Ekki nóg að vera bara vitni

Hildur Fjóla Antonsdóttir réttarfélagsfræðingur segist sannfærð um að sú jaðarstaða sem íslenskt réttarvörslukerfi býður brotaþolum upp á hafi mjög slæm áhrif á fólk. Tímabært sé að breyta þessu og veita þeim meiri réttindi í eigin máli.

Ekki nóg að vera bara vitni

Stefanía Hrund Guðmundsdóttir var nýbyrjuð í menntaskóla fjarri sinni heimabyggð þegar skólabróðir hennar braut á henni kynferðislega. Hún ákvað að kæra brotið til lögreglu, án þess að vita fyllilega hvað það hefði í för með sér.

„Þegar þú lendir í broti, þá er þolandinn valdalaus. Þegar búið er að kæra, þá er valdið tekið af þér aftur af því að þú ert bara vitni í þínu máli. Þú færð engar upplýsingar, þú hefur engan rétt á því að ýta á að rannsókninni verði haldið áfram, þú færð ekki að kalla til vitni, þú horfir svolítið á þetta standandi utan frá. Og það er eiginlega bara skemmandi,“ segir Stefanía.

Stefanía Hrund Guðmundsdóttir.

Málið þótti líklegt til sakfellingar eftir rannsókn lögreglu og fór því fyrir dóm. Sýknudómur var þó kveðinn upp tæpum þremur árum frá kæru. Stefanía var þá útskrifuð úr menntaskóla og hafði haft málið hangandi yfir sér öll sín ár þar. Ætli hún hafi einhvern tímann séð eftir því að hafa kært?

„Já, það kom alveg upp í hausinn á mér þegar þetta ferli tók svona ógeðslega langan tíma, að mögulega hefði ég getað átt betri unglingsár ef ég hefði sleppt því að standa í þessu,“ segir Stefanía.

Ýmislegt hefur verið gert undanfarin ár til að bæta upplifun þeirra sem kæra kynferðisbrot – sérhæfð kærumóttaka kynferðisbrota opnaði 2018, þjónustugátt lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var sett á fót í desember síðastliðnum, sérstök námskeið í kynferðisbrotarannsóknum hafa verið haldin fyrir bæði lögreglumenn og ákærendur og ýmislegt fleira.

Þetta dugar þó ekki til, að mati dr. Hildar Fjólu Antonsdóttur réttarfélagsfræðings, sem hefur rannsakað réttarstöðu brotaþola ítarlega. Breytingar á stöðu brotaþola í réttarkerfinu séu eina leiðin til að koma í veg fyrir að réttarkerfið detti úr takti við réttarvitund almennings sem svo grafi undan trausti á því.

„Vegna þess að brotaþolar eru ekki aðilar að sakamáli. Þeir sem eru aðilar að sakamáli er ríkið annars vegar og sakborningur hins vegar. Brotaþoli er oftast bara lykilvitni fyrir ákæruvaldið og hefur þar af leiðandi réttarstöðu vitnis og hefur í rauninni mjög fá réttindi í þessu ferli,“ segir Hildur Fjóla.

Þetta geri það að verkum að brotaþolar upplifi sig fyrir utan þessa atburðarás sem málaferli eru. Hún segir jafnframt að réttarstaða brotaþola sé töluvert veikari hérlendis en víðast á Norðurlöndunum. Hugsunin í kerfinu hérlendis sé sú að það sé mjög mikilvægt að tryggja að sakborningur hafi öll þau réttindi sem þarf til að verja sig, því það það sé mikill valdamismunur milli hans sem almenns borgara annars vegar og ríkisins hins vegar.

„En það útskýrir ekki hvers vegna þarf að strippa brotaþola af öllum réttindum, vegna þess að þeir brotaþolar sem vilja taka þátt í málaferlunum, mitt mat er allavegana það að þeir ættu að fá að gera það,“ segir Hildur Fjóla.

Nánar verður fjallað um réttarstöðu brotaþola í Kveik í kvöld kl. 20:05.