Hamfarir í Grindavík gætu boðað nýjan veruleika á Reykjanesskaga

Jarðhræringar í og við Grindavík geta verið fyrirboði annarra og stærri atburða í nánustu framtíð. Íbúar í bænum eru uggandi og sumir þeirra treysta sér ekki til þess að flytja þangað aftur. Mikilvægir innviðir gætu verið í hættu.

Grindvíkingar hafa mátt þola endurteknar jarðskjálftahrinur síðan Reykjanesskagi rumskaði. Föstudaginn 10. nóvember keyrði um þverbak með nánast samfelldum hristingi og berserksgangi.

Það er erfitt fyrir fólk sem var ekki í Grindavík þennan dag að setja sig í spor þeira sem upplifðu þennan fyrirgang. Lætin í matvöruverslun í Grindavík gefa örlitla vísbendingu.

Jarðskjálftamælar nema jarðskjálftabylgjur. Með nútímatækni má hækka tíðni þeirra svo mannseyrað greini, og auka hraðann á upptökunni, og þá fæst einhver mynd af því sem gekk á.

Lætin náðu hámarki klukkan sex um kvöldið. Oft er sagt að mynd segi meira en þúsund orð. En stundum er hljóð án myndar enn áhrifaríkara. Á upptökunni má heyra hvernig jörðin hljómaði á jarðskjálftamæli í Borgarfirði, um 110 kílómetra frá Grindavík.

Kristín Vogfjörð jarðskjálftafræðingur horfði á jarðskjálftamælana á Veðurstofunni og fylgdist þannig með kvikunni glenna jörðina við Grindavík í sundur. Hún fékk símtal undir kvöld þegar skjálftavirknin hafði aukist mjög.

Kristín stendur við stóran skjá á Veðurstofunni og bendir þar á staðsetningu skjálfta við Grindavík. „Og ég fer eitthvað á skjálftaritin sjálf, bara í tölvunni og er að leita og þá sé ég bara, það er bara stór skjálfti, stór skjálfti, það eru margir stórskjálftar á mínútu. Þannig að þá allt í einu fatta ég, þetta er rosalega stór atburður sem er bara dúndrandi hérna yfir.“

Hún segir að sér hafi brugðið þegar hún áttaði sig á að skjálftarnir væru komnir undir Grindavík. Þegar skjálftarnir færðust enn sunnar varð ljóst að þetta væru ekki spennuskjálftar heldur gæti kvika verið að brjóta sér leið þarna.

Kristín Vogfjörð jarðskjálftafræðingur.

„Og Grindvíkingar myndu fara að sofa þarna ofan á þessu í nótt, það er ekkert hægt. Svo við hérna, ég talaði við hana Elísabetu sem var á vakt, og ég segi, við þurfum að hafa samband við Almannavarnir, hringjum bara inn í Almannavarnir. Og það var hringt í þá svona klukkan sjö, held ég hljóti að vera, eitthvað svoleiðis.“

Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar, var heima hjá sér þennan eftirmiðdag, þar sem skjálftar höfðu hrist upp í íbúum um nokkurra vikna skeið. Hann lýsir atburðarásinni á yfirvegaðan hátt. „En svo þessir skjálftar, sem byrjuðu að koma svo þarna seinni partinn og þegar líða tók á kvöldið, voru svona ólíkari. Voru miklu, miklu tíðari og manni fannst þeir líka bara hitta húsið öðru vísi. Mögulega voru þeir þá náttúrulega komnir, farnir að færast nær okkur, komnir jafnvel hreinlega undir húsin.“

Atli Geir segir að það hafi verið skrítið að líða illa á eigin heimili við þessar aðstæður og skiljanlega hafi fólk tekið að yfirgefa bæinn strax síðdegis, eftir því sem kraftur skjálftanna varð meiri. Sjálfur ók hann í Reykjanesbæ um kvöldið og segist á leiðinni hafa fundið hvernig skjálftarnir hristu bílinn á ferð.

Klukkan rétt rúmlega ellefu birtist svo Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra, á sjónvarpsskjám landsmanna með þau boð að ekki væri hægt að útiloka að kvikugangur hefði myndast undir Grindavík og rýma yrði bæinn. Þá höfðu orðið 24 skjálftar sem voru fjórir eða meira að stærð frá miðnætti.

