Er íslenskan tímabil sem gengur yfir?

Mynd: Krakkakiljan / RÚV

Er íslenskan tímabil sem gengur yfir?

08.01.2022 - 10:00

Höfundar

„Til eru þeir sem hafa engar áhyggjur af íslenskunni og segja að hún muni alltaf bjarga sér sjálf og finna sér farveg,“ segir Kristín Helga Gunnarsdóttir, handhafi viðurkenningar rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins. „En smáspræna hættir að vera til þegar hún sameinast stórfljótinu.“

Ávarp Kristínar Helgu Gunnarsdóttur, handhafa viðurkenningar Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins 2021:

Kæru áheyrendur, og elsku RÚV, alltumvefjandi uppalandi í gegnum tíðina og tíðarandann, Ríkisútvarpið sem opnar sagnaheima, leiðir okkur um töfrastíga tónlistar og segir sögur þjóðar. Ég á RÚV svo mikið að þakka. Ég þakka líka ljósið og heiðurinn hér í dag, þakka fyrir að fá að vera hönd á þessu færibandi sagnamanna, höfunda sem hafa margir hverjir haft djúpstæð áhrif á mig og marga og breytt hugsun og skapað nýjar hugmyndir.

Við stöndum öll hlið við hlið við þetta færiband og flytjum sögurnar áfram. Einn tekur við af öðrum. Við hvíslum sumar sögur og köllum aðrar. Við leikum þær og lesum, syngjum þær og kveðum, framleiðum og skreytum. Við búum til nýjar sögur og færum í gamla búninga, sögur á öldum ljósvakans, sögur á blöðum og sögur í samskiptamiðlum. Við erum sjálf samskiptamiðlarar og við erum öll áhrifavaldar. Við hlustum, drögum ályktanir, komumst að niðurstöðu og miðlum – reynum að vekja hvert annað, skapa nýjar hugsanir og deila.

Við erum gangandi dæmisögur um það sem var –  það sem er og um það sem verður. Þessi árátta að segja sögur og hlusta á sögur. Og allt snýst þetta svo fyrst og síðast um að setja okkur í spor hvers annars. Að máta skóna – sökkva ofan í fótsporin – finna samkennd og samhug eða andúð. Reyna að skilja, finna sársauka, gleði, ótta, reiði og allar þessar tilfinningar. Vega svo og meta aðstæður annarra og um leið sitt eigið sjálf.

Ein stærsta sagnaveita þessarar þjóðar er svo RÚV –  Ríkisútvarpið sem stendur menningarvaktina, varðveitir þjóðararfinn, speglar okkur og sýnir okkur í tímans rás hver við erum. Daginn sem við glötum sögunum og hættum að setja okkur í sporin þá missir mennskan merkinguna eða verður ómennsk –  eða að við þurfum að finna annað orð af því að mennska er ekki lengur til. Þá finnum ekki lengur til hvert með öðru. Þá sjáum ekki inn í framandi heima og sjáum aldrei lengra en nef okkar sjálfra nær. Sjálfan verður hið eina viðurkennda listform. Þetta er gömul harmsaga og ný hjá mannkyni. Svo mikilvægar eru sögurnar.

Og þrátt fyrir alla hina snjöllu miðla í háværum og glænýjum nútímanum –  miðla sem æpa og hrópa í fyrirsögnum og slitróttum örsögum heldur bókin alltaf sinni sérstöðu. Hún varðveitir grunntón og þar finnum við alla söguna. Þar eru ekki bara upphrópanir og myndræn augnablik heldur sagan öll með þeim undirtónum, hliðarsögum, ósögðu orðum og þögnum sem rúmast ekki í hinum annars snjöllu miðlum. Þó staðfesta tíðarandafræðingar að athyglisvitund okkar styttist með hverju árinu. Bláskjárinn er rafræn barnageymsla og kynslóðirnar leka ekki sögum á milli líkt og þær gerðu. Þær eru í sínum hólfum, með sinn reynsluheim og sérhæfðan algórytma sem stýrir för.

