Verður erfitt að semja án aðkomu ríkisins

Leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar segja að ríkið verði að koma strax að samningaborðinu í komandi kjarasamningum.

Kröfurnar sem stærstu samtökin, Starfsgreinasambandið og VR, hafa lagt fram snúa sumar beint að ríkinu: að farið verði í skattkerfisbreytingar og að ríkið komi að því að leysa húsnæðisvandann.

„Við vitum það að það verður mjög erfitt að ná samningum á almennum markaði ef ríkið kemur ekki vel inn í,“ segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands.

En er það eitthvað inni í myndinni til dæmis að skrifa ekki undir kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins, eða önnur álíka apparöt, ef að ríkið gerir ekki það sem þið eruð að krefja ríkið um?

„Sko, ef við náum ekki markmiðum okkar og ríkið kemur ekki inn í með eitthvað, þá þarf þunginn að vera meiri á Samtökum atvinnulífsins, og atvinnurekendur, það gefur auga leið,“ segir hún.

„Við erum með ákveðin markmið. Þessar kröfur sem verslunarfólk og verkafólk er búið að setja fram, það eru kröfur um að fólk geti lifað af laununum sínum. Og það er náttúrulega frekar gagnslaus verkalýðshreyfing sem reisir ekki slíkar kröfur.“

Ítarlegt viðtal er við leiðtoga verkalýðshreyfingarinnar, þau Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, Sólveigu Önnu Jónsdóttir, formann Eflingar, og Drífu Snædal, forseta ASÍ, í Kveik í kvöld klukkan 20.00.