Tilbúin í átök verði kröfunum ekki mætt

Síðustu ár hafa deilur á vinnumarkaði stigmagnast með hverri kjarasamningsrimmunni sem tekin er. Samhliða því er reynt að koma böndum á þetta ferli, að norrænni fyrirmynd, til að koma í veg fyrir svokallað höfrungahlaup - að þegar einn hópurinn fær hækkun biðji sá næsti bara um meira.

Nú eru kjarasamningar flestra að verða lausir og, komið að næstu samningaviðræðum. Og nú er tónninn annar hjá forystu stærstu stéttarfélaga landsins – og raunar ASÍ, heildarsamtökum launafólks. Það hafa verið settar fram ríkar kröfur bæði á atvinnurekendur og ríkið.

Til að skilja kröfurnar - og kannski ekki síður nýju leiðtogana sjálfa - settumst við niður með þeim og fórum yfir málin.

„Við höfum oft verið á brúninni í gegnum tíðina að gera eitthvað stórkostlegt. Við erum svolítið í þannig sporum núna. Við þurfum eitthvað stórkostlegt. Fólki misbýður þetta vaxandi misrétti,“ segir Drífa Snædal, nýr forseti Alþýðusambands Íslands.

„Þannig við erum komin að einhverjum endapunkti núna, þannig að við þurfum að hugsa í einhverri stærri mynd , heldur en bara að setjast við samningaborðið með Samtökum atvinnulífsins.“

Orðræðan óskiljanleg

Ragnar Þór Ingólfsson, sem hefur verið formaður VR síðan 2017, segir málflutning andstæðinga þeirra óskiljanlegan.

„Það er í sjálfu sér óskiljanlegt að við skulum þurfa að mæta orðræðunni eins og hún hefur verið undanfarna mánuði og ár, miðað við þær kröfur sem við erum með. Og það er alveg ljóst í mínum huga að þetta er einhverskonar stríð, sem verkalýðshreyfingin á í,“ segir hann og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar síðan í mars á þessu ári, skýtur inn í: „Stéttastríð!“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, stærsta stéttarfélags landsins. (Mynd Stefán Aðalsteinn Drengsson/Kveikur)

„Stéttastríð má segja, við ákveðin hagsmunaöfl í þessu landi,“ segir Ragnar.

Sólveig segir að samfélagið sé á skrýtnum stað í dag. „Við getum ekki verið föst á þessum stað, að allar leikreglur samfélagsins, öll umræða, öll orðræða, allur fókus, sé ávallt einhvern veginn á hagsmuni og hagsmunabaráttu þeirra sem best hafa það. Það er bara svo furðulegur staður til þess að vera á samfélagslega,“ segir hún.

Lægstu laun verði 425 þúsund

Kröfurnar sem settar hafa verið fram fela í sér að laun hækki árlega um rúmar 40 þúsund krónur í þrjú ár, þar til lægstu laun verða 425 þúsund. Það þýðir rúmlega 40 prósent hækkun lægstu launa. Ragnar segir þetta einfaldlega kostnaðinn við að lifa.

„Hvað kostar að lifa á Íslandi? Hvað kostar að geta lifað með mannlegri reisn fyrir dagvinnulaun? Og þegar við setjum upp kostnaðarútreikning, á því sem kostar að lifa og tökum húsnæðiskostnaðinn með. Þá er þetta upphæðin, 425 þúsund, sem kostar að lifa,“ segir hann.

„Og þetta er okkar grunnkrafa og ef að við getum ekki verið sem hreyfing sammála um það að við séum ekki að fá greidd laun, eða að það sé ekki verið að greiða laun, sem duga ekki til framfærslu, þá eigum við einfaldlega að finna okkur eitthvað annað að gera.“

Sólveig segist trúa því að nú sé sá tímapunktur að fólk sé komið með nóg.

„Ég held að almennt sé bara fólk komið með nóg af því og sé komið á þann stað að það svona vill sem samfélag, held ég, að taka þátt í því, að já, bara svona, byggja upp samfélag sem við getum bara öll verið stolt af því að standa að,“ segir hún.

