Fyrirmyndarkerfið og lærdómurinn af því

Finnska skólakerfið er skoðað, en allur heimurinn hefur verið að reyna að átta sig á því hvað Finnar hafa gert rétt til þess að ná stöðugt góðum árangri á alþjóðlegum prófum, án þess að vera að leggja sig sérstaklega eftir því.

Finnskir grunnskólanemar hafa komið vel út á alþjóðlegum samanburðarprófum en íslenskir síður. Finnska menntakerfinu er hrósað – en í hverju liggur galdur Finna? Væri hægt að fylgja fordæmi þeirra?

Nemendur og kennari í skólastofu í Espoo (Mynd: Arnar Þórisson)

Í Espoo í Finnlandi kennir Anu Aario sjötta bekk, sem samvarar sjöunda bekk á Íslandi. Anu er búin að leggja fyrir krakkana reikningsdæmi sem þau leysa í hóp, ritari skrifar niður svarið og hvernig hópurinn fór að því að komast að því. Krakkarnir eru í stærðfræðitíma, en hann fer fram á ensku, fyrsta vísbending um nálgun Finna.

Þegar litast er um í bekkjarstofunni og í kring er ekki að sjá að munurinn á íslenskum og finnskum grunnskóla liggi í aðbúnaði. Byggingin er lúin og í plássleysi hafa verið stúkuð af rými á göngunum. En það virðist ekki vera íburðurinn, húsnæðið, tækin eða einu sinni stærð bekkja sem veldur því að Finnum er hampað.

Allir hóparnir fóru mismunandi leið að því að komast að niðurstöðu, réttri niðurstöðu, í öllum tilfellum. Samvinna og rökhugsun voru lykilatriðið, ekki að fara eftir einni tiltekinni aðferð til að fá útkomuna. Skilningur er sem sagt það sem áherslan er lögð á, ekki utanbókarlærdómur eða samþykktar aðgerðir í stíft skilgreindum fögum.

„Þær aðferðir eru ekki grundvallaratriði í okkar kerfi og það er vegna þess, að mínu mati, að við treystum ekki mikið á samræmd próf“ segir Anu Aario. „Við miðum ekki kennsluna við að nemendur okkar standi sig vel á prófi sem þeir þreyta 15 ára, til dæmis. Þess í stað lítum við á hvern nemanda fyrir sig og spyrjum okkur hvað hann þarf núna. Í grunnskóla er áherslan meira á að barnið læri að vera sanngjarn vinur og virkur þjóðfélagsþegn.“

Anu Aario, kennari í Espoo (Mynd: Arnar Þórisson)

Aðspurð að því hvernig hægt sé að kenna þetta, svarar Anu: „Ef þín hugmynd um kennslu er að kennari segi: „Ég segi ykkur hvað þið eigið að gera“ held ég reyndar að enginn aðhyllist þá hugmynd lengur. Þú talaðir um að þetta væri innan veggja skólastofunnar en ég held að svarið liggi dálítið þar. Það er ekki hægt ef við reynum að halda okkur innan skólastofunnar. Það verður að taka með í reikninginn líf krakkanna utan skólans, við verðum að tala um samfélagsmiðla og leyfa þeim að spjalla um það sem þau hafa áhuga á og taka áhugamálin með í skólann.

Þessu er blandað saman við kennslugreinarnar sem eru ekki hver í sínum kassa, heldur líka blandað saman. Í stað mjög stífrar stundaskrár, nákvæmlega skilgreindra kennsluleiða, fjölda stunda sem skal verja í hvert fag, er unnið að verkefnum.

„Ég merki ekki einu sinni inn á stundaskrána þeirra að þau fari í stærðfræði klukkan átta á mánudögum“ segir Anu. „Ég get merkt inn að þá verði stjörnutími, sem þýðir að þau eru hjá bekkjarkennaranum og við vinnum að þeim verkefnum sem eiga við hverju sinni. Ég reyni auðvitað að jafna þetta út því það þarf að kenna ákveðinn fjölda stunda en ef við erum til dæmis að vinna verkefni um Forn-Egypta og þau eru að þrívíddarprenta pýramída í myndlist. Er það þá sögutími eða myndlist? Það er hvort tveggja. Mörkin þar á milli verða því óskýrari.“

Kennararnir njóta virðingar

Það eru dæmi um að svona aðferðum sé beitt í íslenskum skólum, en ekki kerfisbundið, það er að segja, kerfið sjálft er ekki hannað og skipulagt með svona aðferðir í huga.

