Brestir í kerfi fyrir börn í vanda: „Þetta þurfti aldrei að fara svona langt“

Börnum og ungmennum með fjölþættan vanda hefur stórfjölgað á síðustu árum og örfá einkafyrirtæki fá milljarða króna fyrir að sinna þessum hópi. Engu að síður er ítrekað kvartað undan þjónustu- og þekkingarleysi og öryggi bæði starfsfólks og skjólstæðinga er stefnt í hættu.

Þetta var bara venjulegur dagur, segir Tinna Guðrún Barkardóttir þegar hún er beðin um að lýsa því þegar hún mætti til vinnu á vistheimilinu Vinakoti þann 23. mars í fyrra. Vinakot er fyrir börn og ungmenni með fjölþættan vanda, eitt af þremur slíkum úrræðum sem öll eru einkarekin.

Tinna hefur lengi starfað með börnum og ungmennum og þennan dag var skjólstæðingur hennar 18 ára stúlka. Stúlkan var talin vera hættuleg því hún hafði ítrekað sýnt ógnandi og ofbeldisfulla hegðun. Tveimur mánuðum áður hafði hún veist að starfsfólki Vinakots. Það áttu því alltaf að vera að minnsta kosti tveir starfsmenn með henni.

En þennan dag voru veikindi hjá starfsfólki og eftir samtal við eiganda Vinakots var ákveðið að Tinna skyldi vera ein með stúlkunni.

Tinna var ein með stúlkunni, þvert á það sem hafði verið samið um.

„Ég var komin í úlpu. Við ætluðum sem sagt að fara út í búð,“ segir Tinna. Stúlkan vildi hins vegar fara ein í búðina og vildi fá innkaupakort Vinakots. Það var ekki í boði. Stúlkan brást ókvæða við.

„Ég verð eiginlega svolítið hissa eða já - búin að þekkja þennan einstakling mjög lengi. Alveg frá því að ég byrjaði að vinna þarna. Búin að taka hana í mjög mörg viðtöl. Og hún byrjar að hrinda mér upp við vegg þannig að ég byrja svolítið að skella höfðinu í útidyrahurðina. Og manneskjan finnur að hún hefur vald yfir mér. Miklu stærri og sterkari en ég,“ segir Tinna.

„Svo fer hún með mig inn í herbergi, sem er starfsmannaherbergi inni í íbúðinni og hendir mér þar í sófa sem er inni í herberginu. Og byrjar þar að mæla við - ef hún ýtir í ennið á mér, hvort hún nái að skella með höfuðið á mér í gluggakistuna. Og fyrst gerir hún þetta nokkrum sinnum þannig að ég næ að spyrna á móti. Þá verður hún reið.“

Tinna eftir heilablóðfall 2015. Þá var talið nær öruggt að hún gæti aldrei gengið aftur.

Tinnu var vart hugað líf eftir heilablóðfall árið 2015. Hún lamaðist þá og talið var nær öruggt að hún gæti aldrei gengið aftur. Hún afsannaði það hins vegar, hóf að stunda útivist, hlaup og líkamsrækt en náði ekki kröftum í vinstri handlegg.

Eftir stífa endurhæfingu og meðferðir eftir heilablóðfallið 2015 tókst Tinnu að stíga upp úr hjólastólnum og stundaði síðan líkamsrækt, hlaup og útivist.

„Hún heldur þarna góðu hendinni minni og tekur af mér símann og hendir honum ofan í klósettið. Þannig að ég er ekki með síma á mér, get ekki látið neinn vita. Eftir þetta fer hún að rífa mig upp á hárinu og berja mér í gluggakistuna,“ segir Tinna.

„Tekur í báða ökklana á mér og rífur mig líka á lömuðu hendinni fram úr sófanum, dregur mig eftir gólfinu og er að segja við mig að hún sé að niðurlægja mig.“

Fer um hana þegar hún rifjar upp rólegt yfirbragð stúlkunnar

Tinna telur að árásin hafi staðið yfir í um tvær klukkustundir. Enginn var nálægt og því enginn sem gat hjálpað henni. Tinna var alein, þvert á það sem samið hafði verið um.

