Andri Snær Magnason rithöfundur er staddur á Sundance film festival í Utah þar sem hann frumsýndi myndina Time and Water síðastliðinn þriðjudag. Í Utah eru samankomnar margar af skærustu stjörnum heims í kvikmyndaiðnaðinum, handritshöfundum, leikstjórum og leikurum og má þar nefna Ethan Hawke, Channing Tatum, Olivia Wilde, Seth Rogen og X files leikarinn David Duchovny sem Andra Snæ hefur áður verið líkt við í fjölmiðlum hér heima. Athygli vakti á feisbúkk um helgina að Andri Snær henti inn sjálfu af sér og David og líkindin fara ekki á milli mála, þetta gæti í raun og veru verið einn og sami maður. Við heyrðum í Andra Snæs og spurðum út í hátíðina, frumsýninguna, Time and water og svo auðvitað hvernig það er að vera þarna innan um allt þetta bransafólk.
Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, setti í samráðsgátt drög að frumvarpi um lagareldi, sem nær til hvers kyns fiskeldis á sjó og landi. Yfir 900 umsagnir birtust í samráðsgátt. Andstæðingar opins sjókvíaeldis telja drögin ganga alltof skammt í að verja villta laxastofna og óttast að verið sé festa greinina í sessi með kvótasetningu en því hafnar ráðherra. Á Íslandi hefur ágreiningurinn þó fyrst og fremst snúist um opið sjókvíaeldi á frjóum laxi. Gagnrýnendur telja að sú aðferð feli í sér of mikla áhættu fyrir villta laxastofna, meðal annars vegna stroks og erfðablöndunar, á meðan stuðningsmenn segja hana vera raunhæfa leið til verðmætasköpunar, að því gefnu að eftirlit og stýring sé nægjanleg. Til að ræða þessi mál komu til okkar Jón Kaldal frá Icelandic wildlife fund og Ingvar Þórodsson frá atvinnuveganefnd.
Á dögunum fengum við fréttir af því að fjórar hákarlaárásir urðu á 48 klukkustundum í Ástralíu. Þrjár þessara árása urðu á 15 kílómetra kafla á austurströnd landsins en talið er að allar árásirnar hafi verið af völdum nautháfa. Í raun sýna opinberar tölur að hákarlaárásum hefur fjölgað síðustu 30 árin og nú hafa kröfur um að fækka hákörlum fengið byr undir báða vængi. En hvað veldur þessari fjölgun árása? Þorkell Heiðarsson formaður félags náttúrufræðinga kom til okkar.
Við keppum til undanúrslita á EM í handbolta í kvöld við gestgjafaþjóðina Dani. Edda Sif Pálsdóttir okkar kona er á svæðinu og við heyrðum í henni og hituðum upp fyrir leikinn.
Eins og alla föstudaga fórum við í yfir fréttir vikunnar á föstudegi. Hjónin Unnur Ösp og Björn Thors komu til okkar í kaffi og við rifjuðum upp það sem bar hæst í listum og menningu á þessum róstursömu tímum.