Aldrei samar eftir höfuðhögg

Nýjar rannsóknir íslenskra vísindamanna sýna glögglega að höfuðhögg og jafnvel heilahristingur hafa veruleg áhrif á mjög stóran hóp íþróttakvenna, sem margar hverjar verða aldrei samar. Fátt bendir til þess að áhrifin á karla séu minni, þótt hormónabúskapur kynjanna sé ólíkur.

Hnjask í íþróttaiðkun er ekki óalgengt. Íþróttamenn fá á baukinn, boltann í hausinn eða skella á mótherja sína í leikjum. Að það hafi einhver áhrif kemur kannski ekki á óvart. En það þarf ekki þúsund eða hundrað höfuðhögg til. Það þarf ekki einu sinni eitt höfuðhögg til - heilahristingur nægir.

Heilahristingur er nákvæmlega það sem nafnið segir til um. Högg á höfuðið eða líkamann veldur því að heilinn hristist inni í höfuðkúpunni. Í flestum tilvikum eru afleiðingarnar hverfandi, en stundum ekki.

Heilahristingur er mun algengari meðal íslensks íþróttafólks en talið hefur verið og afleiðingarnar alvarlegri, líkt og spánýjar íslenskar rannsóknir sýna.

Daglegur höfuðverkur í áratug

Sara Hrund Helgadóttir knattspyrnukona rotaðist illa í leik fyrir tíu árum, þá ómeðvituð um hvað heilahristingur var og einkenni hans. Síðan þá hefur hún verið með höfuðverk daglega, í tíu ár.

Fyrir tveimur árum var Sara einn þekktasti leikmaðurinn í úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Hún hafði ekki hátt um höfuðverkinn og harkaði af sér, þar til í örlagaríkum leik í ágúst 2017, þegar hún fékk boltann í höfuðið sem að batt enda á feril hennar.

„Ég þurfti að hætta í fótbolta og vinnu og skóla. Ég fór algjörlega í veikindaleyfi. Það var mjög erfiður og dökkur tími. Þá bættist í þennan einkennalista, þetta voru ekki bara þessir höfuðverkir. Þá byrjaði ég að fá minnistruflanir, missti jafnvægið, var með daglegan svima. Höfuðverkirnir voru mjög miklir. Og mikið úthaldsleysi, þannig að lífsskilyrðin urðu mjög slæm eftir það höfuðhögg.“

Einkennin sem Sara lýsir eru ekkert einsdæmi, þótt ekki sé mikið rætt um þau innan íþróttahreyfingarinnar.

Algjör væll

Hafrún Kristjánsdóttir, doktor í sálfræði og sviðsstjóri íþróttafræðisviðs Háskólans í Reykjavík, var um langt árabil í fremstu röð handboltakvenna og þekkti svona frásagnir.

„Ég spilaði handbolta sjálf og fékk nokkrum sinnum heilahristing en pældi ekkert í þessu. Fannst þetta algjör væll.”

Nokkrum árum síðar, þegar hún var orðin háskólakennari, vaknaði áhugi hennar á að skoða fyrirbærið betur. Nemendur hennar skrifuðu lokaritgerð um heilahristing og niðurstöður þeirra komu henni í opna skjöldu.

„Þá í rauninni sá ég hversu alvarlegt þetta getur verið og hve þekkingin er lítil og hvernig við bregðumst innan íþróttahreyfingarinnar, og eflaust bara í samfélaginu, illa og lítið við heilahristingum. Fyrst og fremst er þetta þekkingarleysi. Það er þekkingarleysi hjá þjálfurum. En alveg líka hjá heilbrigðisstarfsfólki.“

(Mynd: Ingvar Haukur/Kveikur)

Ákváðu að rannsaka fyrirbærið

Hafrún og María Jónsdóttir taugasálfræðingur auglýstu á Facebook eftir íþróttakonum á aldrinum 18-45 ára úr handbolta, fótbolta og körfubolta, íshokkí og bardagaíþróttum til að taka þátt í rannsókn. Viðbrögðin létu ekki á sér standa.  

„Þetta voru sem sagt 600 konur, sirka, sem svöruðu. Af þeim voru 65 prósent með heilahristingssögu. Það var hærra hlutfall en við héldum. Það tóku fleiri þátt en við bjuggumst við og það voru fleiri sem við þurftum að kalla inn í viðtöl en við bjuggumst við,“ segir Hafrún.

