Börn sem brjóta á öðrum börnum

Hvað er eðlileg kynhegðun barna? Einhver kann að hrökkva í kút við tilhugsunina um börn séu á einhvern hátt kynverur, en allt frá fæðingu erum við það samt. Ekki þó í þeim skilningi að hugsa um kynlíf.

Anna Kristín Newton, réttarsálfræðingur, segir í viðtali við Kveik að börn á leikskólaaldri, og upp að því þegar þau hefja grunnskólagöngu, séu mjög forvitin um líkama sinn og annarra. Þau þekki ekki skömmustulegu tilfinninguna við að vera nakin, svo að dæmi séu tekin. Eða að spyrja hvers vegna sumt fólkið í sturtunni í sundi sé svona loðið. Það er eðlileg forvitni, hluti þroska og í samræmi við aldur.

Í leik og starfi læra börn að verða hluti samfélagsins. Þau læra af því og þeim sem er í kringum þau. Og þar fara málin að flækjast. Heimur barna núorðið er í grundvallaratriðum ólíkur heiminum sem foreldrarnir ólust upp í, svo ekki sé talað um afa og ömmu.

Anna Kristín nefnir sem dæmi að kynþroskaskeið barna sé að færast neðar, það er þau verða kynþroska fyrr, bæði líkamlega og andlega. Hormónastarfsemin er komin í gang fyrr. Erlendar rannsóknir hafa staðfest þetta ítrekað.

Anna Kristín Newton, sálfræðingur

Umhverfið hefur líka breyst, bætir Anna Kristín við, og segir eðlilega forvitni rekast á fjölbreytt framboð á alls konar efni víða. Fullorðnir þurfa að leiðsegja börnunum svo að þau viti hvað þau eigi að gera við upplýsingaflæðið.

Vaxandi fjöldi brota

Ein birtingarmyndin er vaxandi fjöldi kynferðisbrotamála. Þriðjungur mála sem berst Barnahúsi er vegna brota barna undir átján ára aldri, og hluti er vegna brota mun yngri hóps.

Í sumum tilvikum geta þau brot staðið lengi og haft alvarlegar afleiðingar, eins og í frásögn foreldris sem ræddi við Kveik. Við gefum foreldrinu nafnið Þórdís, því hún vill ekki koma fram undir eigin nafni til að vernda dóttur sína, sem glímir enn við afleiðingar þess sem hún varð fyrir.

Þórdís lýsir dóttur sinni sem glaðværri stelpu sem gat látið alla hlæja í kringum sig, en skyndilega hafi orðið hegðunarbreyting á henni. Hún hafi einangrað sig frá vinum, ekki viljað mæta í skóla, fengið kvíðaköst og kastað upp á morgnana. Hún hafi grátið mikið. Þegar leitað var til sálfræðings kom sannleikurinn í ljós: Náin vinkona og jafnaldri dótturinnar hafði efnt til athæfis sem var mjög kynferðislegs eðlis, svo mjög að dóttir Þórdísar tók svona hegðunarbreytingum. Þær voru níu ára þegar þetta hófst.

Þórdís lýsti því sem dóttir hennar varð fyrir í viðtal við Kveik

„Hegðunarbreytingin var alveg rosalega mikil og það var eins og barninu mínu hefði verið skipt út fyrir einhvern annan karakter. Og það var eiginlega ekkert í augunum nema bara sorg og hræðsla, vanlíðan,“ segir Þórdís í viðtali við Kveik og er mikið niðri fyrir.

Kynþroski og eðlileg hegðun

Hvernig getur svona gerst? Hvaða hvatir liggja að baki?

Anna Kristín, sálfræðingur, segir rétt að skoða þroskann frá grunni.

