„Myndi kafsigla okkar kerfi“

COVID-19 er mesti faraldur sem hefur geisað í heiminum á okkar tímum, og Íslendingar standa frammi fyrir sama verkefni og aðrar þjóðir, að hefta útbreiðslu sjúkdómsins.

„Myndi kafsigla okkar kerfi“

„Ef útbreiðsluhraðinn verður geigvænlegur, segjum að það kæmu kannski 30% af þjóðinni sem myndu sýkjast á næstu 2-3 mánuðum, að þá er alveg viðbúið að það myndi kafsigla okkar kerfi,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans.

Ekki hefur verið gripið til viðlíka sóttvarnaraðgerða frá því að spænska veikin gekk yfir árið 1918, og lagði hátt í 500 manns að velli á Íslandi. Hún var síðasta drepsóttin sem gekk yfir heimsbyggðina.

„Af því að heimsfaraldur inflúensu 1918 náði svona mikilli útbreiðslu þá var dánartalan þar, um 2%, svona gríðarlega há. Það voru svo margir einstaklingar á bak við þau tvö prósent,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Margt hefur breyst á 100 árum, og í dag höfum við betri tæki til að hefta útbreiðsluna og koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Mikilvægast er að verja viðkvæmustu þjóðfélagshópana, hægja á útbreiðslunni og jafna álagið á heilbrigðiskerfið.

Kveikur fjallar í lengdum þætti í kvöld um farsóttina sem nú geisar, eðli hennar og uppruna, hvernig hún dreifist um heiminn og til hvaða ráðstafana við öll þurfum að grípa. Við fylgjumst líka með vinnu Almannavarna og sóttvarnalæknis á bak við tjöldin.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir. (Mynd: Kveikur)

Dánartíðnin óþekkt

Enginn veit hversu margir deyja af þeim sem smitast af COVID-19, vegna þess að ekki er vitað hversu margir eru smitaðir. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætlar að 3,4% þeirra sem greinast með sjúkdóminn deyi, en þeir smituðu gætu verið miklu fleiri en þeir sem greinast.

Faraldurinn er að mestu genginn yfir í Hubei-héraði í Kína. Þar búa 58 milljónir manna, og rúmlega 3.000 eru látnir úr sjúkdómnum.

„Þá gætum við búist við því að sjá hér á Íslandi kannski í kringum 15 dauðsföll, og kannski helmingi fleiri sem veiktust alvarlega og þyrftu að fara inn á gjörgæslu,“ segir Þórólfur.

Eina leiðin til að lækka þessa tölu sé að hindra að viðkvæmustu hóparnir smitist og reyna að jafna álagið á heilbrigðiskerfið.

Giovanni Di Perri, veirufræðingur í Tórínó. (Mynd: Kveikur)

Tilfellum fjölgar með veldisvexti

Ítalía er vítið til að varast, þar hafa tugir þúsunda smitast og næstum 2.500 dáið úr sjúkdómnum þegar þetta er skrifað. Giovanni Di Perri veirufræðingur við Amedeo di Savoia-sjúkrahúsið í Tórínó segir óvíst að þar sé hægt að veita öllum gjörgæslu sem þurfa hana.

„Tilfellum á Norður-Ítalíu fjölgar nú með veldisvexti,“ segir di Perri. „Við erum núna stödd í brattanum á kúrfunni.“

Ítalir og fleiri þjóðir hafa gripið til útgöngubanns til að reyna að hefta útbreiðsluna, en hér á Íslandi hafa sóttvarnayfirvöld ekki viljað ganga eins hart fram.

„Við erum að reyna að grípa til ráða sem að viljum teljum að muni duga en valda sem minnstum samfélagslegum skaða,“ segir Þórólfur. „Við megum ekki gersamlega skemma allt og eyðileggja hér innanlands.“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, tekur í sama streng og segir mikilvægt að fólk reyni að láta ástandið ekki á sig fá.

„Við þurfum náttúrulega að hittast, og við þurfum að halda áfram að lifa, og við komumst bara í gegnum þetta,“ segir Víðir.

Kveikur er á dagskrá RÚV í kvöld klukkan 20:05.