Eldislaxar leika lausum hala á íslenskum verndarsvæðum

95 dagar liðu án þess að fyrirtækið Arctic Fish kannaði ástandið á netapokanum á kví sem eldislaxar sluppu úr í sumar. Engin ákvæði eru í lögum um hversu oft laxeldisfyrirtæki eiga að kanna ástandið.

Það var síðla í ágúst sem Arctic Fish tilkynnti að tvö göt hefðu fundist á einni kví í eldisstöð fyrirtækisins í sunnanverðum Patreksfirði, sem kennd er við Kvígindisdal.

Net voru lögð við kvína, en í þau kom enginn fiskur. Þá var ekki annað að gera en að leita. Eldislax veiddist síðan bæði í net og á stöng í nágrenninu. En laxinn fer hratt yfir og ekki var við neitt ráðið.

Eldisstöð Arctic Fish, kennd við Kvígindisdal í Patreksfirði.

„Fyrri part september þá fóru að veiðast þessir tugir fiska í Blöndu. Og þá var ljóst að þarna var mikið vandamál fram undan,“ segir Guðni Magnús Eiríksson, sviðsstjóri hjá Fiskistofu.

Til dæmis hefur verið reynt að fara með net um árnar. Eldislaxi sem kemur í netið er þá landað en þeim villta sleppt aftur út í.  En þetta er ekki auðvelt þar sem eru gljúfur, flúðir og fossar.

Landeigendur í Staðará í Steingrímsfirði reyna að veiða eldislax í net. Enginn eldislax veiddist í þessari ferð. Mynd: Jón Víðir Hauksson

Laxveiðitímabilinu lauk um síðustu mánaðamót, en Fiskistofa ákvað að framlengja stangveiðitímann með skilyrðum fram í miðjan nóvember til að auka líkur á að fleiri eldislaxar næðust.

„Þetta er hins vegar ekki kannski heppilegt að nýta á hrygningartíma ef það er ekkert sérstakt tilefni til,“ segir Guðni Magnús. „Þetta er neyðarúrræði getum við sagt.“

Enginn veit nákvæmlega hve margir fiskar sluppu úr kvínni, en Matvælastofnun telur að þeir gætu verið allt að 3.462.

Og þeir eru víðförlir. Samkvæmt samantekt Landssambands veiðifélaga á þeim laxi sem alls hefur veiðst á stöng, í net, í háf og með skutulbyssu síðustu vikur og hefur ýmist einkenni eldislax eða staðfest hefur verið að sé úr eldi, hafa samtals 344 veiðst, á 46 stöðum, miðað við stöðuna síðasta föstudag.

Meintir eða staðfestir eldislaxar hafa veiðst á 46 stöðum, alls 344 laxar. Flestir staðirnir eru um norðvestanvert landið.

Í sex ám hafa veiðst yfir 20 laxar, flestir í Blöndu, 54. Um 270 kílómetrar eru frá eldisstöðinni í Patreksfirði að ósum Blöndu.

Ekki er búið að erfðagreina alla sem hafa veiðst, en þær niðurstöður sem liggja fyrir benda til að yfirgnæfandi meirihluti sé úr kví Arctic Fish í Patreksfirði.

Guðni Magnús segir að það komi á óvart hversu víða þeir hafa ratað á skömmum tíma. „Á þessu landsvæði eru um 200 ár. Þannig að það er mikið undir. Það er að segja, fiskur gæti hafa ratað upp í ár á öllu þessu svæði.“

Guðni Magnús Eiríksson, sviðsstjóri hjá Fiskistofu, segir að það komi á óvart hve víða laxarnir hafa ratað á skömmum tíma.

Hafrannsóknastofnun gefur út áhættumat fyrir erfðablöndun þar sem reynt er að leggja mat á þann fjölda eldisfiska sem mögulega leitar upp í ár ef hann sleppur úr kví. Það er nefnilega enginn nýr sannleikur að slík slys verði í laxeldi. Samkvæmt áhættumatinu er fræðilega gert ráð fyrir að tugir þúsunda laxa sleppi úr kvíum við Íslandsstrendur árlega. En það sem gerðist í Patreksfirði kom mönnum samt að óvörum.