Ríkið þarf að koma að borðinu

Drífa segir að samningum verði tæplega náð nema með aðkomu ríkisins . „En við vitum það að það verður mjög erfitt að ná samningum á almennum markaði ef ríkið kemur ekki vel inn í,“ segir hún.

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands. (Mynd Ingvar Haukur Guðmundsson/Kveikur)

En er það eitthvað inni í myndinni til dæmis að skrifa ekki undir kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins, eða önnur álíka apparöt, ef að ríkið gerir ekki það sem þið eruð að krefja ríkið um?

„Sko ef við náum ekki markmiðum okkar og ríkið kemur ekki inni í með eitthvað, þá þarf þunginn að vera meiri á Samtökum atvinnulífsins, og atvinnurekendur, það gefur auga leið. Við erum með ákveðin markmið. Þessar kröfur sem verslunarfólk og verkafólk er búið að setja fram, það eru kröfur um að fólk geti lifað af laununum sínum. Og það er náttúrulega frekar gagnslaus verkalýðshreyfing sem reisir ekki slíkar kröfur,“ segir Drífa.

Það er ekki nýtt að ríkið liðki fyrir kjarasamningum og hefur oftar en einu sinni hoggið á hnútinn þegar ekkert gengur í kjaraviðræðum. En, kröfurnar núna snúa beint upp á ríkið og ekki bara að gripið verði til aðgerða í þágu launafólks, til að mynda í húsnæðismálum, heldur að tekjuhæsti hópurinn verði skattlagður meira en verið hefur undanfarin ár.

„Verkalýðshreyfingin hefur sýnt fram á það með mjög sannfærandi hætti að hér hefur orðið það sem við köllum stóra skattatilfærslan, þannig að ríkasta 1 prósentið hefur fengið skattaafslátt sem nemur 8 prósentum síðustu 25 árin á meðan þeir tekjulægstu hafa, skattar á þá hafa hækkað um 12 prósent,“ segir Drífa.

Ójöfnuðurinn kemur fram í húsnæðismálum

Sólveig segir að þetta sé krafa sem verkalýðshreyfingin verði að standa við.

„Þau sem hafa haft það best og hagnast mest á því að fá að dvelja hér með okkur í þessu velsældarríki, að þau hérna skili eðlilega til baka inn í samneysluna og inn í samfélagið,“ segir hún.

(Mynd Kveikur/RÚV)

„Hún er bara svo mikil svona grundvallarréttlætiskrafa, að við erum tilbúin til að samþykkja að yfirgefa hana, að hún sé bara einhver svona fortíðar, fortíðarmúsík, sem engin vitiborin manneskja ætlar lengur einhvern veginn að hlusta á, þú veist, þá er þetta bara búið.“

Drífa bendir á að einn mesti ójöfnuðurinn sé vegna húsnæðis. „Einn mesti svona ójöfnuðurinn sem við sjáum er sko út af húsnæði. Að fólk sem er með lágar tekjur þarf að greiða, það er ofurselt markaðsöflunum á leigumarkaði,“ segir Drífa.

Ragnar tekur dæmi: „Lágmarkslaun í dag eru 300 þúsund, útborgað eru þau 248 þúsund krónur. Í dag kostar upp undir 250 þúsund krónur að leigja tveggja herbergja íbúð. Fasteignamarkaðurinn, það er búið að keyra hann það mikið upp að hér er verið að selja, hér í nánasta nágrenni við Efstaleitið, tveggja herbergja íbúðir á hátt í 50 milljónir.“

Drífa segir að markaðnum sé ekki treystandi til að leysa húsnæðisvandann. „Það er markaðnum í hag að vera hér með skort á íbúðum þannig að leiguverð fari upp úr öllu valdi,“ segir hún.

