Hvað þýðir Brexit fyrir Ísland?

Það virðist stundum eins og ferðamenn og ál séu það sem heldur hagkerfinu gangandi, en fiskur er nú samt sem áður gríðarlega mikilvægur.

Við veiðum og flytjum út gríðarmagn – en það eru óvissutímar í þeim geira, vegna Brexit. Bretland hefur verið stærsti kaupandi íslenskra sjávarafurða svo langt aftur sem gögn Hagstofunnar ná. Brexit hefur hins vegar áhrif á inn- og útflutning, og raunar á allt annað líka.

Í vinnslustöð (Mynd: Freyr Arnarson)

Sagan

Grimsby og Hull eru bæjarnöfn sem eiga óneitanlega stóran sess í nútímasögu Íslands. Þaðan komu sjómennirnir sem stunduðu veiðar á Íslandsmiðum og var bolað burtu í þorskastríðunum, þegar Íslendingar færðu út landhelgi sína. Á sjöunda áratugnum var Grimsby stærsta útgerðarhöfn Bretlands. En þorskastríðin bundu enda á það, niðurlægingartímabil hófst og það tengist með þráðbeinum hætti yfirgnæfandi vilja íbúanna í Grimsby og Hull til að ganga úr Evrópusambandinu.

Freeman-street var aðalgatan í Grimsby á gullaldarárunum. Nú er hún dapurleg táknmynd um stöðu bæjarins.

„Þegar ég var barn, á áttunda og níunda áratugnum, var þetta aðalstaðurinn í Grimsby“ segir Lia Nici, bæjarráðsmaður Íhaldsflokksins. „Þarna voru dýru búðirnar, veitingastaðirnir, þangað fór maður til að versla og hitta fólk. Þetta var miðpunkturinn, þar sem Grimsby byrjaði.“

Það lítur ekki þannig út núna. Mörg verslunarrými eru lokuð og lítið virðist um að vera. Hvað gerðist? Hvað breyttist?

Lia Nici segir þorskastríðin öllu hafa breytt. „Þetta voru sögulegir tímar því þarna vorum við að fara inn á nýjan sameiginlegan markað og þess vegna hefur Brexit svona mikinn stuðning hér“, segir hún og heldur áfram: „Eftir 40 ár hefur sáralítið breyst eða þróast í Grimsby. Ástandið er farið að breytast núna en það hefur tekið okkur 40 ár að jafna okkur á hruninu í sjávarútveginum.“

Lia Nici, bæjarráðsmaður Íhaldsflokksins í Grimsby (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Það er enn fiskvinnsla í Grimsby og einn stærsti fiskmarkaðurinn í landinu, en útgerðin er dauð og fiskurinn kemur frá Íslandi og Noregi. Hér lönduðu áður íslenskir togarar, nú kemur aflinn frystur eða kældur í gámum.

Hafnirnar við Grimsby eru hentugar fyrir útflutning frá Íslandi, skemmri siglingarleið er þangað en til annarra hafna og þaðan liggja greiðar leiðir til meginlandsins. Þetta er því hagkvæmasta leiðin. Og ef fiskurinn á að flokkast sem ferskur, skiptir hver klukkustund máli. Þess vegna fer fiskurinn beint frá borði yfir á flutningabíla sem aka eins hratt og leyfilegt er yfir nótt til kaupenda í Evrópu. Stór hluti er fluttur til Frakklands en mikið fer líka beinustu leið á fiskmarkaðinn í Grimsby.

En hvernig verður þetta eftir útgönguna úr Evrópusambandinu? Tollar, heilbrigðisvottorð, landamæraskoðun… allt er þetta frekar óljóst og fulltrúar íslenskra fyrirtækja sem við ræddum við, vildu einfaldlega ekki trúa því að allt færi í hnút. Og þó má segja að hnúturinn sé þegar kominn, vegna óvissunnar.

Kosið með Brexit

Í Grimsby og nágrenni, þar sem 72% (íbúa) voru á því að ganga úr sambandinu, eru afleiðingarnar líka frekar óljósar.