Ísland eins og það á að sér að vera

Atburðarásin í Grindavík kom mörgum í opna skjöldu. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem jörð skelfur þar. Árið 1967 voru skjálftar skammt frá bænum raktir til kvikuhreyfinga í grennd og 1973 kom skjálfti upp á 5,4 á Richters-kvarða, sem þá var stuðst við. En þessir viðburðir voru ólíkir atburðarásinni undanfarið að því leyti að nú er talað um að lifnað sé á ný yfir Reykjanesskaga, nýtt tímabil sé hafið. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, segir að eldvirknin sem nú blasir við sé kannski nær því að vera dæmigerð fyrir Ísland frekar en hitt.

„Ef við lítum til baka á eldfjallasögu Íslands þá kemur í ljós að miðbikið á síðustu öld, tuttugustu öldinni, var óvenjurólegt. Það er akkúrat á þeim tíma þegar íslenskt þjóðfélag verður til í nútímamynd. Og við erum kannski núna fyrst að sjá Ísland, hvað eðlilega Ísland er. Það er sem sagt verulega eldvirkt,“ segir Páll í viðtali við Kveik.

Fæstir ímynduðu sér líklega að svona hamfarir gætu gengið yfir Grindavík. Þó eru eldgígaraðir rétt fyrir utan bæjarmörkin. Eldvörp eru rúmlega fjóra kílómetra vestan við Grindavík. Norðan Grindavíkur er Svartsengi. Síðast gaus þarna um 1240 og þá er talið að gosið hafi á þremur stöðum með mjög skömmu millibili; í Eldvörpum; í Illahrauni skammt suðvestur af orkuverinu og Bláa lóninu; og í Arnarsetri, nokkurn veginn miðja vegu milli Grindavíkur og Reykjanesbrautar. Hraun rann og sólarlagið varð rautt vegna brennisteinsvetnismengunar. Norðaustan við Grindavík eru síðan Sundhnúkagígar. Þar gaus síðast fyrir rúmlega 2400 árum. Þegar horft er yfir gígaröðina úr norðaustri í átt að Grindavík er eins og hún stefni beint á bæinn. Frá syðsta gígnum eru aðeins um 800 metrar í byggðina.

Hvað veldur því að á Íslandi gýs og jörð skelfur?

Hvers vegna gerist þetta? Hvað veldur því að á Íslandi gýs og jörð skelfur?
Ísland liggur á mótum jarðskorpufleka. Tveir stærstu jarðskorpuflekar jarðarinnar, Norður-Ameríkuflekinn og Evrasíuflekinn, mætast hér en eru á leið hvor í sína áttina. Landið togast því í tvær áttir út frá flekaskilunum sem liggja eftir Reykjaneshrygg og Atlantshafshrygg suður eftir öllu Atlantshafi. Á þessum skilum gýs reglulega, gjár myndast milli flekanna og nýtt hraun fyllir upp í.

En fleira þarf til að land eins og Ísland myndist. Ísland er talið sitja á svokölluðum heitum reit. Þeir eru nokkrir á jörðinni og eru taldir liggja ofan á möttulstrókum, strókum af heitu efni sem rís djúpt úr iðrum jarðar, jafnvel allt frá kjarna hennar sem er á um 3000 kílómetra dýpi. Efnið bráðnar eftir því sem þrýstingurinn minnkar og til verður hraunkvika sem stígur til yfirborðs og fóðrar eldvirkni heita reitsins.

Einmitt þannig tók Ísland að hlaðast upp, í endurteknum eldgosum yfir tugi milljóna ára. Þess vegna er hér mikil eldfjallavirkni og jarðskjálftar tíðir. Möttulstrókurinn er undir flekaskilum og því er virknin sérlega mikil.
Jarðskorpuflekarnir færast hvor frá öðrum um tvo sentímetra á ári og Ísland rifnar í sundur eftir eldgosa- og jarðskjálftabeltunum sem við lærðum flest um í grunnskóla.

Eldgosabeltin ná yfir nærri fjórðung landsins og skiptast í yfir þrjátíu virk eldstöðvakerfi. Í hverju kerfi er fjöldi gíga og gossprungna og oftast ein eða fleiri megineldstöð eins og Hekla, Katla, Grímsvötn, Bárðarbunga og Askja.
Þetta er líka ein af forsendum nútímavelsældar á Íslandi. Fyrir utan þá staðreynd að landið væri einfaldlega ekki til án eldgosa þá byggjum við bæði hitaveitu og hluta raforkuframleiðslu á jarðvarma. Mikill jarðvarmi er í raun oftast merki um að svæðið sé virkt og þar geti fræðilega séð gosið.