„Stjórnvöld verða að koma að, augljóslega. Stjórnvöld og sveitarfélög. Sveitarfélög verða náttúrulega að bjóða upp á lóðir til að hægt sé að byggja. Stjórnvöld verða að koma inn til að liðka fyrir. Bæði fyrir óhagnaðardrifin leigufélög og eins að aðstoða fólk að kaupa fyrstu íbúð.“

Stöndum jafnar en aðrar þjóðir

Ísland er jafnaðarsamfélag og við tilheyrum Norðurlöndunum sem hafa verið fyrirmyndir annarra ríkja þegar kemur að jöfnum tækifærum og jafnri stöðu innan samfélagsins. Og það eru flestar vísbendingar í eina átt; við stöndum jafnar en aðrar þjóðir. Á það hafa hagsmunasamtök eins og Viðskiptaráð Íslands bent á. Engu að síður er málflutningur viðmælenda okkar sá að hér ríki mikill ójöfnuður og að hann fari vaxandi. Það er eiginlega talað alveg í kross.

„Jú jú, vissulega getum við skoðað einhverja GINI stuðla og við getum skoðað nágrannalöndin okkar. En sannleikurinn er sá að í nágrannalöndum er líka misrétti að aukast gríðarlega. Hraðast í Svíþjóð,“ segir Drífa. „Sumir hópar bera mikið úr býtum, skila litlu í samneysluna, á meðan aðrir hópar hanga á horriminni.“

Sólveig telur ójöfnuðinn augljósan. „Ég held að manneskja þurfi bara að vera í einhverri svona veruleikaafneitun ef að hún ætlar ekki að horfast í augu við það að á Íslandi ríkir bara mjög mikil misskipting og stéttaskipting,“ segir hún.

Þú ert þremur launaseðlum frá stórkostlegum fjárhagslegum vandræðum,“ segir Ragnar.

Ragnar segir þetta líka augljóst. „Fólk hefur ekki efni á að verða veikt. Þú ert þremur afborgunum frá því að missa húsið þitt eða detta út af leigumarkaði og nánast á götuna. Þú ert þremur launaseðlum frá stórkostlegum fjárhagslegum vandræðum og þú gætir hugsanlega aldrei unnið þig almennilega út úr þeim,“ segir hann.

Drífa segir að gögn styðji þetta. „Við erum með rannsóknir sem sýna það að okkar fólk er farið að veigra sér við að fara til læknis af því það er svo dýrt,“ segir hann.

Ríka fólkið þekkir þetta ekki sjálft

„Þú veist ég get alveg skilið það að það sé erfitt fyrir fólk sem hefur allt til alls, sem lifir eins og blómI í eggi, sem getur leyft sér alla hluti sem því dettur í hug, sem fer oft á ári til útlanda, og svo framvegis, ég get alveg skilið að það sé erfitt að horfast í augu við það að hérna séu hópar sem hafa ekki aðgang að neinum af þessum gæðum. Það breytir því ekki að það er samt staðreynd málsins,“ segir Sólveig.

Ragnar segir að það geti þó allir lent í því að þurfa að treysta á gott velferðarkerfi.

„Og þeir sem hafa það mjög gott, þeir velta því oft ekki mikið fyrir sér hvað við erum að fara með því að bæta grunnþjónustuna okkar, breyta kerfunum okkar, kerfum sem þeir kannski þurfa ekki á að halda í dag, en vita svo sem ekkert hvort þeir þurfa að halda, á þeim að halda á næsta ári,“ segir hann.

Sólveig segir hagsmunasamtök setja fram blekkjandi gögn til að fela ójöfnuðinn.  

„Ég veit það ekki, ég hérna bara held að þetta sé öllum ljóst sem vilja sjá og alveg sama hvað Viðskiptaráð reynir að kasta fram af einhverjum svona blekkjandi gögnum, þá breytir það engu um þann veruleika sem fólk upplifir,“ segir hún.

(Mynd Kveikur/RÚV)

„Fyrir konu sem er í tveimur vinnum og á samt ekkert aukreitis, fyrir einmitt þessa konu, þó svo að kaupmáttur hafi aukist hjá einhverju öðru fólki, þá gerir það aðstæður hennar ekkert auðveldari eða betri.“

Tilbúin í átök verði kröfunum ekki mætt

Þetta eru miklar kröfur og töluvert umfangsmeiri en áður hefur þekkst. Og það sem er öðruvísi núna er að þessi þrjú, sem saman tala fyrir mikinn meirihluta fólks á vinnumarkaði, virðast alveg samstíga. Þau tala einni röddu, en hvað eru þau tilbúin að gera? Eigum við von á svakalegum vinnudeilum í vetur?