Finnska kerfið á sér ekki óskaplega langa sögu og tilgangurinn var ekki að skila ofurárangri, heldur skapa skólakerfi byggt á jöfnuði svo að allir burtséð frá uppruna, efnahag eða þroska, ættu jafnan kost á góðri menntun. Allir áttu að geta lært allt og ganga í sama skóla. Frá því undir 1980 hefur verið unnið eftir þessari hugsun og kerfið hefur ekki tekið neinum stórfelldum breytingum síðan.

Anu aðstoðar Lumi við námið (Mynd: Arnar Þórisson)

Árangurinn í Pisa-prófum og slíku sést hins vegar ekki fyrr en um aldamótin og kom þá Finnum sjálfum á óvart. Þeir voru allt í einu komnir í sama flokk og Asíu-þjóðirnar sem verið höfðu langefstar á listanum svo árum skipti. Og í Asíu einkenndist kerfið af mikilli samkeppni, löngum og ströngum skóladögum, miklu heimanámi og einkatímum.

En Finnar fóru allt aðra leið. Áherslan á tónlist, listir, handverk og lífsleikni var jafnmikil og á stærðfræði, lestur og náttúruvísindi. Frá 2012 hefur árangur Finna í Pisa-prófunum að vísu aftur dalað nokkuð.

Íslensk yfirvöld leita ráðgjafar Finna

Finnar hafa víða verið beðnir um ráðgjöf og leiðbeiningar. Menntayfirvöld í Reykjavík sóttu í smiðju Pasi Sahlbergs, hálfgerðs sendiherra þessa dásamaða skólakerfis. Hann var lengi vel kennari en ferðast nú um heiminn til að segja frá finnska kraftaverkinu og segir að hluti af því séu einmitt kennararnir. Í Finnlandi er kennarastarfið eftirsótt.

„Í fyrravor, þegar opnað var fyrir umsóknir um nám í kennsluréttindum fyrir grunn- og framhaldsskóla, voru umsækjendur tíu sinnum fleiri en við getum tekið inn“ segir Pasi. „Þeir sem hafa valið að leggja fyrir sig kennarastarfið segja nánast aldrei að launin hafi heillað, að starfið sé vel borgað. Það er alltaf eitthvað annað. Síðan er hitt, að í Finnlandi hefur kennslustarfið notið mikillar virðingar og það er mikils metið.“

Þegar við spyrjumst fyrir um ástæðu þess að kennarar njóta virðingar, kemur í ljós að samkvæmt finnskum mælingum hefur það ávallt verið svo. Breytingin, segja viðmælendur okkar, varð annars staðar. Það er að segja, annars staðar á Norðurlöndunum fjaraði undan þessari virðingu. Hvers vegna er önnur og stærri spurning.

En hvernig á að laða þetta afburðafólk í kennaranám? Lofa framhaldsskólastúdentum með afbragðseinkunn ofurlaunum? Nei, einmitt ekki.

Pasi Sahlberg, sendiherrafinnskaskólakerfisins (Mynd: Arnar Þórisson)

„Það er margt ungt fólk úti á götunum sem vinnur gott starf með ungmennum í samfélaginu og hefur allt til að bera til að verða frábærir kennarar“ segir Pasi. „Og það fer oft þannig. En ef við segjum fólki að það geti ekki orðið kennarar nema það hafi sjálft verið afburðanemendur útilokum við margt af þessu fólki. Það er ekki hægt að vera góður kennari ef maður skilur ekki hvað það er að kenna öðrum eða hvers vegna það er nauðsynlegt. En að mínu mati er góður kennari manneskja sem býr yfir samkennd og getu til að hlusta á og skilja hvað börnin þurfa.“

Ano, kennarinn í Espoo, tekur í sama streng og viðurkennir aðspurð að kennarastarfið sé köllun.  „Þó að í hvert skipti sem það er kallað köllun spyrji ég mig hvort það sé hluti vandans, er það þess vegna sem launin eru ekki eins góð? En jú, maður þarf að vilja vinna með ómótaða huga og einnig að vísa þeim veginn. Það er kjarninn í starfinu í dag.“

Af því að Anu minnist á launin: Samkvæmt tölum OECD eru meðalárslaun íslensks grunnskólakennara með 15 ára starfsreynslu 4.750.000 að frádregnum skatti og öðrum gjöldum, en finnsks kennara ríflega 4.9 milljónir tæplega 200.000 króna munur á ári. Samkvæmt skýrslu um starfsumhverfi kennara í Reykjavík frá árslokum 2017, voru laun grunnskólakennara lítillega hærri en hópa með svipaða háskólamenntun í starfi hjá borginni.