„Við höfum öll þörf fyrir nánd. Við fæðumst með  þann eiginleika að þurfa á öðrum að halda og ekki kynferðislegs eðlis til að byrja með. Með aldri og þroska þá náttúrlega koma ákveðnar þarfir og langanir í ljós sem birtast í einhverju sem við köllum kynhegðun. Við vitum alveg að það eru börn undir tíu ára sem sýna af sér skaðlega kynhegðun, en við þurfum aðeins að sjá þetta í samhengi.“

Anna Kristín segir börn ekki vera með fullmótaðan heila, sjái ekki fyrir sér orsök og afleiðingu hegðunar sinnar. Klárlega sé hegðunin þó þess eðlis að hún gengur yfir rétt annarra stundum og skaðar. Því þurfi að stoppa hana af.

Í þeim málum sem koma upp á yfirborðið er stór hluti gerenda með einhvers konar greiningu – frá ADHD til einhverfu, þroskaröskunar og hegðunarröskunar. Hluti barnanna gæti einnig hafa orðið fyrir einhvers konar ofbeldi sem þarf ekki að hafa verið kynferðisofbeldi, því þekkt er að vanræksla, líkamlegt eða andlegt ofbeldi hafi líka þau áhrif að fólk sýni af sér óæskilega hegðun.

Sökum þess hversu fá mál koma upp á yfirborðið varar Anna Kristín við að draga of víðtækar ályktanir, því skiljanlega sé ekkert vitað um málin sem áfram eru undir yfirborðinu, ástæður þeirra og eðli.

Heimurinn í símanum

Í spánnýrri farsældarkönnun voru ungmenni spurð um fjölmargt sem snýr að lífi þeirra og tilveru, þar á meðal um kynferðisofbeldi. Sex prósent aðspurðra í áttunda bekk sögðust hafa orðið fyrir því að annar unglingur reyndi munnmök eða samfarir gegn vilja, og í tíunda bekk var hlutfallið 10 prósent. Í áttunda bekk hafði tæpur þriðjungur fengið óumbeðin klámfengin skilaboð, í tíunda bekk var hlutfallið næstum helmingur. Yngri börn fengu ekki spurningar um þessa efnisflokka – því mörgum sveitarfélaganna þótti óþægilegt og óviðeigandi að spyrja þau svona spurninga, en þeir krakkar eru líka með síma, sjá, prófa og verða fyrir ýmsu.

Kristín Blöndal er kennari og jafnframt verkefnastjóri kynja- og kynfræðslu hjá Hafnarfjarðarbæ

Kristín Blöndal þekkir þetta vel, sem kennari og verkefnastjóri kynja- og kynfræðslu í Hafnarfirði. Hún bendir á að snjallsímanotkun meðal barna hér á landi sé einhver sú mesta sem þekkist. Börn hafi aðgang að gríðarlegu magni upplýsinga sem séu ekkert endilega réttar upplýsingar eða æskilegar.

„Það er mjög auðvelt að komast inn á klámsíður sem sýna börnum alls konar efni sem við viljum ekki að þau komist í, og ekki bara endilega klámefni heldur bara svör sem hægt er að finna. Tiktok, Instagram og allir samfélagsmiðlar sem börnin eru á. Samfélagsmiðlarnir sem þau eru á eru stútfullir af klámefni, stútfullir af ofbeldi sem á ekkert erindi við börn, og að sjálfsögðu læra þau alls konar hegðun af þessu. Sem að við erum ótrúlega hissa á að þau séu síðan að sýna okkur,“ segir Kristín.

Í farsældarkönnuninni sögðust fimm prósent sjöttu bekkinga – barna á aldrinum 11 til 12 ára - hafa skoðað klám undanfarið ár. Kristín segir vandamál vegna kláms jafnvel koma upp í öðrum bekk grunnskólans. Ekki þurfi meira en að nokkrir strákar sjái klám til þess að vandamál verði í heilum árgangi, því auðvitað segi börn öllum öðrum frá því stórmerkilega sem þau sjái á netinu.