Hún segist ekki hafa verið óttaslegin meðan á árásinni stóð en það fer um hana þegar hún rifjar upp rólegt yfirbragð stúlkunnar.

„Hún er að segja við mig, alveg sallaróleg, þar sem hún horfir bara í augun á mér, beygir sig í hnjánum. Og segir við mig: Jæja Tinna, ertu tilbúin í næstu umferð? Svo finn ég að ég er að missa máttinn af því ég þekki tilfinninguna hvernig það er að lamast, og á endanum þá fæ ég val: Hún gefur mér val. Og valið stendur á milli þess að hún drepi mig, eða þá að hún fái að bjarga mér og fái þá að vera hetjan í þessu og fái að bjarga mér.“

Tinna valdi að lifa.

„Þá er ég orðin lömuð, sem sagt, í vinstri hliðinni. Af því að þá finn ég að ég reyni að stíga í fótinn og finn að hann er alveg lamaður. Og þá eiginlega bara öskurgrenjaði ég.“

Þegar lögreglan kom á staðinn var stúlkan ekki handtekin. Tinna gagnrýnir þetta. Stúlkan var reyndar aldrei handtekin, þótt hún hafi verið orðin 18 ára og málið sé rannsakað sem meiriháttar líkamsárás og frelsissvipting.

Tinna lýsir því hvernig stúlkan henti henni í sófa og skellti höfði hennar í gluggakistuna.

Ekki fyrsta alvarlega árásin í Vinakoti

Kveikur hefur upplýsingar um að þetta hafi ekki verið í fyrsta sinn sem stúlkan veittist að starfsfólki. Aðalheiður Þóra Bragadóttir, eigandi Vinakots, segir þó í skriflegu svari að stúlkan hafi ekki sýnt viðlíka ofbeldishegðun áður.

Þetta mun heldur ekki vera fyrsta alvarlega líkamsárásin í Vinakoti: Árið 2016 hlutu tvær konur sem unnu þar meðal annars höfuðáverka og rifbeinsbrot þegar ráðist var á þær. Báðar voru óreyndar í starfi. Aðalheiður segir að ekki hafi verið talin þörf á að starfsmenn hefðu öryggishnapp, en það hafi breyst eftir að ráðist var á Tinnu.

Vinakot gerir samninga við sveitarfélagið um hvernig þjónustu skuli háttað við hvert og eitt barn eða ungmenni. Útgjöld sveitarfélagsins hlaupa oft á tugum milljóna króna á ári. Stúlkan sem réðist á Tinnu var með þjónustusamning við Vinakot í gegnum Hafnarfjarðarbæ.

En veit bærinn og sveitarfélögin almennt raunverulega hvaða þjónusta er veitt hverju sinni?

„Samningarnir eru mjög skýrir,“ segir Rannveig Einarsdóttir, sem starfaði þá sem sviðsstjóri velferðarsviðs Hafnarfjarðarbæjar. „Þar kemur mjög skýrt fram hver þjónustan á að vera, hver þjónustuþörfin er, og hvernig á að veita þá þjónustu.“

Rannveig Einarsdóttir segir að sveitarfélagið treysti því að samningar séu efndir.

Rannveig vill ekki svara því hvort bærinn beri einhverja ábyrgð þegar svona alvarleg atvik verða, né hvort fylgst sé með því hvort verið sé að veita þá þjónustu sem samið er um og sveitarfélagið greiðir fyrir.

„Ég hef ekki heimild til að ræða einstök mál sem koma upp þannig að ég get ekki svarað svona spurningum,“ segir hún.

„En ef það koma upp einhver tilvik í málum þar sem við erum með samninga við einkarekin fyrirtæki eins og í þessu tilviki þá auðvitað skoðum við það mjög gaumgæfilega. “

Móðir, sem við köllum Önnu, vill ekki koma fram undir nafni, til þess að vernda son sinn og systkini hans.