„Ég hef sjálf aldrei farið í verkfall en ég hugsaði oft þegar ég var, hérna, að vinna og fékk ömurleg laun, þá var ég oft að hugsa að það væri nú fínt að senda okkur konurnar í verkfall, eða bjóða okkur upp á það, eða hvernig ég á að orða það, til þess að hérna sýna fram á mikilvægi okkar og búa til þær aðstæður að óumflýjanlega yrði að mæta kröfum okkar vegna þess að annars myndi allt samfélagið stoppast,“ segir Sólveig.

Drífa segir verkfall ekki vera á ratarnum hjá öllum. „Það eru ekki allir hópar til í verkföll. En það eru allir hópar til í að leggja eitthvað af mörkum til að auka jöfnuð hérna á Íslandi. Og fólk sér þetta, að þetta er ranglátt. Fólk sér að við erum að búa til vandamál til framtíðar með því að gera ekki neitt,“ segir hún .

Ragnar telur að aðilar muni ná saman. „Ég er bjartsýnn að við náum viðræðunum á það plan sem að við þurfum að vera á til þess að eiga möguleika á að ná saman. En auðvitað höfum við hugsað þennan möguleika að það komi til átaka,“ segir hann.

Sólveig spyr hins vegar: „Af hverju í ósköpunum ættum við ekki að vera tilbúin í einmitt átök og verkföll þegar viðsemjendur okkar og svona það kerfi sem við höfum verið látin búa inn í hefur einmitt verið kerfi markvissra stéttaátaka gegn okkur?“

„Það hefur verið þessi ógeðslega væntingastjórnun, svo ég noti það agalega orð. Væntingastjórnun sem hefur snúist um það að segja verka- og láglaunafólki að enginn vilji fara í verkfall. Segja verka- og láglaunafólki að átök á vinnumarkaði séu bara í eðli sínu slæm. Segja verka- og láglaunafólki að þeirra undirgefni gagnvart kerfinu sé lykillinn að stöðugleika í samfélaginu. Ég held að staðan sem er komin upp núna sé svoleiðis að verka- og láglaunafólk á Íslandi sé ekki lengur tilbúið til þess að láta vera með sig í þessu væntingarstjórnunarprógrammi.“

Fjárhagsleg stórveldi

Ragnar bendir á að hann telji verkalýðshreyfinguna vel í stakk búna til að fara í átök. „Við skulum ekki gleyma því að verkalýðshreyfingin í gegnum tíðina hefur farið frá því að vera einhverskonar grasrótarsamtök yfir í að vera fjárhagslegt stórveldi,“ segir hann.

Ragnar og Sólveig leiða samanlagt hátt í helming fólks sem starfar á íslenskum vinnumarkaði. (Mynd Ingvar Haukur Guðmundsson/Kveikur)

„Ef við færum saman öll félögin væru þetta gríðarlega miklar upphæðir sem við hefðum til þess að fara í slíkar aðgerðir en ég hef meiri trú á því, ef að kemur til þess að við þurfum að fara í átök, að þá munum við gera það kannski í einhverskonar skærum með félögum okkar í öðrum stéttarfélögum þar sem við getum farið í vinnustöðvun og borgað fólki full laun fyrir og kannski notað til þess fjármagnstekjur verkfallssjóðanna okkar eða vinnudeilusjóðanna okkar.“

Sólveig segir að verkföll og átök á vinnumarkaði sé ekki endilega af hinu slæma.

„Ég trúi enn þá á svona góðan, góðan og hamingjuríkan endi í þessum samningaviðræðum. En svo líka trúi ég því að verkföll og svona stór átök á vinnumarkaði í eðli sínu þurfi ekki að vera slæm. Vegna þess að í svona sögulegu samhengi hafa þau skilað fólki gríðarlegum, hérna, ekki bara aðeins kjarabótum, heldur líka svona samfélagsbótum,“ segir hún.

