Þurfum ekki fleiri skýrslur um kennaraskort

Þurfum ekki fleiri skýrslur um kennaraskort

Kennaranemum hefur fækkað svo síðan námið var lengt í fimm ár, að spár gera ráð fyrir að eftir tólf ár fáist ekki menntaðir kennarar í um helming stöðugilda í grunnskólum Reykjavíkur. Skólakerfið gæti orðið óstarfhæft eftir 10-20 ár, segir forseti kennaradeildar Háskóla Íslands.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir Sambandið hafa lagst gegn lengingunni árið 2009, einmitt af ótta við að þetta myndi gerast.

Hann segir vandann hafa verið rannsakaðan í þaula, en hann verði ræddur á fundi með ráðherrum menntamála, fjármála og félagsmála um miðjan mánuðinn. Þar verði aðgerða krafist. Vandinn sé of stór til þess að sveitarfélögin ráði við hann ein.

„Eitthvað verðum við að gera. Við þurfum ekki fleiri skýrslur, við eigum nóg af þeim. Við erum ekki að fara á þennan fund ráðherra bara til að spjalla. Við viljum að það gerist eitthvað,“ segir Halldór.

„Meðal annars það að hluti af lánum Lánasjóðs íslenskra námsmanna geti breyst í styrki fyrir kennaranema. Námið er fimm ár og þá gæti til dæmis síðasta árið bara verið í vinnu.“

Nánar verður fjallað um þetta mál í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld klukkan 20.