„Þetta eru okkar hagsmunir“

Umboðsmaður Alþingis segir það í þágu almannahagsmuna að fólk komi upplýsingum eða gögnum sem lýsa broti eða ámælisverðri háttsemi á framfæri.

Mikilvægt sé að leiðir þeirra sem kunna að vilja koma slíkum upplýsingum eða gögnum á framfæri séu tiltölulega einfaldar og vanda þurfi til verka þegar lög um vernd uppljóstrara eru sett.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, lagði til að sett yrðu ákvæði í lög um Umboðsmann Alþingis sem tryggðu uppljóstrurum vernd. Umboðsmanni Alþingis hafði þá verið falið að sinna eftirliti með stöðum þar sem frelsissviptir einstaklingar dvelja, svonefnt OPCA-eftirlit. Í bókun frá Sameinuðu þjóðunum er ákvæði sem segir til um að hægt eigi að vera að greina frá brotalömum á slíkum stöðum og njóta trúnaðar um leið.

„Þannig að mín tillaga var að þetta yrði þá sett inn sem almennt ákvæði um að menn gætu leitað til Umboðsmanns en það væri ekki háð því að það væri bundið við þetta eftirlit,“ segir Tryggvi.

Það var úr og í árslok 2018 var ákvæði um sérstaka vernd þeirra sem greina frá brotum samþykkt og sett inn í lögin.

Tryggvi segir að fólk verði að athuga að þegar kemur að hinu opinbera og ýmissi grunnatvinnustarfssemi sem hefur víðtæka skírskotun eins og bankakerfið og fjármálakerfið þá sé það talið í þágu almannahagsmuna að upplýsa um hluti sem hafa jafnvel falið í sér lögbrot eða eru ekki í réttu fari: „því við getum sagt að afleiðingarnar og kostnaðurinn af slíkum brotum, hann auðvitað bitnar á almenningi á endanum.“

Hafa verði í huga að opinbera kerfið, það er ríki og sveitarfélög, séu fyrir okkur: „Þetta eru okkar hagsmunir að vel sé staðið að málum þarna og hlutir séu gerðir með réttum hætti. Þannig að það eru um leið hagsmunir almennings að svona upplýsingar komi fram, að þá sé hægt að breyta ef eitthvað hefur farið úrskeðis. Það eru hagsmunir sem eru fólgnir í þessu, þetta eru sameiginlegir hagsmunir okkar.“

Vandmeðfarið að aflétta trúnaði

Þegar kemur að því að setja í lög ákvæði um vernd þeirra sem gefa upplýsingar sé ýmislegt sem þurfi að huga að, að mati Tryggva. Slík löggjöf sé vandasöm.

„Það er vegna þess að það eru lagðar almennar þagnar- og trúnaðarskyldur á þá sem starfa í tilteknum geirum eða þá að menn komast kannski í samskipti við einstaklinga og bera þar af leiðandi trúnað gagnvart þeim og það er vandmeðfarið að létta slíkum trúnaði af.“

Þá þurfi að huga að því hvort viðkomandi hafi verið þátttakandi í einhverju lögbroti. Lögð sé áherlsa á það í réttarkerfinu að menn felli ekki sjálfir á sig sök og það sé á forræði ákæruvaldsins hvort farið sé í refsimál: „Það eru margvísleg lögfræðileg álitaefni sem að rísa þegar að slíkar heimildir eru settar í lög og þegar þær eru framkvæmdar,“ segir Tryggvi.

Tryggvi segir að það sé mjög mikilvægt fólki sem sitji uppi með upplýsingar að það treysti þeim sem taki við upplýsingunum. Sá sem tekur við þeim þurfi að vera í stakk búinn til að vinna úr þeim og fara rétt með þær.

„Ég held að ef þetta er dreift á marga aðila þá geti þetta auðvitað verið vandkvæðum bundið.“

Hann segir að fólk geti að sjálfsögðu haft samband við viðkomandi stofnanir og veitt upplýsingar en það geti þá verið varasamt ef fólk er að upplýsa um eitthvað sem trúnaður á að ríkja um. Hann segir að hugsunin með ákvæðinu um vernd uppljóstrara í lögum um Umboðsmann hafi verið sú að ef upplýsingar varði stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og í þágu þeirra almannahagsmuna sem Umboðsmaður hefur eftirlit með þá geti fólk leitað til hans.

„Og auðvitað kemur það þá í hlut umboðsmanns að finna út úr því, er þetta eitthvað sem hann sjálfur getur og á að vinna úr eða þarf hann að finna því farveg í hinu opinbera kerfi? Því markmiðið hlýtur auðvitað að vera það að fá fram rétta efnislega niðurstöðu ef eitthvað hefur farið úrskeiðis.“

Umhverfið breytist kjósi fólk að koma sjálft fram

Síðan verði að gera greinarmun á því að það sé eitt að auðvelda fólki að koma upplýsingum frá sér og gögnum en kjósi fólk svo að koma sjálft fram og fjalla um þær upplýsingar þá breytist umhverfið.

„Vegna þess að þegar þú hefur látið í té einhverjar upplýsingar þá eru það tilteknar upplýsingar og ef farin er sú leið að menn fái trúnað gagnvart því og það megi ekki beita menn viðurlögum þá er það vegna þeirra upplýsinga sem veittar voru.“

Til þess að skapa festu um þetta sé til dæmis gert ráð fyrir því í lögum um Umboðsmann að óski einhver eftir því að koma á framfæri upplýsingum og njóta trúnaðar og þeirrar verndar sem lögin bjóða þá verði sú vernd ekki virk fyrr en umboðsmaður hafi sagt viðkomandi að upplýsingarnar hafi leitt til einhverra athafna eða aðgerða. „Ef Umboðsmaður telur ekki rétt að aðhafast neitt að þá getur viðkomandi farið eitthvert annað en þá er hann ekki undir þeirri vernd sem þarna er.“