Svona er fátækt á Íslandi

Íslendingar hafa löngum stært sig af því að hér á landi sé engin stéttaskipting, allir séu jafnir og eigi jafna möguleika. Líklega vitum við þó betur. Tugþúsundir Íslendinga búa við fátækt sem takmarkar möguleika þeirra.

Þótt við viljum ekki hugsa til þess, geta allir orðið fyrir áfalli, tekjumissi, sem vindur upp á sig og endar í fátæktargildru. Verst standa einstæðir foreldrar, öryrkjar og innflytjendur og börn sem alast upp í fátækt fá ekki sömu tækifæri og önnur börn og eru líklegri til að glíma við fátækt allt sitt líf.

En hvernig er að búa við fátækt, jafnvel allt sitt líf? Og hvernig er að alast upp í fátækt? Hvaða áhrif hefur fátækt á fólk og fjölskyldur?

Aðstæður fátæks fólks eru misjafnar. Það á það þó margt sameiginlegt að hafa alist upp í fátækt eða við fátæktarmörk.

„Ég er svona önnur kynslóð“

Hildur Oddsdóttir, er einstæð tveggja barna móðir. „Mamma mín var dagmamma, pabbi minn var að vinna í fiski, maður var ekkert að dansa á rósum eða fá allt upp í hendurnar, það var bara ekkert í boði,“ segir hún. Hún hafi alist upp við fátæktarmörk: „Með árunum þá náttúrulega þurfti maður sem sagt að hafa fyrir hlutunum, standa sem sagt á sínum eigin fótum.“

Hildur Oddsdóttir. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Hildur segir að það megi ekkert koma upp á fjárhagslega, gerist það fari allt úr skorðum: „þá þarf náttúrulega að fara að ýta öðru kannski til hliðar á meðan þú ert að borga  hitt.“

Georg Jónsson ólst upp við fátækt. „Mamma var verkakona par excellence, eins og maður segir. Einstæð móðir með tvo stráka.“ Georg var á félagsbótum í þrjú ár. „Ég var á sveitinni í þrjú ár, svokallaður sveitarómagi í þrjú ár. Og lifði við sárafátækt. Með þrjú börn á skólaaldri. Ég hef ekkert getað veitt þeim,“ segir hann.

Georg hefur farið til hjálparsamtaka til að fá aðstoð „og það var skrýtið að hitta svo mömmu í röðinni. Ég er svona önnur kynslóð og þetta virðist ganga í ættir félagslega,“ segir hann.

Stephanie Rósa Bosma er einstæð móðir með eitt barn. Hún ólst einnig upp við fátækt. „Ég kem af láglaunafólki og hef alltaf verið með láglaunafólk í kringum mig,“ segir Stephanie. Hún hafi farið að vinna 12 ára og hafi alltaf þurft að borga sjálf fyrir allt eins og skólagjöld, tölvur, síma og svo framvegis. „Af því að mamma hefur ekkert efni á því eða pabbi minn hefur ekki efni á því.“

Stephanie segir að það sé erfitt að leggja til hliðar í sparnað: „Ef það kemur eitthvað upp á þá verð ég bara að taka þann sparnað sem ég ákvað að ég ætlaði að spara fyrir kannski íbúð, þá verð ég að taka hann til þess að kaupa kannski mat.“

Mæta oft fordómum og verða utangarðs

Á bilinu 18-35 þúsund búa við fátækt hverju sinni, eða 5-10 prósent landsmanna. Af þeim eru sjö til tíu þúsund í mikilli neyð og búa við sárafátækt. Stærstur hluti þeirra eru einstæðir foreldar, öryrkjar og innflytjendur. Þótt við höfum mörg farið í gegnum tímabil þar sem við erum blönk, til dæmis á námsárum eða þegar við hófum búskap, þá er það annað. Fólk sem býr við fátækt í langan tíma, ólst jafnvel upp við fátækt, verður oft utangarðs í þjóðfélaginu, mætir fordómum og þarf að beita allri sinni kænsku til að ná endum saman.

Hlutfall einstaklinga sem lifa við fátækt, skipt eftir aldurshópum. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson/Ragnar Visage)

Kolbeinn Hólmar Stefánsson er félagsfræðingur og einn helsti sérfræðingur Íslendinga á sviði fátæktar. Hann segir að fátækt sé eitthvað sem við þekkjum þegar við sjáum hana en þegar kemur að því að mæla hana þá vandist málið.

„Við erum oft að nálgast hana með ýmsum ólíkum mælingum.“ Algengast sé að miða við ákveðinn punkt í tekjudreifingunni. „Og allir sem eru fyrir neðan hann á tilteknum tímapunkti eru taldir búa við alla vega aukna hættu eða auknar líkur á fátækt,“ segir Kolbeinn.

Samkvæmt þessari skilgreiningu eiga allir einstaklingar sem eru með ráðstöfunartekjur undir 239.200 krónum á mánuði á hættu að búa við fátækt. Og eftir því sem fjölskyldur eru stærri, þeim mun meiri þurfa ráðstöfunartekjurnar að vera. Þannig er til dæmis viðmiðið fyrir einstæða móður með eitt barn 310.960 krónur, fyrir einstæða móður með tvö börn er það 382.720 krónur, fyrir hjón er viðmiðið 358.800 og fyrir hjón með eitt barn er það 430.560 krónur.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru 28-35 þúsund manns undir lágtekjumörkum, og eru þar með fátæk, þar af allt að 10 þúsund börn undir 16 ára aldri.

Kolbeinn Hólmar Stefánsson. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Stór hópur fólks sem fær félagsbætur, örorkubætur, atvinnuleysisbætur, ellilífeyri eða er í láglaunastörfum er því undir lágtekjumörkum. Svo eru þau sem eru rétt fyrir ofan lágtekjumörkin.

„Við sjáum að það telst ekki búa við fátækt samkvæmt þeirri mælingu en af því að það er langvarandi þarna þá er hægt og rólega búið að éta upp allt sparifé og lánstraust og skuldirnar hafa hrannast upp þá ertu komin með fólk sem raunverulega býr við fátækt það nær ekki að standa undir nauðþurftum til dæmis,“ segir Kolbeinn. Hann segir að þorri þess fólks sem sé undir lágtekjumörkum sé í vinnu eða um það bil þrír af hverjum fjórum.

„Hvenær förum við í stóru flugvélina“

En það eru ekki allir sammála um að lágtekjumörk gefi raunsanna mynd af fátækt. Þess vegna eru fleiri mælikvarðar notaðir. Önnur mæling er skortur á efnislegum á gæðum. Þá er það fólk sem getur ekki leyft sér ákveðna hluti af fjárhagsástæðum.