Tugþúsundir bíla á hafnarbakkanum (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Í höfninni gengur allt út á inn- og útflutning, eins og til dæmis bíla, sem eru tugþúsundum saman á hafnarbakkanum, ýmist nýkomnir frá meginlandinu eða á leiðinni þangað. Eins og allt annað, setur Brexit þetta í uppnám.

Martin Vickers er þingmaður Íhaldsflokksins fyrir Grimsby og Cleethorpes, næsta bæ. Getur hann, sannfærður harðlínu-Brexit-sinni, útskýrt hvers vegna íbúar hér eru sammála honum?

„Það var talsvert um að fólk kenndi ESB um hrun sjávarútvegsins en það er ekki satt nema að hálfu leyti“ segir hann. „Samt sem áður lifir sú skoðun í hugum fólks og það vill fá aftur stjórn á eigin fiskimiðum, eins og Íslendingar vildu, fyrir 20-30 árum.“

Martin Vickers, þingmaður Íhaldsflokksins í Cleethorpes og Grimsby (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Sumir skoðanabræður Vickers hvöttu Grimsby-búa til að styðja útgönguna. Þá fengju þeir fiskinn til baka, stjórn á landamærunum og togarar frá Evrópusambandsríkjunum yrðu að fara frá Bretlandsströndum. Það stenst líklega ekki alveg, og hvorki Vickers né aðrir sem við ræddum við gerðu sér vonir um endurreisn útvegsins. En Vickers vill út og það jafnvel án samnings, enda er hann sannfærður um að áhrifin verði mest lítil.

„Það gæti orðið ruglingur í fyrstu og pappírarnir verða ekki endilega alveg tilbúnir 30. mars“ segir Vickers. „Sögulega höfum við verið aðgreind frá meginlandi Evrópu, ekki aðeins í bókstaflegri merkingu heldur á ýmsan annan hátt. Pólitíkin og löggjöfin í Evrópu hefur þróast á annan hátt. Kerfið okkar er þingræði og við höfum okkar eigin dómstóla og það var kjarninn í því sem fólkið vildi.“

Þetta reddast?

Það líða ekki nema 3-4 klukkustundir frá því að Bakkafoss leggur að bryggju, þar til fyrstu flutningabílarnir eru mættir með kæligámana fulla af sjávarfangi á fiskmarkaðinn. Hér gildir að hafa snör handtök, því nú þarf að koma þessu öllu í flokkunarbúnaðinn, sem er líka íslenskur, og hafa tilbúið fyrir uppboð í dagrenningu.

Strax upp úr klukkan 6 er hersveit karla í hvítum sloppum og stígvélum mætt á markaðinn. Fiskurinn í dag er, eins og nánast alltaf, frá Íslandi. Þorskur og ýsa. Á þessu byggjast alls um fimmtán þúsund störf í Grimsby, séu afleidd störf talin með. Ekkert á við það sem áður var, en í innan við hundrað þúsund manna samfélagi skipta þessi störf óneitanlega miklu máli. Til samanburðar eru störf tengd sjávarútvegi á Íslandi innan við níu þúsund.

Martyn Boyers er forstjóri fiskmarkaðarins og hann ætlar ekki að láta óvissuna slá sig út af laginu.Þegar hann er spurður að því hvaða þýðingu Brexit gæti haft, svarar hann: „Fyrir okkur er þetta líklega bara breyting á reglunum. Ég sé ekki fyrir mér að fólk hætti að borða fisk.“ Hann hefur ekki kviðið Brexit eða áhrifum útgöngunnar.

„Ef við lítum á samband Íslands og Grimsby gegnum tíðina þá er það samstarf mun eldra en ESB, eldra en sameiginlega sjávarútvegsstefnan og allt það“ bætir hann við.

Martyn Boyers, forstjóri fiskmarkaðarins í Grimsby (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Á íslensku heitir þetta viðhorf „þetta reddast“ og í ljósi aðstæðna er kannski ekki um neitt annað að velja.