Aðrir viðmælendur Kveiks lýsa því sama og segja mikilvægt að tryggja að samfélagsmiðlar sjái ekki um kynfræðsluna, heldur þeir sem viti betur. Kristín nefnir að hún hafi fengið símtöl frá ráðþrota foreldrum sem óski leiðsagnar þegar börn brjóti hvert á öðru.

„Og það eru oft bara mjög grófar lýsingar. Þau eru að snerta kynfærin á hvort öðru. Þau eru jafnvel að setja þau upp í sig. Þau eru að reyna að setja inn í endaþarm og leggöng. Þannig að það er eitthvað sem er, held ég að einhverju leyti má rekja til þess sem þau eru að sjá.“

Kristín segir krakka frá níu, tíu ára aldri sýna þessa hegðun, krakka á miðstigi grunnskólans. Stálpaðri krakkar, í unglingadeildum, séu aðeins þroskaðri og hafi kannski fengið meiri fræðslu, svo hún heyri sjaldnar svona sögur úr þeim hópi.

Í þessum yngri hópi sýna erlendar rannsóknir að klámvæðingin hafi líka deyft skynjun þeirra fyrir því hvenær farið er yfir mörk og brotið á þeim – jafnvel þótt sum hegðunin yrði kölluð kynferðisofbeldi ef fullorðnir ættu í hlut.

Unglingar rýna í símana sína í frímínútum í skóla á höfuðborgarsvæðinu

Hvert á að leita?

Þórdís lýsir því sem henti dóttur hennar, þegar náin vinkona vildi leika kynferðislega leiki, sem þó voru engir leikir í augum dóttur Þórdísar.

„Hún vildi þetta ekki. Þetta var hegðun sem gerandinn hefði aldrei átt að hafa vit á eða hugmyndaflug í á þessum aldri. Ef dóttir mín vildi ekki taka þátt, þá var hún lamin. Hún var oft með marbletti á sér sem áttu sér enga skýringu.“

Þórdís segir vinkonuna hafa sagt dóttur sinni að þegja yfir því sem gerðist, alls ekki mætti segja frá. Allt er þetta vel þekkt í svona tilfellum.

Depurð dótturinnar varð að sjálfskaðandi hegðun og sjálfsvígshugsunum. Þórdís leitaði til Barnaverndar, sem taldi málið eiga heima í Barnahúsi. En eftir margra vikna bið kom svarið: Dóttir þín á ekki erindi hingað.

Margrét Kristín Magnúsdóttir, sálfræðingur, veitir Barnahúsi forstöðu og segir almennu regluna þá að miða við tólf ára aldur, sem þar á bæ er skilgreindur kynþroskaaldur. Til að málið sé tekið til meðferðar þurfi að vera fimm ára aldursmunur á geranda og þolanda.

Margrét Kristín Magnúsdóttir veitir Barnahúsi forstöðu

„Við vísum málum frá þar sem þessi börn eru undir kynþroskaaldri, sýna engin áfallaeinkenni og þau eru jafnaldrar. Það er ekkert valdaójafnvægi sem er það sem við horfum á. Aldursmunurinn er ekki mikill. Af því að Barnahús veitir þolendum kynferðisofbeldis þjónustu og við erum með áfallamiðaða meðferð, sem miðar að því að vinna úr ákveðnu áfalli en kynferðisleg hegðun milli jafnaldra þar sem ekkert valdaójafnvægi er… Það þarf ekki að leiða til áfallastreitu,“ segir Margrét í viðtali við Kveik.

Aðrir viðmælendur Kveiks með þekkingu á málaflokknum segja nýjar erlendar rannsóknir sýna að fyrir þolandann sé áfallið engu minna en ef gerandinn væri eldri. Stúlkur, sem eru beittar ofbeldi af þessu tagi, eru oft með áfallastreituröskun fram eftir aldri og eru líklegri en aðrar stúlkur og konur til að fá þunglyndi, átröskunarsjúkdóma og jafnvel sjálfsvígshugsanir.