Sum sé, eigi eitthvað þrennt af eftirfarandi við býr fólk við fátækt, eigi fleiri atriði við það, býr það við sárafátæk:

  1. Hefur lent í vanskilum húsnæðislána eða annarra lána vegna fjárskorts á síðastliðnum 12 mánuðum.
  2. Hefur ekki efni á að fara árlega í vikulangt frí með fjölskyldunni.
  3. Hefur ekki efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltíð að minnsta kosti annan hvern dag.
  4. Getur ekki mætt óvæntum útgjöldum.
  5. Hefur hvorki efni á heimasíma né farsíma.
  6. Hefur ekki efni á sjónvarpstæki.
  7. Hefur ekki efni á þvottavél.
  8. Hefur ekki efni á bíl.
  9. Hefur ekki efni á að halda húsnæðinu nægjanlega heitu.

„Ég gerði ekki neitt síðasta sumar, við vorum bara hér heima og já gerðum voða lítið sem er líka allt í lagi en það er líka gaman að fara í ferðalög með stelpunni sinni og gera eitthvað skemmtilegt og gera eitthvað annað,“ segir Stephanie þegar hún er spurð að því hvort hún geti farið í sumarfrí með dóttur sinni.

Hildur segist heldur ekki geta farið með sína stráka í frí.

„Ég meina eldri strákurinn talaði mikið um þetta og sá yngri talar núna rosalega mikið um þetta, þú veist, hvenær förum við í stóru flugvélina?“ Hún segir ekkert ódýrara að fara í ferðalög innanlands. „Ef ég fer eitthvað þá er það bara ég droppa á Selfoss þar sem mamma og pabbi eru og systir mín og allt þetta og er búin að gera undanfarin ár.“

Stephanie Rósa Bosma. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Neita sér um læknis- og tannlæknaþjónustu

Stephanie segir að öll tímabil sem kosti mikla peninga, eins og jól, páskar, afmæli og þess háttar, stressi sig og geri sig þunglynda. „Stelpan mín á afmæli í janúar, í enda janúar sem þýðir að ég veit ekki hvort ég geti haldið veislu fyrir hana, það er bara, ég verð bara að sjá til.“

Og fólk sem býr við fátækt neitar sér um alls kyns læknisþjónustu. Fer ekki til sérfræðilækna, frestar því að kaupa lyf og fer jafnvel ekki til tannlæknis árum saman. „Þetta er bara lúxusvara eins og ég segi, að fara til tannlæknis,“ segir Stephanie.

Þriðja leiðin til að meta fátækt á Íslandi er að spyrja fólk hreinlega í úrtaksrannsóknum hvort það eigi erfitt með að ná endum saman. Aðspurð segist Stephanie þurfa að telja hverja einustu krónu síðustu tvær vikurnar af mánuðinum. Þá sé erfitt að eiga fyrir fötum á stelpuna sem stækkar mjög hratt, segir hún, „og það er bara mjög erfitt sem sagt að kaupa föt og mat bara yfir höfuð.“

Stephanie starfar við umönnun á hjúkrunarheimili og er í fjarnámi. Stephanie þykir erfitt að geta ekki veitt dóttur sinni eins vel og hún vildi. „Það er erfitt að útskýra fyrir sjö ára gömlu barni. Bara, ég hef ekki efni á að kaupa nýjan ipad fyrir þig eða ný föt fyrir þig strax, ég þarf fyrst að spara fyrir því og svo kannski í sumar get ég keypt það, eftir nokkra mánuði.“

Stephanie segist spara verulega í matarkaupum. Stelpan fær mat í skólanum og sjálf getur hún borðað í vinnunni.

„Ég er oft með frosna kjúklinga, frosið hakk, þetta er ekkert ferskt eins og maður vildi,“ segir hún. Hún leyfi sér eiginlega ekki neitt og sé alltaf að passa aurinn. „Eins og ef stelpan mín vill fá eitthvað nammi, þá hugsa ég alltaf já ókei þetta er tvöhundruð kall ókei get ég fengið eitthvað ódýrara þá tek ég frekar ódýrara heldur en hitt.“

Svona lítur staðan út hjá Stephanie. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson/Ragnar Visage)

„Það lifir enginn af fátækt sem er latur“

Stephanie segist hafa um 258 þúsund krónur á mánuði til ráðstöfunar. Hún er því undir lágtekjumörkum, sem fyrir einstæða móður með eitt barn er 311 þúsund krónur. Skammtímaviðmið Umboðsmanns skuldara gerir ráð fyrir að einstæð móðir með eitt barn þurfi 211.428 krónur til að framfleyta fjölskyldunni fyrir utan húsnæðiskostnað. Stephanie borgar 126 þúsund í leigu.

„Fátækt kallar á það að fólk þarf að vera gríðarlega útsjónarsamt, það þarf að leggja á sig mikla vinnu til þess að finna hagstæðustu leiðina til að láta enda ná saman,“ segir Kolbeinn, það sé rosalegt puð: „það lifir engin af fátækt sem er latur.“

Kolbeinn segir að samfélagið geri ríka kröfu á fólk sem býr við fátækt: „Það þarf annars vegar að vera þakklátt fyrir stuðninginn sem það fær og hins vegar þarf það að lifa einhvern veginn svona ofboðslega naumt og ofboðslega skynsamlega.“

Stephanie fékk íbúð hjá Bjargi leigufélagi í haust. Við það lækkaði leigan og húsnæðisöryggi er meira. Við það missti hún hins vegar sérstaka húsnæðisstuðninginn. „Hér í Reykjavík er ekki skoðað tekjutengt, það er skoðað bara félagslega vandann en í Kópavogi þá er þú veist skoðað tekjutengt þá er þetta allt tekjutengt.“

Reglur um sérstakan húsnæðisstuðning eru sum sé mismunandi eftir sveitarfélögum. Í Reykjavík til dæmis og á Akureyri fá aðeins þeir sem einnig eiga við félagslegan vanda að stríða sérstakan húsnæðisstuðning. Í Kópavogi og Mosfellsbæ er sem dæmi eingöngu miðað við lágar tekjur. Og það munar um þessar um það bil þrjátíu þúsund krónur fyrir Stephanie.

Börn sem búa við fátækt einangrast oft

Um tíu þúsund börn á Íslandi búa við fátækt. Og talið er að allt að þrjú þúsund börn búi við sára fátækt. Og fátækt hefur áhrif á þau. Það veit Gunnar Ingi Gunnarsson sem ólst upp við fátækt. Hann flutti margoft sem barn og skipti sjö sinnum um grunnskóla.