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, segir að þetta hafi verið „atburður sem maður var að vonast til að myndi ekki gerast.“ Hann segir að það hve mikill kynþroski hafi verið hjá löxunum sem voru í kví Arctic Fish hafi komið á óvart.

Eftir að götin uppgötvuðust kom nefnilega í ljós að óeðlilega margir laxar í þessari tilteknu kví voru orðnir kynþroska. Það er kynþroska fiski eðlislægt að leita upp í ár til að auka kyn sitt. Og þá eru líkur á að ólíkir stofnar, eldisfiskur og villtur, eignist afkvæmi saman.

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun.

„Í áhættumatinu er gert ráð fyrir því að það sé ljósastýring, eða ljós í kvíunum, sem að í rauninni platar fiskinn þannig að hann sér ekki mun á daglengdinni, þannig að hann heldur að það sé eilíft sumar og er ekki lagður af stað í kynþroska,“ útskýrir Guðni hjá Hafrannsóknastofnun.

„Þá virðist það vera að þarna hafi eitthvað klikkað þannig að þessir fiskar voru kynþroska, sluppu út stórir, tiltölulega seint að sumri, þannig að þeir fóru að leita upp í ár,“ segir hann. „Þetta eru þættir sem að áhættumatið gerði ekki ráð fyrir.“

Villtur íslenskur lax hrygnir í ám á haustin og þar klekjast seiðin. Þau alast upp í ánni í um tvö til fimm ár. Síðan ganga þau til sjávar þar sem meira æti er að finna. Í sjónum stækkar laxinn og dafnar og snýr síðan aftur upp í ána eftir eitt eða tvö ár.

Laxinn sem er alinn í kvíum við Íslandsstrendur, þar með talið sá sem slapp frá Arctic Fish, er ekki af íslenska stofninum, heldur norskur lax sem hefur verið ræktaður sérstaklega svo hann henti til eldis: hálfgert húsdýr sem nú leikur lausum hala í íslenskri náttúru.

Sjókvíaeldi á laxi af eldisstofni er bannað á stórum hluta strandsvæðisins í kringum landið.

Sjókvíaeldi á laxi af eldisstofni er bannað á stórum hluta strandsvæðisins í kringum landið, til verndar villtum laxastofnum. Þetta eru svæði þar sem fjölmargar þekktar laxveiðiár er að finna. En kynþroska strokulax veit ekkert um verndarsjónarmið, hann vill bara komast upp í á.

„Þetta er versti tími til þess að missa fisk í þessu ástandi út,“ segir Guðni Magnús hjá Fiskistofu.

„Það er það sem gerir þetta mál mjög sérstakt og alvarlegt. Það er að segja hátt kynþroskahlutfall og þá hversu stór hluti fiskanna sem munu hafa sloppið er að leita upp í árnar.“

Norski fiskivistfræðingurinn Helge Skoglund landar eldislaxi í Hrútafjarðará.

Það er svalur mánudagsmorgunn norður í Hrútafirði og fiskivistfræðingurinn Helge Skoglund og samstarfsmenn hans frá norsku rannsóknarstofnuninni Norce að hefja annasaman dag. Þeir eru þar, eins og frægt er orðið, til að leita uppi og skjóta eldislax í köldu vatninu. Og það er hálfsúrrealískt að fylgjast með þeim athafna sig.

Daginn áður hafði kafaraliðið mokað eldislaxi upp úr Hrútafjarðará. Þar veiddust 17 fiskar í sama hylnum, Stokki.

Norsku kafararnir nota skutulbyssur til að hæfa eldislaxana.

„Þetta gerist á ári þar sem mjög lítið er um villtan lax, þannig að það er í raun sérstaklega óheppilegt að þetta skuli gerast einmitt á þessu ári,“ segir Skoglund.

„Það gerir það að verkum að eldislaxinn verður stærri hluti af hrygningarstofninum, sem þýðir að þarna koma saman margir samverkandi þættir, þannig að þetta gæti haft sérstaklega óheppileg áhrif af því þetta gerist í ár.“

Það er farið hratt yfir. Ekið milli hylja, leitað að fiski og reynt að landa honum. Reynt, því þótt eldislaxinn sjáist er ekki alltaf auðvelt að ná til hans. Skutulbyssurnar drífa heldur ekki langt og áin getur verið djúp.

