Enska þrengir að íslenskunni

Stór hluti málumhverfis barna á Íslandi er á ensku. Aldrei í sögu Íslands hefur erlent tungumál verið jafn fyrirferðarmikið. Þó að sambýlið við enskuna hafi ekki haft mikil áhrif á málkunnáttu barna enn sem komið er eru blikur á lofti og ekki sjálfgefið að íslenskan lifi, segja málvísindamenn.

Enska þrengir að íslenskunni

Ekkert tungumál er talað á jafn mörgum stöðum á jörðinni og enska. Hún er töluð í yfir 100 löndum og meira en einn og hálfur milljarður fólks um allan heim lærir ensku sem annað eða þriðja tungumál.

Vegna þessarar miklu útbreiðslu er enska alþjóðamál í mörgum greinum. Meirihluti efnis á netinu er á ensku, fólk spilar tölvuleiki á ensku, horfir á sjónvarpsþætti á ensku og talar við Alexu, Siri og ýmis tæki á ensku. Íslenska er sannarlega örtungumál í samanburði við þessa stórtungu.

Ósjaldan heyrast áhyggjuraddir vegna stöðu íslenskunnar gagnvart ensku. Þannig spurði rithöfundurinn Kristín Helga Gunnarsdóttir hvort íslenskan væri tímabil sem gengur yfir þegar hún tók við viðurkenningu Rithöfundasjóðs RÚV í janúar.

Eru þessar áhyggjur ástæðulausar? Nú hafa vísindamenn nýlokið stærstu rannsókn sinnar tegundar á því hvaða áhrif sambýlið við ensku hefur haft á örtungumálið íslensku, sérstaklega hjá börnum og ungmennum.

Rannsókninni stýrðu Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði.

Allt að helmingurinn af málumhverfi barna er á ensku

Rannsóknin sýndi í fyrsta lagi að íslenska heldur stöðu sinni sem meirihlutamál á flestum sviðum, en notkunarsvið hennar hefur minnkað vegna þess að hinn stafræni heimur er að mestu leyti á ensku.

„Það sem skiptir líka máli í því sambandi er það að það eru ung börn og unglingar sem eyða mestum tíma í stafrænum heimi, í umhverfi enskunnar,“ segir Sigríður. „Unga fólkið og börnin eru auðvitað fjöregg íslenskunnar, það eru þau sem eiga að bera hana áfram inn í framtíðina. Þannig að það eru teikn á lofti.“

Rannsókn Sigríðar og félaga sýndi að mjög stór hluti af málumhverfi íslenskra barna er á ensku, eða 14% að meðaltali, og þá aðallega í gegnum stafræna miðla og afþreyingu. Þetta hlutfall fer vaxandi eftir því sem börnin eru eldri og nær allt upp í helming hjá sumum þeirra.

Matthildur Björnsdóttir, nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð, segir þessar niðurstöður ríma við sinn veruleika.

„Ég myndi segja að eiginlega flest allt sem ég hlusta á og horfi á er á ensku. Bæði tónlist og þættir og myndir. Og svo les ég líka alveg svolítið á ensku,“ segir Matthildur.

Undir það tekur samnemandi Matthildar, Ísabella Ronja Benediktsdóttir: „Mér finnst samt mjög þægilegt að hafa til dæmis íslenskan texta. En það er bara ekkert alltaf í boði,“ segir hún.

Áhrif þessa nána sambýlis við ensku birtast í því sem Sigríður Sigurjónsdóttir kallar málvíxl: „Fólk skýtur enskum orðum inn í íslenskar setningar, og jafnvel heilu frösunum, af því að ensku orðin eru þeim bara nærtækari en íslenskan“ segir hún.

„Maður segir sorry miklu meira en fyrirgefðu og afsakið. Alltaf sorry“, segir Lúkas Nói Ólafsson, annar nemandi í MH. „Og please. Og líka blótsyrði, eins og shit og fuck,“ bætir Ísabella Ronja við.

Kennslustund í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

„Ég segi líka mjög mikið literally,“ segir Matthildur. „Ég tek samt líka alveg eftir því að þegar ég er að tala við fólk sem er kannski bara nokkrum árum eldra þá verð ég miklu meira meðvituð um hvað ég sletti mikið. Mér finnst það sjálfri vandræðalegt ef ég sletti mikið.“

Sigríður Sigurjónsdóttir segir að svo virðist vera sem börn og unglingar tali stundum saman á ensku. „Það eru bara heilu samtölin á ensku. Það virðist þá helst vera þegar börn og unglingar eru að ræða um stafrænan heim. Þau eru að ræða um enska tölvuleiki, enska sjónvarpsþætti, eða YouTube-myndbönd eða eitthvað slíkt sem þau hafa verið að horfa á í frítíma sínum, og er kannski eðlilegt af því að þau eru í þessum enska málheimi.“

Börnin fyrst og fremst færari í ensku

Ein af rannsóknarspurningunum í verkefni Sigríðar og félaga snerist um hvaða áhrif þetta nána sambýli við ensku hafi haft á málkunnáttu barna og unglinga.

