Ekki sjálfgefið að íslenskan lifi

Það er ekki sjálfgefið að íslenskan lifi, segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði. Ný rannsókn sýnir að stór hluti af málumhverfi barna á Íslandi er á ensku.

Ekki sjálfgefið að íslenskan lifi

Aldrei í sögu Íslands hefur erlent tungumál verið jafn fyrirferðarmikið og enskan er nú. Á síðasta ári lauk stórri rannsókn á því hvaða áhrif sambýlið við ensku hér á landi hefur haft á íslenskufærni barna og ungmenna. Henni stýrðu Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við skólann.

Niðurstöður hvað varðar börn á aldrinum 3-12 ára eru birtar í janúarhefti Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar.

Stór hluti málumhverfis barna á Íslandi er á ensku.

Samkvæmt þeim eru 14% af málumhverfi barna á Íslandi á ensku, og þá aðallega í gegnum stafræna miðla og efnisveitur. Hlutfallið fer vaxandi eftir því sem börnin eru eldri og nær allt upp í helming hjá sumum þeirra.

Hinsvegar benda niðurstöðurnar ekki til mikilla áhrifa þessa á íslenskufærni barnanna, enn sem komið er, heldur hefur sambýlið við enskuna fyrst og fremst aukið enskukunnáttu barnanna.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands.

Enska tungumálið er ekki óvinurinn

Rannsóknin sýndi ennfremur að íslenska heldur stöðu sinni sem meirihlutamál á flestum sviðum, en notkunarsvið hennar hefur minnkað vegna þess að hinn stafræni heimur er að mestu leyti á ensku.

Eiríkur Rögnvaldsson segir mikilvægt að hafa í huga að enskan sé ekki óvinurinn.

„Við megum ekki gera hana að óvini. Enskan er auðvitað alþjóðamál sem er mikilvægt að læra sem best og öðlast sem besta færni í. En það getur alveg gerst að enskan verði of stór hluti af málheimi fólks, og þá er hún farin að ógna íslenskunni,“ segir Eiríkur.

„Það kostar að tala mál sem bara 370 þúsund manns tala. Erum við tilbúin til að leggja í þann kostnað?“ 

Það kostar að tala íslensku

Hverjar skyldu þá framtíðarhorfur örtungumálsins íslensku vera, miðað við núverandi stöðu og þær hröðu breytingar sem eru að verða?

„Þetta snýst um vilja málnotendanna,“ segir Eiríkur.

„Ef málnotendur vilja halda í þetta tungumál og ef stjórnvöld gera sitt, eins og verið er að gera með máltækniátakinu, eins og þyrfti að gera, með aukinni áherslu á kennslu íslensku sem annars máls, þá getur íslenska lifað góðu lífi.“

Hann segir hinsvegar mikilvægt að gera sér grein fyrir því að það kosti alltaf eitthvað að tala íslensku.

„Það kostar að tala mál sem bara 370 þúsund manns tala. Erum við tilbúin til að leggja í þann kostnað?“ spyr Eiríkur.

„Það þýðir ekkert að ætlast til þess að fólk haldi áfram að tala íslensku, eða gera ráð fyrir því að það gerist af sjálfu sér, án þess að það sé nokkuð hugsað fyrir því hvaða forsendur eru til þess,“ segir hann. „Íslenskan er ekkert dauðadæmd, fjarri því, en það er heldur ekkert sjálfgefið að hún lifi.“

Nánar verður fjallað um málið í Kveik á RÚV í kvöld klukkan 20:05.