„Móðir mín var í rauninni mestan tímann einstæð, hún er öryrki þannig að hún var aldrei með neinar tekjur og það var bara endalaus barátta,“ segir Gunnar Ingi. Hann hafi ekki fengið að læra á hljóðfæri né æfa íþróttir. „Það var bara alltaf sama svarið, það eru ekki til peningar fyrir þessu.“

En manstu einhvern tímann eftir því að hafa verið ja, hvað á ég að segja, svangur eða að það hafi ekki verið til að borða?

„Já, já, margsinnis, mjög oft.“

Margir foreldrar leita sér ekki aðstoðar

Georg Jónsson ólst, eins og fyrr segir, upp við fátækt og er sjálfur fátækur. „Ég var á sveitinni í þrjú ár, svokallaður sveitarómagi í þrjú ár. Og lifði við sárafátækt. Með þrjú börn á skólaaldri. Ég hef ekkert getað veitt þeim.“

Hann borðar yfirleitt á kaffistofu Samhjálpar. Þangað kemur margt af fátækasta og veikasta fólki landsins.

„Það er svo mikið af foreldrum sem leita sér ekki hjálpar og kunna það ekki, eru í óreglu, koma sér ekki út, eru með þunglyndi vegna óreglu eða bara alvöru geðsjúkdóma sem eru með börn a sínu framfæri,“ segir hann. Eftir þessu taki hann þegar hann er í röðinni hjá Samhjálp og Mæðrastyrksnefnd.

Gunnar Ingi tekur undir þetta. „Það er mjög stór hópur, gífurlega stór hópur af fólki, sem að hefur bara ekkert val. Það er bara í þeirri stöðu, það er bara að fá allt of lítið af peningum,“ segir hann. Fólk sé jafnvel að glíma við einhvers konar veikindi eða sé ómenntað og fái ekkert nógu vel borguð störf. „Og gagnvart þessum einstaklingum er ekki réttlátt að segja að þau bara séu að eyða um efni fram eða búa ekki yfir neinu fjármálaleysi eða eitthvað svona. Þetta snýst ekkert um það. Þau bara fá allt of lítinn pening.“

Soffía Hjördís Ólafsdóttir. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Vildi ekki þekkja nein börn í bekknum

Soffía Hjördís Ólafsdóttir félagsráðgjafi hefur rannsakað áhrif fátæktar á börn. Hún ræddi við börn á aldrinum 7-12 ára sem áttu foreldra sem fengu félagsbætur hjá Reykjavíkurborg.

„Ég var með barn sem talaði um það að hann hafði einsett sér það að þekkja ekki nöfnin á neinum í bekknum út af því að þá þurfti hann að kynnast þeim. Og þá þurfti hann að sýna hvernig heimilið hans var. Þarna er strax bara frá unga aldri komin þessi félagslega útilokun,“ segir Soffía Hjördís.

Eitt barn hafi stundum borðað á gólfinu þar sem það var engin aðstaða til að borða og það barn hafi sofið í sameiginlegu rými í stofunni með systkini og foreldri. Annað barn hafi ekki kunnað að lesa og svo hafi eitt barn til dæmis verið hrætt við húsið sitt. „Og síðan auðvitað þetta barn sem að óskar þess að flytja og bara fara eitthvað annað út af tíðum lögregluheimsóknum. Svo að auðvitað hefur þetta allt áhrif.“

Soffía Hjördís segir að börn fátækra taki meiri ábyrgð á lífi sínu en önnur börn og reyni að hlífa foreldrum sínum. Þau hafi jafnvel verið í umönnunarhlutverki gagnvart foreldrum sínum. Þau hafi til dæmis tekið ábyrgð á innkaupum á skólavörum og á því að vakna sjálf og koma sér í skóla. Þá hafi þau hlíft foreldrum sínum frá óskum og væntingum varðandi það sem önnur börn fá eins og að fara út í búð að kaupa sér ís: „Þau sögðu alveg sum frá því að ég spyr ekkert mömmu að því.“

Þá hafi þau verið tilbúin til að tala sig inn á að þurfa ekki að halda afmælisveislu eða fara í ferðalög á vegum skólans til dæmis: „Þau bara svona voru svolítið búin að tala sig inn á að mig langar hvort sem er ekkert að fara.“

Soffía Hjördís segir að börnum finnist það óþægilegt að vera eina barnið í bekknum sem þarf að fá fjárhagsstuðning: „Þar eigum við fullorðna fólkið að stíga inn í og sjá svolítið til þess að allir fari, að það sé ekki einn skilinn eftir heima.“

„Við erum svo grimm þegar við erum börn,“ segir Gunnar Ingi. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Gunnar Ingi segir að þegar hann var lítill hafi krakkarnir í skólanum tekið eftir því að hann bjó við fátækt: „Og krakkar á þessum aldri, við erum svo grimm þegar við erum börn, við berum ekkert skynbragð á hvað er rétt og rangt í svona,“ segir Gunnar Ingi. Það sem hafi jafnvel átt að vera góðlátlegt grín eða stríðni endi í raun sem einelti. „Og það var bara það sem gerðist.“

Hann segir það vekja upp tilfinningar að rifja upp æskuna: „Þetta svona kreistir fram svolítið svona þessa kvíðatilfinningu sem að ég upplifði á þessum tíma en það er bara eitthvað sem ég bara þarf að lifa við.“ Fólk geri sér enga grein fyrir hvaða áhrif kvíði sem þessi hefur: „Þetta er nefnilega mun alvarlegra en fólk heldur.“

Kolbeinn bendir á að það að alast upp við fátækt auki líkurnar á að fólk búi við fátækt á fullorðinsárum: „Og í raun og veru getur þetta smitað upp allt lífshlaupið.“

Flestir festast í „forarpyttinum“

Stephanie vonast til að geta veitt sinni dóttur betra líf. „Mig langar fyrir stelpuna mína að hafa bjarta framtíð. Þess vegna er ég að koma svona fram af því að mig langar að hún fari ekki inn í þetta heldur.“

Stephanie minnist þess að þegar hún var barn hafi það komið fyrir að hún fékk aðeins brauð með kjötfarsi í ofni í matinn og það hafi jafnvel verið það eina sem hún borðaði þann daginn. „Og mamma, þú veist, bakaði brauð sem var ógeðslegt af því að hún kunni ekki að baka en hún gerði það til þess að fá eitthvað fyrir okkur og ég vil ekki að stelpan mín lendi í svona.“

Fjölskyldur sem glýma við fátækt hittast hjá Pepp-samtökunum. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Soffía Hjördís segir að börnin sem hún talaði við hafi ekki notið sömu tækifæra og önnur börn. „Og það kannski gat valdið pirringi,“ segir hún og „það að geta ekki boðið vinum sínum heim til sín eða þau geta ekki haldið upp á afmælin sín eða eitthvað svona, þegar þau sáu að þau voru að fara á mis við þessi tækifæri sem önnur börn gátu bara gengið svona að bara auðveldlega.“

„Í raun og veru öll jaðarsetning getur leitt til tortryggni gagnvart samfélaginu, gagnvart stjórnvöldum og svona upplifunar á því að maður sé ekki hluti af þessu samfélagi og samfélagið sé jafnvel dálítið fjandsamlegt manni,“ segir Kolbeinn.

