„Leið eins og ég væri ógeðslega ómerkileg“

Það verður aldrei ánægjuleg reynsla að kæra kynferðisbrot og fara með slíkt mál í gegnum réttarkerfið. Það er hins vegar ástæða til þess að reyna að gera hana sem sársaukaminnsta. Margt hefur verið gert í þá átt undanfarin ár, en bæði brotaþolar og sérfræðingar telja hægt að gera miklu betur.

„Leið eins og ég væri ógeðslega ómerkileg“

Mál Þórhöllu Bjarnadóttur er dæmi um flest það sem getur farið úrskeiðis. Hún kærði nauðgun hjá lögreglunni á Suðurnesjum í janúar árið 2015.

Samkvæmt dómsgögnum virðist sem rannsókn hafi verið lokið eða henni hætt í september sama ár. Málið var samt ekki sent héraðssaksóknara fyrr en ári síðar, í september 2016. Þar beið það í ár til viðbótar fram í október 2017, þegar það var sent aftur til lögreglu, því rannsókninni var ábótavant. Það hafði farist fyrir að taka skýrslu af vitnum Þórhöllu.

Lögreglan lauk rannsókninni og sendi málið aftur til héraðssaksóknara í desember. Það var svo fellt niður í febrúar 2018.

Þórhalla kærði niðurfellinguna til ríkissaksóknara, enda töldu hún og réttargæslumaður hennar að málið væri það sterkt að það ætti erindi fyrir dóm. Ríkissaksóknari var sammála því og það fór því fyrir héraðsdóm síðla árs 2018. Í febrúar 2019, rúmum fjórum árum eftir brotið, var sakborningur dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar og greiðslu miskabóta.

Málinu lauk þó ekki þar, því hann áfrýjaði til Landsréttar. Það tók tæp tvö ár til viðbótar. Í lok árs 2020, tæpum sex árum eftir að Þórhalla lagði fram kæru, staðfesti Landsréttur dóm héraðsdóms – nema refsingin var að fullu skilorðsbundin. Ástæðan: drátturinn sem varð á meðferð málsins. Ekki væri með neinum hætti hægt að kenna sakborningi um hann.

Að hafa svona mál hangandi yfir sér í sex ár er ekki auðveld reynsla fyrir unga konu. Sá hún einhvern tímann eftir því að hafa kært?

„Já, algerlega, á meðan á þessu stóð. Maður var bara að endurupplifa alltaf allt þegar einhver hreyfing var á málinu. Maður var alltaf að rifja upp, þannig að ég veit ekkert hvort ég myndi ganga í gegnum þetta allt aftur. Og veit ekki hvort ég myndi mæla með fyrir vinkonu, ef hún myndi lenda í svona, að kæra, miðað við það sem ég lenti í. Ég man bara að mér leið svona eins og ég væri...bara ógeðslega ómerkileg. Að þetta skipti ekki máli,“ segir Þórhalla.  

Þórhalla Bjarnadóttir kærði nauðgun hjá lögreglunni á Suðurnesjum í janúar árið 2015.
„Ef ákallinu um aukin réttindi brotaþola er ekki svarað með betri hætti en kveðið er á um í þessu frumvarpi er hætta á að réttarkerfið detti úr takti við réttarvitund almennings sem getur grafið undan trausti á réttarkerfinu.“

Þetta eru lokaorð Hildar Fjólu Antonsdóttur í umsögn við frumvarp um breytingu á lögum um meðferð sakamála, þ.e. til að bæta réttarstöðu brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda sem lagt var fyrir Alþingi síðasta vetur. Það var ekki afgreitt þá.

En hvað er það í réttarkerfinu sem er svona úr takti við réttarvitund almennings? Bæði sérfræðingar og brotaþolar sem hafa beina reynslu af því að fara í gegnum kerfið virðast nokkuð sammála um að það sé í meginatriðum tvennt sem sé einkar íþyngjandi.

