skorti á yfirsýn nokkurra vinnslusamninga og önnur gögn hjá tveimur grunnskólum. Mælst er til þess að skóla- og frístundasvið bæti úr framangreindum skorti við fyrsta tækifæri. Skóla- og frístundasvið leitar samráðs við fagsvið persónuverndar hjá IER (Innri endurskoðun) um flest þau málefni sem varða vinnslu persónuupplýsinga, þar á meðal vegna rafrænnar vöktunar, og er von um áframhaldandi gott samstarf.

Úr skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar.

Umdeilt samstarf

Í vor var í skyndi ákveðið að fjölga myndavélum í miðborg Reykjavíkur, vegna leiðtogafundarins í Hörpu.

Unnið að uppsetningu myndavélamasturs við Hörpu í aðdraganda leiðtogafundarins í maí.

Bæði til að geta til dæmis myndað harkaleg mótmæli, sem búist var við að gætu orðið – en urðu ekki – og til að auka öryggisvitund fólks, eins og sagði í erindi lögreglunnar til Reykjavíkurborgar. Þangað leitaði lögreglan því þótt enginn annar hafi aðgang að svokölluðum löggæsluvélum eru þær samstarfsverkefni. Reykjavíkurborg greiðir fyrir kaup og uppsetningu, Neyðarlínan tryggir gagnaflutninga, Ríkislögreglustjóri sér um vistun efnisins en lögregluembættin hafa aðgang að því.

En þegar kom að því að endurnýja samkomulagið og bæta við myndavélum komu vöflur á nokkra borgarfulltrúa og persónuverndarfulltrúi borgarinnar efaðist um lagastoð samstarfsins.

„Það þarf að vera ljóst hvernig ákvarðanir eru teknar um staðsetningar, hvernig gögn eru notuð og hver hefur aðgang að þeim,“ sagði í umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofunnar. „Óljóst verklag í þessu sambandi er til þess fallið að auka óöryggi borgarbúa og vinna gegn frelsi þeirra til að tjá sig“.

Kveikur spurði Rannveigu Þórisdóttur hjá Ríkislögreglustjóra hvort verkaskipting, ábyrgð og lagarammi væru alveg á hreinu. „Við teljum alveg að við getum alltaf gert betur og við erum alveg að halda áfram að ramma betur þetta inn og við erum kannski líka að reyna að átta okkur á því hvaða fyrirkomulag hentar best.“

En fyrir réttri viku ákvað Reykjavíkurborg að segja upp samkomulaginu. Til stendur að endurnýja það en með skýrari heimildum og verkaskiptingu.

Reykjavíkurborg rannsakaði eigin frammistöðu

Reykjavíkurborg réðst raunar í úttekt á stöðu myndavélamála og þar kom ýmislegt í ljós – fyrst og fremst að enginn vissi almennilega hver væri að gera hvað. Persónuvernd og netöryggi væru í ólestri víða. Merking, fræðsla og yfirsýn væri úti um allt. Og fleira mætti nefna.

Einu merkingarnar sem finna mátti í ráðhúsi Reykjavíkur um að þar væri myndavélaeftirlit.

Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, sagði í viðtali við Kveik að ástandið væru ekki nógu gott og þess vegna ætti að ráðast í umbætur. „Ég er í grunninn ekkert ógurlega hrifin af miklu eftirliti. En það er alla vega lágmarkskrafa að þar sem það þarf að vera þá sé það undir mjög skýru regluverki, það sé í samræmi við persónuverndarlöggjöfina og persónuverndarsjónarmið Reykjavíkurborgar. Hvað má geyma efni lengi? Hver hefur aðgang að því, hvers vegna og hvenær? Af hverju er verið að þessu, yfir höfuð?“

Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata

Þarna kom í ljós að vélarnar voru 830 og höfðu því verið vantaldar um nærri 500 þegar Kveikur óskaði svara frá borginni, sem sagði þær upphaflega 243.

Niðurstaðan af þessu öllu varð að þjónustu- og nýsköpunarsviði borgarinnar var falið að hreinsa til, gæta þess að rétt væri að öllu staðið og annast yfirsýnina.

Ef þú veist ekki hvað þú ert að gera, áttu að vera að gera það?

Stærsta sveitarfélagið og lögreglan eru sem sagt á því að gera megi betur, skerpa á reglum og ábyrgð. Svör annarra sveitarfélaga til Kveiks benda til þess að ástandið sé síst betra þar. Spurningin sem vaknar er: Ef þú veist ekki hvað þú ert að gera, áttu að vera að gera það?

„Ég mundi alla vega segja að ef það er svo að sveitarfélögin geta í raun og veru ekkert svarað því til dæmis í hvaða tilgangi rafræn vöktun fer fram á ákveðnum stöðum, þá er kannski kominn tími á að taka eitthvað til,“ segir Valborg Steingrímsdóttir, sviðsstjóri öryggis og úttekta hjá Persónuverndarstofnun.