Hún segir að afleiðingar höfuðhögga og heilahristings geti verið margvíslegar. „Í flestum tilfellum, þegar fólk fær heilahristing, þá lagast það og verður allt í lagi. En í svona tíu til tuttugu prósentum tilfella, jafnvel aðeins meira, að þá geturðu fengið það sem er kallað „post concussion syndrome“.“

Því fylgja ýmsar afleiðingar. „Höfuðverkur, geðrænir erfiðleikar, ljósfælni, erfiðleikar með minni, að skipuleggja sig og svo framvegis. Það eru fyrstu afleiðingarnar í þessu, sem koma kannski nokkrum vikum, jafnvel strax, eftir heilahristing. En svo geta verið langtímaafleiðingar sem koma bara ekkert fyrr en árum, mögulega áratugum eftir þessi högg.“

„Þegar maður ber saman þessar konur á þunglyndis- og kvíðakvörðum, þá er marktækur munur þar á. Þannig að þessi hópur sem heild, sem hefur sögu um heilahristing, það er verri líðan þar. Það þýðir ekkert endilega að þær séu allar með alvarlegt þunglyndi. Þær hafa þessi einkenni,“ segir María um hópinn sem tók þátt í rannsókninni.

Heilahristingur getur truflað hormónaframleiðslu

Einkenni höfuðhögga og heilahristings eru ekki bara andleg, heldur getur hristingurinn haft áhrif á starfsemi heiladingulsins, sem stýrir hormónaframleiðslu í líkamanum.

Helga Sigurjónsdóttir, innkirtlalæknir og prófessor við Háskóla Íslands, og Lára Claessen, læknir og doktorsnemi, kanna hormónatruflanir hjá konunum í rannsókninni.

Helga segir að heiladingulsbilun geti orðið jafnvel við smávægilegt hnjask og vægan höfuðáverka, enda líffærahlutar heilans fíngerðir. Þá er ekki fyllilega ljóst hvað nákvæmlega gerist í heilanum við höfuðhögg og er það meðal þess sem rannsakendur leitast við að svara.

Áhrif höfuðhögga og heilahristings lítt rannsökuð

Áhrif höfuðhögga og heilahristings eru furðu lítt rannsökuð. Áhrifin á heiladingulinn eru svo að segja ekkert rannsökuð og sannarlega ekki áhrifin á konur.

Helga segir ekki nægilega þekkingu á höfuðáverkum, heilahristingum og afleiðingum þeirra innan heilbrigðiskerfisins hér á landi.

„Það er ekki þannig að allir átti sig á því hvað maður þurfi að meta. Það heyrum við á sögunum frá konunum okkar sem hafa þurft að leita eftir heilbrigðisþjónustu eftir höfuðáverka í sinni íþrótt. Þær koma kannski inn með sjúkrabíl rotaðar og það er ekki mælt eitt einasta hormón og ekki heldur bent á að fylgja því eftir. Já, þetta er vanþekking,“ segir hún. Hún segir að vanþekkinguna megi að hluta rekja til þess hversu lítið höfuðhögg hafi verið rannsökuð.  

Kannast jafnvel ekki við að hafa fengið heilahristing

Það er ekki síður merkilegt að þessar ríflega þrjú hundruð konur sem fóru í nánari rannsókn hjá vísindateyminu höfðu sjálfar margar hverjar miklar efasemdir um að nokkuð væri að, líkt og Lára Claessen, einn rannsakenda talar um.

Hún segir að jafnvel þótt rannsakendur hafi lagt fyrir konurnar spurningalista á netinu, meðal annars um heilahristingseinkenni, og þær búnar að fara í tveggja klukkustunda viðtal hjá sálfræðinemum, þar sem aftur er farið yfir einkennin, þá séu þær samt ekki vissar um að þær hafi fengið heilahristing, þegar komið er að þriðju síunni.

„Stundum jafnvel finnst þeim þær vera að eyða tíma mínum, eða tíma okkar, því þær eru ekki sannfærðar um að þær hafi fengið heilahristing,“ segir Lára.

