06:50
Morgunútvarpið
24. júní - Skólabyrjun, áfengi, starfshópar, langborð og EM
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir, Rúnar Róbertsson og Hulda G. Geirsdóttir.

Nemendur á unglingastigi í Vogaskóla munu í haust mæta seinna í skólann á morgnana í von um bættan svefn, og hefst kennsla í áttunda til tíunda bekk ekki fyrr en klukkan tíu mínútur yfir níu. Við ræddum verkefnið við Snædísi Valsdóttur, skólastjóra Vogaskóla.

Breytingar á áfengislöggjöfinni urðu á lokametrum þingsins þegar Alþingi gerði heimilt fyrir framleiðendur áfengis, þ.e. bjórframleiðendur, að selja vörur sínar í smásölu frá framleiðslustað. Þetta þykir þeim sem vilja aukið frjálsræði á áfengismarkaði aðeins áfangi á leið í átt að lokamarkinu. Einn þeirra er Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, sem vill sjá örari breytingar á löggjöfinni og opna markaðinn frekar. Hann var gestur okkar upp úr hálf átta.

Guðmundur Gunnarsson, ritstjóri Markaðar Fréttablaðsins, skrifaði leiðara á þriðjudaginn þar sem hann benti á að vinnuhóparnir, fagráðin, þingmannanefndirnar, aðgerðahóparnir, viðbragsteymin, verkefnastjórnirnar og valnefndirnar sem sinna tímabundnum verkefnum fyrir ríkisstjórnina séu nú um tvö hundruð og níu talsins. Við ræddum fjölda starfshópa hér á landi við ÓIaf Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði.

Að loknum átta fréttum á föstudögum förum við yfir fréttir vikunnar með góðum gestum, í þetta skiptið fréttakonunum Kristínu Ólafsdóttur á Vísi og Stöð 2 og Magdalenu A. Torfadóttur, á Markaðinum og Fréttablaðinu.

Á morgun laugardag skella veitingamenn á Laugaveg upp langborði á miðri götunni. Charlotta Rós Sigmundsdóttir partystýra á Vínstúkunni tíu sopum kom til okkar og sagði okkur frá viðburðinum.

Það styttist verulega í EM kvenna í knattspyrnu en þjóðin er að sjálfsögðu búin að skrúfa væntingarnar reglulega vel upp. Þorsteinn Halldórsson þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu kom til okkar í lok þáttar til að renna yfir leikskipulagið og hvaða dýrðir við megum vænta á Evrópumótinu.

Tónlist:

Nýdönsk - Horfðu til himins

First Aid Kit - Emmylou

The Beatles - Something

Una Torfadóttir - En

Hjálmar og GDRN - Upp á rönd

Harry Styles - Watermelon sugar

Tame Impala - No Choice

NERD - She wants to move

Scarlet Pleasure - What a life

Var aðgengilegt til 24. júní 2023.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,