Gunnar Ingi segist hafa horft upp á fólk leiðast út í áfengis- og vímuefnaneyslu: „Einstaklinga sem eru bara af sama meiði og ég. Ég gat svo sem alveg farið þangað sjálfur. Það er einn og einn sem að sleppur svona í gegn, og ég ætla að leyfa mér að nota orðið sleppur svona í gegn en flest allir festast bara í, eins og ég kalla þetta, forarpyttinum sem þau eru í.“

Hvaða hópar eru fátækir?

Vandi fátækra á Íslandi er jafnfjölbreyttur og misjafn og einstaklingarnir eru margir og innan hópsins er ákveðin stéttaskipting. Verst standa þeir sem eru utangarðs með öllu og heimilislausir og þeir fá líklegast minnstu samúðina. Þetta er oft fólk sem á við fjölþættan vanda að etja, geðræn vandamál sem og fíknivanda og á í fá hús að venda. Það ólst jafnvel upp við fátækt, er af annarri eða þriðju kynslóð fátækra.

Þetta fólk er líka eins og óhreinu börnin hennar Evu, þegar koma á upp húsnæði eða aðstöðu fyrir það rísa nágrannar oft upp og mótmæla.

Frá skemmtun í húsnæði Kærleikssamtakanna. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Í Austurbænum starfa Kærleikssamtökin en þau vilja mæta utangarðsfólki á forsendum þess. Þau telja mikilvægt fyrir fólk að eiga heimili áður en það tekst á við vanda sinn.

„Við erum ekki með skilyrði að fólk sé edrú en hérna er bæði fólk sem hefur ekki vímuefnavanda eða neysluvanda og sumir hafa verið í slíku eða hafa slíkan vanda og sumir eru að koma úr meðferð og eru bara á fínum stað en sumir eru eiga eftir að fara í meðferð,“ segir Sigurlaug Guðný Ingólfsdóttir, stofnandi Kærleikssamtakanna. Gert sé samkomulag við hvern og einn eftir hans þörfum.

Í húsinu er nú rekið áfangaheimili á vegum Kærleikssamtakanna og fyrstu skjólstæðingarnir fluttu inn í haust. Helgi Jakob Jakobsson var meðal þeirra fyrstu sem flutti inn. Helgi Jakob var heimilislaus í mörg ár og bjó um tíma í fjörutíu ára gömlum húsbíl.

„Það gat nú verið ansi kalt sko, í 12 stiga frosti og var kannski ekki með fyrir gasi og það gat nú verið svolítið napurt.“ Hann segir að fjöldi fólks sofi í bílunum sínum: „Fólk er að fara með þá á bak við hús eða inn á einhverjar lóðir eða eitthvað.“

Bjuggu í yfirgefnu verslunarhúsnæði

Ekki er vitað nákvæmlega hve margir teljast heimilislausir núna en síðast var gerð úttekt á því árið 2017. Þá voru 349 einstaklingar heimilislausir eða utangarðs í Reykjavík. Af þeim bjuggu 153 við ótryggar aðstæður og 76 sögðust hafast við á götunni.

„Hérna bjuggum við. Inni í þessu fokking yfirgefna verslunarhúsnæði uppi á Skólavörðustíg. Þarna bjuggum við í marga mánuði. Bara á efri hæðinni.“

Steinar, Davíð og Árni segjast hafa búið á götunni í mörg ár. Þá bjuggu þeir ýmist í yfirgefnum byggingum, bílakjöllurum, bakgörðum og undirgöngum eða á stöðum þar sem svolítill varmi kemur frá loftræsikerfinu. Þeir segjast nú vera komnir með húsnæði.

„Við höfum náttúrulega báðir barist við alkóhólisma og heimilisleysi.“ Þeir segja að erfitt sé fyrir fólk í þeirra stöðu að fá húsnæði á vegum félagsþjónustunnar. „Allir sem ég þekki sem eru heimilislausir sem hafa sótt um hjá Féló, um félagslega íbúð, hafa aldrei fengið hana. Það tekur alveg, ég held að ég hafi beðið í einhver 18 eða 19 ár bara að fá hjá þeim húsnæði.“

„Þarna eru menn í göngugrind“

Í byrjun september stóðu samtökin Öruggt skjól fyrir þöglum mótmælum við ráðhús Reykjavíkur til að vekja athygli á stöðu heimilislausra og nokkrum dögum síðar stóð Minningarsjóður Lofts Gunnarssonar fyrir styrktartónleikum en sjóðurinn hefur frá 2012 styrkt búsetuúrræði fyrir heimilislausa.

Í Reykjavík eru þrjú neyðarúrræði fyrir heimilislausa: Konukot fyrir heimilislausar konur, gistiskýli fyrir unga heimilislausa fíkla á Grandagarði og í skjóli af háhýsunum í Skuggahverfi er gistiskýli fyrir heimilislausa við Lindargötu. Þar bjó Helgi Jakob um tíma.

„Þetta er ekki, sko ekki réttur staður, sko einhvern veginn innan um, sko þegar menn voru búnir að sprauta sig og annað,“ segir Helgi Jakob. „Þeir gátu verið svoleiðis sko brjálaðir að maður vissi aldrei hvað gerðist.“

Helgi Jakob segir að í gistiskýlinu hafi verið veikt fólk og gamalt fólk sem ætti frekar á heima á sjúkrastofnun en þar. „Þarna eru menn í göngugrind, ég er bara ekki, ég bara næ því bara ekki, sko.“

Á morgnana þegar gistiskýlunum er lokað fer fólk gjarnan í morgunmat til Teresu-systra, kærleiksboðbera í Ingólfsstæti. Systurnar hafa í um tuttugu ár sinnt þeim fátækustu meðal fátækra. Systurnar lifa fábrotnu lífi og kjósa að starfa fjarri fjölmiðlum en fólkið sem þangað kemur segir að þar mæti því kærleikur og hlýja.