Tengdi einkennin ekki við höfuðhöggin

Þegar Kristjana Arnarsdóttir, íþróttafréttamaður á RÚV, tók eftir því að auglýst væri eftir konum til þátttöku í rannsóknina, ákvað hún að skrá sig í því skyni að afla sér upplýsinga fyrir fréttavinnslu um málið síðar meir. Í ljós kom að rannsóknarefnið var tengdara henni en hún taldi í fyrstu.

„Þegar ég er upp úr svona 23-24 aldri, þá fer ég að finna fyrir streitueinkennum, álagseinkennum, miklum höfuðverk, kvíða og öðru sem bara hellist yfir mig á tiltölulega skömmum tíma. Ég tengdi þetta alltaf við álag í vinnu eða námi eða eitthvað slíkt.“

(Mynd: Ingvar Haukur/Kveikur)

„Þetta er um það leyti sem ég er að klára minn fótboltaferil. Ég ákvað að segja þetta gott og eftir að ég hætti, þá fara að koma fram alls konar einkenni sem ég tengdi aldrei við einhvers konar íþróttaiðkun. Það hvarflaði ekki að mér.“  

Þetta sem Kristjana vísar til, er breytt hormónastarfsemi, sem að öllum líkindum má rekja til höfuðhögga á íþróttaferlinum.  

„Þá fer ég að gera mér grein fyrir því að þetta sé kannski að hafa einhver áhrif á mig líka. Verandi fótboltakona til tuttugu ára fór ég upp í ótal skallaeinvígi og lenti í ótal höfuðhöggum, án þess þó að gera mér grein fyrir því að þetta væri einhvers konar vandamál.“

Heilahristingur eykur líkurnar á öðrum

Vísindamennirnir sem standa að rannsókninni segja að umfang heilahristings á Íslandi sé nánast óþekkt. Það þarf ekki að horfa lengi á handbolta- eða fótboltaleik til að sjá vankaðan leikmann. Sá sem fær annað högg eða slink fljótlega aftur, er í hættu.

Í þessu kennslumyndbandi frá KSÍ má sjá einkenni heilahristings

„Það er ekkert auðvelt að meta heilahristing. Það er kannski vandinn í þessu. En ef þú færð högg á höfuð eða högg á líkamann, þar sem höfuðið slengist svona til, bara ef þú finnur höfuðverk, að þig sundlar aðeins eða finnur aðeins breytingu á þér, þá er líklegt að þú hafir fengið heilahristing,“ segir Hafrún, einn rannsakenda.

Í kjölfarið fari íþróttafólk eftir viðmiðum sem íþróttafélög gefa út. „Það þýðir að í flestum tilfellum, að þá ertu ekki að æfa í tvær vikur og þú þarft að trappa álagið upp á ákveðinn hátt,“ segir hún.

„Fyrir íþróttamenn er þetta svo mikilvægt af því að ef þú ert búinn að fá einn heilahristing, þá ertu í aukinni hættu á að fá annan,“ segir María, taugasálfræðingur sem var meðal rannsakenda.

„Ástæðan er sennilega sú, að ef þú ferð inn á eða ferð að spila eða æfa, áður en þú ert búinn að jafna þig, þá ertu kannski ekki alveg í eins fínu formi og þú varst. Þú ert ekki jafngóður kannski að meta fjarlægðir. Jafnvægið er ekki eins gott. Þannig að þú ert í meiri hættu. Eftir því sem þú færð fleiri heilahristinga, því verra. Sérstaklega ef þeir eiga sér stað áður en þú ert búinn að jafna þig af þeim fyrsta sem þú færð.“

Auknar líkur á öðru höggi og alvarlegri afleiðingum

Líkurnar á öðru höggi eru ekki bara meiri, heldur margfaldast áhrifin og líkurnar á alvarlegum afleiðingum. Höggið þarf ekki að vera öflugt líkt og Guðrún Ósk Maríasdóttir, fyrrverandi markmaður Stjörunnar, komst að. Guðrún var besti markmaður í efstu deild handboltans og valin besti leikmaður úrslitakeppninnar 2017.

Guðrún var að keppa í handbolta á Selfossi þar sem hún fær bolta í höfuðið af línufæri. Daginn áður hafði hún gengið á vegg þar sem hún var að ná í dóttur sína á leiksvæði. Hún fann ekki mikið fyrir því og fannst þetta klaufalegt.