Þórdís segist hafa verið ráðalaus eftir höfnun Barnahúss. Dóttur hennar hafi verið farið að líða það illa að hún hafi hræðst að sofna á kvöldin af ótta við að koma að henni blárri morguninn eftir.

„Ég get ekki sagt frá“ stendur á veggspjaldi í kennslustofu í Hafnarfirði

Áfallið og BUGL

Barnahús taldi málið ekki eiga heima þar og dótturinni stóð því til boða aðstoð félagsráðgjafa, sem Þórdís segir ekkert hafa gagnað. Hún tók því málin í eigin hendur og flutti í annað bæjarfélag, í von um að breytt umhverfi bætti líðan dótturinnar og þýddi í það minnsta að hún hitti ekki gerandann á næsta götuhorni.

Nokkru síðar fékk Þórdís skilaboð frá dóttur sinni þess efnis að hún ætlaði ekki að koma heim aftur. Hún ætlaði að deyja því hún gæti ekki meir.

„Þarna var hún tólf ára gömul. Og lögreglan er kölluð út. Og mér fannst þessi dagur aldrei ætla að enda, kannski eðlilega,“ segir Þórdís af yfirvegun. „Svo þegar hún finnst þá tekur á móti okkur læknir sem ég get aldrei þakkað nógu vel fyrir hjálpina. Hann hringdi bara beint á BUGL og hann fór ekki úr símanum fyrr en hann var búinn að ná þangað inn. Við vorum mætt með stelpuna í innlögn þremur dögum síðar. Og þar tók á móti okkur starfsfólk sem á hrós skilið fyrir sína vinnu. Frábært starfsfólk.“

Þórdís segir starfsfólk BUGL hafa bjargað dóttur hennar

Viðmælendur Kveiks segja sjaldgæft að mál endi inni á Barna- og unglingageðdeildinni BUGL vegna áfallastreitu. Í flestum tilvikum dugi inngrip foreldra sem verði að ræða við börnin í sitt hvoru lagi og útskýra fyrir þeim hvers vegna hegðunin sé ekki viðeigandi. Veita þurfi bæði geranda og fórnarlambi stuðning, en í einhverjum tilfellum þurfi aðkomu sérhæfðra, til dæmis sálfræðinga.

Engir töfrasprotar

Þórdís segist vita að Barnahús sé ekki með einhvern töfrasprota sem taki alla vanlíðan í burtu. Hún kveðst þó sannfærð um að ekki hefði komið til innlagnar á lokaða geðdeild hefði dóttir hennar fengið aðstoð strax og málið kom upp.

Í dag eru liðin fjögur ár frá því að brotin hófust og fyrst núna, eftir aðstoð frá BUGL, segist Þórdís sjá smá ljós við enda ganganna.

„Hún er farin að brosa aðeins aftur. Það er bara rosalega stórt skref og ánægja fyrir okkur náttúrlega að sjá að henni líður aðeins betur. Við ætlum að halda áfram á þessari braut. Við gefumst ekkert upp.“

Úrræði og fræðsla?

Við þennan lestur eða við að horfa á þáttinn hafa ugglaust margar spurningar vaknað. Hvað er eðlilegt? Hvernig á að ræða við börn um klám og ofbeldi?

Hinar ýmsu menntastofnanir hafa gefið út kennsluefni sem hægt er að kynna sér.

Reykjavíkurborg gaf út „Að tala við börn um klám“ fyrir yngsta stig og miðstig grunnskólans.

Menntamálastofnun er með fjölbreytt efni á sínum vef, stopp ofbeldi, fyrir bæði yngsta stig og miðstig.

Og þá hefur Barnahús Barna- og fjölskyldustofu gefið út bæklinginn „Kynferðisleg hegðun barna - hvað er eðlilegt?“