Fyrst þetta er svona laust í reipunum, má sannarlega efast um öryggisgildið. Ef óljóst er hvað er myndað, hver getur sótt myndirnar og vélarnar jafnvel bilaðar, er varla hægt að segja að myndavél auki á öryggi.

Myndavélar sem geta miklu meira en myndað

Í dag er varla hægt að kalla tækin sem sett eru upp myndavélar. Nýjustu eftirlitsmyndavélar eru í raun öflugar tölvur með linsu og möguleikar sem þær gefa til dæmis lögreglunni eru bæði margir og umdeildir.

Sýningarveggur hjá Öryggismiðstöðinni. Vélarnar bera ekki endilega með sér að vera þróaðar tölvur með linsur.

Kveikur fékk sérfræðinga Öryggismiðstöðvarinnar til að sýna vélar sem fyrirtækið selur og útskýra hvaða eiginleikum þessar vélar búa yfir.

„Þessar vélar eru fyrst og fremst að skoða okkar nærumhverfi. Þessar vélar geta greint manneskju í tuga metra fjarlægð. En þekkja hana eða borið kennsl á hana þegar hún kemur nær,“ segir Ragnar Ragnarsson, vörustjóri hjá Öryggismiðstöðinni, og bendir á sýningarvegg þar sem sjá má mismunandi útgáfur véla frá kínverska fyrirtækinu Dahua.

„Það er hægt að fá vél, til dæmis, sem nemur eld og getur látið vita. Það er til vél sem getur numið reyk og látið vita. Ef einhver fellur við, dettur, það er hægt að nema það og láta vita. Og það er verið að reyna að flokka eftir því hvort fólk er karlmaður eða kvenmaður. Hvort viðkomandi sé með skegg, gleraugu, húfu, litur á klæðnaði og annað slíkt. Og þetta er gert til þess að einfalda þeim sem síðan þurfa á þessu að halda að finna atvikið í upptökunni.“

Sumar vélar geta greint slagsmál eða hópamyndun, talið fjölda sem fer inn og út af svæði, numið hitastig – sem gæti verið vísbending um hegðun. Stór hluti véla er með möguleika af þessu tagi innbyggða en þá þarf að virkja. Viðskiptavinurinn þarf að tilgreina hvað hann vill geta gert.

Valborg, sérfræðingur Persónuverndar, segir þessar öru og miklu tækniframfarir gjörbreyta forsendum umræðu um myndavélaeftirlit. „Og þegar þú ert kominn með gervigreind og ert farinn að vinna með lífkennaupplýsingar fólks, þá er vinnslan orðin svo ofboðslega nærgöngul.“

Löggæsluvélarnar sem lögreglan hefur aðgang að eru margar búnar þessari tækni, segir Rannveig hjá Ríkislögreglustjóra. „En þetta hefur ekki verið virkjað. Og það er bara mjög skýrt að Evrópusambandið hefur bannað þetta og við höfum ekki heimild. Þannig að við erum ekkert að horfa í þá átt eins og staðan er núna.“

Breski sérfræðingurinn Fraser Sampson, yfirmaður eftirlits með notkun eftirlitsmyndavéla og lífauðkenna í Bretlandi, segir sínar rannsóknir hins vegar benda til þess að lögregla og sveitarfélög viti oft ekki almennilega hvað myndavélar geti og geri. En að þessi þróaða tækni geti breytt notagildi vélanna – jafnvel aukið forvarnargildi.

„Hér áður fyrr virtust þessar vélar ekki hafa nein forvarnaráhrif eða hindra að fólk bryti af sér. En nú veit myndavélin hver ég er, og ég veit að myndavélin veit það, og það hlýtur að breyta hugsuninni. Ef þetta letur mig ekki frá að fremja glæpi, þá var ég kannski ekkert svo hættulegur til að byrja með“ segir Sampson.

Þegar vélarnar hringja heim til Kína

Kínversk stjórnvöld eru alræmd fyrir að fylgjast grannt með almenningi þar í landi. Og stærstu framleiðendurnir og þeir sem selja þróuðustu eftirlitsmyndavélarnar eru einmitt kínverskir, heita Hikvision og Dahua. Flestar vélar hérlendis eru frá þeim.

Vélar þeirra hafa verið ítrekað til umfjöllunar erlendis, vegna öryggisvandamála annars vegar og tengsla framleiðendanna við kínversk stjórnvöld hins vegar.

Hikvision er sagt hafa þjálfað andlitsgreiningarbúnað sinn með því að læra á Úígúra, þjóðflokk sem sætir kúgun í Kína.