Í hádeginu er boðið upp á mat hjá Samhjálp. Þangað fer Georg oft og borðar: „Ég kem hingað vegna þess að ég á ekki aur. Ég reyndar hef verið að detta í það en vonandi er ég kominn yfir það í bili.“

Georg Jónsson. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„Ég er alltaf að bregðast“

Georg var sendibílstjóri í 20 ár. Hann er þunglyndur og með geðhvarfasýki. Hann missti tökin á lífinu og lenti á hrakhólum.

„Ég er alkóhólisti, búinn að vera lengi og glíma við það. Alls konar tímabil sem ég er búin að kljást við alkóhólismann og átt erfiða æsku og alls konar ljótir hlutir sem gerðust þar.“

Georg segist vera að vinna í sínum málum og sé að kljást við sjálfan sig. „Ég tapaði vinnu tvisvar á sama árinu þannig að ég er kominn á nýjan botn og fjölskyldan svona hægt og rólega að draga sig frá mér. Börnin náttúrulega búin að, svona, gefast upp á mér svolítið, ég er alltaf að bregðast.“

Georg vonast til að með því að borða hjá Samhjálp og leggja aðeins til hliðar geti hann hugsanlega veitt börnunum sínum eitthvað.

„Ég er ekki með bíl og ég reyki ekki þannig að ef ég myndi ekki fá mér í glas svona í byrjun mánaðarins þá gæti ég átt einhvern aukapening með því að koma hérna og geta þá veitt börnunum mínum, keypt hjól handa þeim að vori eða eitthvað slíkt, ég hef ekkert getað það lengi.“

Fólkið sem kemur og borðar hjá Samhjálp óskar sér betra lífs. En áföll, veikindi og ýmsir erfiðleikar hafa gert því erfitt fyrir. Kaffistofu Samhjálpar er lokað klukkan tvö. Þá þreyja þeir þorrann þar til gistiskýlið er opnað  aftur klukkan fimm.

Matur er á boðstólum á Kaffistofu Samhjálpar. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Georg er búinn að vera edrú um tíma. Hann fer í Hlutverkasetrið til að byggja sig upp andlega en markmið Hlutverkaseturs er að efla virkni og þátttöku fólks sem misst hefur hlutverk eða tilgang í lífinu. Georg vonast einn daginn til að komast aftur á vinnumarkaðinn.

„Ég var orðinn mjög einangraður og mjög veikur þegar ég var á sveitinni, hafði ekki kraft til að leita mér hjálpar og frétti af þessu í gegnum félagsþjónustuna svo ég ákvað að koma hérna. Það var svolítið erfitt og stórt skref.“

Undanfarin ár hefur tekið allt of langan tíma að afgreiða umsóknir fólks um húsnæði, samkvæmt mati umboðsmanns Alþingis frá 2018. Virk neysla stóð í vegi fyrir því að þetta fólk fengi húsnæði þrátt fyrir að það kæmi hvergi fram í reglum að neysla hefði áhrif á úthlutun.

Rosalega dýrmætt að eiga heimili

Margir hafa bent á betra sé að koma fólki í skjól áður en það tekst á við vanda sinn. Margir sem Kveikur talaði við nefndu að þegar ekkert bíður að lokinni áfengis- og vímuefnameðferð, ekkert húsnæði engin hjálp, þá sé erfitt að halda sér edrú.

Georg segir það skipta mjög miklu máli að eiga heimili: „Það er alveg rosalega dýrmætt og ég þurfti alveg þjálfun í því að bara að borga leiguna mína og gera mér grein fyrir því, af því að ég var alltaf svo veikur andlega, og líkamlega líka, að ég gerði mér ekki almennilega grein fyrir því hversu mikilvægt var að borga leigu.“

Helgi Jakob Jakobsson. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Helgi Jakob, sem var á götunni, er sammála því að heimili skipti miklu máli: „Hérna hef ég mitt herbergi og sef, sko, er í mínu rými, sko, en í gistiskýlinu þá er, þá er kannski bara svona á milli rúma og menn í alla vegana ástandi og þurfa svo að sofa með allt undir koddanum, skóna sína og allt saman, sko, maður þorir ekkert að skilja eftir það er öllu stolið þarna steini léttara.“

Hann segist finna fyrir meira öryggi hjá Kærleikssamtökunum heldur en þegar hann svaf í gistiskýlingu: „Hérna, Guð hjálpi þér, hérna, ég þarf ekki að fara út í brjáluð veður og leita mér að einhverjum stað til þess að híma á í fjóra fimm klukkutíma. Hérna fer ég og fæ mér að borða þegar ég er svangur, brauð og annað og hér er kvöldmatur og heimilismatur, sko, og þetta er bara allt annað.“

Endaði á götunni eftir slys

Og við getum öll lent í þessum sporum, getum öll misst fótanna og um leið heimilið. Sem dæmi, ef við veikjumst eða lendum í slysi og þurfum að reiða okkur á sjúkradagpeninga, þó ekki væri nema í mánuð eða tvo, setur það allt úr skorðum. Sjúkradagpeningar eru 1.873 krónur á dag eða 56-58 þúsund á mánuði.

Garðar Sveinbjörn Ottesen, verkfræðingur, var athafnamaður í eigin rekstri í áraraðir. Þar til hann lenti í slysi árið 2013. Það tók hann tæp þrjú ár að jafna sig og á meðan átu veikindin upp allan hans sparnað. Á endanum missti hann allar eigur sínar. Hann segist hafa upplifað skömm yfir því að hafa ekki getað varið sig eða fjármuni sína betur.

Garðar flutti á tjaldstæðið í Laugardal. Þar bjó hann í litlu kúlutjaldi. Hann segir að þegar svo var komið hafi hann verið orðinn mjög þunglyndur og það hafi verið erfitt að vera þar á tveimur hækjum.

„En þegar ég lít svona í kringum mig, út af hverju er þessi maður kominn á götunni, út af hverju er þessi eða þessi kona eða þú veist ég fer að horfa upp á fólk upp í Heiðmörk, Laugardalnum og öðrum tjaldsvæðum hér og þar. Svo maður var orðinn svona kriminal að læðast inn eftir tíu á kvöldin til þess að fá að hlaða símann eða stökkva í sturtu eða eitthvað svoleiðis og mér bara fannst ég bara vera kominn svo langt niður að ég þurfti að breyta einhverju,“ segir hann.

Garðar Sveinbjörn Ottesen. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Garðar kynntist Kærleikssamtökunum sem hjálpuðum honum að taka á sínum vanda. „Og minn vandi var að ég var heimilislaus.“

Hann segist hafa fundið fyrir því að komið væri öðruvísi fram við hann þegar hann var heimilislaus heldur en þegar hann var í fullri vinnu. „En ég var alltaf sami maðurinn þó ég hafi verið kominn svona langt niður, ég hef alltaf verið sami maðurinn.“

Hann segist hafa skammast sín fyrir að geta ekki rifið sjálfan sig upp. „En ég komst yfir það. Og þá fór öll skömmin mín, svona heyrðu bíddu, þú átt ekki neitt að skammast þín, þú slasaðist.“ En sumir nái ekki að koma sér áfram.

