*

Gögn Procar stemma ekki

Frá því að Kveikur upplýsti um umfangsmikil og skipulögð svik bílaleigunnar Procar við sölu notaðra bíla, þar sem kílómetrastaða þeirra var færð niður, hafa þeir sem eiga gamla bíla frá leigunni reynt að sannreyna hvort átt hafi verið við bílana.

Það getur reynst erfitt að fá einhvern botn í málið. Hópur eigenda gamalla Procar-bíla hefur fengið Pál Bergþórsson lögmann til að gæta hagsmuna sinna.  

„Það lítur út fyrir það jú að bílaumboðin geta, eftir því sem ég kemst næst, ekki sannreynt raunverulegan kílómetrafjölda. Og það liggur fyrir að hundruð bíla voru trekktir,“ segir hann. „Það er rosalega erfitt að sannfæra einhvern um að minn Procar bíll sé einn af þeim sem ekki var trekktur. Það er í raun og veru nóg að Procar sé á eigendasögunni.“

Páll Bergþórsson, lögmaður viðskiptavina Procar (Mynd: Arnar Þórisson)

Páll vill meina að þarna sé um svik að ræða og forsendur algjörlega brostnar. „Við metum það alla vega sem svo að það sé tilefni til að gera kröfu um riftun og að einstaklingar eigi þá kröfu að fá kaupverðið sitt til baka,“ segir hann.

Reyna að fá svör

Síðustu vikur hafa fjölmargir leitað til lögmanna bílaleigunnar á Draupni lögmannsstofu í von um að fá svör um hvort átt hafi verið við bílana þeirra. Einhverjir hafa þegar fengið svör á meðan aðrir bíða. Einn þeirra sem er búinn að fá svar, er Hans Steinar Bjarnason.  

„Ég komst nú bara að því þegar ég ákvað að skipta um bíl, og datt allt í einu í hug að fletta því upp á skrá.is, fara inn á fasteignavefinn hjá þeim, og bara svona double-checka hvort þetta væri nokkuð Procar-bíll. Og það reyndist vera,“ segir hann.

Hans Steinar Bjarnason, eigandi gamals Procar-bíls (Mynd: Arnar Þórisson)

„Ég náttúrulega hafði fylgst með fréttum, ég sá að það var lögmannsstofa að afla þessara gagna og ég leita til Draupnis, sendi tölvupóst og fæ strax svar um að þetta verði skoðað og þeir muni gefa sér allt að tvær vikur til að afla gagnanna. Það líða einhverjir 7, 8, 9 dagar og þá fæ ég þennan póst þar sem stendur: „það er ljóst að ekki hefur verið átt við kílómetrastöðuna í þessum bíl og meðfylgjandi eru frumgögn frá Procar“. Ég náttúrulega bara fagnaði sigri þarna og bara nokkuð kátur og þá gat ég bara haldið áfram með mín plön um að skipta þessum bíl í annan.“

Hans Steinar fór með bílinn í bílaumboðið Öskju, þar sem hann ætlaði að finna sér nýjan bíl, og láta þann gamla uppí. Þar voru svörin nokkuð skýr; ekki er tekið við gömlum Procar-bílum sem stendur, jafnvel þótt þeim fylgi yfirlýsing frá Draupni.  

Fundu ósamræmi

Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, segir að umboðið hafi farið strax í að afla upplýsinga um bílana sem það hafði keypt aftur af Procar og síðan selt nýjum eigendum.

„Við sendum fyrirspurn til Draupnis og báðum um upplýsingar um hvaða bílum hefði verið breytt og fengum til baka af þessum 170 bílum sem við höfum keypt, að þá eru um 15 bílar sem hafa verið færðir niður” segir hann.

„Síðan höfum við fundið dæmi þar sem gögnin einfaldlega stemma ekki,“ segir hann. „Þar af leiðandi teljum við, til að gæta hagsmuna okkar viðskiptavina, bæði þeirra sem við höfum selt bíla og þeirra sem munu síðar selja bíla, þá munum við ekki taka bílana upp í að sinni.”

Bíllinn hans Hans Steinars er einn þeirra sem Askja keypti af Procar.