Og þessar myndavélar eru sagðar safna gögnum og skila þeim til kínverskra stjórnvalda. Fyrir tveimur árum sagði ítalska sjónvarpið RAI frá því að þeirra eigin eftirlitsmyndavélar hefðu virkað undarlega. Sambærileg atvik reyndust hafa átt sér stað víðar.

140 Hikvision-vélar á flugvellinum í Róm höfðu allt í einu reynt að tengjast netþjóni heima í Kína – óheimiluð tenging sem Hikvision sagði stafa af úreltri og gallaðri forritun. En RAI benti á að samkvæmt kínverskum lögum væri þarlendum fyrirtækjum skylt að deila gögnum með yfirvöldum, væri eftir því sóst.

Frá Fiumicino-flugvelli í Róm.

Og þessar vélar eru með öllu bannaðar í Bandaríkjunum. Fraser Samson, sem stýrir eftirliti með notkun öryggis- og eftirlitsmyndavéla í Bretlandi, segist hafa varað stjórnvöld við þessu. Sér finnist skrítið að stjórnvöld vilji ekki nota kínversku vélarnar á stöðum sem skilgreindir eru sem viðkvæmir, en í lagi þyki að nota þær til að sinna eftirliti með almenningi.

„Ef ríkið treystir þessum tækjum ekki, af hverju ættu þá sveitarfélögin að gera það?“ segir Sampson.

Löggæsluvélarnar á Íslandi, sem eru margar frá kínversku framleiðendunum, eru reyndar allar á lokuðu neti, sem sagt, ekki tengdar internetinu. Því er talið ásættanlegt að nota þennan búnað. Jafnvel þótt hann væri búinn vafasömum eiginleikum og gæti sent upplýsingar til kínverskra yfirvalda, til dæmis, væri það vandkvæðum bundið án nettengingar. Rannveig Þórisdóttir segir það ekki á valdsviði lögreglunnar að taka ákvarðanir og grípa fram fyrir hendur stjórnvalda. Til þessa hafi þær vélar sem notaðar eru verið taldar öruggar og ásættanlegar. En leiðbeiningum stjórnvalda verði fylgt, komi boð um breytingar.

Í verslunum er þessi tækni þó víða komin í notkun. Sampson segir allt annað að einkafyrirtæki noti andlitsgreiningu eða aðra gervigreind til að skima eftir viðskiptavinum sem reyna til dæmis að kaupa áfengi án þess að hafa til þess aldur en að hið opinbera beiti tækni til að reikna út hverjar líkur séu á að tiltekinn einstaklingur fremji innbrot næsta árið.

Í síðustu viku kallaði hópur mannréttindasamtaka í Bretlandi þó eftir því að hætt yrði að nota hugbúnað sem greindi fólk í verslunum. Þekkt væri að andlitsgreiningarbúnaður færi í manngreinarálit – á kostnað kvenna, fólks með dökka húð og hinsegin fólks. Þetta hefði leitt til þess að fólk úr þessum hópum sætti meira eftirliti lögreglu og öryggisvarða en aðrir.

Hvar eiga mörkin að liggja?

Undirliggjandi er þó nánast heimspekileg spurning um mörk öryggis og frelsis. Vissulega má spyrja hvers vegna sá, sem ekkert rangt hefur gert, ætti að setja sig upp á móti vöktun. Fraser Sampson segir það í raun þýða að hið opinbera sé komið í hlutverk foreldris og almenningur njóti þá einungis frelsis til að tjá skoðanir sínar með samþykki hins opinbera. Almenningur æti að njóta grundvallarréttinda sem ætti að þurfa mjög skýrar og afgerandi röksemdir til að skerða.

Rannveig hjá Ríkislögreglustjóra veltir líka fyrir sér hvort eðlilegt sé að sveitarfélög og aðrir geti haft eftirlit með borgurunum. Það hljóti að vera eitthvað sem þurfi að ræða. „Af því að það er mikill munur, held ég, í hugum allra hvort þú ert að tala um löggæslutilgang þar sem verið er að upplýsa um brot eða hvort þú ert kominn með eftirlit í þeim tilgangi að athuga með almenna hegðun,“ segir Rannveig.

Nærmynd af vél frá Hikvision í miðbæ Reykjavíkur. Í þessari vél eru í það minnsta fimm linsur sem taka upp mynd í allar áttir.

Hver og einn verður að meta fyrir sig hvar þessi mörk eiga að liggja. En það er allt í lagi að gera smá tilraun, horfa í kringum sig við tækifæri og telja myndavélarnar í augsýn. Hvað eru þær að mynda? Eru þær merktar? Hver er á hinum endanum? Hver getur notað gögnin sem safnað er? Og spyrja sig svo: Finnst mér ég vera öruggari fyrir vikið? Eða er þetta óþægilegt?