*

2.000 verða fyrir heilaskaða árlega

Um 300 Íslendingar bætast á hverju ári í þann hóp sem glímir við langtímaafleiðingar heilaáverka. Engin úrræði eru í boði hérlendis fyrir þá sem hljóta alvarlegan skaða eða fötlun.

2.000 verða fyrir heilaskaða árlega

Tvö þúsund Íslendingar eru taldir verða fyrir heilaskaða árlega, flestir í slysum. Talan virðist há, nema litið sé til þess að áætlað er að einn af hverjum tíu verði fyrir heilaáverka um ævina.

Áverkarnir eru misalvarlegir en í verstu tilvikunum missir fólk algjörlega fótanna í lífinu og getur jafnvel orðið hættulegt sjálfu sér og öðrum.

Þeir sem verða fyrir verstu tegund heilaskaða glíma við margskonar einkenni. Framheilaskaði getur leitt til hömluleysis og ofbeldishneigðar í verslu tilfellunum. 

Reykjalundur tekur við mörgum þeirra sem þurfa á endurhæfingu að halda og þar fást þær upplýsingar að á Íslandi leiti um 900 manns á ári hverju til heilbrigðisstofnunar vegna höfuðáverka. Rúmlega helmingurinn virðist því ekki leita sér hjálpar.

Einnig í Kveik í kvöld
„Ég sakna þess að skipta máli fyrir einhvern“
Fáir Íslendingar hafa lifað af jafn alvarlegan höfuðáverka og Þorri Harðarson, 24 ára Garðbæingur. Þegar hann kom á bráðadeild Landspítalans kalt helgarkvöld árið 2018 var honum vart hugað líf.

Í kringum 100 manns glíma við afleiðingar sem krefjast sérhæfðrar íhlutunar. Í skýrslu sem unnin var fyrir heilbrigðisráðuneytið segir þó að umfangið sé vangreint, litlar upplýsingar liggi fyrir, meðferðarúrræðin fá og engin fyrir þá sem eru illa farnir, til dæmis með alvarlegan heilaskaða sem veldur hegðunarröskun. Það eru um fimm til tíu manns á hverju ári.

Karl Fannar Gunnarsson, sérfræðingur í atferlisgreiningu og endurhæfingu.

Karl Fannar Gunnarsson, sérfræðingur í atferlisgreiningu og endurhæfingu, stýrði meðferðarstofnun fyrir heilaskaðaða í Toronto í Kanada en er nú fluttur heim. Hann segir að kerfið kasti alvarlega heilasköðuðum í raun út áður en þeir komist nokkuð áfram í meðferð sinni.

Í samantekt opinberrar nefndar sem vann skýrsluna Hinn þögli faraldur segir meðal annars að ýmislegt vanti til að greining og skráning, sem og meðferð og stuðningur við fólk með ákominn heilaskaða, sé fullnægjandi á öllum þjónustustigum. Þegar litið sé til talna frá Grensásdeild, Reykjalundi og barnadeild Landspítalans um fjölda þeirra sem sinnt er, og þær tölur bornar saman við þann fjölda sem áætlað er að hljóti áverkatengdan heilaskaða, verði að draga þá ályktun að þessar stofnanir sinni aðeins litlum hluta þeirra sem hljóta slíkan skaða ár hvert.

Heilbrigðisráðuneytið lét taka saman skýrslu um þjónustu við fólk með ákominn heilaskaða árið 2019.

Frá því að skýrslan kom út árið 2019 hefur ekkert þokast. Nokkrir helstu sérfræðingar landsins í höfuðáverkum eru nú í stjórn eða ráðgjafar hjá samtökum sem kallast Heilabrot og vilja koma á fót meðferðarstöð að erlendri fyrirmynd.

Tilraunir þeirra til að ná samstarfi við yfirvöld hafa engu skilað öðru en deilum á milli ríkis og sveitarfélaga um hvar slíkt verkefni ætti heima og hver ætti að fá reikninginn.

Í Kveik í kvöld verður fjallað um Íslendinga sem glíma bæði við afleiðingar heilaskaða og við kerfið.