Annars vegar er það sá langi tími sem tekur að fá niðurstöðu í mál.

Vissulega er mál Þórhöllu einstaklega slæmt, það er eins og allt hafi lagst á eitt við að draga það á langinn. En staðreyndin er sú að meðalmálsmeðferðartími hjá lögreglu í rannsókn nauðgunarbrota hefur lengst mikið undanfarin ár og var kominn upp í rúma fjórtán mánuði í fyrra. Hann var rúmt hálft ár á árunum 2012-2015 og þær tölur ná reyndar aðeins yfir þau mál sem fóru í ákærumeðferð. Tíminn var enn styttri fyrir þau mál sem ekki voru send áfram.

Hver er ástæða þess að málsmeðferðartíminn hefur lengst svo mjög? Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði segir tvær meginástæður fyrir því. Annars vegar hafi málunum fjölgað mikið en þau séu líka heldur flóknari í rannsókn:

„Það er þannig að flest mál sem við erum með til rannsóknar í kynferðisbrotadeildinni, þau krefjast þess að við séum að sækja rafræn gögn út úr símum eða tölvum og það lengir heldur málsmeðferðartímann  - en gerir það að vísu þannig að það eru oft betri gögn,“ segir Grímur.

Það blasi samt við að það þurfi meiri bjargir. Með því eigi hann ekki bara við að það þurfi fleiri rannsakendur. „Ég er vissulega að tala um þá sem rannsaka málin beint en ég er líka að tala um þá sem sækja hin rafrænu gögn, ég er að tala líka um þjónustusvið embættisins þar sem við fáum mjög mikla þjónustu. Þetta er allt bjargir sem við þurfum að efla og fá meira af,“ segir Grímur Grímsson.

Hitt stóra atriðið sem brotaþolum og sérfræðingum þykir mikilvægt að bæta úr lýtur beint að réttindum brotaþola í kerfinu.

Hildur Fjóla hefur rannsakað málefnið ítarlega og skrifaði greinargerð um leiðir til að styrkja réttarstöðu brotaþola með tillögum að lagabreytingum fyrir stýrihóp forsætisráðherra um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi.

Hildur Fjóla Antonsdóttir.

„Brotaþoli er oftast bara lykilvitni fyrir ákæruvaldið og hefur í rauninni mjög fá réttindi í þessu ferli,“ segir Hildur Fjóla. Hún segir það hafa komið berlega í ljós í hennar rannsóknum hvernig sú jaðarstaða sem brotaþolar hafi í refsiréttarkerfinu, hafi slæm áhrif á fólk: „Vegna þess að brotaþolar eru ekki aðilar að sakamáli. Þeir sem eru aðilar að sakamáli er ríkið annars vegar og sakborningur hins vegar. Brotaþolar hafa réttarstöðu vitnis í málinu.“

Stefanía Hrund Guðmundsdóttir kærði kynferðisbrot þegar hún var nýbyrjuð í menntaskóla, 15 ára gömul. Dómur féll ekki fyrr en hún var útskrifuð, svo málið hékk yfir henni alla menntaskólagönguna. Hún segir þessa bið hafa verið ákaflega erfiða, því hún fékk litlar sem engar upplýsingar um framvindu málsins og sakborningur var skólabróðir hennar.

Trúverðugleikinn hafi verið í húfi allan tímann: „Maður fékk frá alveg ótrúlegasta fólki, líka fullorðnum: Af hverju tekur þetta svona langan tíma? Ef þetta er eins borðleggjandi og þú segir, þá getur þetta ekki tekið svona langan tíma, ert þú ekki bara að ljúga þessu? Það var fólk þarna í mínum nánasta vinahópi sem sakaði mig um að ljúga þessu af því að þetta hefði ekki farið fyrir dóm bara einn tveir og tíu,“ segir Stefanía.