Leigja herbergi í ólöglegu húsnæði

Þótt fólk sé ekki endilega á götunni eða í gistiskýlinu þá er stór hópur sem er í raun svo gott sem heimilislaus. Það fólk býr kannski í einu herbergi í iðnaðarhverfi árum saman, í ósamþykktu húsnæði.

Flestir sem þar búa eru innflytjendur sem hafa búið á Íslandi árum saman, borga hér skatta og gjöld og komast aldrei í neitt betra. Búa við langvarandi fátækt. Inn á milli leynast svo Íslendingar eins og sá sem Kveikur hitti. Hann vildi ekki koma í mynd af ótta við að vera hent út úr herberginu sem hann hefur búið í á þriðja ár.

Maðurinn er í fullri vinnu. Hann segist fá um 250 þúsund krónur útborgaðar á mánuði og leigan á herberginu er um 86 þúsund krónur á mánuði. Þar sem herbergið er í ósamþykktu húsnæði á hann ekki rétt á húsaleigubótum. Hann segir að það sé hræðilegt að geta ekki búið í eigin íbúð. „En það eru aðrir sem hafa það verra en ég. Ég þekki fullt af fólki hérna á hæðinni sem eru sko örugglega hörkuduglegir en þeir eru fastir hér.“ Dæmi séu um að menn hafi búið þarna lengur en þrjú ár og búi tveir saman í herbergi.

Mestu skiptir að geta gert eitthvað

Svo er það fólkið sem býr í hjólhýsi til dæmis í Laugardal eins og Bergþóra Pálsdóttir, eða Bebba, eins og hún er kölluð. Hún er öryrki, er með ónýtt bak. Bebba greiðir 43 þúsund krónur fyrir leigu á tjaldstæðinu.

Þar sem tjaldsvæðið er ekki viðurkennt sem heimili þá fær hún ekki heimilisuppbót eins og hún ætti rétt á væri hún á almennum leigumarkaði. En þótt hún fengi uppbótina hefði hún ekki efni á að leigja, ja, nema hætta öllu öðru, segir hún. „Ég hef ekki efni á að leigja á svona frjálsum markaði, það er nú voðalega einfalt,“ segir hún.

Bebba segir að það þurfi að hækka bæturnar og laga leigumarkaðinn: „Hann er nú ekki alveg í lagi sko. Það er ekkert í lagi að leigja einhverja kytru á 200 þúsund, sko.“

Bergþóra Pálsdóttir. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Bebba segir mestu skipta fyrir sig að geta gert eitthvað annað en borga leigu og mat: „Það hlýtur hver að sjá það. Og geta ekki gert neitt, það er náttúrulega hræðilegt sko og geta ekki farið í sumarfrí það er náttúrulega, það er bara ekki alveg í lagi sko.“ Hún bendir á að þegar fólki líði betur sé það heilsuhraustara: „Þá ertu ekki alltaf, hvað á maður að segja, svona hálflasinn og alveg ómögulegur.“

Í Reykjavík eiga Félagsbústaðir tæplega 2.700 íbúðir. Í öllum hverfum borgarinnar eru félagslegar íbúðir. Í þeim öllum býr fólk eða fjölskyldur sem geta ekki séð sér fyrir húsnæði vegna lágra launa, þungrar framfærslu eða félagslegra aðstæðna.

Hildur býr í einni slíkri. Hún er öryrki en hún glímdi við nokkurs konar kulnun, örmagnaðist vegna álagsins sem fylgdi því að vera ein, er þunglynd og með kvíða. Hún segir að það krefjist mikils af henni að vera alltaf að hugsa um peninga. Og þrátt fyrir að hér á landi séu greiddar ýmsar bætur sem eiga að rétta hlut fátækra þá dugir það ekki til.

„Þetta er týndur hópur“

Kolbeinn segir að almennt einkenni á íslenska bótakerfinu sé að það sé mjög lágtekjumiðað: „Hugsunin er að beina fjármunum þangað sem er mest þörf á en kannski höfum við gengið of langt og skilgreint of lágt hvar þörfin liggur,“ segir hann.

Allar bætur, það er örorkubætur, ellilífeyrir, atvinnuleysisbætur og félagsbætur eru skattskyldar. Heimilislausir og þeir sem leigja herbergi eða búa hjá öðrum geta til dæmis sótt um félagsbætur til Reykjavíkurborgar og geta bæturnar hæst orðið 175.006 krónur á mánuði. Sértu í leiguhúsnæði eða eigin íbúð geta bæturnar numið hæst 207.709 krónum fyrir barnlausan einstakling. En þar með er ekki öll sagan sögð. Af þessu þarf að greiða tekjuskatt. Sá heimilislausi eða sá sem leigir sér herbergi fær þá um það bil 165 þúsund krónur til ráðstöfunar og þeir sem leigja rúmar 185 þúsund krónur.

„Þetta er bara týndur hópur, þetta er fólk sem á sér engan málsvara,“ segir Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins á Íslandi.

Sveinn segir að mörg sveitarfélög greiði undir 200.000 krónum í félagsbætur. Fólk komist ekki af á svo lágum bótum: „Það er í stöðugri neyð, þarna er húsnæðiskostnaður til dæmis greinilega eitt mest íþyngjandi dæmið fyrir fólk. Það vita það náttúrulega allir Íslendingar að framfærslukostnaður annar, allur framfærslukostnaður er mikill hér.“

700 manns fengið styrk úr sárafátæktarsjóði

Rauði krossinn setti á fót svonefndan sárafátæktarsjóð í fyrra. „Þetta er skaðlegt fyrir þjóðfélagið, þetta er kostnaðarsamt fyrir þjóðfélagið og þetta þarf að uppræta,“ segir Sveinn.

Til að fá úthlutað úr honum þarf umsækjandi að eiga lögheimili á Íslandi, vera með íslenska kennitölu og hafa minna en 200 þúsund krónur til ráðstöfunar á mánuði sé hann einn og sambýlisfólk með minna en þrjú hundruð þúsund samanlagt. Um 700 manns hafa fengið styrk, um þrjú hundruð og fimmtíu þeirra voru með börn á framfæri.

