„Háð því að eiga öfluga foreldra að fá góða  þjónustu snemma“

Foreldrar þurfa að berjast fyrir því að ná sínu fram innan barnaverndarkerfisins og þurfa að vera þeim mun öflugri til að fá góða þjónustu snemma. Þetta segir framkvæmdastjóri hjá Barna- og fjölskyldustofu. Hann telur að það séu mistök að halda úti hagnaðardrifnum meðferðarúrræðum.

„Háð því að eiga öfluga foreldra að fá góða  þjónustu snemma“

Móðir barns með fjölþættan vanda lýsti því í Kveik hvernig hún hefur komið að lokuðum dyrum alls staðar innan kerfisins og vandi barnsins aukist á meðan. Og Barna- og fjölskyldustofa er meðvituð um baráttu foreldra við kerfið.

„Það er háð því að þú eigir mjög öfluga foreldra að þú fáir góða þjónustu snemma,“ segir Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu.

Kona sem lamaðist eftir alvarlega líkamsárás af hálfu ungmennis í Vinakoti á síðasta ári lýsti því sama og móðirin: algjöru úrræðaleysi fyrir börn með fjölþættan vanda.

„Ég held að hluti af því sem við erum að gera vitlaust er að við erum með þetta sem einkarekin úrræði. Það er bara mín persónulega skoðun,“ segir Funi.

„Vandinn er að þetta er hagnaðardrifið,“ segir Funi. „Þá koma upp aðstæður þar sem er mun meiri hætta, eins og við höfum séð í einhverjum tilvikum, þar sem starfsmenn eru einir þar sem hafa þurft að vera tveir eða þrír og jafnvel skilgreindir með þjónustu þar sem þeir þurfa að vera með tvo eða þrjá með sér öllum stundum.“

Foreldrar þurfa að berjast

Guðrún Jack segir foreldra þurfa að berjast fyrir öllu.

Ástandið eins og það blasir við rannsóknarlögreglukonunni Guðrúnu Jack, sem hefur látið málaflokkinn sig varða, er skýrt.

„Mér finnst vanta skilning oft á tíðum í kerfinu,“ segir hún. „Þú þarft að berjast fyrir nánast öllu.“

„Það þarf að vera umgjörð utan um hvert barn sem á við fjölþættan vanda að stríða,“ segir Guðrún. „Og að foreldri eða sá sem sér um barnið þurfi ekki að berjast hvern einasta dag fyrir hverju einasta sem barnið á rétt á. Það finnst mér bara réttur barnsins,“ segir Guðrún.

Aðspurður segir Funi að þessi gagnrýni sé réttmæt: „Ég held að það sé alveg rétt. Ég held að þetta sé réttmæt gagnrýni,“ segir hann.