Lestrarkeppni grunnskóla fer fram í annað sinn, 18. - 28. janúar nk., en keppnin felst í því að grunnskólanemendur keppast við að lesa sem mest inn á síðuna Samrómur.is og foreldrar og kennarar geta líka lesið inn og stutt þannig sinn skóla. Mikil þátttaka var í verkefninu í fyrra og metnaður ekki minni í ár svo það stefnir í skemmtilega keppni. Þær Ragnheiður Kr. Þórhallsdóttir verkefnastjóri hjá Mál- og raddtæknistofu Háskólans í Reykjavík og Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Almannaróms mættu í morgunkaffi og sögðu okkur frá.
Í samráðsgátt stjórnvalda er nú til umsagnar drög að frumvarpi til breytingar á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Fjölmargar umsagnir hafa borist og þeirra á meðal frá Samtökum iðnaðarins og Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda sem telja að frumvarpið verði til þess að skerða samkeppnishæfni kvikmyndaiðnaðar á Íslandi. Sigríður Mogensen sviðstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins fór yfir málið með okkur.
Vísindasiðanefnd stendur fyrir málþingi í dag sem opið er almenningi en markmið þess er að vekja áhuga almennings og hvetja fólk til umhugsunar um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Sunna Snædal Jónsdóttir sérfræðilæknir og formaður Vísindasiðanefndar kom til okkar og ræddi þá möguleika og þær áskoranir sem felast í rannsóknum meðan á faraldri stendur og hún sagði okkur hvernig almenningur getur tekið þátt í þinginu.
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði hratt á nýliðnu ári en leiguverð stóð í stað og lækkaði víða. Þetta kemur fram í nýrri hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Við fengum til okkar Pál Heiðar Pálsson fasteignasala til að ræða fasteignamarkaðinn á þessu ári sem fram undan er og því síðasta.
Upp úr hálfníu færðum við okkur svo suður til Spánar, ekki í sólina - heldur í snjóinn! Þar er mikið vetrarríki sem Jóhann Hlíðar Harðarson sagði okkur frá.
Tónlist:
Magnús og Jóhann - Sumir dagar.
First Aid Kit - Emmylou.
Guðmundur R. - Svona er lífið.
Ragga Gísla, Friðrik Dór, Salka Sól og Stefán H. - Klárum þetta saman (Áramótaskaupið 2020).
Weekends - Kiriyama Family.
Moses Hightower - Stundum.
Jamiroquai - Deeper underground.
Eyþór Ingi og Lay Low - Aftur heim til þín.