Með nagandi samviskubit alla daga yfir að geta ekki sinnt syni sínum

Anna er ein af þeim sem ráða ekki við að veita barni sínu þann stuðning sem það þarf á að halda. Vandi sonar hennar er einfaldlega það mikill. Við köllum móðurina Önnu hér, en hún vill ekki koma fram undir réttu nafni til að vernda son sinn og systkini hans.

„Frá því hann er mjög lítill er hann mjög virkur og hress lítill karl. Kemur mjög fljótt í ljós bara í leikskólanum að hann á svolítið erfitt með félagsleg tengsl þannig að hann er svona, já ég myndi segja það, hann væri svona öðruvísi en ég var vön með hin börnin mín,“ segir móðirin.

Þegar Anna áttaði sig á þessu óskaði hún eftir greiningu. Það gekk brösuglega því hann var mjög ungur.  Hann var á endanum greindur með athyglisbrest, ofvirkni og mótþróaþrjóskuröskun. Honum gekk ágætlega í skóla til að byrja með en síðan fór að halla undan fæti.

„Svo fer bara að verða mjög erfitt að senda hann í skólann. Honum líður augljóslega mjög illa. Ég fer fram á teymisfundi þar sem að, við þurfum bara að fara yfir stöðuna, og þegar hann er kominn í annan bekk að þá er augljóst að það er orðið einelti og þriðji bekkur var hryllilegur,“ segir Anna.

Í fimmta bekk fékk drengurinn skólavist í Brúarskóla sem er fyrir börn sem eiga í alvarlegum geðrænum, hegðunar- eða félagslegum erfiðleikum. Þar mun drengnum hafa gengið ágætlega. En um einu og hálfu ári seinna var hann útskrifaður og fór þá aftur í venjulegan skóla. Ekki leið á löngu uns ástandið versnaði á ný.

„Þetta var svolítið bara eins og að vera á sprengjusvæði. Þú veist aldrei hvenær hann springur.“

Anna segir að barnaverndarfulltrúi hafi lagt til að drengurinn færi í fóstur hjá fagfólki sem gæti veitt honum þann stuðning sem hann þyrfti á að halda — enda hafi systkini hans verið farin að óttast hann, faðirinn ekki inni í myndinni og heimilishaldið almennt í miklu uppnámi. Anna leit á það sem uppgjöf ef hún léti drenginn frá sér og fór með hann í margs kyns meðferðir.

„En svo fer þetta bara að verða verra og hann fer að beita mig ofbeldi og ég er farin að koma einu eldra systkininu í þær aðstæður að taka yngra systkinið inn til sín á meðan ég var að klára að eiga við þetta barn og þetta var bara ekki að ganga upp. Þannig að það endar með því að hann er, sem sagt, sóttur af bakvakt barnaverndar eftir eina svona sprengju og hann vildi bara sjálfur fara meira að segja og er settur á vistheimili,“ segir hún.

Tugir barna glíma við fjölþættan og flókinn vanda


Nokkrir tugir barna á Íslandi glíma við fjölþættan og flókinn vanda. Þetta eru börn sem þurfa mikla þjónustu og umönnun vegna alvarlegs hegðunarvanda, þroskafrávika, geðsjúkdóma, stundum vímuefnavanda. Þegar fullreynt er að þau geti búið í foreldrahúsum kemur að kerfinu. Það kemur kannski ekki á óvart að þar sé misbrestur.

Saga Önnu og saga Tinnu Guðrúnar Barkardóttur sýna hvaða afleiðingar það getur haft.

Því er ekki að neita að það getur verið flókið að finna rétta úrræðið. Móðirin, Anna, telur að hvorki vistheimilið né fósturheimilið sem sonur hennar var sendur á hafi hentað honum, því þar hafi fólk ekki haft þekkingu til að hugsa um drenginn eins og þurfti.

„Ég held að þetta fósturheimili hafi verið samþykkt af því að þetta var eina fólkið sem treysti sér til að taka hann. Þau höfðu aldrei haft barn áður í styrktu fóstri,“ segir hún.