Allir sem við hittum í Grimsby hafa áhyggjur af afleiðingum Brexit, líka þeir sem vilja samt ganga úr Evrópusambandinu sem allra fyrst, jafnvel án samnings. Og Boyers hefur skilning á ástæðunum.

„Margir hérna hafa séð nýtt fólk streyma til Bretlands og mörgum í Grimsby hugnast það ekki“ segir Boyers. „Grimsby er fátækur bær, það er mikill skortur hér og margir kusu hreinlega á móti núverandi kerfi. Ekki endilega á móti því að vera í Evrópusambandinu, ég held að það sé í sjálfu sér ekkert að því að vera í ESB.“

„Í Grimsby“ segir Boyers, „finnst fólki það ekki endilega eiga neitt sameiginlegt með Grikkjum eða Ítölum, sem Evrópusambandið hefur komið fjárhagslega til bjargar. Sumir íbúar Grimsby, sem þurfa að fá mataraðstoð, búa ekki við góðar aðstæður og eru atvinnulausir, hugsuðu bara að nú væri kominn tími til að breyta. Það er líklega það sem gerðist en á sínum tíma gerði enginn sér grein fyrir afleiðingunum. Eins og Cameron kynnti þetta, þáverandi forsætisráðherra, var þjóðaratkvæðagreiðslan einföld: Viljum við vera inni eða úti? Hann lét það næstum líta út fyrir að vera eins og að hætta  að borga árgjald í golfklúbbinn. „Ég vil ekki vera félagi lengur.“ En það er ekki þannig.“

Hvað finnst íbúum?

En snýst Brexit í raun og veru um Evrópusambandið eða eitthvað allt annað? Í Grimsby, eins og raunar víðar í norðurhluta Englands, er velmegun minni, menntun minni og félagsleg vandamál heldur meiri en í suðurhlutanum. Í heimsókn okkar var barlómurinn í viðmælendunum mikill og það fór ekkert á milli mála að gremja stýrði því hvernig margir kusu. Iðulega er minnst á sjávarútveginn, þótt útgerðin hafi horfið fyrir fjórum áratugum, en hún er eins konar táknmynd niðurlægingarinnar sem íbúar á þessu svæði telja sig hafa orðið fyrir.

Götumynd frá Grimsby (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Það er óneitanlega ákveðin kaldhæðni í því fólgin að fiskmarkaðurinn og landfyllingin sem hann stendur á hafi orðið til með styrkjum frá Evrópusambandinu. En ímyndin sem flestir Grimsby-búar hafa í huganum þegar talað er um sjávarútveginn í dag er af yfirgefnum rústum þess sem einu sinni var. Nú er gamla ísverksmiðjan risastór dúfnakofi og heilu göturnar eru lokaðar af. Kaffihúsið hans Sullys er eins og eigendurnir hafi einfaldlega gengið út, skellt í lás og aldrei komið aftur.

Á Docks Beer, spánnýju brugghúsi skammt frá höfninni, sem er dæmi um að þrátt fyrir allt sé nú eitthvað um að vera í Grimsby, hittum við þau David Pearce, fyrrverandi sjómann og Fionu Croft, sem muna Grimsby á meðan allt var í lukkunnar velstandi. Þau eru sannfærð um að útganga úr Evrópusambandinu sé bráðnauðsynleg, en óviss með hver árangurinn verði til að byrja með.

„Þegar maður hætti í skóla, 15 ára í mínu tilviki, gekk maður að starfi vísu“ segir Pearce. „95% af störfunum var við höfnina í Grimsby. Allir fengu vinnu sem vildu. Svona var þetta þar til á miðjum áttunda áratugnum. Þegar ég lít á bæinn sem ég þekkti og ólst upp í, með næga atvinnu fyrir alla - og ber hann svo saman við nútíðina og það hvernig pabbi minn lifði á fjórða áratugnum, þá stefnum við aftur til þeirra daga. Ég trúi því að þar til við fáum fullt sjálfstæði aftur verði þetta þannig. Hvort það verður Brexit sem kemur því til leiðar… Ef það gerist tel ég að það taki minnst tíu ár.“

David Pearce, fyrrverandi sjómaður og Fiona Croft (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

„Ég held að þetta verði verstu fimm ár síðan í stríðinu“ segir Fiona Croft.