Gögnin pössuðu ekki

„Ég fer og kanna málið eitthvað og spyr Öskju hvort þeir geti séð kílómetrastöðuna í bílnum á þeim degi þegar Askja kaupir bílinn aftur af Procar árið 2015. Þá fæ ég þær upplýsingar að þá hafi kílómetrastaðan verið um 30 þúsund kílómetrar,“ segir hann.

„En í gögnunum frá Draupni lögmannsstofu stóð, alveg á sömu dagsetningu, að staðan var 40 þúsund kílómetrar rúmlega en 30 þúsund kílómetrar hjá Öskju. Þá skoðaði ég smurbókina í bílnum, þar stendur 29.515, þannig að þarna munar 10 þúsund kílómetrum.“

Hans Steinar telur að ekki sé hægt að treysta yfirlýsingum sem koma frá Draupni. „Það er augljóslega ekkert að marka þessi gögn og í raun og veru þegar ég er með þessar tvær tölur fyrir framan mig, báðar dagsettar 7. apríl 2015, önnur segir 29.515 og hin segir rúmlega 40 þúsund kílómetra,“ segir hann.  

„Svo í smurbókinni er stimplað frá bifvélavirkja frá Procar að kílómetrastaðan sé 29 þúsund en í gögnunum frá Procar er hún 40 þúsund. Sama dagsetning.“

Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju (Mynd: Arnar Þórisson)

Skoða upplýsingar úr annarri tölvu

Jón Trausti segir að bílvirkjar Öskju hafi í samvinnu við framleiðendur KIA fundið leið til að greina hversu mikið bíllinn er ekinn. „Til dæmis í dísilbílum er skylda frá 2005 að það sé svokallaður hvarfakútur í bílnum. Hann hefur að geyma sótagnasíu,“ segir hann.

„Á ákveðnum fresti, 250 kílómetra fresti, að þá brennir kúturinn sótagnir sem eru í þessari síu og það er haldin skrá í vélatölu bifreiðarinnar um allan þennan bruna. Þannig að við getum séð, samkvæmt þessari vélatölu, sem er ótengd kílómetramæli bílsins, hvað bíllinn er raunverulega ekinn.“

Askja rannsakaði bíl Hans Steinars og var niðurstaðan í samræmi við það sem smurbókin og leigusaga bílsins gaf til kynna. „Þarna munaði 11.500 kílómetrum,“ segir Jón Trausti.

Fölsun gagna refsiverð

Páll segir að fölsuð smurbók gæti verið hegningarlagabrot. „Ef smurbók er fölsuð, þú beitir blekkingum í viðskiptum, þá erum við bara komin í hegningarlagabrot sem eru refsiverð. Og, þá má færa rök fyrir því að þetta séu fjársvik, að þetta sé skjalafals, eftir atvikum erum við þá komin í peningaþvætti því vissulega eru menn þá farnir að hagnast með ólögmætum hætti og mögulega þá refsiverðum hætti,“ útskýrir hann.

„Það er fullt tilefni til að rannsaka þetta og grípa til aðgerða. Það eru þarna skjöl og upplýsingar sem koma fram, sem benda til kerfisbundinna svika, þar hafa þeir fullt tilefni til að grípa til húsleitar og haldlagningar, einfaldlega til þess að tryggja sönnunargögn. Nú í dag, hvort sem það er of seint eða ekki, þá er enn þá tilefni til þess,“ segir Páll.

Úr smurbók (Mynd: Arnar Þórisson)

Hans Steinar hefur sömu tilfinningu. „Þetta lyktar af skjalafalsi hreint og beint. Þannig að mér finnst þetta ekki trúverðugt og mér finnst eiginlega ekki hægt að treysta þessum gögnum frá Draupni og ég skil vel að bílaumboðin séu ekkert að stökkva á að taka svona bíl alveg strax,“ segir hann.

Telur tilefni til húsleitar

Lögreglan hefur ekki veitt neinar upplýsingar um stöðu rannsóknar. Kveikur hefur hins vegar upplýsingar um að lögreglunni hafi borist kærur vegna Procar-málsins, og, að fleiri séu á leiðinni. Páll segir forsendur fyrir því að kyrrsetja eignir bílaleigunnar.  