Sveinn Kristinsson. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„Þessar lágu upphæðir sem við erum í rauninni að úthluta hafa valdið því að fólk sem ekki hefur farið til læknis, fer til læknis, fólk sem hefur ekki átt almennilega skó, kuldaskó, getur keypt sér skó,“ segir Sveinn. Hann segir að Rauði krossinn sé að reyna að vekja athygli samfélagsins og stjórnvalda á stöðu þessa fólks: „Þarna er hópur sem stendur mjög höllum fæti og við göngum inn í þetta tímabundið en ætlumst auðvitað til þess að samfélagið axli skyldur sínar gagnvart þessu fólki og leiðrétti þetta.

„Neyð frekar en græðgi sem rekur fólk út í slíkt“

„Það eru auðvitað til einstaklingar sem bera ábyrgð á sinni fátækt,“ segir Kolbeinn. Samfélagið vilji hjálpa þeim sem á þurfi að halda „en svo erum við hrædd um að einhver geti misnotað kerfið sem þarf ekki á því að halda.“ Hann segir að það sé nánast öruggt að einhver misnoti kerfið. „En hversu algengt það er, við vitum raunverulega ekkert um það, þá er ekkert ósennilegt að raunverulega sé það frekar kannski neyð frekar heldur en græðgi sem rekur fólk út í slíkt.“ Barnabætur og húsnæðisbætur veiti ekki þann aukastuðning sem fólk þurfi.

Hildur bendir á að örorkubætur séu einnig of lágar: „Fólk er að fá milli 200-250 þúsund sem er á bótum, þetta eru engar, þetta eru engar, skilurðu, tekjur, ég meina fullt af fólki þarna úti sem er að leigja almennum markaði, ég meina bæturnar fara í rauninni bara í leiguna sjálfa og þá áttu allt annað eftir.“

„Það er auðvitað þekkt fyrirbrigði um allan heim að fátækt, henni er viðhaldið inni í ákveðnum hópum,“ segir Sveinn.

Hildur segir að ef skattar á örorkubætur yrðu lækkaðir myndi það hjálpa til: „Ég er að borga 60 þúsund kall í skatt,“ segir hún. Væru skattar lækkaðir í fimmtán til tuttugu þúsund krónur þá myndi það hjálpa strax.

Sumir sem koma eiga virkilega erfitt

Á hverjum fimmtudegi koma grasrótarsamtökin Pepp saman í Breiðholtskirkju. Pepp er hluti af stærri samtökum sem heita EAPN á Íslandi, sem stendur fyrir European Enter Poverty Network. Samtökin starfa í 33 Evrópulöndum. Ásta Dís Guðjónsdóttir er formaður samtakanna. Hún segir félagslega einangrun eina af afleiðingum fátæktar: „Þú hættir, þú dregur þig smám saman í hlé, þú hættir að taka þátt í hlutum sem kosta peninga. Og það kemur svolítið í kjölfarið á því að ósjálfráðu skilaboðin frá samfélaginu eru þessi, að þú ert ekki nóg.“

Hildur hefur starfað með Pepp í nokkur ár: „Sumir eru að koma, bara sem eiga virkilega erfitt og hafa bara lítið sem ekkert á milli handanna. Og það er alveg til hópur þarna úti sem að upplifir sig í sárafátækt, svo náttúrulega, þú veist, koma ellilífeyrisþegar. Það hefur verið að koma svolítið af þeim.“

Á fundunum hittist fólk sem býr við fátækt, fær sér að borða saman og nýtur félagsskapar hvers annars og skiptist á skoðunum. Á borðum er matur, snyrtivörur og fleira sem fólk getur fengið gefins. Ein þeirra sem kemur á fundi með mömmu sinn er Guðrún Alda Linnet, fimmtán ára.

„Mamma er rosalega dugleg í að redda,“ segir hún.

Guðrún Alda Linnet. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„Mér finnst gott að hjálpa, mér finnst gaman að hjálpa, ég hef alltaf verið í þessu með mömmu og mamma er svona líka, mamma vill gefa alltaf til baka,“ segir Guðrún Alda.

Hún segist þekkja fátækt vel: „Við bjuggum með pabba og pabbi í stöðugri vinnu, síðan skyldu mamma og pabbi og þá varð náttúrulega bara mamma ein með okkur systkinin en núna þá reddum við okkur, mamma er rosalega dugleg í að redda sér.“ Hún segist meðvituð um að það sé mikil vinna fyrir móður hennar; „Jájájájá, hún er ein, einstæð móðir og hún er öryrki þannig að, já.“

Mæðgurnar eru tiltölulega nýfluttar en Guðrún Alda var ekki ánægð á gamla staðnum. Hún segir að þar hafi alltaf verið vesen á nágrönnunum, stigagangurinn hafi verið sóðalegur og mikill hávaði hafi borist gegnum veggi. Hún var því óánægð þar.

„Við erum í ágætis húsnæði núna, mjög flottu húsnæði og við erum mjög þakklát fyrir það. Þetta er kannski ekki risastórt einbýlishús en þetta er flott íbúð og ekkert lítil eða jú, þú veist, ekki stór en ég er ekki í kremju.“

Vann sjálf fyrir símanum

Guðrún Alda, eins og svo mörg börn sem búa við fátækt, er mjög meðvituð um hvað hlutir kosta. Hún segir fjárhagsáhyggjur þó ekki stjórna lífi sínu: „Ég er ekki alltaf stressuð út af því vegna þess að mamma hún reddar alltaf, hún sér alltaf til þess að það sé allt sem þarf.“

Allir hjálpast að við matseldina. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Guðrún Alda, líkt og önnur börn sem alast upp við fátækt segist ekki biðja mömmu sína um hluti sem kosti mikla peninga. „Það bara er einhvern veginn ekki vani að biðja um eitthvað sem er rosadýrt eða erfitt og þú veist, jú, jú, ég hef alveg suðað einstöku sinnum, o mig langar í þetta í matinn eða eitthvað og mamma bara, já, nei, seinna og þá er það bara þannig.“

Hún segist ekki biðja um síma eða tölvur eða neitt slíkt sem hún segist ekki þurfa á að halda. Hún eigi ágætan síma sem sé tveggja, þriggja ára gamall og virki vel: „Ég keypti hann nýjan á þeim tíma og þá var ég vinna allt sumarið fyrir þeim síma.“

Alltaf langað í háskólanám

Það er vel þekkt að börn sem alast upp í fátækt fara síður í framhaldsnám. Þau fara að vinna fyrr og hafa ekki sömu tækifæri og jafnaldrar þeirra.

„Ef ég reyni virkilega á mig að þá get ég það sem ég vil. Ég þarf bara að gera það. Eins og bróðir minn, hann er að mennta sig núna og hann getur það af því að hann er, sko, hann er í mikilli vinnu og miklum skóla og hann leggur rosalega mikið á sig og þetta er rosalega erfitt núna en hann veit það að á endanum mun það borga sig.“

Stephanie segir að hún vonist til að dóttir hennar gangi menntaveginn. Hún vonast til að geta greitt fyrir menntuna og að stelpan fari í háskóla. „Minn draumur hefur líka alltaf verið að fara í háskóla en ég get það ekki. Ég verð að vinna,“ segir Stephanie.

