„Ég sakna þess að skipta máli fyrir einhvern“

Fáir Íslendingar hafa lifað af jafn alvarlegan höfuðáverka og Þorri Harðarson, 24 ára Garðbæingur. Þegar hann kom á bráðadeild Landspítalans kalt helgarkvöld árið 2018 var honum vart hugað líf.

„Ég sakna þess að skipta máli fyrir einhvern“

Bráðaaðgerð bjargaði honum en hann lá vikum saman milli heims og helju. Ástvinir vissu ekki hvort hann myndi vakna – og ef hann vaknaði, hvaða mann hann hefði þá að geyma.

Fyrir slysið var Þorri í háskólanámi, vann sem þjónn meðfram námi og var manna kátastur í selskap.

Á djamminu hafði Þorri klifrað upp í styttuna af Leifi Eiríkssyni á Skólavörðuholti í Reykjavík. Þorri segir að þetta hafi verið vitlausasta ákvörðun sem var hægt að taka, því hann datt og steyptist á höfuðið eftir margra metra fall.

Árin sem liðin eru hafa verið viðburðarík, svo ekki sé meira sagt. Þorri er með framheilaskaða eftir slysið.

Vikum saman var Þorra haldið sofandi. 

Framheilinn hjálpar okkur að skipuleggja lífið; undirbúa og framkvæma verkefni dagsins en líka að stjórna hvötum okkar, stjórna skapinu til dæmis. Við framheilaskaða fer þetta allt í skrall.

Skaðinn getur valdið hömluleysi og hvatvísi, dómgreindarskorti og lítilli skapstillingu, stundum hreinum skapofsa eða ofbeldishneigð. Og til að bæta gráu ofan á svart minnkar innsæi og geta þess framheilaskaðaða til að átta sig á og skilja eigin vanda.

Það má næstum ímynda sér að verða fyrir meiðslum í slysi, en missa færnina til að skilja meiðslin og hver áhrif þeirra eru. Stíga alltaf í fótinn þótt beinið sé brotið.

Um áratugaskeið hefur verið boðið upp á meðferð við svona áverka, því sem er kallað „ákominn heilaskaði sem veldur erfiðri hegðun“ – en ekki á Íslandi.

Annars staðar er atferlismótun notuð, oft með þeim árangri að sá sem slasast getur náð ákveðinni stjórn á lífinu og verið virkur í samfélaginu.

Karl Fannar Gunnarsson, doktor í atferlisgreiningu og endurhæfingu, er meðal þeirra sem berjast fyrir meðferðarúrræðum hérlendis.

„Þessir einstaklingar eiga hvergi inni, fá ekki að ljúka endurhæfingu sinni, þeir komast ekki áfram í kerfinu,“ segir Karl Fannar.

„Það er leiðinlegt að segja það en þeim er svolítið kastað út áður en þeir komast áfram,“ segir hann. Það verði til þess að þeir fari á félagslega kerfið, detti inn á sveitarfélögin, „sem ráða kannski ekkert endilega við þau,“ segir hann. Þegar einstaklingarnir séu búnir að lenda upp á rönd við alla í kringum sig, leiðist þeir út í eitthvað annað, eins og glæpi, og endi kannski frekar í fangelsi eða á götunni en í meðferð sem getur hjálpað þeim.

Karl Fannar Gunnarsson, sérfræðingur í atferlisgreiningu og endurhæfingu, er nýfluttur heim frá Kanada þar sem hann veitti forstöðu endurhæfingarstofnun fyrir heilaskaðaða.

Erlendar rannsóknir benda til þess að í það minnsta helmingur fanga sé með einhvers konar heilaskaða.

Talsmenn fangelsismálayfirvalda á Íslandi kannast við þetta og segja að staðan sé svipuð hér. Úrræðaleysið þýði hins vegar að líklegast sé að fólk brjóti af sér á ný og lendi aftur í fangelsi.

„Þar höfum við alltaf mjög miklar áhyggjur þegar svoleiðis mál koma til. Af því að það virðist vera lítið hægt að gera fyrir þessa einstaklinga. Þeir þurfa oft á tíðum sérhæfð úrræði og meðferð, búsetuúrræði, sem bara er því miður ekki til staðar,“ segir Anna Kristín Newton, sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun, við Kveik.

Ríki og sveitarfélög deila um hver ætti að bera ábyrgð á – og greiða fyrir – þau úrræði sem þörf er á. Deilan er nú föst í svokallaðri Grábókarnefnd, sem á að útkljá svona deilur, en ekkert hefur þokast í rúmt ár.

Þorri þráir hjálp og meðferð en er ekki vongóður um framhaldið.

Á meðan þessi skrifræðisdeila heldur áfram dvína vonir um að Þorri fái meðferð, taki framförum og eigi einhverja von um að geta orðið hluti samfélagsins á ný.

Hann segist vera uppgefinn. „Ég get einfaldlega ekki haldið svona óendanlega áfram,“ segir hann.

„Ég viðurkenni það núna, hér og með, að þetta er of stórt verkefni. Að eiga að batna sjálfur,“ segir Þorri.

„Ég sakna þess sárt að eiga kærustu, að vakna upp við hliðina á einhverjum. Ég sakna þess að skipta máli fyrir einhvern. Að gera dag einhvers bjartari og fallegri og bara meira fun, skemmtilegri. Núna vakna ég og ég ranghvolfi í mér augunum. Yes! Annar tilbreytingarlaus, tilefnislaus, endurtekning á sama deginum. Geggjað!

Rætt verður við Þorra og fjallað um vanda fólks með heilaskaða í Kveik í kvöld klukkan 20:05 á RÚV.