Móðirin lýsir því að úrræðin séu einhæf og ekkert sé gert þó vitað sé að þau henti ekki öllum. 

Þarna er strákurinn orðinn tólf ára. Hann var um tíma í Vinakoti og það gekk ágætlega, að sögn Önnu. Sonur hennar hafi þó sagst vera hræddur við hina krakkana þar og lokað sig mikið af. En hann átti líka í átökum við bæði heimilisfólk og starfsfólk. Þar af leiðandi tók Anna hann aftur heim.

Varð sér úti um kaðal og sagðist vilja deyja

„Þarna er hann farinn að taka upp á því líka að skaða sjálfan sig, skera sig. Einhvers staðar á þessum tímapunkti förum við niður á BUGL og hann talar mikið um það að hann vilji deyja, ég finn til dæmis kaðal inni í herberginu hans. Hann var búinn að vera að gúgla hvernig hann gæti búið til snöru,“ segir Anna.

„Þarna er hann spurður bara beint út í neyðarviðtali eða bráðaviðtali hvort hann vilji deyja og svarið hans er já. En það er hjúkrunarfræðingur og sálfræðingur sem tekur okkur í þetta viðtal og hann er ekki metinn í sjálfsvígshættu og ekki í bráðri sjálfsvígshættu, þrátt fyrir að svarið hans sé já, og hann játar því að hann eigi kaðal og hann játar því að hann sé að skera sig. Og sá sem metur hann ekki í sjálfsvígshættu er læknir sem skoðaði hann aldrei. Hann sá hann aldrei,“ segir hún.

Eina ferðina enn kemur Anna að lokuðum dyrum og örvænting hennar orðin algjör. Hún leitar allra leiða til þess að hjálpa barninu sínu, en enginn réttir fram hjálparhönd.

Henni er aftur vísað á sömu úrræðin, sem einfaldlega hentuðu ekki — og eins og Anna orðar það: Fólk er misjafnt og þarf mismunandi aðstoð og þjónustu. Hún ákvað því að taka drenginn aftur inn á heimilið, sem hún segir að hafi gengið vægast sagt illa.

„Það var bara — það var hryllilegt og eins og ég segi, það var slæmt áður en hann fór en það var enn verra þegar hann kom til baka.“

„Ég þurfti bara að vakta hann. Fjarlægja allt hér sem hann gæti notað til að skaða sig eða aðra, fyrstu nóttina þá vakti ég alveg yfir honum án þess að hann vissi af því. En svo var ég bara farin að setja hluti fyrir framan hurðina hjá honum þannig að ef hann opnaði hurðina þá kæmi skellur og ég vakna. Maður hvílist ekkert.“

Anna segir að vandinn hefði aldrei þurft að verða svona mikill. 

Anna segist hafa verið orðin hrædd við eigið barn, um eigið öryggi og ekki síst um öryggi hinna barnanna á heimilinu. Þau hafi varla þorað að fara að sofa af ótta við bróður sinn.

Hvenær byrjaði hann að sýna af sér ofbeldishegðun, til dæmis bara gagnvart þér og fjölskyldunni?

„Ég var svona síðasta manneskjan sem hann hætti að bera virðingu fyrir að því leytinu til. En hann hefur alla tíð meitt systkini sín. Og bara alla nema mig. En það er þarna sumarið eftir sjöunda bekk sem hann fer að beita mig ofbeldi, bæði hérna heima og eitt atvikið þegar hann er í Vinakoti þá er ég með hann í Kringlunni og þá verður bara ömurleg uppákoma sem endar bara með lögreglu sem þarf að handjárna hann,“ segir Anna.

Hún er viss um að ef hún hefði fengið aðstoð um leið og hún bað um hana, þegar barnið var sex ára gamalt, hefði vandinn aldrei orðið eins mikill og raun ber vitni.

„Staðan er bara þannig að eftir síðustu uppákomu hérna kemur hann ekki lengur inn á heimilið og ég og eldri börnin erum á leiðinni á öryggisnámskeið til að geta varið okkur,“ segir hún.

