„Ég var ofsalega fegin þegar hann var orðinn 32 ára“

„Ég var ofsalega fegin þegar hann var orðinn 32 ára“

Sigmar Freyr Jónsson var ekki gamall þegar pabbi hans, Jón Páll Sigmarsson, lést. Jón Páll var sterkasti maður heims en varð bráðkvaddur á miðri æfingu, þrjátíu og tveggja ára gamall. Jón Páll notaði stera, þótt umdeilt sé hvort þeir drógu hann til dauða. Árum saman var Sigmar spurður hvort hann ætlaði ekki að feta í fótspor föður síns, sem hann gerði – líka hvað sterana varðaði.

„Er þetta bara orðið svona?“

Í Kveik í kvöld lýsir Sigmar Freyr áhrifum steraneyslu um árabil, vanlíðan og hverfandi kynhvöt.

Sigmar er sonur Jóns Páls kraftajötuns sem lést langt fyrir aldur fram. (Mynd Stefán Aðalsteinn Drengsson/Kveikur)

„Áhrifin voru í fyrstu bara stórkostleg. Ekki endilega í ræktinni, ég hélt að maður myndi ná miklu meiri árangri. Ég hélt maður myndi blása miklu meira út og þess vegna var ég svolítið á bremsunni. Ég vildi ekki gafa of geist, ég vildi ekki tútna út of hratt,“ segir Sigmar.

„Það er alveg sama þótt þú notir stera, þú þarft að hafa fyrir því að verða stór og hrikalegur. Og ég þyngdi mig um einhver þrjátíu kíló. En í byrjun þá fannst mér þetta… þá var eiginlega bara gaman alla daga. Maður var bara fullur af testósteróni, meira sjálfsöryggi, það kom svona nettur hroki í mann og karlremba. Og það var bara mjög gaman að vera til, til að byrja með. Og maður hugsaði með sér: „Af hverju er maður ekki alltaf svona?“ Svo fór maður að finna fyrir aukaverkununum þegar leið á.“

Hafði áhyggjur af syninum

Jonna, mamma hans, fylgdist með þessu árum saman. Hún segist aðspurð hafa haft áhyggjur að sömu örlög biðu hans og Jóns Páls.

„Sko, ég var ofsalega fegin þegar hann var orðinn 32 ára, svo varð hann 33 og þá varð ég ennþá fegnari. Og svo varð hann 34 ára. Sérstaklega í kringum þennan tíma. Þá var ég rosalega stressuð. ÉG viðurkenni það alveg. Ég held bara að Sigmar sé skynsamur og að hann sé hættur þessu. Hættur að nota þetta,“ segir hún.

En steranotkun hér á landi hefur aukist, ekki síst meðal yngri karla.

Sigmar segir að í dag séu einstaklingar jafnvel byrjaður að nota stera áður en þeir fari á sína fyrstu æfingu. „Og er alveg sama, eru ekkert endilega að mæta á æfingar. Og bæði strákar og stelpur. Fólk er hætt að nenna að taka pásur,“ segir Sigmar.

„Maður hefur heyrt að menn bara minnka skammtinn niður í eitthvert lágmark og svo bara keyra þeir aftur upp. En fyrir mér er það algjört kjaftæði, finnst mér. Að gefa líkamanum aldrei tækifæri til að byrja að framleiða sitt eigið testósterón.“

Nánar um málið í Kveik í kvöld klukkan 20.00.