Eftir að hafa farið um ána var ákveðið að gera aðra atlögu að fyrsta hyl morgunsins, sem nefnist Surtur, og nú með netaveiði. Og það bar árangur.

Skoglund og samstarfsmenn hans veiddu í net í hylnum Surti í Hrútafjarðará.

„Ég held að við höfum náð góðum árangri í Hrútafjarðará,“ segir Skoglund. „En spurningin er hvort það koma enn fleiri eldislaxar upp í ána þegar líður á haustið.“

Eftir hádegishlé var keyrt vestur í Laxá í Dölum. Þar hæfðu kafararnir fleiri eldislaxa, en aðstæður voru ekki góðar: hvasst og skyggni lélegt undir vatnsborðinu.

Eldislaxi landað í Laxá í Dölum.

Guðni Magnús hjá Fiskistofu segir að aðferð kafaranna geti komið að gagni þar sem staðhættir leyfa, og veður, en það séu ýmsir hindrandi þættir. „Og alveg ljóst að við getum ekki hreinsað upp alla eldisfiska með því að nota rekköfun og skutulbyssur,“ segir hann.

Sleppi fiskur úr eldisstöð, eins og í Patreksfirði, getur það, ef umbúnaði hefur verið áfátt, leitt til sekta á stjórnarmenn og framkvæmdastjóra – og fangelsis ef sakir eru miklar. Matvælastofnun hefur vísað máli Arctic Fish til lögreglu.

Framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Stein Ove Tveiten, harmaði atvikið í viðtali við RÚV í september. „Það er afar miður að þetta hafi gerst, við erum ákaflega leið yfir því, það sem ekki á að gerast gerðist,“ sagði hann. „Á hverjum degi vinnum við að því að forðast svona nokkuð.“

„Á hverjum degi vinnum við að því að forðast svona nokkuð,“ sagði framkvæmdastjóri Arctic Fish við RÚV í september.

Tvennt vekur athygli: ljósastýringin, sem hefur áhrif á kynþroska laxanna, og eftirlit með netapokanum sem hangir niður úr kvínni.

Samkvæmt rekstrarleyfi fiskeldisstöðvarinnar á að viðhafa ljósastýringu við kvíarnar frá 20. september til 20. mars. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun leikur grunur á að fyrirtækið hafi ekki gætt að þessu.

Þegar slátrað var upp úr kvínni kom nefnilega í ljós að 35 prósent af því úrtaki sem var rannsakað voru orðin kynþroska. Til samanburðar var jafngamall lax í eldi í Arnarfirði skoðaður. Af úrtakinu sem kannað var þar reyndist enginn fiskur kynþroska.

Engin ákvæði eru í lögum um hversu oft eigi að kanna ástand netapokans. Samkvæmt eigin gæðahandbók Arctic Fish er gert ráð fyrir að netapokarnir séu kannaðar á 60 daga fresti. En samkvæmt upplýsingum Matvælastofnunar liðu 95 dagar án þess að fyrirtækið kannaði ástandið á netapokanum sem fiskarnir sluppu úr.

Ivan Vindheim, forstjóri Mowi, norsks móðurfélags Arctic Fish.

Stærsti hluthafinn í Arctic Fish er norski laxeldisrisinn Mowi, sem keypti nýlega rúmlega helmingshlut í fyrirtækinu.

Svo vildi til að forstjóri norska móðurfélagsins, Ivan Vindheim, var staddur á Íslandi í síðustu viku og talaði á ráðstefnu um fiskeldi.

„Í fullri auðmýkt segjum við að Mowi sé eitt allra fremsta sjávarafurðafyrirtæki í heimi, ef ekki það fremsta,“ sagði Vindheim á ráðstefnunni.

„Við getum rökstutt það með tölum því við mælumst númer eitt bæði í markaðsvirði og sjálfbærni.“

Kveikur óskaði eftir viðtali við Vindheim, einkum til að ræða hvað hefði gerst í Patreksfirði. Hann afþakkaði, kvaðst ekki geta rætt atvik sem lögreglan væri að rannsaka. Kveikur ítrekaði viðtalsbeiðnina á ráðstefnunni en Vindheim sagði þá jafnframt að sjónarhorn umfjöllunarinnar væri þröngt og Kveikur vildi ekki fjalla um jákvæða þætti laxeldis. Þegar kveikt var á myndavél lét hann sig hverfa.