Hefði aldrei þurft að verða svona

Anna segist upplifa sig eina.

„Ef ég hefði ekki barnaverndarstarfsmanninn sem hefur sinnt okkur mest og sálfræðinginn minn þá veit ég ekki hvort ég væri hérna í dag. Þær hafa margsinnis farið út fyrir sitt starfssvið til að vera til staðar þegar það er enginn annar sem getur gripið okkur,“ segir hún.

Anna lýsir algjöru úrræðaleysi í kerfinu, þar sem hún hefur þurft að berjast á hverjum degi fyrir viðeigandi aðstoð fyrir son sinn. Hún segist úrvinda á sál og líkama.

Í dag býr sonur Önnu á vistheimili Heilinda. Hann er 14 ára, sinnir námi og Anna segir að hann sé loksins ánægður.

„Það er bara í fyrsta skipti núna sem ég upplifi að hann eigi séns.“

Hún óskar þess heitast að engir aðrir foreldrar þurfi að vera í þessari stöðu, þó hún sé meðvituð um að það sé fjarlægur draumur.

Eftir alla þessa píslargöngu finnst móðurinni hún loks geta andað léttar. En segir:

„Þetta þurfti aldrei að verða svona. Þetta þurfti aldrei að fara svona langt.“

Tinna er komin í endurhæfingu á Reykjalundi þar sem hún lærir að ganga á ný.

„Mun aldrei ná fullum bata“

Níu mánuðum eftir árásina í Vinakoti hittum við Tinnu aftur. Hún segist hafa verið lengi að átta sig á áfallinu og afleiðingum þess.

„Ég hélt alltaf bara að ég yrði góð í næstu  viku. Núna eru, eins og þú sagðir, níu mánuðir sirka síðan. Og ég er enn bara flak.“

„Það gengur mjög hægt að ná göngunni, að labba. Ég sef ennþá mjög illa og slitrótt, níu mánuðum seinna. Ég fæ mjög mikið af flashbökkum, fæ mikinn svima og dett. Ég er búin að handarbrotna út af því að ég er að detta. Það eru alls konar hlutir,“ segir Tinna.

Hún kveðst ekki vera bjartsýn á að ná fullum bata.

„Nei nei, ég mun aldrei ná fullum bata. En ég mun verða betri en ég er í dag,“ segir hún.

En Tinnu hefur ekki verið gert auðvelt fyrir. Veikindaréttur hennar kláraðist og stéttarfélagið benti henni á að leita til tryggingafélags Vinakots. Tryggingafélagið fer fram á læknisvottorð í hverjum mánuði um að hún sé enn óvinnufær.

Hún leitar nú réttar síns með hjálp lögmanns. Árásin telst ekki vera vinnuslys og stéttarfélagið greiðir því ekki lögfræðikostnaðinn. Hún segir líka að sér hafi gengið illa að fá áheyrn innan heilbrigðiskerfisins.

„Ég er enn bara flak,“ sagði Tinna þegar Kveikur hitti hana níu mánuðum eftir árásina.

„Maður þarf alltaf að vera kominn með algjörlega nóg og búinn með alla orkuna sína til þess að fá eitthvað í gegn. Ég á ekkert auka orku í þetta eins og staðan er í dag.“

Allt þetta verður Tinnu stundum ofviða.

„Það er alveg oft sem ég hef hugsað, að það hefði nú kannski verið betra ef ég hefði bara valið hinn kostinn og hún hefði bara fengið að drepa mig.“

En Tinna segir að uppgjöf sé aldrei valmöguleiki. Hún er nú loks komin í endurhæfingu á Reykjalundi þar sem hún lærir að ganga á ný.

Tinna vill breytingar — lausnir fyrir ungmenni sem glíma við svo mikinn vanda að þau eru farin að valda öðrum skaða og að neyðarhnappar verði staðalbúnaður. Hún vonar að hennar erfiða reynsla verði ekki til einskis.