Þegar Reykjanesskagi og suðvesturhluti Íslands er skoðaður sést vel hvað þéttbýlissvæðin þar eru nálægt virku svæði þótt síðustu gosin hafi verið fyrir á milli 800 og 2000 árum. Páll Einarsson segir að fyrstu aldir Íslandsbyggðar hafi verið óvenjumikið um eldgos á Reykjanesskaga, allt fram til 1240 þegar síðasta gosið varð. Það var á tímum Snorra Sturlusonar sem átti bæ á Álftanesi og varð fyrir búsifjum vegna ösku úr gosi í hafi.

Páll segir rétt að horfa til þessara atburða til að meta hvað framtíðin gæti borið í skauti sér. Sé litið til síðasta eldgosatímabils virtust öll eldstöðvakerfin á þessu svæði hafa tekið við sér á sama tíma. Því verði að reikna með að hið sama gerist nú, að hvert kerfið taki við af því næsta.

Fagradalsfjall hefur tekið við sér, og kerfið sem er kennt við Eldvörp og Svartsengi. Einnig hefur verið virkni í Krýsuvík og við Reykjanes. Önnur kerfi á skaganum hafa ekki hreyft sig enn. Páll segir líklegt að þau kerfi láti líka á sér kræla. Það verði um margt alvarlegra þar sem þau séu nær höfuðborgarsvæðinu. Brennisteinsfjöll eru enn í dvala. Þar geta orðið stærri jarðskjálftar en fundist hafa síðustu ár. Austasta kerfið er svo Hengill.

Eldgos á Reykjanesskaga eru sjaldan mannskæð, að sögn Páls, þótt þau ógni innviðum. Þar verða ekki sprengigos nema gjósi í hafi heldur flæðandi hraungos. Jarðskjálftar verða heldur ekki mjög öflugir þar sem bergið er fremur mjúkt. Hættan geti hins vegar falist í sprungum og hreyfingu á þeim eins og gerst hefur í Grindavík.

„Það er tiltölulega auðvelt að hindra tjón vegna sprunguhreyfinga með fyrirbyggjandi aðgerðum. Það er að segja ef menn passa upp á að byggja ekki byggingar þvert á, yfir sprungur. Sprungusveimur Krísuvíkurkerfisins liggur í úthverfum Reykjavíkur og Kópavogs. Þar þarf að taka tillit til þess og hefur að hluta verið gert. Sem sé, byggja ekki klofvega yfir sprungurnar.“

Páll bendir á að sprungur sé að finna í Hafnarfirði, Norðlingaholti, Urriðaholti og Mosfellsbæ.

Vestmannaeyjar og Kröflugos

Eina janúarnótt fyrir réttum 50 árum vöknuðu Vestmannaeyingar við martröð. Hraun streymdi inn í bæinn og yfir fjölda húsa. Íbúar flýðu og sumir sneru aldrei aftur. En þótt hús færu undir hraun og gjósku er þar í dag blómleg byggð, jafnvel búið í húsum sem grafin voru upp úr ösku og vikri. Páll Einarsson segir aðstæður í Eyjum og Grindavík mjög sambærilegar.

„Það eru bara tvö þéttbýlissvæði sem eru svona í sveit sett á Íslandi, að það geti hugsanlega gosið innan bæjarmarka. Það eru Vestmannaeyjar og Grindavík.“ Hann bætir við að gostíðni sé almennt ekki þannig að búast megi við ítrekuðum gosum á sama stað. Sennilega séu Vestmannaeyingar búnir að fá sinn skammt í bili og sér virðist sem framvindan í Grindavík gæti orðið svipuð.

Annar samanburður er Páli ofarlega í huga; Kröflueldarnir, sem hófust skömmu eftir framkvæmdir við virkjun í Kröflu í Mývatnssveit. Skömmu eftir að framkvæmdir hófust tók jörð að skjálfa. Skjálftarnir náðu hámarki nokkrum dögum fyrir jól þegar gos hófst í Leirhnjúk við Kröflu.

