Ungir drengir líklegastir til að nota stera

Lögregla, saksóknarar, meðferðastofnanir og lyfjaeftirlitið eru sammála um að steranotkun hafi aukist hér á landi á undanförnum árum. Flest bendir til að aukningin sé meðal ungra karla.

Ungir drengir líklegastir til að nota stera

Öll viljum við vera hraust og heilbrigð, en það er stundum erfitt að skilgreina hvað í því felst. Ungt fólk vill oft líkjast fyrirmyndum af samfélagsmiðlum og kvikmyndum – og fyrirmyndir drengja og karla eru þar oft útblásnar og skornar, hrein steratröll, sem eiga þátt í að bjaga líkamsmynd ungra karla.

„Þeir eru viðkvæmastir fyrir félagslegum þrýstingi, viðkvæmastir fyrir því að falla inn í hóp og slíkt,“ segir Hafrún Kristjánsdóttir, sem stýrir íþróttafræðasviði Háskólans í Reykjavík. „Og þeirra útlitskröfur eru að vera svolítið macho, svolítið sterkir, á meðan útlitskröfur stelpnanna eru öðruvísi, að vera grannar, og sterarnir hjálpa ekki jafnmikið þar. Þannig að þetta er bara að ungt fólk er áhrifagjarnara og þess vegna eru það ungir drengir sem eru líklegastir til að nota vefaukandi efni.“

Viðar Halldórsson er dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands og gerði fyrir nokkru íslenska rannsókn á íþróttaiðkun og steranotkun meðal framhaldsskólanema, sem leiddi meðal annars í ljós tengsl steranotkunar og áhættuhegðunar. Hann telur forvarnafræðslu og fyrirmyndir skipta lykilmáli.  

„Hvernig eiga fyrirmyndirnar að vera? Og hvað er heilbrigt? Það er eitt að líta út á ákveðinn hátt en hvernig líður þér að innan? Í fyrsta lagi með að hafa notað ólögleg efni, með að gera eitthvað sem er hættulegt og kannski fer illa með heilsuna þína, ýtir undir þunglyndi og allskonar slíka þætti. Þannig að þetta er dýru verði keypt. Að ætla að líta svona út með hjálp stera,“ segir hann.

Nánar verður fjallað um þetta mál í fréttaskýringaþættinum Kveik í sjónvarpinu klukkan átta og meðal annars rætt við Sigmar Frey Jónsson, son Jóns Páls Sigmarssonar, en Sigmar misnotaði stera árum saman.