Stefanía Hrund Guðmundsdóttir kærði kynferðisbrot þegar hún var nýbyrjuð í menntaskóla, 15 ára gömul.

Aðspurð segist hún ekki sjá eftir því núna að hafa kært, en á þessu tímabili hafi hún oft hugsað um það: „Það kom alveg upp í hausinn á mér þegar þetta ferli tók svona ógeðslega langan tíma, að mögulega hefði ég getað átt betri unglingsár ef ég hefði sleppt því að standa í þessu.“  Pilturinn var sýknaður, tæpum þremur árum eftir að kæran var lögð fram.

Sigrún Jóhannsdóttir lögmaður hefur starfað sem réttargæslumaður í áratug. Hún segir réttarbætur vissulega mikilvægar, svo sem aukinn rétt til aðgangs að gögnum og til framlagningar gagna, sem og upplýsingaskyldu um framvindu málsins. Mikilvægast sé þó líklega að auka þekkingu innan kerfisins.

„Það hafa orðið breytingar til hagsbóta í þessum málaflokki á þessum tíma en þær hafa dugað skammt og alls ekki náð að fylgja eftir breyttri samfélagsgerð og gagnreyndri þekkingu sem við búum yfir núna í þessum málaflokki. Þá á ég við þekkingu á borð við eðli ofbeldis og birtingarmynd ofbeldis,“ segir Sigrún.

Samkvæmt upplýsingum frá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu hefur mikil áhersla raunar verið lögð á menntun og endurmenntun bæði lögreglumanna og ákærenda í rannsóknum kynferðisbrota frá því að aðgerðaáætlun stjórnvalda um meðferð kynferðisbrota var lögð fram árið 2018. Þekking á brotaflokknum hefur því vaxið töluvert

Sigrún segir það gríðarlega mikilvægt að þeir sem fari með rannsókn þessara mála og þeir sem bæði dæmi og saksæki, búi yfir djúpstæðri þekkingu eða hafi mjög greiðan aðgang að þekkingunni: „Öðruvísi getum við ekki rannsakað þessi mál og lokið þeim með fullnægjandi hætti.“

Sigrún nefnir einnig þá staðreynd að brotaþolar geti ekki lagt fram gögn, nema þau sem varða tjón sem þeir hafi orðið fyrir, andlegt og líkamlegt. Ef um bein sönnunargögn er að ræða, þá sé það rannsakanda eða saksóknara að ákveða hvort hann taki við þeim.

Sigrún Jóhannsdóttir lögmaður hefur starfað sem réttargæslumaður í áratug.

Hún nefnir sem dæmi mál sem hún var með fyrir skemmstu, þar sem brotaþoli áttaði sig á því á seinni stigum máls að hann byggi yfir gögnum þar sem sakborningur margjátaði sök. Saksóknari vildi ekki taka við þeim, en í þrjósku sinni lét hún dómarann í málinu vita af þeim, sem lagði að saksóknaranum að leggja þau fram. „Þau voru síðan lögð fram og höfðu óneitanlega áhrif á sakfellingu þessa manns.“

Þessu þurfi að breyta, svo brotaþolar öðlist sama rétt og sakborningar til að leggja fram gögn, sem og aukinn aðgang að gögnum bæði á rannsóknar- og ákærustigi. Lögregla og dómari geti vel metið það hverju sinni hvort hætta sé á því að það spilli fyrir málinu eða torveldi rannsóknina að einhverju leyti, rétt eins og gert sé um aðgang sakbornings.