Við verðum að tryggja börnum okkar og barnabörnum lífsviðurværi, segja þau skötuhjú. En þar er á brattann að sækja, í það minnsta ef störfin eiga að vera í fiskvinnslu eða útgerð. Hnattvæðing og fjórða iðnbyltingin þýða að störf, einkum láglaunastörf ófaglærðra, flytjast þangað sem ódýrast er að halda þeim úti. Vélar, svo ekki sé minnst á gervigreind, taka við sífellt fleiri verkefnum. Sú þróun heldur áfram, sama hvað tautar og raular, og Brexit mun þar engu breyta.

„Áður en ég fór í háskóla var ég teymisstjóri í matvælaverksmiðju í bænum, hafði umsjón með vöruhúsinu“ segir Louis Meller, háskólanemi í Grimsby. „Ég var yfirmaður margra lyftarastjóra og þeir höfðu sumir stýrt lyftara í 30 ár. Þeir voru á hærri launum fyrir fimmtán árum en þeir fá núna. Störf sem mætti segja að krefjist miðlungshæfni krefjast ekki lengur miðlungshæfni. Ég held að það sé rót óánægjunnar.“

Louis Meller, háskólanemi í Grimsby (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Meller segir vissulega nokkuð hafa skapast af nýjum störfum, en það séu láglaunastörf. „Það er því lítil gróska á þessu svæði“ segir hann og bætir við: „Svo er það Lundúnaliðið sem lofsamar ESB en það hefur bara ekki gert neitt fyrir okkur hér í norðaustrinu. Því ættum við að treysta þeim áfram?“

„Í mínum huga snýst þetta allt um innflytjendamálin. Bretland er að verða ofsetið. Bretland er ekki lengur Bretland heldur bara Evrópa“ segir karlmaður sem við hittum á förnum vegi. Þegar hann er spurður að því hvað það þýði segir hann að það sé stöðugur straumur fólks sem vilji setjast þar að.

„Við erum ekki lengur bresk“ segir kona sem er með honum í för. „Leigubílstjóri spurði mig um daginn: „Ertu enskur Breti eða annars konar Breti? Ég er bresk-ensk, sagði ég.“ Af hverju þurfti hann að spyrja mig að þessu? Ég hef búið hér allt mitt líf. En svona er þetta að verða. Þeir þurfa að spyrja mann hvað maður sé. Hverrar þjóðar maður sé.“

„Ég hef ekkert á móti fólkinu sem kemur hingað“ segir karlinn. „Ef það vinnur. Ef það er í vinnu. Ef það gerir landinu gagn. En ef ekki, af hverju þarf þá ríkið að halda því uppi? Það er það eina sem ég hef út á þetta að setja“ og hann bætir við: „Ég vil að börnin mín eigi betra líf hérna en hvernig getum við öðlast betra líf þegar öll störfin eru frátekin?“

Vegfarendur í Grimsby (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Þetta viðhorf er algengt, en þó eru tiltölulega fáir innflytjendur í Grimsby og Hull og engar vísbendingar um að þeir séu að taka störf sem heimamenn fengju ella. En á meðal innflytjendanna eru Íslendingar, skiljanlega kannski, í ljósi aldalangra samskipta Íslands, Grimsby og Hull. Hver ætli staða þeirra verði við Brexit?