(Mynd: Ingvar Haukur/Kveikur)

„Svo er það ekki fyrr en svona síðustu tíu mínúturnar í seinni hálfleik að ég fer að sjá stjörnur og allt í móðu. Ég fer að setjast niður á meðan þær eru í sókn og halla mér upp að stönginni. Þau náðu ekki að kalla á mig, ég svaraði ekki, þannig að allir héldu að ég væri mjög einbeitt. Eftir leikinn verð ég bara að setjast niður út af því að ég missi sjónina, sé bara allt svart. Þá er bara kallað á lækni, athugað hvort það sé læknir í húsinu og sjúkrabíll kemur,“ segir Guðrún.  

Eftir rannsóknir á Selfossi og svo á Landspítalanum var Guðrún Ósk útskrifuð með vægan heilahristing. Hún var ekki marin eða beinbrotin. Félagarnir hvöttu hana til að drífa sig aftur í boltann, sem hún vildi raunar sjálf, en hægt og rólega rann upp fyrir henni hver staðan væri. Hausverkurinn fór ekki, frekar en sjóntruflanirnar, sviminn og að lokum varð hún að hætta í handboltanum og vinnunni.

Liðið gengur fyrir

„Ég hef svo sem gengið í gegnum ýmislegt á ævinni en þetta hefur reynt mjög mikið á, bæði á sjálfa mig og fjölskylduna og alls konar hliðar.“

„Maður hefur alltaf þjösnast í íþróttunum og það er alltaf liðið sem gengur fyrir. Það er það sem er kennt. Maður á að fórna sér fyrir félagana og liðið og allt þar, þannig að maður hefur gert það. Þá heldur maður bara svolítið áfram að gera það. Sem er pínu brenglað. Ég hef oft hugsað út í það hvað handboltinn í rauninni skilur lítið eftir sig miðað við hvað maður eyðir ótrúlega miklum tíma og afli í þetta sport.“

Í ofanálag var Guðrún Ósk tekjulaus. Heimilistryggingin nær ekki til kappleikja og liðið var bara tryggt fyrir eigin tapi – að sögn, þar sem tryggingafélög vildu ekki tryggja leikmenn. Í lok leiktíðarinnar sagði Stjarnan upp samningnum við hana.  

Líðan hennar er mjög misjöfn í dag. „Ég næ alveg að lifa þannig séð eðlilegu lífi. Ég er byrjuð að vinna og er farin að æfa. Ekki eins og ég gerði og ekki handbolta, en ég er farin að geta hreyft mig án þess að fá alveg dúndrandi höfuðverk. Þótt hann komi alltaf.“

Daglegur hormónaskammtur skipti sköpum

Þegar Sara Hrund fékk síðasta höfuðhöggið fyrir tveimur árum var engin rannsókn í gangi og erfitt að finna aðstoð eða þjónustu á Íslandi. Sara hafði áður fengið höfuðhögg í leik í Bandaríkjunum, þar sem hún var í háskólanámi. Þá horfði málið öðruvísi við.

„Þar eru öll viðbrögð svo hárrétt. Það eru leiðbeiningar um hvað á að gera. Þær eru vissulega hér en þeim hefur ekki verið framfylgt. Það er strax farið með þig á stofnun sem sér um höfuðhögg og þar hittirðu alla þá aðila sem þú þarft að hitta. Þar kynntist ég í fyrsta sinn meðferð og að fara í sjúkraþjálfun við höfuðhöggi. Það er eitthvað sem ég hafði aldrei heyrt um áður hérna heima,“ segir Sara.

Að lokum komst hún í samband við fólk sem starfar á Grensásdeild Landspítala og fékk þar aðstoð. Stóra breytingin kom í kjölfar þess að hún komst í samband við Hugrúnu, Maríu, Helgu og Láru og þær kynntu hana fyrir þeim hormónaröskunum sem geta orðið við höfuðhögg.

