12:03
Hádegið
Facebook í slag við Ástralíu og uppbygging gagnavera á Íslandi
Hádegið

Hádegið er daglegur fréttaskýringaþáttur í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur. Fjallað er um innlend og erlend fréttamál, menningu, íþróttir og daglegt líf. Fréttaskýringar, samtöl og umræður um það sem er efst á baugi.

Í fyrri hluta Hádegisins hlýðum við á örskýringu Atla Fannars Bjarkasonar um deilur Facebook og ástralskra stjórnvalda. Facebook lokaði á deilingu frétta ástralskra fjölmiðla á samskiptamiðlinum í Ástralíu. Lokunin var sem sagt svar samfélagsmiðlarisans við boðaðri löggjöf sem kveður á um að Facebook, Google og sambærilegir miðlar þurfi að greiða áströlskum fjölmiðlum höfundarlaun fyrir birtingu á efni þeirra. En hvað hefur Facebook eiginlega á móti fjölmiðlum í Ástralíu? Gæti verið svipað í vændum annars staðar í heiminum? Jafnvel í Evrópu, já eða hér á litla Íslandi? Atli Fannar útskýrir málið betur í örskýringu sinni - vikulegum lið hér í Hádeginu þar sem hann tekur fyrir flókin fyrirbæri og hugtök og útskýrir þau á einfaldan hátt.

Í síðari hluta þáttarins er fjallað um gagnaver. Þau hafa verið mikið í umræðunni að undaförnu, en fjöldi þeirra er starfræktur hér á landi. Þetta er umhverfivænn iðnaður, en mjög orkufrekur. Starfsemi eða hlutverk gagnavera er fjölbreytt, en meðal þess gagnaver sinna hér á landi er þjónusta við rafmyntir, þar á meðal Bitcoin. Sitt sýnist hverjum um hvort íslensk orka eigi að fara í það að skapa, það sem sumir kalla sýndarverðmæti. En gagnaver þjónusta ekki aðeins rafmyntir. Samtök iðnaðarins segja mikil tækifæri fólgin í uppbyggingu gagnavera hér á landi. Guðmundur Björn ræddi við Sigríði Mogensen, sviðsstjóra hugverkasviðs hjá Samtökum iðnaðarins.

Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.

Var aðgengilegt til 19. febrúar 2022.
Lengd: 58 mín.
,