Hugmyndir um starf og hlutverk kennarans hafa líka breyst því heimurinn hefur breyst, segir Terja Isokorpi, sem er skólastjórinn í Espoo. Við vitum ekki hvernig heimur blasir við krökkunum sem nú eru í sjötta og sjöunda bekk þegar þau komast á fullorðinsár. Frekar en að hamra á staðreyndalærdómi sé áherslan á að þjálfa með þeim hæfni.

TerjaIsikorpi, skólastjóri í Espoo (Mynd: Arnar Þórisson)

„Ég tel að þau læra að bjarga sér hvert með öðru, segir Terja. „Þau læra að vinna saman, finna upplýsingar saman, hvar upplýsingar sé að finna, hvort þær séu réttar, rangar, eða áreiðanlegar. Stærðfræði skiptir ekki svo miklu máli í sjálfu sér en auðvitað er mikilvægt að kunna eitthvað og að kunna að finna þá þekkingu sem vantar ef maður man ekki allt.“

Kennslan og umhverfið vinnur saman

Í finnskum skólum er boðið upp á ókeypis mat fyrir nemendur. Og Anu, kennari, sest með krökkunum í umsjónarbekknum við matarborðið. Hún telur að þetta sé í raun einn mikilvægasti tími dagsins þar sem kennararnir fá tækifæri til að umgangast hvern og einn nemanda fyrir sig. „Ef krakkarnir hafa áhyggjur af einhverju eða ef eitthvað kom fyrir í frímínútunum en við þurfum að koma öllum í gang með verkefnin segi við börnin að þau geti komið til mín í hádegismatnum og rætt málin þá, það sé besti tíminn“, segir hún og heldur áfram: „Ef ekkert hefur komið upp spjöllum við bara, þau segja mér hvað þau gerðu um helgina, til dæmis. Það er góður tími sem við eigum saman.“

Anu borðar hádegismat með nemendum sínum í Espoo (Mynd: Arnar Þórisson)

Í mörgum skólum er líka boðið upp á ákveðna heilsugæslu og sálfræðiþjónustu, sem og sérkennslu þegar hennar er þörf, stundum aukakennara inni í bekk þegar það er talið skila bestum árangri.

Samkvæmt tölum OECD frá 2015 er samanlagður kostnaður við meðalnemanda á aldrinum 6-15 ára hærri á Íslandi en í Finnlandi, þótt það sé reyndar misjafnt eftir skólastigunum. Útgjöld til menntamála eru þó hærri sem hlutfall af þjóðarframleiðslu á Íslandi.

En lykilspurningin er hvort hægt er að læra af Finnum, herma eftir þeim. Menntakerfið er ekki eyland heldur hluti af samfélaginu og menningunni sem þar er ríkjandi. Pasi Sahlberg verður til dæmis var við aga- og virðingarleysi í íslenskum skólum. „Í Finnlandi bera ungmennin meiri virðingu fyrir skólanum og stofnuninni skóla og fyrir kennurunum, sérstaklega í kennslustofunni. Það þýðir að á meðan kennarinn er að kenna eða að deila upplýsingum eða fróðleik taka flest börnin því alvarlega. Ég held að finnskir kennarar noti frekar slíka forystu heldur en að „stjórna“ og beita stífni í t.d. stærðfræðikennslu eins og gert er í öðrum löndum. En eins og ég sagði sé ég margt líkt með skólum í löndunum okkar.“

Pasi nefnir eitt markmiða Finna, um jöfnuð í skólakerfinu. Þar standi Ísland líklega betur en Finnland en árangurinn sé samt ekki sá sem Finnar hafi náð.

Hið sama gildir raunar annars staðar á Norðurlöndum en enginn veit eða treystir sér til að fullyrða um ástæðurnar. Hvorki sérfræðingar OECD né íslenskra menntamálayfirvalda. Við vitum samt ýmislegt eins og að kennslustundir í barna- og unglingaskólum eru miklu fleiri á Íslandi en í Finnlandi. Og finnskir unglingar verja skemmri tíma í heimanám en jafnaldrar þeirra víðast hvar, þótt skóladagurinn sé líka styttri en í flestum samanburðarlöndum. Finnskur meðalgrunnskólabekkur er hins vegar aðeins fjölmennari en sá íslenski, samkvæmt OECD.

Í ljósi þess að kerfið á sér rætur aftur á áttunda áratuginn kemur ekki á óvart að breytt samfélag hefur leitt af sér ýmis vandamál. Snjalltækin eru þar fremst í flokki og þessi lotningarfulla virðing fyrir kennurum er aðeins á undanhaldi. Fjöldi nemenda sem á sér annað tungumál en finnsku sem fyrsta mál reynir líka á þolmörkin. Sum vandamálin þekkjum við mjög vel á Íslandi.

