18:00
Spegillinn
Spegillinn 24. júní
Spegillinn

Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.

Forseti Bandaríkjanna segir öfgafulla hugmyndafræði hafa ráðið för þegar hæstiréttur landsins felldi úr gildi fimmtíu ára gamlan úrskurð sem tryggði réttinn til þungunarrofs. Einn dómara við réttinn vill endurskoða réttinn til samkynja hjónabanda. Þórgnýr Einar Albertsson tók saman.

Loftlagsráð telur framkvæmd aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum ómarkvissa. Umhverfisráðherra tekur undir með ráðinu um að gera þurfi betur. Sveinn Ólafur Melsted talaði við Guðlaug Þór Þórðarson.

Starfandi borgarstjóri segir að borgarstjórn muni fylgja ráðleggingum innviðaráðuneytisins varðandi nýja byggð í Skerjafirði. ráðuneytið segir byggðina ógna rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar og krefst frestunar framkvæmda. Ólöf Rún Erlendsdóttir talaði við Einar Þorsteinsson.

Fornleifafræðingur segir spennandi vikur framundan á Seyðisfirði. Heillegir húsveggir frá 11. öld hafa fundist í uppgreftri þar. Ásta Hlín Magnúsdóttir tók saman og talaði við Ragnheiði Traustadóttur.

------------------------------------------------------

Lengri umfjöllun:

Sagt var frá því í Speglinum í gær að apótek og heilbrigðisfyrirtæki í Svíþjóð hafi um árabil deilt persónulegum upplýsingum um viðskiptavini með Facebook, án samþykkis eða vitneskju fólksins. Getum við átt von á sambærilegum málum hér á landi? Elfur Logadóttir lögfræðingur, sem sérhæfir sig í tæknirétti, segir aðstæður bjóða upp á það. Neytendur hér á landi njóti ekki sömu verndar og í Evrópusambandinu, þegar að kemur að öflun persónuupplýsinga á netinu. Hafdís Helga Helgadóttir tók saman.

Úkraínski herinn hefur fengið fyrirmæli um að hörfa frá borginni Sjevjerodonetsk í Donbass þar sem mjög harðir bardagar hafa geysað undanfarna daga. Borgin er í rúst og mannfall meðal almennra borgara og báðum herjum mikið. Rætt hefur verið um að fall Sjevjerodonetsk geti valdið straumhvörfum í innrásarstríði Rússa í Úkraínu. Spegillinn fékk Albert Jónsson fyrrverandi sendiherra og sérfræðing í öryggismálum til að leggja mat á stöðuna í Úkraínu. Kristján Sigurjónsson tók saman.

Ríkisstjórnarflokkarnir bættu samanlagt við sig fylgi í kosningunum í haust og það hefur ekki gerst í 30 ár á Íslandi. Leiða má að því líkur að þar hafi pestin skipt miklu en í mælingum nú í vor hefur fylgið dvínað og stjórnin kannski ekki lengur í skjóli faraldursins að dómi Agnars Freys Helgasonar dósents við Háskóla Íslands. Hann er einn höfunda greinar í tímariti um stjórnmál og stjórnsýslu þar sem rýnt er í alþingiskosningarnar síðastliðið haust með gögnum úr Íslensku kosningarannsókninni. Í næstum fjörutíu ár, frá 1983 hefur

Er aðgengilegt til 24. júní 2023.
Lengd: 30 mín