Vegagerðin ætti að breyta viðmiðunum

Sérfræðingur í malbikun segir að Vegagerðin ætti að hækka viðmið sín um holrýmd eða loft í malbiki. Lítið megi út af bregða til að holrýmdin fari undir viðmið Vegagerðarinnar en það auki hættu á að vegurinn verði of háll.

Vegagerðin ætti að breyta viðmiðunum

Í sumar varð banaslys á vegarkafla á Kjalarnesi þegar ökumenn tveggja bifhjóla misstu stjórn á hjólunum með þeim afleiðingum að annað hjólið lenti á bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Tvö létust í slysinu og einn var fluttur slasaður á spítala. Böndin bárust fljótlega að malbikinu sem var nýlagt og flughált.

Rannsókn Vegagerðarinnar leiddi í ljós að of mikið bik og of lítil holrýmd eða loft hafi verið í malbikinu. Segir í skýrslu Vegagerðarinnar að ástæðuna megi rekja til framleiðslugalla.

Vegagerðin gerir alla jafna ráð fyrir því í útboðslýsingum sínum að holrýmd malbiks sé 1-3%. Ástæðuna segir sérfræðingur þeirra vera þá að það hafi gefið góða raun til að sporna við frost þíðu sveiflum vegna frosts og þíðu sem skemmi malbikið. Til að mynda miði sænska Vegagerðin við að holrýmdin eða lofthlutinn sé 1,5-3,5%.

„Þessi lofthluti er óskaplega lítill og það þarf lítið út af að bregða þannig að maður fari kannski niður fyrir leyfileg mörk eða eitthvað slík“, segir Sigurður Erlingsson, verkfræðiprófessor í vega- og gatnagerð, jarðtækni og bergtækni. Hann segir að ofuráhersla hafi verið lögð á það á Íslandi að malbiksblandan sé mjög þétt til að koma í veg fyrir frostskemmdir en ef holrýmdin eða lofthlutinn væri aðeins meiri myndi það bæta eiginleika malbiksins. Fari lofthlutinn hins vegar undir þessi mörk þá tapi malbikið eiginleikum sínum og efnið verði ekki eins stöðugt.

„Þá töpum við eiginleikum eins og að hjólfaramyndun getur orðið hraðari heldur en ella, hugsanlega líka viðnámseiginleikar og bremsuvegalengdin verður lengri.“ Þá sé hugsanlegt að malbikið verði hálla en ella.

Sigurður segir að víða annars staðar í Evrópu sé gert ráð fyrir að holrýmd sé á bilinu 2-8%.

„Það er raunverulega það eina sem skilur íslenskt malbik frá norrænu malbiki ef það er hægt að segja  sem svo, hvort sem er í Noregi eða Svíþjóð, það er lofthlutinn í efninu. Og við ættum að hækka þennan lofthluta.“

Nánar er fjallað um ástand vegakerfisins í Kveik í kvöld kl. 20.