Ég hef skrifað fjölskyldusögur frá því fyrir aldamót og finnst ég varla hálfnuð á mínum ferli. En á þessum tíma hef ég fundið svo sterkt að lestrarvenjur barna hafa breyst í samræmi við skjátíma, áreiti og hraða. Manneskjan hefur áfram bara einn haus og tuttugu og fjórar klukkustundir í sólarhringnum. Þannig er þetta einfalt reikningsdæmi. Og nú finn ég svo sterklega hvaða börn lesa og hvaða börn er lesið fyrir. Það heyrist strax á mæli þeirra. Það heyrist á orðaforða og tjáningu, óháð efnahag og þjóðerni. Fjölmargir kennarar geta staðfest þessa óvísindalegu fullyrðingu. Og ekkert kemur í staðinn fyrir samveruna í kringum sögu, ekkert snjalltæki, enginn bláskjár. Að deila saman sögum, velta fyrir sér atburðum og orðum, ræða og takast á um, þannig þroskast málvitund barns og þær stundir eru á ábyrgð fullorðinna en ekki barna. Þær eru á ábyrgð heimila fremur en kennslustofnanna – að lesa fyrir barn og með barni.

Og sögur má aldrei flokka. Þannig gröfum við gljúfrin á milli kynslóða. Við eigum að deila þeim saman því þær eru brýr á milli fólks á öllum aldri, í öllum löndum og við allar aðstæður. Þannig er engin saga þess eðlis að ekki megi segja hana hverjum sem er. Aðeins leiðin skiptir máli og hún er alltaf í höndum sögumannsins.

Það er svo töfrastund þegar við stöndum í annarra sporum í sögunum. Þá verður til víðsýni þegar heimurinn stækkar. Víðsýnin leiðir af sér umburðarlyndi þegar við skiljum meira og umburðarlyndi leiðir af sér kærleika fyrir því sem lifir og andann dregur nær og fjær. Þannig virka sögurnar.

Og af því að ég hef þennan glugga hér vil ég tala um fjöreggið og okkar einu menningarsérstöðu í samfélagi þjóða – tungumálið. Í Noregi hafa sérfróðir skilgreint norskuna sem örtungu í útrýmingarhættu. Hvernig skilgreinum við þá íslenskuna? Mögulega sem sérviskulegan kæk sem má venja sig af? Eða tímabil sem gengur yfir? Líklega erum við hætt að kannast við íslensku sem hið ástkæra og ylhýra, að minnsta kosti þeir sem yngri eru.

Til eru þeir sem hafa engar áhyggjur af íslenskunni og segja að hún muni alltaf bjarga sér sjálf og finna sér farveg. En smáspræna hættir að vera til þegar hún sameinast stórfljótinu. Það er náttúrulögmál. Það þarf meðvitaða ákvörðun til þess eiga íslensku áfram og mætti hæglega gera um hana verndaráætlun og vakta eins og arnarhreiður á Breiðafirði. Í markaðsdrifnu samfélagi sem skilur oft betur tungumál markaðarins en menningarinnar eru mikil markaðstækifæri í íslensku sem við hunsum og nýtum ekki, heldur grípum enskuna og gerum að ásjónu okkar í hjákátlegri tilraun til að vera alþjóðleg. Um leið heimsækjum við aðrar þjóðir og erum forvitin um mál þeirra og menningu, njótum þess að hlusta á hljómfall framandi tungumála og reynum að grípa galdurinn og tileinka okkur. Og við mættum líta okkur nær og sjá öll þau tækifæri sem búa í okkar mögnuðu og sérkennilegu íslensku – flagga henni í stað þess að fela.

Það þarf þorp til að ala upp barn og við ölum hvert annað upp hér í okkar litla þorpi á hjaranum. Og RÚV er félagsheimilið í eigu okkar allra, hvort sem er á gleði- eða ögurstundu. Við þurfum að styrkja þessa félagsmiðstöð og gæta hennar inn í framtíðina. Takk RÚV fyrir uppeldið, fyrir menninguna og fyrir ljósið á sögurnar.

Tengdar fréttir

Tónlist

Kristín Helga fær viðurkenningu rithöfundasjóðs RÚV