(Mynd: Ingvar Haukur/Kveikur)

„Nú fæ ég daglegan hormónaskammt sem að ég sprauta mig sjálf með. Eftir það jókst úthaldið til muna og ég fékk lífið til baka. Áður fyrr var ég kannski að sofa tólf tíma á nóttu og lagði mig að minnsta kosti tvisvar sinnum á dag. Ég fer á tólf vikna fresti í botox-sprautur, í háls og höfuðið og smá í ennið, til þess að slaka á vöðvunum og minnka höfuðverki. Svo er annað stungulyf sem ég sting einu sinni í mánuði líka, svo maður er búinn að vera hálfgerður nálapúði upp á síðkastið.“

Meðferð Söru vegna höfuðáverkanna er fjölþætt og hefur skilað góðum árangri. „Það er að fá þessi hormón og byggja upp þol aftur og úthald. Svo að vera reglulega í sjúkraþjálfun. Það hjálpaði mér til að mynda með jafnvægið og svimann. Þar gerir maður líka augnæfingar til þess að hjálpa til með þetta allt saman sem að veldur þessu og að þjálfa upp minnið.“

Framtíðin björt

Sara Hrund tók þátt í Reykjavíkurmaraþoninu nú, tveimur árum eftir höggið sem sló hana út af laginu. Heilsan er ekki eins og hún var þá, en miklu betri en fyrir ári.

„Ef ég miða við fyrir ári síðan þegar maraþonið var í gangi, og ég komst ekki einu sinni út að styðja, þá er þetta gífurlega mikill sigur.“  

„Maður vonar að þessir höfuðverkir minnki. Ég er ennþá að glíma við þá daglega. En í stóru myndinni eru höfuðverkirnir ekkert svo stórir. Þannig að framtíðin er björt. Maður kann að meta litlu hlutina miklu betur og maður bara dílar við þessa höfuðverki og brosir í gegnum það,“ segir Sara Hrund.  

Tengsl á milli áverkaheilabilunar og höfuðáverka

Áverkaheilabilun eða CTE er þekkt úr erlendum rannsóknum á íþróttamönnum, til að mynda bandarísku ruðningsköppunum en líka breskum fótboltamönnum. Þeir verða fyrir heilabilun, oft langt um aldur fram, og tíðni heilabilunar meðal þeirra er mun hærri en meðal óbreytts almennings.

Þær sem stýra rannsókninni segja vísindin ekki afgerandi en óneitanlega sé það tilfinning þeirra, að tengsl séu milli höfuðáverka og áverkaheilabilunar, eða ótímabærs alzheimers. Áverkaheilabilun er hins vegar einungis hægt að rannsaka með krufningu.

Ímynd hreystinnar

Jóhannes Atlason, fyrrverandi fótboltamaður, hefur alla tíð verið virkur. Eftir að leikmannsferlinum lauk tók við þjálfaratímabil auk þess sem hann var leikfimikennari. Hann er ímynd hreystinnar að sjá.

Fyrir nokkrum árum tók Lára Rafnsdóttir, kona Jóhanns, eftir breytingu. Þau leituðu til læknis, og niðurstaðan var afgerandi. „Við komum út í bíl og hann náttúrulega keyrir, eins og hann gerir ennþá, sest við stýrið og segir: Jæja, ég er víst með alzheimer,“ segir Lára.

„Maður man alveg með hverjum maður spilaði landsleik 1970. Maður man það allt saman. Og leikina jafnvel. En svo man maður kannski ekki hver hringdi í morgun,“ segir Jóhannes.  

Höfuðhöggin tilheyrðu íþróttinni

Jóhannes hefur óþægilegan grun um að veikindi hans og ótalmargra félaga hans tengist íþróttunum og höfuðhöggum.

„Maður er búinn að horfa upp á félaga sína fara eins og niður skíðabrekku, hratt. Mér finnst þetta vera eins og faraldur, hreinlega, núna. Það er fjöldi kunningja sem er kominn með þetta. Sumir fara hratt, aðrir fara hægar,“ segir Jóhannes.

„Ég gleymi því aldrei. Frændi minn. Helgi Dan, þegar hann var í Skagamarkinu, sparkaði út. Ég lenti sjaldnast í því sem hægri bakvörður. Það voru miðverðirnir sem tóku þessa bolta. En einn fór út á kant og hann sparkaði alveg upp í skýin, karlinn. Hátt og langt. Ég ráfaði bara um völlinn í tvær mínútur. Bara rotaðist. Blautur leðurbolti,“ segir Jóhannes Atlason, fyrrverandi fótboltamaður.