Íslenskir innflytjendur

Í Hull hittum við þær Jórunni Jónsdóttur, eiganda ferðaskrifstofunnar All Iceland og Sólveigu Guðmundsdóttur sem er sölustjóri þar. Báðar hafa þær búið í Bretlandi í á annan áratug en segjast litla hugmynd hafa um hvað verður. „Sumir segja: „o, já, ég er búin að búa hérna í þrjátíu ár. Ég verð bara að pakka niður og fara heim.“, segir Jórunn. „Að við þurfum allt í einu að fara að sækja um.“ Jórunn er búin að búa í Bretlandi í fimmtán ár. Byrjaði sem námsmaður en fór svo í fyrirtækjarekstur. „Svo allt í einu á ég að sækja um að fá að vera hérna. Þetta er svolítið skrítin staða“ segir hún.

Jórunn Jónsdóttir, eigandi All Iceland ferðaskrifstofunnar og Sólveig Guðmundsdóttir, sölustjóri All Iceland ferðaskrifstofunnar (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Samkvæmt samningi sem íslensk og bresk stjórnvöld hafa gert, eru réttindi þeirra 2400 Íslendinga sem eiga lögheimili í Bretlandi tryggð, burtséð frá því hvernig útganga Breta úr Evrópusambandinu verður. Þessu fylgir þó ný pappírsvinna sem ljúka þarf fyrir mitt ár 2021. Breska þingið hefur reyndar ekki ennþá formlega samþykkt þessa útfærslu, en gert er ráð fyrir að þetta fyrirkomulag taki engu að síður gildi. Og þegar Evrópusambandið og Bretland ná framtíðarsamningi gæti þetta svo allt breyst.

„Ég held að ef það verður enginn samningur, þá verði tómt í búðum fyrstu dagana“ segir Jórunn. „Rétt áður en það gerist, ef það verður bara endanlegt, við förum bara út, enginn samningur, þá held ég það verði bara vöruskortur til að byrja með.“

Þær Jórunn og Sólveig eru sammála um að það verði áreiðanlega ringulreið til að byrja með.  „Það eru svona nýjustu tíðindi síðustu daga, það virðist vera að fresta, allt bendir til þess“ segir Jórunn. „Það finnst manni auðvitað skelfilegt af því að þá erum við í rauninni að teygja þetta tímabil.“ „Óvissan ríkir ennþá lengur“, bætir Sólveig við. „Sem er náttúrulega mjög slæmt fyrir alla. Þannig að það verður örugglega eitthvað mikið erfitt fyrstu árin.“

Sólveig og Jórunn vinna í ferðabransanum og gætu fundið fyrir breyttu landslagi þar. Nærri lætur að einn af hverjum fimm ferðamönnum sem koma til Íslands, sé frá Bretlandseyjum og þangað eru flognar á milli 4 og 5 þúsund flugferðir árlega. Drög að flugsamningi milli Íslands og Bretlands liggja fyrir, en almennt stefnir í að Brexit þýði flækjur fyrir bresk flugfélög sem vilja fljúga til og innan Evrópu, sem allt bendir til að skili sér í hærra verði og færri valkostum fyrir neytendur. Og fyrir íslensku flugfélögin sem fljúga með frakt til Bretlands og svo aftur þaðan til Evrópu, Icelandair Cargo og Bluebird, þýðir útganga Bretlands án samnings í besta falli töluverðar flækjur og pappírsvinnu.

Óvissan er ríkjandi

Sama gildir um Pete Dalton, forstjóri Ocean Blue fiskvinnslunnar og félaga hans í sjávarklasanum sem er rétt að komast í gang í Grimsby. Hér eru bæði bresk og íslensk fyrirtæki með aðstöðu, vinna mestmegnis úr íslenskum fiski og flytja hann svo út.

Hann hefur töluverðar áhyggjur. „Enginn veit hvað gerist. Enginn hefur lagt neinar línur. Einhverjir hafa lagt fram sviðsmyndir sem gætu orðið að veruleika, en það er ekkert öruggt“ segir hann. „Fyrirtækið okkar er lítið og ég hef sérstakar áhyggjur af skriffinnskunni í kringum það og auðvitað fjárhagslegu hliðinni. Þurfum við að fara aftur í tímann og útvega heilbrigðisvottorð fyrir hverja sendingu af fiski? Ég sé fyrir mér að við gætum drukknað í skriffinnsku.“

Vandræðin verða að líkindum mest þarna, í því sem kallað er umflutningur, það er fiskur sem er fluttur frá Íslandi til Bretlands og þaðan, ýmist beint áfram eða unninn frekar, til meginlandsins.