„Sérstaklega þegar við horfum á lestrarkunnáttuna. Strákum gengur ver að lesa en stúlkunum“ segir Terja, skólastjórinn í Espoo.

Anu tekur í sama streng: „Ég held að við séum að átta okkur á þessu núna en kannski fullseint. Ég held að það tengist því sem við ræddum áðan, að sjá til þess að nóg áhersla sé lögð á það sem börnin hafa áhuga á og sem þau eru sterk í. Þegar ég lít á strákana í mínum bekk eru þeir afar áhugasamir um sín hobbí og þeir leggja sig mikið fram á þeim sviðum. Ef þeir geta tekið þá hvatningu með í það sem við gerum í kennslustofunni held ég að við getum minnkað það bil.“

Á Íslandi

Finnar hafa því ekki fundið töfralausnir við öllu. En hvað segja þeir sem unnið hafa með Pasi Sahlberg í Reykjavík um nokkurra missera skeið. Hver er lærdómur þeirra?

Skúli Helgason, formaðurskóla- ogfrístundaráðsReykjavíkur (Mynd: Arnar Þórisson)

„Skólinn snýst um það, að byggja upp einstaklinginn“ segir Skúli Helgason, formaður menntamálanefndar. „Tryggja að við náum því besta úr hverju barni. Og að það séu fjölbreyttir valkostir í boði, sem rýma þá við að hæfileikar barnanna eru mismunandi. Það er öllum sem hentar að fylgja kannski þessar hefðbundnu bóknámsbrautir á þeim forsendum sem gamla, íslenska menntakerfið bjó til, og skólinn þarf að rýma við þetta. Framtíðarmenntakerfið.“

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, hefur líka skoðað finnska kerfið og hann nefnir þrennt sem hann telur mega læra af Finnum.

„Í fyrsta lagi, Finnar skilja ennþá að meira er ekki alltaf betra. Það er ákveðið svona atriði. Þeir einbeita sér að afmarkaðri þáttum, stundum, og sinna þeim betur. Börn sitja oft skemmri skóladag, færri ár í skóla, og það er ýmislegt svona sem að fyrirbyggir bæði skólaleiða og ákveðið vandamál“ segir Ragnar Þór. Hann heldur áfram: “Annað sem ég held að skipti gríðarlegu máli, er að kennarastéttin í Finnlandi er ekki sama kennarastéttin og víðast annars staðar. Það hefur verið gríðarlega hátt menntunarstig á finnskum kennurum í áratugi. Þetta eru mjög færir háskólamenn sem hafa gengið mjög langt í námi með mikla rannsóknaráherslu. Og ég held að það valdi því að þeir séu gríðarlega færir til að gegna þessu starfi.“

Ragnar Þór Pétursson, formaðurKennarasambandsÍslands (Mynd: Arnar Þórisson)

Ragnar er líka á því að námsskrá, lög og reglugerðir hér á landi séu metnaðarfull, en eftirfylgnina vanti að uppfylla fyrirheitin og fylgja stefnunni.

En hvað með að laða rétta fólkið í kennaranám, fólkið sem getur orðið afburðakennari og hvernig er hægt að hefja kennarastarfið til þeirrar virðingar sem það nýtur í Finnlandi?

„Okkur tekst ekki einu sinni að laða fólk í námið og starfið“ segir Ragnar Þór. „Ég myndi ekki ganga svo langt að segja að það sé fullt af fólki á Íslandi að kenna sem ætti ekki að vera að kenna. En það er augljóslega fullt af fólki sem er ekki að kenna sem ætti að vera að kenna. Okkur vantar fleira fólk og fólk af öllum tegundum.“

Pasi, sendiherra finnska skólakerfisins, er á sömu nótum og Ragnar, en telur mikla möguleika felast í meira samtali þeirra sem stýra skólastarfi og þess aragrúa sem kemur að tómstundastarfinu utan skólanna.

Finnsk skólabörn í Espoo (Mynd: Arnar Þórisson)

„Þannig býr sá mikli og góði efniviður sem er hér á Íslandi í þessu fullorðna fólki sem vinnur með sömu börnum þegar þau eru ekki í skólanum“ segir hann og heldur áfram: „Ef ég mætti veita Reykvíkingum og Íslendingum eitt heilræði í fullri alvöru myndi ég ráðleggja þeim að nýta betur og samræma betur starf þeirra sem vinna með börnunum utan skóla, samræma starf þeirra við starf kennaranna. Það myndi líklega bæta allt saman.“