„Ef að niðurstaða samningaviðræðna er sú að ekki koma til móts við okkur, þá, hérna, er ég ekkert að skrifa þá sögu ein. Þá er auðvitað bara óumflýjanlegt að það verði átök á íslenskum vinnumarkaði. Það hljóta allir að sjá það.“

Ragnar veltir líka upp þeim möguleika að beita áhrifum verkalýðshreyfingarinnar innan lífeyrissjóðanna til að knýja á um samninga.

„Við erum líka aðilar að íslenska lífeyrissjóðakerfinu. Við erum að borga hátt í 20 milljarða á ári í umsýslukostnað inn í fjármálakerfið. Og af hverju getum við ekki sett fjármálakerfið okkar í verkfall? Af hverju getum við ekki beitt áhrifum okkar inni í lífeyrissjóðakerfinu, sem að, beinum þá tilmælum til okkar stjórnarmanna að skrúfa fyrir allar fjárfestingar á meðan óvissa eða samningar eru lausir?“

„Við eigum að nota öll tæki sem við mögulega getum og verkalýðshreyfingin er miklu, miklu sterkari, valdameiri og öflugri heldur en fólk gerir sér almennt grein fyrir,“ segir hann.

Aldrei góður tími

En, hvað gerist ef þetta tekst hjá nýju verkalýðsforystunni? Talsmenn atvinnurekenda og stjórnvöld hafa komið því skýrt til skila að þau óttast afleiðingarnar ef gengið verður að þessum kröfum.

Ragnar er ekki sammála þessu. „Að halda því fram að tilraunir okkar og markmið og hugmyndir hvernig við ætlum að bæta kjör þessara hópa, að það skili sér bara sjálfkrafa í hærri verðbólgu og geri þá bara stöðu þessa fólks enn verri er bara ekki boðlegur málflutningur að mínu mati,“ segir hann.

En það er samt það sem stjórnendur fyrirtækja hafa til dæmis nefnt. Þeir hafa nefnt það að ef þessar kröfur sem hafa komið fram um til dæmis 42 þúsund króna, eða um það bil 42 þúsund króna árlega launahækkun í þrjú ár. Þá þurfi að hækka verð, þá þurfi að segja upp fólki, fyrirtæki fari á hausinn. Þetta er náttúrulega fólkið sem stýrir því.

Drífa, forseti ASÍ. (Mynd Arnar Þórisson/Kveikur)

„Við skulum hafa það í huga að það hefur aldrei verið góður tími til að hækka laun, aldrei nokkurn tímann. Aldrei nokkurn tímann hafa atvinnurekendur sagt að nú sé svigrúm til að hækka laun. Við heyrðum þennan söng líka 2015. Þá var spáð 50 prósent verðbólgu ef gengið yrði að kröfum okkar,“ svarar Drífa.

Segir kröfuna vera um leiðréttingu

Hún fellst ekki á að kröfurnar nú séu stærri en áður, þó að verið sé að fara fram meira en einfaldar launahækkanir, til dæmis endurskoðun skattkerfisins.

„Við erum að tala um að endurheimta stóru skattatilfærsluna sem hefur orðið, við erum að tala um að leiðrétta skattkerfið,“ segir Drífa.

En hvort sem þið eruð að tala um leiðréttingu eða eitthvað, þá er það samt breyting sem felur, bara eins og þið eruð að tala um, dálítið mikið í för með sér. Það breytir dálítið miklu.

„Ég vil sko snúa þessu við og segja það er rosalegur ábyrgðarhluti, bæði hjá stjórnvöldum og Samtökum atvinnulífsins, að segja „við ætlum ekki að ganga að þessum kröfum, þær eru of háar”. Hvað eru þau þá að segja? Þau eru að segja það að „við ætlum í raun ekki að bjóða upp á neinar lausnir til að fólk geti lifað á lægstu launum hérna á Íslandi“,“ segir Drífa.

