Peppa Pig mun ekki valda falli íslenskunnar

Aldrei í sögu Íslands hefur erlent tungumál verið jafn fyrirferðarmikið og enskan er nú, að sögn málvísindamanna. Samkvæmt nýbirtri rannsókn hefur þetta þó lítil áhrif haft á íslenskufærni barna, heldur eykur fyrst og fremst kunnáttu þeirra í ensku.

Peppa Pig mun ekki valda falli íslenskunnar

Enska er eitt útbreiddasta mál heims og ríkjandi tungumál á stafrænum miðlum.

Ósjaldan heyrast áhyggjuraddir vegna stöðu íslenskunnar gagnvart ensku. Nú síðast spurði rithöfundurinn Kristín Helga Gunnarsdóttir hvort íslenska væri hugsanlega tímabil sem gengur yfir, þegar hún tók við viðurkenningu Rithöfundasjóðs RÚV nú í janúar.

Á síðasta ári lauk stærstu rannsókn sinnar tegundar á því hvaða áhrif sambýlið við ensku hefur haft á íslenskufærni barna og ungmenna. Rannsókninni stýrðu Sigríður Sigurjónsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessorar í íslenskri málfræði.

Niðurstöður hvað varðar börn á aldrinum 3-12 ára hafa verið birtar í nýjasta hefti Ritsins, sem er tímarit Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Þar kemur meðal annars fram að 14% málumhverfis barna á Íslandi er á ensku, og þá aðallega í gegnum stafræna miðla og efnisveitur. Hlutfallið fer vaxandi eftir því sem börnin eru eldri og nær upp í helming hjá sumum þeirra.

Það gæti hinsvegar komið mörgum á óvart að niðurstöður rannsóknarinnar benda ekki til mikilla áhrifa þessa á íslenskufærni barnanna, enn sem komið er.

Aðspurð segir Iris Edda Nowenstein, doktorsnemi í málfræði, að hugsanlega sé þetta nokkuð hughreystandi fyrir þá foreldra sem hafa áhyggjur af því að þeir séu að valda mögulegu falli íslenskunnar með því að leyfa barni sínu að horfa á þætti eins og hina vinsælu Peppu Pig á YouTube.

„Ég held að það verði ekki úrslitaþáttur þegar kemur að framtíð íslenskunnar. Almennt í gögnunum okkar þá virðist þessi enska skila sér í enskufærni,“ segir hún.

Þannig segir hún að foreldrar hafi ekki endilega slæm áhrif á íslenskufærni án þess að bæta neinu við með því að leyfa börnunum sínum að hrærast að einhverju leyti í enskum málheimi á netinu.

„Alla vega ekki samkvæmt okkar niðurstöðum,“ segir Iris.

Iris Edda Nowenstein, doktorsnemi í málfræði við Háskóla Íslands.

Í greininni draga rannsakendur í efa að það sé fýsilegt að stilla ensku upp sem ógn við framtíð íslenskunnar:

„Þess í stað er ef til vill vænlegra til árangurs að leggja áherslu á að eðlilegt sé að breytt málumhverfi, sem meðal annars felur í sér stafrænt málsambýli íslensku og ensku, hafi í för með sér breytta málfærni þeirra sem tileinka sér íslensku, en þessi breytta færni þurfi ekki að koma í veg fyrir það meginmarkmið íslenskrar málstefnu að efla og varðveita íslenska tungu,“ segir í greininni.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu samt sem áður að því meira sem börn dvelja í ensku málumhverfi því líklegri eru þau til að nota styttri setningar. Þá eru þau ólíklegri til að nota viðtengingarhátt.

Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor bendir á að viðtengingarháttur sé einmitt ekki lengur í virkri notkun í þeim tungumálum sem eru hvað skyldust íslensku, svo sem sænsku, norsku, dönsku og færeysku.

„Það hefur auðvitað aldrei verið meiri enska í málumhverfinu í sögu Íslands en núna, eða erlend áhrif í málumhverfinu,“ segir Sigríður.

Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands.

„Niðurstöður verkefnisins sýna að við erum í tiltölulega góðri stöðu enn, en það eru samt sem áður teikn á lofti og varúðarmerki sem við þurfum að taka á og taka alvarlega og bregðast við,“ bætir hún við.

„Ef enskt málumhverfi verður mjög ríkjandi á mörgum notkunarsviðum, í mörgum umdæmum þar sem íslenskan var áður notuð, þá munu viðhorf, sérstaklega unga fólksins, til íslenskunnar, breytast. Og það getur haft hættuleg áhrif á framtíð íslenskunnar og lífvænleika hennar, og þá fer málkunnáttan að breytast.“

Nánar verður fjallað um málið í Kveik á RÚV í kvöld kl. 20:05.