„Á næstu níu árum eftir það þá var landris í Kröflu með reglulegum hætti og það fóru gangar, kvikugangar lögðu af stað frá Kröflu,“ segir Páll. „Tuttugu gangar urðu til þá. Af þeim náðu níu upp á yfirborðið í eldgosum. Fyrstu þrjú voru smá, örlítil, sum. Síðan tók meiri virkni við og stærri hraungos urðu undir lokin á þeirri atburðarás.“

Í Kröflu gekk á með hrinum en svo var rólegt þess á milli og hægt var að segja til um hvenær rólegt var eða von á alvarlegri atburðum. Það gæti líka átt við Reykjanesskaga.

Innviðirnir í hættu

Hefjist gos við Grindavík gæti það raskað lífi mun fleiri en Grindvíkinga. Þrjátíu þúsund búa á Suðurnesjum og þar er fjöldi fyrirtækja að ógleymdum Keflavíkurflugvelli.

Allar tegundir innviða; rafmagns- og vatnsveita, fráveita og lagnir, fjarskiptainnviðir, atvinnustarfsemi, vegir og flugvellir geta orðið fyrir tjóni komi til eldgoss.

Lágar, aðalvatnsból Suðurnesja, er við Svartsengi og þaðan fá þau ríflega 22 þúsund sem búa í Reykjanesbæ vatn. Eldgos gæti ógnað því.

Ein borhola fyrir kalt vatn er við Garð og í ljósi jarðhræringanna var ákveðið að bora fleiri holur þar.

Aðalvatnsból Reykaness er Lágar sem eldgos gæti ógnað.

HS veitur hafa mestar áhyggjur af því að eldgos komi upp úr sprungu við Sýlingarfell og glóandi hraun flæði beint á virkjunina í Svartsengi. Þar er ekki bara framleidd raforka heldur líka heitt vatn fyrir Reykjanesbæ, Voga og Suðurnesjabæ. Þá gæti orðið heitavatnslaust á öllum Suðurnesjum.

Páll Erland, forstjóri HS veitna, segir enga leið að leysa heitavatnsleysi með skjótum hætti. „Hitaveitan er grunnurinn að því að halda híbýlum bæði heitum þannig að þau séu íbúðarhæf. En heita vatnið í leiðinni varnar því að þótt komi frost úti að lagnir springi,“ segir Páll.

Rafkynding gæti hjálpað en sú raforka sem unnt væri að útvega fólki á Suðurnesjum frá öðrum virkjunum myndi ekki duga til fullrar húshitunar. Páll segir stjórnvöld horfa til þess að koma upp einhvers konar neyðarkyndingu. Slíkar olíuknúnar neyðarkyndistöðvar þyrfti að flytja til Íslands og það tæki tíma að tengja þær, í það minnsta nokkrar vikur. Í versta falli gætu hús víða á Suðurnesjum því verið ókynt svo vikum skipti.

Grindvíkingar fastir í óvissu

Hátt í fjögur þúsund Grindvíkingar eru milli vonar og ótta fjarri heimahögum. Flestir hafa náð að sækja einhverja muni heim en vita ekki hvort þeir sofa nokkurn tímann aftur á heimili sínu í Grindavík. Yfirvöld segja að það líði að minnsta kosti einhverjir mánuðir, í besta falli.

Enn skelfur jörð og kvikusöfnun og landris mælist við Svartsengi. Jarðvísindamenn segja að við séum enn í miðri atburðarás. Á meðan eru Grindvíkingar fastir í óvissu.

Í sumarbústað í Brekkuskógi hittum við stórfjölskyldu frá Grindavík. Það er mánudagurinn 13. nóvember og þrír dagar frá því að bærinn var rýmdur. Hjónin Birgir Sigurðsson og Kristín Arnberg Þórðardóttir ákváðu að flýja stanslausa skjálftana í heimabænum daginn áður en hann var rýmdur og fara í bústað sem er í eigu Félags skipstjórnarmanna á Suðurnesjum. Þar eru þau ásamt börnum og barnabörnum sem búa öll í Grindavík.

„Við ætluðum að fá okkur frið frá skjálftunum. Maður var búinn að vaka nótt eftir nótt út af þessum helvítis djöflagangi,“ segir Birgir þar sem við hittum hann fyrir utan bústaðinn. „Maður er búinn að búa við þetta núna síðan 2021 þegar þetta byrjaði. Og þetta venst aldrei. Það er ekki hægt að venjast þessu.“

Þegar við göngum inn í bústaðinn tekur á móti okkur fjöldi Grindvíkinga á öllum aldri, bæði börn og fullorðnir.

