12:03
Hádegið
Heimilisofbeldi á tímum Covid og falskir fiskar
Hádegið

Hádegið er daglegur fréttaskýringaþáttur í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur. Fjallað er um innlend og erlend fréttamál, menningu, íþróttir og daglegt líf. Fréttaskýringar, samtöl og umræður um það sem er efst á baugi.

Í fyrri hluta þáttarins er fjallað um heimilisofbeldi á tímum kórónuveirunnar.Tuttugu og fimm prósent fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi hafa borist til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu það sem af er þessu ári, en að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú ár. Frá þessu er greint í skýrslu lögreglunnar á höfuborgarsvæðinu fyrir síðasta mánuð, sem var birt í gær. Sjötíu og fimm tilkynningar bárust lögreglu um heimilisofbeldi í febrúar, en á sama tíma í fyrra voru þær fimmtíu og fjórar. Þessar tölur endurspegla stöðuna um heim allan á tímum heimsfaraldurs. Í nær öllum löndum virðist heimilisofbeldi hafa aukist frá því kórónuveiran fór að herja á heimsbyggðina, með tilheyrandi samkomubanni og aukinni heimaveru fólks. Rætt er við Sigþrúði Guðmundsdóttur, framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins.

Í síðari hluta þáttarins skoðum við svikafiska. Getur þú verið viss um það, hlustandi góður, þegar þú gerir þér glaðan dag og ferð út að borða, að íslenski túnfiskurinn sem þú pantir þér á fína veitingastaðnum sé í raun og veru íslenskur. Nei, segja niðurstöður rannsókna breska blaðsins Guardian, en víðs vegar út um allan heim er fiskur á veitingastöðum, í verslunum og hjá fisksölum, seldur undir fölsku flaggi. Og þetta er sérstaklega algengt hér á Íslandi. Katrín Ásmundsdóttir ræðir við Breka Karlsson, formann Neytendasamtakanna of fiska sem sigla, eða synda, undir fölsku flaggi, í síðari hluta þáttarins.

Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.

Var aðgengilegt til 18. mars 2022.
Lengd: 58 mín.
,