Lia Nici, bæjarráðsmaður Íhaldsflokksins, kaus gegn úrgöngu úr Evrópusambandinu, ólíkt nærri því öllum öðrum, þar sem hún óttaðist neikvæð áhrif á þessar viðkvæmu atvinnugreinar. En nú finnst henni tímabært að klára málið. Allt sé betra en lengra óvissutímabil.

Af fiskmarkaði í Grimsby (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

„Ég held að við eigum erfiða tíma í vændum“ segir Nici. „Þess vegna vona ég að við komumst út úr ESB með samning í höndunum fyrr en síðar“ og hún heldur áfram: „Margir hafa áhyggjur af því að báknið í London vilji ekki að við göngum úr ESB. London talar ekki máli íbúa í öðrum landshlutum. Margir sem kusu Brexit eru á jaðrinum, fólk sem býr í sjávarbæjum þar sem sjávarútvegur og námuvinnsla voru áður í aðalhlutverki. Mörgum finnst þeir ekki lengur hafa um neitt að velja, að ESB takmarki frelsi okkar til að fara í þá átt sem við viljum fara í.“

Í orðum Liu Nici má greina það sem var mjög augljóst á ferð okkar í Grimsby. Gremja bæði þeirra sem styðja útgöngu og þeirra sem hefðu viljað vera áfram í Evrópusambandinu. En gremjan snýr frekar að London og suðurhluta Englands, en Brussel. Að hinni meintu ríku elítu sem hefur ekki áhuga á daglegu streði þeirra sem hafa minna milli handanna, minni menntun og tækifæri og búa oftar en ekki fyrir norðan.

Martin Vickers er fjóra daga í viku í Westminster og fyrir norðan um helgar. Þegar ekki verður lengur hægt að beina spjótum sínum að Brussel, þá er eðlilegt að þau beinist beint að stjórnmálamönnunum heima fyrir.

„Það er vel skiljanlegt. Fólkið vildi að stjórnmálamenn heima fyrir fengju völdin á ný“, segir hann. „Ef til vill verður meiri krafa um að við stöndum okkur, því við getum ekki kennt Brussel um. En það er gjald sem ég, sem stjórnmálamaður, er reiðubúinn að greiða.“

Ef Bretar ganga úr Evrópusambandinu án samnings verður ringulreið. Ef öllu verður frestað verður áfram óvissa. Ef þeir ganga út en gera samning, þá er óvissan samt til staðar því þá á alveg eftir að semja um framtíðarsamband Bretlands og Evrópusambandsins og þeir samningar verða nær örugglega þeir sem gilda munu um Ísland líka.

Hvað verður þá um fiskinn sem hefur verið landað í Grimsby? Viðmælendur Kveiks sögðust nýlega vera undir það búnir að hnika siglingaleiðum og finna hentugri umskipunarhafnir en Grimsby. Talsmenn íslenskra og breskra yfirvalda segja samt enga ástæðu til þess, því ekkert breytist með fiskinn. En á meðan ekkert er undirritað og lögfest, þora fáir að taka áhættuna. Og það er ekki ólíklegt að í Grimsby verði heldur dýrara að fá sér fisk og franskar en hingað til.

Þrátt fyrir nýjustu vendingar er óvissan vegna Brexit ennþá jafnmikil og hún var fyrir mánuði, eða eiginlega fyrir hálfu ári. Og það er satt að segja vandséð að loksins þegar kemur að útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, verði allir sáttir. Það eru meiri líkur á að við verðum ennþá að tala um Brexit eftir tuttugu ár.

Síðutogarann Ross Tiger í Grimsby (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)