Vindheim hafði þó rætt við Morgunblaðið og veitt viðtal fyrir fréttatíma RÚV, þar sem hann ræddi við Pétur Magnússon fréttamann.

„Þú notaðir orðið hörmungar en það er ekki vísindaleg lýsing,“ sagði hann í viðtalinu. „Það þýðir ekki að við lítum málið ekki alvarlegum augum.“

Spurður hvort fyrirtækið ætli að axla kostnaðinn við að sækja fiskinn og við umhverfisáhrif slíkra slysa, í þessu tilviki og í framtíðinni, sagði Vindheim að margir aðilar kæmu við sögu og stjórnvöld réðu því á endanum.

„En ég ítreka að við erum ábyrgt fyrirtæki. Við hreinsum að sjálfsögðu til eftir okkur,“ sagði hann.

Fyrirtækið hefur sagt að möguleg orsök gatanna sé að fóðurdreifari í kvínni hafði verið færður að brún hennar. Tvö lóð sem héngu neðan úr dreifaranum hafi að öllum líkindum nuddast við netapokann og gert á hann göt. Búnaðurinn var á þeirri hlið kvíarinnar sem göt komu á frá 8. til 20. ágúst, sem þýðir að lóðin gætu hafa nuddast utan í kvína í nærri hálfan mánuð án þess að því væri gefinn gaumur.

Eldislax sem kafarar veiddu í Hrútafjarðará.

Áhyggjur sérfræðinga af erfðablöndun eru ekki úr lausu lofti gripnar. Laxeldi í sjókvíum hefur verið stór atvinnugrein í Noregi mun lengur en á Íslandi, og þar eru margir laxastofnar nú í hættu eða horfnir. Eldið er þar áhrifaþáttur. Mestu ógnirnar sem steðja að villtum laxi í Noregi eru taldar vera strokulax úr eldi, laxalús og hnúðlax.

„Eftir að byrjað var að einblína mjög á strokulax úr eldi í ánum hefur verið gripið til skipulagðra aðgerða til að fjarlægja eldislax,“ segir fiskivistfræðingurinn Skoglund, „á sama tíma og færri stórar sleppingar á eldislaxi hafa orðið í Noregi á síðustu árum, með betri tækni til að tryggja kvíarnar og koma í veg fyrir að fiskur sleppi, sem er það mikilvægasta.“

„En veruleikinn er sá að þeir eru búnir að vera að sleppa áratugum saman,“ segir hann. „Strokulax úr eldi hefur sloppið og gengið upp í árnar og hrygnt með villta laxinum.“

Helge Skoglund með lax í Noregi.

Norska umhverfisstofnunin bendir á að strokulax geti haft áhrif á villtan lax meðal annars með genablöndun, aukinni smithættu af laxalús, sýkingum og samkeppni um hrygningarstaði, felustaði og æti.

Vindheim, forstjóri Mowi, sagði í viðtalinu við fréttamann RÚV að ef tekið væri tillit til allra þátta væri sjókvíalaxeldi afar sjálfbært.

„Það er einnig afar mikilvægt fyrir samfélögin,“ segir forstjórinn. „Ég tel því að við getum lifað með villta laxinum, einnig á Íslandi, í framtíðinni, eins og annars staðar þar sem við erum með starfsemi.“

Skoglund segir að ástandið í Noregi í dag sé þannig að erfðaáhrif frá eldislaxi finnist í yfir tveim þriðju af laxastofnum. „Og í um þriðjungi stofnanna eru áhrifin þannig að stofninn telst vera í slæmu eða mjög slæmu ástandi þegar litið er til þess hversu erfðafræðilega hreinn villti stofninn er. Þannig að þetta eru frekar alvarlegar afleiðingar,“ segir hann.

Norsku kafararnir í Laxá í Dölum.

Á Íslandi er erfðablöndun reyndar nú þegar hafin, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Hafrannsóknastofnunar sem voru birtar í sumar.

„Þannig að það að menn telji það að það lifi ekkert af þessum fiskum af, það er alla vega ekki að raungerast hér,“ segir Guðni Guðbergsson hjá Hafrannsóknastofnun.