Það muni ekki gera annað en auka gæði rannsókna og auka líkur á því að hið sanna verði leitt í ljós. Það sé einfaldlega ekki nóg að brotaþoli mæti einu sinni í skýrslutöku og þar með sé hans aðkomu að málinu lokið. „Vegna þess að þetta er þarna í blábyrjun, þegar allir eru að koma kaldir inn í málið. Þessi skýrslutaka, þetta er eina beina aðkoma brotaþola, alla jafna, að sínu máli. Þú sest inn í herbergi og þetta er tekið upp í hljóði og mynd og þessi eina frásögn er svo það sem byggt er á alveg þar til tekin er ákvörðun um niðurfellingu máls eða málið fer áfram.“ 

Hildur Fjóla Antonsdóttir hefur gert samanburð á réttarkerfi á Norðurlöndunum og segir að í Finnlandi og Svíþjóð hafi staða brotaþola lengi verið mun sterkari en í Danmörku, í Noregi og á Íslandi. „En svo var það 2008 sem Noregur breytti sínum lögum og styrkti réttarstöðu brotaþola hjá sér mjög mikið og það virðist hafa gefist vel, miðað við þær rannsóknir sem hafa verið gerðar í kjölfarið. Brotaþolar eru enn vitni, en eru með flest þau aðildarréttindi sem sakborningar hafa,“ segir Hildur. 

Að hennar sögn má segja að hin lögfræðilega hugsun að baki núverandi fyrirkomulagi á Íslandi sé sú að valdamismunurinn milli sakbornings og ríkisins sé það mikill að það sé mjög mikilvægt að hann hafi öll þau réttindi sem þarf til að verja sig. „En það útskýrir kannski ekki af hverju þarf að strippa brotaþola af öllum réttindum, vegna þess að þeir brotaþolar sem vilja taka þátt í málaferlunum, mitt mat er allavegana það að þeir ættu að fá að gera það.“

Þinghald í kynferðisbrotamálum er til að mynda almennt lokað á Íslandi og þar með mega brotaþolar ekki fylgjast með réttarhöldum í eigin máli. Þeir koma aðeins fyrir réttinn sem vitni. Lagt er til að þessu verði breytt og brotaþoli fái sömuleiðis rétt til að spyrja viðbótarspurninga við réttarhöldin í gegnum réttargæslumann sinn sem og að ávarpa dóminn í lokin.

Sem fyrr segir eru fjölmargar tillögur að réttarbótum í greinargerð Hildar Fjólu og var réttarfarsnefnd sem er dómsmálaráðherra til ráðgjafar á sviði réttarfars, beðin um að taka afstöðu til þeirra. Umsögn nefndarinnar var mjög jákvæð, þar sem vel var tekið í nær allar þær réttarbætur sem þar er lýst, nema helst um fulla aðild brotaþola að máli. Var þar dregið í efa að það yrði brotaþola í hag. Líklega væri önnur hvor leiðin best: að skilgreina brotaþola sem aðila með ýmsum takmörkunum eða skilgreina hann sem vitni með ýmiss konar viðbótarréttindum.

Almennt séu þessar breytingar ekki þess eðlis að „réttaröryggi sakaðra manna sé stefnt í hættu.“

Ellefu umsagnir bárust um frumvarpið sem lagt var fram í fyrravor, um bætta réttarstöðu brotaþola. Enginn lagðist gegn því, en nokkrir lýstu óánægju með að það gengi ekki nógu langt, þar á meðal nærri allar jafnréttis- og kvennahreyfingar landsins: Aflið, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennaráðgjöfin, Kvenréttindafélag Íslands, Rótin, Stígamót og UN WOMEN á Íslandi. Þær sendu inn sameiginlega umsögn þess efnis.

Frumvarpið fór reyndar ekki lengra en í gegnum fyrstu umræðu og nú er verið að vinna nýtt frumvarp í dómsmálaráðuneytinu. Hildur Fjóla vonast til að nýr dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, muni ganga töluvert lengra:

„Styrki það töluvert og komi betur inn á það hversu mikilvægt það er að viðurkenna að brotaþolar eigi að sjálfsögðu ríkra hagsmuna að gæta þegar kemur að gang málsins sjálfs. Ég held að það hljóti að blasa við.“

Rætt verður við Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra um málið í Kastljósi á miðvikudagskvöld.