12:20
Hádegisfréttir
Hádegisfréttir 19. febrúar 2021
Hádegisfréttir

Útvarpsfréttir.

Fyrsta innanlandssmitið í átta daga greindist í gær. Sá var í sóttkví. Fyrstu farþegarnir sem þurftu að framvísa vottorði um smitleysi komu frá Boston í morgun. Fjórðungur farþega var ekki með vottorð.

Slakað var á sóttvörnum á skíðasvæðunum í dag, en þau mega nú taka við helmingi af leyfilegum hámarksfjölda. Skíðamenn gleðjast nú þegar styttist í vetrarfrí í mörgum skólum.

Lögreglan fer í dag fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni á fertugsaldri sem var handtekinn aðfaranótt sunnudags vegna morðsins í Rauðagerði. Að minnsta kosti níu manns frá fjórum löndum eru í haldi í tengslum við rannsóknina.

Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna óttast að vaxandi átök í Jemen leiði til enn meiri hörmunga í landinu. Hungursneyð blasi við milljónum verði ekkert að gert.

Líkur á að rýma þurfi hús á Seyðisfirði í varúðarskyni fara minnkandi eftir því sem jarðvegur í hlíðum þéttist og Veðurstofan lærir á nýtt landslag og mælitæki.

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta er komið áfram í aðra umferð forkeppni heimsmeistaramótsins 2023. Ísland tryggði sér efsta sæti riðilsins með sigri á Slóvakíu í gær.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 22 mín.
,