„Við verðum að fara að snúa umræðunni upp á það að stjórnvöld bera ábyrgð á því að fólk geti lifað af laununum sínum og atvinnurekendur gera það líka, að einhverju leyti. Annars erum við að viðurkenna það að hér í samfélaginu ætlum við að vera með fólk sem er að vinna, oft erfiðustu störfin, og nær ekki að framfleyta sér á því. Þannig að ég myndi vilja snúa þessari spurningu við.“

Ekki í sama raunveruleika

Þegar kröfur og málflutningur verkalýðshreyfingarinnar um tugprósenta launahækkanir er borinn saman við það sem Samtök atvinnulífsins segja um að það sé innan við þriggja prósenta svigrúm til hækkana eru borin saman, væri auðveldlega hægt að trúa að þarna sé fólk ekki í sama raunveruleika.

„Það má bara vel vera. Þú veist, það getur vel verið að við búum bara í sitt hvorum raunveruleikanum,“ segir Sólveig.

„Ég held að vinnuaflið búi svona í raunverulegasta raunveruleikanum. Fjármagnseigendur og efnahagslegir forréttindahópar þeir búa bara í einhverjum hliðarveruleika. Þar sem einmitt fjármagnstekjuskattur er mjög lágur, þar sem að þú getur sent, hérna, peninga í skattaskjól, þar sem eitthvað sem heitir Money Heaven er til, þar sem, hérna, afskrifuðu skuldirnar þínar gufa upp.“

„Raunveruleiki vinnuaflsins, hann er sá rétti,“ segir Sólveig. (Mynd Stefán Aðalsteinn Drengsson/Kveikur)

„Ekkert af þessu er sá efnahagslegi veruleiki sem vinnuaflið býr í. Þannig að já, kannski búum við í sitt hvorum raunveruleikanum en þá ætla ég bara að fullyrða það að minn raunveruleiki, raunveruleiki vinnuaflsins, hann er sá rétti, hann er sá sanni. Við búum til verðmætin, við höldum þessu samfélagi gangandi með vinnu okkar,“ segir hún.

„Okkar hagsmunir hljóta þess vegna að vera miklu, miklu mikilvægari heldur en hagsmunir fjármagnstekjueigenda eða efnahagslegra forréttindahópa. Vegna þess að lífsstíll þeirra gengur ekki upp nema með vinnu okkar. Þannig að af hverju í ósköpunum ættum við einhvern veginn að vera valdalausasti og aumasti hópurinn í samfélaginu. Það er bara fáránlegt.“

Gagnslaus stjórnvöld sem koma ekki með lausnir

Ragnar tekur í sama streng og Sólveig. „Ég sat nú morgunverðarfund Samtaka atvinnulífsins og þar var kynnirinn með 3,6 milljónir á mánuði og talaði um skaðsemi þess að hækka launin meira heldur en 1,2 til 2 prósent,“ segir hann.

„Alls staðar í kringum okkur sat fólk sem kom úr forstjóra- og stjórnendaelítu landsins. Sem hafði fengið frá svona milljón upp í eina og hálfa í launahækkanir undanfarið, á hverjum einasta mánuði. Þarna voru einstaklingar sem voru með nálægt um og yfir 100 milljónir í árslaun. Og býr þetta fólk í öðrum veruleika en okkar félagsmenn og umbjóðendur? Já, ég myndi segja það.“

Drífa segir að málflutningur atvinnurekenda og stjórnvalda hafi áður heyrst.

„Ég hef einu sinni komið að samningaborðinu þar sem voru 2 til 3 prósent til skiptanna og ekki eyrir meir og allt færi til andskotans ef það færi upp fyrir það. Það var samið um upp undir 20 prósent launahækkanir þá. Ég býð ekki í ástandið í dag, hjá vinnandi fólki, ef við hefðum gengið að 2 til 3 prósentum á þeim tíma. Það væri svakalegt ástand,“ segir hún.

„Við erum að fara fram á ákveðnar grundvallarbreytingar. Við erum að fara fram á að fólk geti lifað af launum sínum. Ég hef ekki heyrt atvinnurekendur eða stjórnvöld koma með einhverjar aðrar lausnir í því og ef þú kemur ekki með lausnir hvernig við eigum að auðvelda fólki að lifa af hérna heldur bara gagnrýnir kröfur sem eru fram komnar, þá ert þú frekar gagnslaust stjórnvald og ósannfærandi atvinnurekandi.“