Megin niðurstöðurnar koma kannski mörgum á óvart. Samkvæmt þeim virðist sambýlið nefnilega ekki hafa haft nein veruleg áhrif á málkunnáttu þeirra ennþá. Vísbendingar eru um ensk áhrif á orðaforða barnanna og setningarnar virðast hafa styst. En öll þessi enska í málumhverfinu hefur fyrst og fremst haft  þau áhrif að börnin eru einfaldlega orðin færari í ensku.

Drengir á leikskólanum Aðalþingi.

Aðspurð segir Iris Edda Nowenstein, doktorsnemi í málfræði, að líklega sé þetta nokkuð hughreystandi fyrir þá foreldra sem hafa áhyggjur af því að þau séu að valda mögulegu falli íslenskunnar með því að leyfa barni sínu að horfa á þætti eins og hina vinsælu Peppu Pig á YouTube.

„Ég held að það verði ekki úrslitaþáttur þegar kemur að framtíð íslenskunnar. Almennt í gögnunum okkar, þá virðist þessi enska skila sér í enskufærni,“ segir hún.

Þannig séu foreldrar ekkert endilega að hafa slæm áhrif á íslenskufærni án þess að bæta neinu við með því að leyfa börnunum sínum að hrærast að einhverju leyti í enskum málheimi á netinu, segir Iris. „Alla vega ekki samkvæmt okkar niðurstöðum.“

Kennarar á leikskólanum Aðalþingi, sem nýlega hlaut Íslensku menntaverðlaunin, segja þetta ríma við sína reynslu. Á leikskólanum er lögð mikil áhersla á markvissa málörvun og íslenskukennslu í gegnum leik. Börnin kunni oft nokkur ensk orð sem þau læri af sjónvarpsþáttum á ensku, svo sem að heilsa og telja. Þetta sé hinsvegar hrein viðbót við íslenskukunnáttuna og hafa kennarar á Aðalþingi ekki þá tilfinningu að íslenskri málkunnáttu leikskólabarnanna hafi almennt hrakað.

„Allt, allt YouTube-ið mitt er á ensku. Og ég skil ekki neitt. Þó að mér finnist það bara skemmtilegt,“ segir ein leikskólastúlknanna á Aðalþingi.

Á leikskólanum Aðalþingi er mikil áhersla lögð á markvissa málörvun barnanna.

Enska er ekki óvinurinn

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, segir mikilvægt að hafa í huga að enska tungumálið sé ekki óvinurinn.

„Við megum ekki gera hana að óvini. Enskan er auðvitað alþjóðamál sem er mikilvægt að læra sem best og öðlast sem besta færni í,“ segir hann.

„En það getur alveg gerst að enskan verði of stór hluti af málheimi fólks, og þá er hún farin að ógna íslenskunni,“ segir Eiríkur.

Sigríður segir að sú staða myndi að sjálfsögðu hafa áhrif á framtíð íslenskunnar.

„Og hún mun þá breytast og verða líkari vestur-íslensku og kannski þróuninni í vestur-íslensku og bæði orðaforði og málkerfi breytast,“ segir Sigríður.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði.

Sigríður og Eiríkur benda á að það þarf að vera ákveðið lágmark af íslensku máli í umhverfi barna til þess að þau tileinki sér það. Ef of stórum hluta vökustunda er varið til dæmis í ensku málumhverfi, þá leiðir það óumflýjanlega til þess að breytingar á íslensku verða hraðari og meiri.

„Niðurstöður verkefnisins auðvitað sýna að við erum í tiltölulega góðri stöðu enn, en það eru samt sem áður teikn á lofti og varúðarmerki sem við þurfum að taka á og taka alvarlega og bregðast við,“ segir Sigríður.

Þau benda á að ýmislegt sé hægt að gera til að bregðast við. Eitt er að hlúa betur að börnum á máltökuskeiði. Annað er að það sárvantar meira efni á íslensku, tölvuleiki og annað stafrænt efni. Svo þyrfti að gera fólki mun auðveldara að læra íslensku sem annað mál. Um þessar mundir er sérstakt máltækniátak í fullum gangi, sem mun væntanlega skila því að íslenska verður betur nothæf í hinum stafræna heimi.