„Nú erum við flóttamenn Íslands,“ segir Birgir á meðan við klæðum okkur úr skónum.

„Vonin er það síðasta sem verður tekið frá okkur“

Við setjumst niður og fáum okkur kaffi með Kristínu Arnberg og börnum hennar og Birgis, þeim Kristínu Maríu og Birni Óskari.

„Ótrúlega illa. Ég segi alveg eins og er. Mér líður bara illa,“ segir Kristín Arnberg þegar hún er spurð hvernig henni líði eftir atburði undanfarinna daga.

Kristín María tekur undir og segir að það sé ótrúlega erfitt að hugsa til þess að sá möguleiki sé raunverulega fyrir hendi að það gjósi undir heimili þeirra í Grindavík.

„Ég er nýbúin að kaupa mér parhús og hlakkaði mikið til að fara að búa þar og ala börnin mín upp og skapa minningar. Jafnvel þótt það fari ekki undir gos verður erfitt að búa þar ef það halda áfram að koma jarðskjálftar,“ segir Kristín María og Björn Óskar bróðir hennar er sammála þessu.

„Ég held að þetta sé eitt það svartasta sem maður getur ímyndað sér,“ segir hann.
Þau eru öll sammála um að þau séu búin að fá nóg af jarðskjálftum, líkt og líklega flestir aðrir Grindvíkingar.

„Fólk er bara orðið hvekkt. Maður er kominn hérna lengst upp í Brekkuskóg og það skellist hurð. Maður er ennþá marinn á taugakerfinu,“ segir Kristín María.

„Maður bíður pínulítið eftir því að maður sé vakinn upp af þessari martröð. Það er eiginlega það sem þetta er. Þetta er svo óraunverulegt einhvern veginn. En þetta var óhugsandi, svo ég tali fyrir mig. Það var algjörlega óhugsandi að þetta gæti gerst.“

Kristín Arnberg Þórðardóttir ásamt börnum sínum, þeim Birni Óskari og Kristínu Maríu Birgisbörnum í sumarbústað í Brekkuskógi.

Jafnvel þótt það gjósi ekki í eða alveg við Grindavík, hvernig sjáið þið framtíð bæjarins fyrir ykkur?

„Ég á ofboðslega erfitt með að hugsa í framhaldinu að ég búi þarna áfram. Það er bara staðan í dag,“ segir Kristín Arnberg. Dóttir hennar er á öðru máli. Hún vill hvergi annars staðar búa enda þyki henni sérstaklega vænt um samfélagið í Grindavík.

„Og ég hef farið í marga hringi með hvernig við reisum þetta samfélag sem við áttum þar einhvers staðar annars staðar. Mig langar að geta flutt aftur og geta búið þarna,“ segir Kristín María. „En það er rosalega vont að vita að það er einhver kvikugangur undir bæjarfélaginu þínu.“

Þrátt fyrir þetta segist Kristín María vera bjartsýn. Hún veðjar á að þessi atburðarás endi ekki með gosi, að minnsta kosti ekki gosi sem hefur slæm áhrif á Grindavík.

„Ég ætla bara að trúa því. Og að við getum farið í endurreisnina á Grindavík. Ég vona það innilega. En maður stýrir ekkert móður náttúru sko.“

Móðir hennar er hins vegar ekki eins bjartsýn.

„Við erum búin að fá þrjú gos. Og svo kemur þetta núna. Og það er talað um að Reykjanesið sé vaknað. Eða sé að vakna. Eigum við von á einhverju meiru? Ég veit það ekki og það veit það enginn,“ segir Kristín Arnberg.

„Vonin er það síðasta sem verður tekið frá okkur,“ segir Kristín María. „Og ég ætla að leyfa mér að vona það, að við getum bara haldið þessu samfélagi gangandi áfram. Það er bara ótrúlega sár tilfinning að hugsa til þess að svo verði ekki. Þannig að ég ætla ekki að leyfa mér að fara þangað. Það er bara of erfitt.“

Húsið fór á kaf í ösku

Kristín Vogfjörð, jarðskjálftafræðingur á Veðurstofunni, getur auðveldlega sett sig í spor fjölskyldunnar.

