12:20
Hádegisfréttir
Hádegisfréttir 18. mars 2021
Hádegisfréttir

Útvarpsfréttir.

Ferðamenn frá löndum utan Schengen svæðisins mega nú koma til landsins framvísi þeir bólusetningarvottorði - reglugerð þess efnis var birt í morgun og hefur því þegar tekið gildi. Sóttvarnalæknir var ekki með í ráðum þegar þessi breyting var ákveðin.

Níu skothylki fundust á vettvangi morðsins í Rauðagerði en byssan hefur ekki fundist. Þrír sitja í gæsluvarðhaldi vegna málsins og telur lögreglan að morðið hafi verið framið í samverknaði nokkurra.

Forstjóri kísilverksmiðju PCC á Bakka vonast til að framleiðsla hefjist á ný í lok apríl. Álíka margir verði við störf og voru áður en verksmiðjunni var lokað.

Atvinnuveganefnd Alþingis skorar á Vegagerðina að nýta Herjólf til siglinga yfir Breiðafjörð þar til varanleg lausn er fundin með nýju skipi til framtíðar.

Þótt dregið hafi úr skjálftavirkni á Reykjanesskaga streymir enn kvika inn í kvikugang við Fagradalsfjall. Of snemmt er að spá því að eldgos verði ekki á næstu vikum, segir jarðeðlisfræðingur.

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, hefur lýst yfir sigri í kosningunum sem fram fóru í landinu í vikunni og hyggst strax í dag hefja viðræður um stjórnarmyndun.

Herforingjastjórnin í Mjanmar hefur birt nýjar ásakanir um mútuþægni á hendur Aung San Suu Kyi sem steypt var af stóli í síðasta mánuði. Lögmaður hennar vísar þeim ásökunum á bug.

Bæði topplið úrvalsdeildar kvenna í körfubolta töpuðu í gærkvöldi. Spennan magnast í deildinni.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 22 mín.
,