Kaupir vændi til að fullnægja spennuþörf

Meirihluti þeirra sem kaupa vændi á Íslandi eru íslenskir giftir karlmenn. Þetta er mat lögreglunnar. Sé staðan svipuð hér og á öðrum Norðurlöndum má gera ráð fyrir að þrettán til sautján þúsund karlmenn kaupi vændi.

Rannsóknir á Norðurlöndum sýna að 10 til 13 prósent karlmanna kaupi vændi. Þeir eru flestir giftir eða í sambúð og aldrinum 30 til 50 ára. Þetta kemur fram í Kveik í kvöld.

Kveikur setti upp reikning á einkamálasíðu til að reyna að komast í kynni við kaupendur. Nokkur hundruð karlmanna hafði samband. Sumir gengu hreint til verks, spurðu strax hvað kostaði, aðrir buðu peninga í staðinn fyrir kynlíf, sumir þreifuðu fyrir sér áður en þeir spurðu um verð og einn spurði hvort það kostaði og sagðist ekki taka þátt í slíku.

Sumir karlanna voru mjög grófir í tali en flestir voru frekar kurteisir. Þá var meirihluti mannanna í sambúð eða hjónabandi, áttu börn og jafnvel barnabörn.

Fréttamaður Kveiks tekur á móti vændiskaupanda (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„Ég er giftur, tveggja barna faðir,“ segir einn karlmaður sem hafði samband við gervireikning Kveiks. Hann segir ástæðu þess að hann leiti til vændiskvenna vera þá að hjónalífið sé bágborið. Hann hafi stundað framhjáhald í nokkur ár en nokkrum sinnum slegið til og borgað fyrir kynmök.

Aðspurður hvort hann hafi einhvern tímann séð eftir því segir hann já;  „Í einhverju ástandi þá er maður í einhverju spennuástandi og langar að gera eitthvað en sér svo kannski eftir því.“

Þrátt fyrir það komi spennan svo allt í einu upp aftur og þá kaupi hann aftur vændi.

Maðurinn segist enga hugmynd hafa um í hvaða stöðu konurnar séu sem hann kaupi vændi af. Þær geti allt eins verið í neyð. Hann hafi þó gengið út úr aðstæðum þar sem honum þótti sem konan væri ekki að selja sig af fúsum og frjálsum vilja. Þá kaupi hann ekki vændi af erlendum konum.

„Það er út af umræðunni um mansal og þess háttar, sem kannski hræðir mann aðeins líka.“

Í Kveik í kvöld er fjallað um vændi á Íslandi. Þátturinn hefst kl. 19:50