12:20
Hádegisfréttir
Hádegisfréttir 29. janúar 2024
Hádegisfréttir

Útvarpsfréttir.

Grindvíkingar fengu að fara heim og vitja eigna sinna í morgun í fyrsta sinn frá gosi. Þæfingsfærð á Suðurstrandarvegi gerði ökumönnum erfitt fyrir í morgun.

Stjórnvöld í Íran þvertaka fyrir að bera nokkra ábyrgð á árás sem gerð var á bækistöðvar Bandaríkjahers í Jórdaníu í gær, þar sem þrír hermenn létust. Þrengt er að Bandaríkjaforseta og hann krafinn um að bregðast hart við.

Fulltrúi Framsóknarflokks í utanríkismálanefnd Alþingis gagnrýnir utanríkisráðherra fyrir samráðsleysi þegar hann tók ákvörðun um að fresta greiðslum til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna.

Mótmæli þúsunda franskra bænda í dag settu umferð í París rækilega úr skorðum. Versnandi lífskjör eru bændum efst í huga í þessu helsta landbúnaðarríki ESB. 15 þúsund lögreglumenn standa vaktina í París frönsku höfuðborginni.

Oddviti Viðreisnar í bæjarráði Kópavogs vill ekki að ráðist verði í umfangsmikla uppbyggingu fyrir eldri borgara í landi Gunnarshólma. Jörðin sé utan vaxtarsvæðis höfuðborgarsvæðisins, á vatnsverndarsvæði og að auki sé ekki fýsilegt að einangra eldri borgara með þessum hætti.

Kona sem er ákærð fyrir að drepa mann í Bátavogi í Reykjavík í september vill ekki að gert sé annað mat á sakhæfi hennar. Hún hefur þegar sætt geðmati. Héraðssaksóknari óskaði eftir öðru mati en konan hefur kært þá ákvörðun.

Óhætt er að ætla að Brennisteinsfjöll séu að rumska, að mati prófessors í eldfjallafræði. Jarðskjálftahrina var suðaustur af höfuðborgarsvæðinu um helgina.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 22 mín.
,