Málskipti geta gerst mjög hratt

En það sem vísindamennirnir hafa mestar áhyggjur af er að rannsóknin bendir til þess að viðhorf unglinga til íslensku séu neikvæðari en viðhorf fullorðinna.

„Það er auðvitað viðvörunarmerki, því framtíð tungumáls veltur á viðhorfum málnotenda og sérstaklega unga fólksins,“ segir Sigríður.

Íslensk ungmenni virðast tengja ensku við það sem er skemmtilegt, svo sem afþreyingu, ferðalög og tækifæri, en íslensku hins vegar við skyldu, skólaverkefni, leiðréttingar og eldra fólk — og það er þetta viðhorf sem getur haft úrslitaáhrif á framtíð íslenskunnar.

„Það hefur auðvitað aldrei verið meiri enska í málumhverfinu í sögu Íslands en núna, eða erlend áhrif í málumhverfinu,“ segir Sigríður.

Erfitt sé að segja til um hversu hratt afleiðingar þessa komi ljós.

„Með hraðann á þessu, það er auðvitað eitthvað sem maður veit í rauninni ekki, en samt sem áður, auðvitað geta málskipti, þegar þjóð bara skiptir um mál, það getur gerst mjög hratt. Eins og írskan, hún hvarf á mjög skömmum tíma, eða hopaði fyrir enskunni á mjög skömmum tíma,“ segir hún.

Íslenska tungumálið sé þó mjög langt frá því að komast í þá stöðu, enda sýni niðurstöður rannsóknarinnar skýrt að íslenska hefur haldið stöðu sinni sem meirihlutamál á Íslandi.

Sigríður segir að aldrei í sögu Íslands hafi verið meiri erlend áhrif í málumhverfinu.

„En ef enskt málumhverfi verður mjög ríkjandi á mörgum notkunarsviðum, í mörgum umdæmum þar sem íslenskan var áður notuð, þá munu viðhorf, sérstaklega unga fólksins, til íslenskunnar breytast. Og það getur haft hættuleg áhrif á framtíð íslenskunnar og lífvænleika hennar, og þá fer málkunnáttan að breytast.“

Menntaskólaneminn Ísabella Ronja segir erfitt að ímynda sér slíka framtíð.

„Þetta er eitthvað sem liggur mér mjög á hjarta. Það virðist sem íslenskan sé dálítið mikið að deyja út. Sem mér finnst mjög sorglegt af því ef við missum þennan fjölbreytileika og allir fara bara að tala ensku, þá verður þetta svo einhæft,“ segir hún.

„Ég hugsa að partur af menningunni bara deyi um leið og íslenskan deyr,“ segir samnemandi hennar, Lúkas Nói.

Lúkas Nói Ólafsson, nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Matthildur skólasystir þeirra segist enn svartsýnni.

„Ég held að enskan muni taka mjög mikið yfir,“ segir hún. „En ég held samt að það muni vera fólk sem heldur áfram í íslenskuna og kenni börnunum sínum og barnabörnunum. Þannig að hún verður alltaf líka smá í gangi. En ég get alveg séð fyrir mér að það verði kennt meira á ensku í skólum, grunnskólum og framhaldsskólum.“

Ekki sjálfgefið að íslenskan lifi

Hverjar eru framtíðarhorfur þessa örtungumáls, íslenskunnar, miðað við núverandi stöðu og þær hröðu breytingar sem eru að verða? Eiríkur Rögnvaldsson segir þær velta fyrst og fremst á vilja þeirra sem tala málið.

Eiríkur Rögnvaldsson segir ekki sjálfgefið að íslenskan lifi.

„Þetta snýst um vilja málnotendanna. Ef málnotendur vilja halda í þetta tungumál og ef stjórnvöld gera sitt, eins og verið er að gera með máltækniátakinu, eins og þyrfti að gera með aukinni áherslu á kennslu íslensku sem annars máls, þá getur íslenska lifað góðu lífi,“ segir hann.

Það sé hins vegar mikilvægt að gera sér grein fyrir að það kosti alltaf eitthvað að tala íslensku.

„Það kostar að tala mál sem bara 370 þúsund manns tala. Erum við tilbúin til að leggja í þann kostnað? Það þýðir ekkert að ætlast til þess að fólk haldi áfram að tala íslensku, eða gera ráð fyrir því að það gerist af sjálfu sér án þess að það sé nokkuð hugsað fyrir því hvaða forsendur eru til þess“ segir Eiríkur. „Íslenskan er ekkert dauðadæmd, fjarri því, en það er heldur ekkert sjálfgefið að hún lifi.“