Gunnar Ingi leggur til að komið sé til móts við börn fátækra: „Til að koma þessum börnum út úr þessari stöðu væri til dæmis hægt að hjálpa þeim við menntun, hjálpa foreldrunum að standa við bakið á börnunum sínum með því að til dæmis að koma þeim í fast húsnæðisúrræði þar sem þau þyrftu ekki að vera að borga 60-70 prósent af sínum tekjum í húsaleigu.“

Erfitt að sækja aðstoð

Fólk sem býr við fátækt leitar víða eftir aðstoð, hvar sem hana er að fá. En það getur verið erfitt. Hildur þekkir það. „Þú ert að leggja allt þitt mat og sjálfstraust og allt þetta í rauninni til hliðar,“ segir hún og því fylgi viss skömm: „Maður er eins og með skottið á milli lappanna að biðja um þessa, sem sagt, aðstoð.“

Georg tekur undir þetta: „Það var mjög erfitt. Til dæmis hjá Mæðrastyrksnefnd, ég var að vinna fyrir þær sem sendibílstjóri í þrjú ár og svo hitti ég þær aftur og þá var ég kominn í það hlutverk að fá mat hjá þeim. Það var mjög erfitt.“ Hann segir það hafa verið veruleikasjokk að vera kominn í þá stöðu að þurfa að biðja um hjálp.

Kolbeinns segir þetta þekkt: „Það er mjög stutt í skömmina sem fylgir því að þurfa að leita sér aðstoðar og það er oft auðveldara líka að kenna fátæku fólki um þeirra eigin stöðu.“

Ásta Dís Guðjónsdóttir. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Hildur segir það algengt að fátæku fólki sé kennt um eigin stöðu. Sé fólk í fallegum fötum eða eigi gæludýr sem dæmi þá geti það varla talist fátækt: „En það er þó að þú eigir bíl eða eigir dýr eða sért fínt klædd eða eitthvað, eða eitthvað slíkt þá er ekki að segja að þú sért vel efnuð og hafir mikla peninga á milli handanna.“ Það sé ekkert samasem merki þarna á milli: „Nei nei nei en þetta er bara, svona er því miður hugsunin úti í þjóðfélaginu.“

„Þegar þú stendur í þessum sporum þá finnst þér hálfpartinn þú lamast,“ segir Ásta Dís og getan til að fara hreinlega fram úr rúminu á morgnana og vera innan um fólk, minnki: „Þér finnst eins og allir hljóti að sjá að þú sért lélegri pappír en allir aðrir bara að þér líður þannig að fólk hljóti að sjá það bara á langleið að það sé eitthvað að þér fyrst þú ert fátækur.“

„Þá verður, þá skapast þessi félagslega einangrun hjá manni, þú ert hætt að umgangast fólk eins og þú gerðir,“ segir Hildur.

Þarf að geta lifað lífinu

Hildur segir að það sé þreytandi og erfitt að hugsa alltaf um peninga. „Ég hef alveg upplifað það að ég hef alveg bara krassað. Og þá bara get ég ekki meira. Ég náttúrulega hef lagt ótrúlega mikið á mig til að láta hlutina ganga upp. En svo kemur náttúrulega að því að maður náttúrulega bara getur ekki meira.“

Hún segist alltaf hafa neitað strákunum sínum um að fara í bíó eða eitthvað slíkt en sé nú hætt því: „Ég hugsaði með mér og ég bara, nei, nú maður verður að hætta þessari hugsun. Þú veist, ég á að geta lifað lífinu eins og allir aðrir.“

Stephanie hélt upp á afmæli dóttur sinnar í lok janúar. Hún segir að það hafi verið erfitt, hún hafi verið búin að spara fyrir afmælistertunni en hafi þurft að taka Netgíró-lán fyrir pylsunum.

„Meira að segja fólk í fátækt þarf að stundum að geta lyft sér aðeins upp,“ segir Kolbeinn. Það þurfi líka stundum að gera vel við sig eða bara fara og hitta vini sína: „Það kostar peninga að hitta vini sína,“ bendir hann á. Við gerum mjög óraunsæja kröfu á fólk sem býr við fátækt um hversu naumt það á að lifa og hversu skynsamt það á að vera með peningana sína.“

„Ætli ég verði ekki bara á sama stað“

Stephanie segist gera ráð fyrir að hún eigi eftir að búa í sömu leiguíbúðinni næstu tíu árin og að henni eigi ekki eftir takast að kaupa íbúð á þeim tíma: „Nei, ég held að ég verði bara hér enn þá sko. Og það er mitt plan að vera bara hér í tíu ár. Jafnvel lengur ég veit það ekki.“

Bebba segist ekki vita hvort hún verði enn á tjaldsvæðinu: „Ég hef ekki hugmynd um það, ég hef bara ekki hugmynd um það. Bara verð að vera hreinskilin, ég veit það ekki. Ætli ég verði ekki bara á sama stað. Miðað við ástandið eins og það er í dag.“

„Þetta fólk, það náttúrulega er bara er í bara klafa í rauninni,“ segir Gunnar Ingi. Fólkið fái engin tækifæri og það sé ekkert að gerast í kringum þau. „Það þarf bara að losa um hjá þessu fólki þannig að þau geti bara svona slakað aðeins á, þurfa ekki að vera alltaf með endalausar fjárhagsáhyggjur alveg út í eitt og, já, og geti bara sinnt svolítið börnunum. Um leið og börnunum er sinnt að þá í rauninni fer þeim að líða betur og fara að vera svona skilvirkari meðlimir þjóðfélagsins.“

Stephanie segist ekki ætla að skammast sín lengur fyrir að vera fátæk: „Því ef að ég myndi skammast mín fyrir hver ég er, þá myndi stelpan mín líka vera skammast sín yfir því. Ég ætla frekar að berjast fyrir það sem ég á rétt líka.“

Allir stjórnmálaflokkar segjast vilja útrýma fátækt og fögur fyrirheit hafa verið gefin þar að lútandi. Samt sem áður hefur þeim sem eru undir lágtekjumörkum ekki fækkað neitt að ráði síðastliðin 16 ár. Og hvort sem horft er til skorts á efnislegum gæðum eða til lágtekjumarka þá hefur fjöldi þeirra barna sem býr við fátækt lítið breyst á sama tíma. Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að fækka fátækum á Íslandi um helming fyrir árið 2030.