„Við erum að sjá að þeir eru búnir að klára sinn lífsferil og eru komnir aftur inn í árnar, til þess að hrygna þá með villtum stofnum,“ segir hann.

Skoglund segir að það sé á hreinu að staðan sé að það ætti að koma í veg fyrir atvik sem þessi. „Og að koma í veg fyrir að svona lagað gerist ár eftir ár. Á vissan hátt er mikilvægast að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur,“ segir hann.

Guðni hjá Hafrannsóknastofnun segir að ef eldislaxarnir blandist inn í íslenska stofna minnki líffræðilegur fjölbreytileiki, sem beri að viðhalda. Hann bendir á að mikilvægir erfðaeiginleikar geti horfið: „Aðlögunarhæfni minnki, stofnarnir breytast og þar með stofnstærð til lengri tíma.“

Hluti eldislaxanna sem safnast hafa upp undanfarið í frystigeymslu Hafrannsóknastofnunar í Hafnarfirði.

En hvað með náttúruval? Velst erfðaefni eldislaxins mögulega út til lengri tíma? „Ef þetta væri einstakur atburður til dæmis, þá myndi náttúruvalið virka til þess að velja þá út,“ segir Guðni.

„Ef uppsprettan er hins vegar stöðug, það eru alltaf að koma aðkomufiskar inn og þeir eru að blandast, þá smám saman þynnist út erfðaefnið í þessum villtu stofnum og þeir verða þá líkari og líkari eldisstofnunum,“ segir hann.

Guðni Magnús hjá Fiskistofu telur að enginn geti sagt fyrir um það nákvæmlega með vissu hvaða afleiðingar blöndun muni hafa.

Eldisstöð Arctic Fish í Patreksfirði.

Eitt er að eldisfyrirtækið hafi hugsanlega gerst brotlegt, sem lögreglurannsókn leiðir væntanlega í ljós. Annað er hvort stjórnsýsla og eftirlit hafi verið í lagi. Og miðað við nýlega svarta skýrslu Ríkisendurskoðunar blikka þar viðvörunarljós.

Stjórnsýsla og eftirlit hafi verið veikburða og brotakennt og ekki ráðið við vöxtinn í eldinu.

„Hér voru menn að fara býsna hratt,“ segir Guðni hjá Hafrannsóknastofnun. „Það snerist mjög mikið um það að fá leyfi hratt og vel og mönnum lá ansi mikið á.“ Hann segir að eitt af því sem starfsfélagar hans í Noregi segi þegar þeir séu spurðir hvað þeir hefðu gert öðruvísi ef verið væri að hefja sjókvíaeldi þar sé að fara hægar.

Sjókvíaeldi hefur haft áhrif á norska laxastofna.

Svo er það eitt megintækið til að meta hversu mikið laxeldi Ísland þolir án óviðunandi umhverfisskaða: áhættumat erfðablöndunar. Eftir slysið í Patreksfirði tilkynnti Hafrannsóknastofnun að matið yrði endurskoðað í ljósi þess að ekki hafði verið gert ráð fyrir að svo mikið af kynþroska eldislaxi gæti gengið upp í ár landsins. Guðni segir að í raun þurfi að aðlaga áhættumatið að atburðunum sem séu búnir að koma fram.

Sjókvíaeldi hefur skapað atvinnu, meðal annars á Vestfjörðum, landshluta sem lengi hefur átt undir högg að sækja. Í deilum um sjókvíaeldi eru miklir hagsmunir undir, og það má kannski segja að þar togist á tvenns konar landsbyggðarsjónarmið: uppbygging fiskeldisstöðva og svo hagsmunir landeigenda sem hafa tekjur af stangveiði. En hvað með náttúruna sjálfa?

„Það náttúrulega snýr að þessum líffræðilega fjölbreytileika,“ segir Guðni, „og hvað við í okkar kynslóð getum leyft okkur að ganga á umhverfið, á náttúruna, þannig að við völdum breytingum sem eru óafturkræfar og gerir það þá að verkum að komandi kynslóðir geta ekki gengið að því sama,“ segir hann.

„Sem þýðir það að það sem við erum að stunda núna er ekki sjálfbært.“