„Það er bara staðreyndin ef maður býr á Íslandi. Og þetta þurftu Vestmannaeyingar að búa við og það var ekkert alltaf rosalega auðvelt. Ég og fjölskylda mín erum úr Eyjum. Við áttum fjölskyldu í Reykjavík en við splittuðumst, ég var ekki með fjölskyldunni, og ég pínkulítið datt svona út úr fjölskyldunni. En við náðum í dótið okkar. Við þurftum samt, pabbi þurfti að stelast út í Eyjar til að komast í húsið.

Kristín Vogfjörð segir að ekkert annað sé að gera fyrir Grindvíkinga en að bíða.

Ég held að það skipti máli núna að þeir nái sem mestu af eigum sínum út úr húsunum. En þegar þessu lýkur, sem verður einhvern tímann, að þá er ekkert endilega víst að þetta verði allt ónýtt þarna. Húsin úti í Eyjum standa enn og húsið okkar fór á kaf í ösku og það var bara grafið upp og nú er búið í því og rosalega fínt hús.

En það er ekkert annað að gera en að bíða, og það er samt rosalega erfitt, vegna þess að, þó svo að, ég var unglingur þegar þetta gerðist, þannig að ég held ég hafi ekkert endilega skynjað áhyggjur foreldra minna, að vera með fjögur börn á framfæri og enga vinnu. En þetta snertir mann þannig að, þú veist, núna, þá eiginlega næstum því klökkna ég yfir þessu, því þú veist, í ástandinu sem þau eru núna. Nákvæmlega þessu, að vita ekkert hvað er að gerast,“ segir Kristín Vogfjörð.

Að halda áfram

Viku eftir að við heimsóttum fjölskylduna úr Grindavík í sumarbústaðinn hittum við hana aftur en núna í Mosfellsbæ. Þar hefur hún fengið tímabundinn dvalarstað í húsi sem er í eigu ættingja. Það er mánudagurinn 20. nóvember og við förum út að Lágafellsskóla ásamt Kristínu Maríu og fjórum börnum úr fjölskyldunni.

Kristín María ásamt fjórum börnum úr fjölskyldunni við Lágafellsskóla í Mosfellsbæ. Þangað er stórfjölskyldan flutt í bili.

„Það er komin smá kommúnustemning í okkar líf núna,“ segir hún. „Dýrmætt en um leið reynir þetta á þolinmæði, að vera með sjö börn.“

Þau stoppa hins vegar stutt við í Mosfellsbæ því fjölskyldan er búin að fá varanlegra húsnæði í Hafnarfirði.

„Við vorum svo lánsöm að fá húsnæði sem rúmar okkur öll, við erum 13, þannig að við erum að fara að búa í Hafnarfriði þegar það verður klárt. Það var bara hlaupið til og græjað fyrir okkur. Enda finnur maður alveg ótrúlegan hlýhug og stuðning frá bara allri þjóðinni. Þannig að það er dýrmætt,“ segir Kristín María.

Hún segir að fjölskyldan geti verið eins lengi og hún vilji í húsinu. Enginn viti hins vegar hversu langur sá tími verður.

Kristín María segir að síðustu dagar hafi verið sannkallaður tilfinningarússíbani.

„Bara að svæfa börnin mín í gær, þá bara brotnar maður saman og hugsar; fæ ég lífið mitt aftur?“ segir hún. „Ég held að áfallið eigi eftir að koma þegar maður áttar sig betur á því hvað er að gerast. Mér finnst þetta allt svo óraunverulegt. Ég bara trúi ekki að þetta sé að eiga sér stað.“

Því hefur verið spáð að Grindvíkingar geti í allra fyrsta lagi flutt heim til sín eftir einhverja mánuði, jafnvel ekki fyrr en eftir hálft ár eða meira. Kristín María segir að sú spá leggist illa í sig.

„Ég vona innilega að við getum flutt aftur heim,“ segir hún „En maður vill náttúrulega að það sé öruggt. Af því að við erum með börn og ég vil fá upplýsingar um að þar sé öruggt að vera. En það er mikil uppbygging framundan og hún mun taka sinn tíma. Þá þarf maður bara að aðlagast, og halda áfram.“

Kristín María Birgisdóttir ásamt dóttur sinni, Bríeti Arnberg Pálsdóttur. „Ég vona innilega að við getum flutt aftur heim,“ segir Kristín María.