„Núna liggur fyrir að það eru þúsundir manna sem hafa orðið fyrir tjóni – sennilega. Og það tjón þarf að bæta og það liggur þá líka fyrir væntanlega að menn hafi hagnast á þessum svikum og þá er heimild til þess að kyrrsetja eigur þeirra sem hagnast á þessu, kyrrsetja eigur sakborninga,“ segir Páll.

Það kemur líka til greina að fara fram á kyrrsetningu hjá sýslumanni. „Já það hefur komið til greina,” segir Páll. Það myndi þýða að þeir sem eiga þessa bíla í dag þyrftu að fara sjálfir fram á kyrrsetninguna, með tilheyrandi kostnaði. Leggja þarf fram tryggingu hjá sýslumanni til að hann samþykki slíka beiðni og þá hafa eigendur Procar færi á að áfrýja ákvörðun sýslumanns til dómstóla.  

Páll telur hættu á að það myndi þýða að eignir yrðu einfaldlega færðar frá Procar á meðan. „Og eftir einhverja mánuði, þegar kyrrsetningin gengur í gegn, að þau grípi þá jafnvel í tómt,“ segir hann. „Mér er svo sem ekki heldur kunnugt um eignastöðu félagsins, hversu mikið þeir eiga af þessum bílum og þá að hvaða magni fjármögnunaraðilar eiga eigurnar þeirra. En jú, það hefur vissulega komið til greina og er til skoðunar hjá okkur.“  

Eignir færðar á milli félaga

Kveikur hefur undanfarnar vikur reynt að ná tali af Gunnari Birni Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Procar, og aðaleiganda félagsins, Haraldi Sveini Gunnarssyni. Samkvæmt gögnum frá fyrirtækjaskrá vék hann hins vegar úr sæti stjórnarformanns Procar, daginn sem Kveikur afhjúpaði svik fyrirtækisins.  

Pappírar frá RSK (Mynd: Arnar Þórisson)

Þá sýna gögn úr ökutækjaskrá að eignir, um tuttugu bílar, hafi verið færðir úr eigu Procar og inn í félag á vegum Haralds Sveins, Platinum ehf., sem fer með eignarhlut hans í bílaleigunni. Flestir af bílum félagsins eru hins vegar í eigu Landsbankans annars vegar og bílafjármögnunar Íslandsbanka hins vegar. Engin svör hafa fengist frá þeim um hvort bankarnir hyggist grípa til einhverra aðgerða vegna málsins.  

Páll hefur áhyggjur af því að eignum verði skotið undan. „Já ég hef áhyggjur af því og þetta ferli sem eigendum hefur verið bent á að fara í gegnum hjá lögmönnum Procar, það hefur líka tekið tíma. Og ef að rétt reynist, eins og þú nefnir, að það séu vísbendingar um að undanskot séu hafin þá er það náttúrulega enn brýnna að grípa til þessara aðgerða hjá lögreglu, sem er þá þessi kyrrsetningarheimild í lögum um meðferð sakamála,“ segir hann.

„Þegar kemur að því að tryggja að eitthvað fáist upp í þessar kröfur, en að þessu verði ekki lýst í eitthvað þrotabú sem er tómt.“

Neitar eignaundanskotum

Á föstudag náði Kveikur tali af Gunnari Birni, sem hafnaði viðtali en sagði bílaleiguna vinna af heiðarleika við að upplýsa þá sem keypt hafi notaða bíla frá fyrirtækinu. Hann svaraði ekki spurningum um ósamræmi í smurbókum og upplýsingum frá fyrirtækinu við sölu bíla og þeim sem birtust í leigusögu þeirra og vísaði öllum spurningum á lögmannsstofuna Draupni.

Gunnar Björn hafnaði því að verið væri að koma eignum undan en sagði það einkamál af hverju eignir hefðu verið færðar frá Procar yfir á annað félag. Þá vildi hann ekki svara spurningum um af hverju skipt hefði verið um stjórnarformann og sleit símtalinu.