Þetta þótti á þeim tíma ekkert mál. „Ég hugsa örugglega öðruvísi um þetta núna en þetta sem mér fannst vera væll, fyrst. Stelpur voru að hálfrotast í skallaboltum og svona. Manni fannst þetta vera bara væll. Þetta bara tilheyrði þessari íþrótt.“

Fæstir ræða veikindin opinskátt

Fyrir tveimur árum, eftir að Sara Hrund fékk síðasta höfuðhöggið, tengdi hún einkennin strax við höggið. Í kjölfarið steig hún fram og greindi frá líðan sinni. Hún segir viðbrögðin hafa verið neikvæð í fyrstu og henni sagt að bíta á jaxlinn.

„Fólki blöskraði dálítið við það. Fólk var ekkert mikið að tala um höfuðhögg og einkennin. Og ég steig fram því ég fann fyrir pressu um að koma aftur inn á völlinn. Bara strax á dögunum eftir að ég lenti í þessu.“

„Við ætlum okkur að vera svo miklir töffarar, það er ekkert að okkur. En það sér enginn á manni þegar maður er að kljást við afleiðingar þessara höfuðhögga,“ segir Sara Hrund.

(Mynd: Ingvar Haukur/Kveikur)

„En um leið og ég steig fram með þetta, þá voru viðbrögðin góð. Samt sem áður var fólk dálítið hrætt hvernig það ætti að nálgast mann og hvað þau ættu að gera. Þannig að maður svona, fór að heyra allt í einu ekki neitt frá klúbbnum og fólkinu í kring. Það var dálítið erfitt.“

Þegar Sara Hrund fór að skrifa um líðan sína á netið fylltist skilaboðahólf hennar á Facebook af fólki sem deildi reynslu hennar en hafði ekki áður opnað sig með það „Það var magnað að sjá það, hvað það voru margir í sömu sporum og ég. Mér fannst ég vera svo ein.“  

Breytingar þurfa að eiga sér stað

„Innan íþróttaheimsins þá þarf maður að harka af sér og maður á ekkert væla og svo framvegis, sem er alveg kannski eðlilegt upp að einhverju marki. Þegar meiðslin sjást ekki á þér og þú getur alveg labbað og talað og þess háttar, þá er þetta einhvern veginn þannig að það er miklu erfiðara að segjast vera meiddur þegar það sést ekki,“ segir Hafrún Kristjánsdóttir.  

Sjálf segist hún myndu senda börn sín í allskyns íþróttir, en telur að ýmislegt megi betur fara. Aðrir viðmælendur tóku í sama streng og vildu aukna fræðslu og ákveðnari viðbrögð. Til að mynda ættu skallaæfinar og slíkt að heyra sögunni til í yngri flokkum.

„Það mætti kannski breyta reglum þannig að, til dæmis að þegar leikmenn fá heilahristing eða mögulegan heilahristing, þá hafi læknir eða sjúkraþjálfari meiri tíma til þess að meta. Fái fimmtán mínútur eða eitthvað slíkt og það getur einhver annar komið inn á. Í handbolta og körfubolta þá þarf kannski að hafa harðari refsingar við því ef að þú gefur leikmanni, að minnsta kosti vísvitandi, höfuðhögg,“ segir Hafrún.

Sannanir séu nógu afgerandi til þess að reglum verði breytt. „Við erum bara að tala um að breyta reglum lítillega og auka þekkingu til þess að vernda fólk fyrir afleiðingum sem geta haft veruleg áhrif á þeirra líf. Það er ekki verið að tala um að umbylta íþróttunum,“ segir hún.

„Mér finnst þetta augljóst. Mér finnst þetta augljóst út frá þessum tölum sem við höfum í þessari rannsókn og öðrum rannsóknum. Svo kem ég nú sjálf úr íþróttunum svo ég hef bara vinkonur mínar í kringum mig sem hafa ekki getað stundað vinnu. Hafa bara lent í því ansi illa.“

Flestir hafa fengið höfuðhögg um ævina, án afleiðinga. Þeir sem hins vegar telja sig glíma við einkenni höfuðáverka ættu að hafa samband við heimilislækni.