„Ótrúlega áhugavert en líka hræðilegt“

Sigríður Halldórsdóttir, umsjónarmaður fjallaði um fækkun skordýra í Kveiksþætti þriðjudagsins. Í öðrum hlaðvarpsþætti Kveiks í dag lýsir hún þáttaefninu sem ótrúlega áhugaverðu en líka hræðilegu. „Það fer inn í hjartað á manni.“

„Ótrúlega áhugavert en líka hræðilegt“

Sigríður og Arnar Þórisson yfir-pródúsent fóru yfir stóru málin, fiðrildaveiðar, þáttagerðina og hvað sé hægt að gera sér til skemmtunar á 500 kílómetra ferðalagi milli landa. „Ef við höfum ekkert til að tala um segir hann mér bara einhverjar lygasögur.“

Tvö mál voru tekin fyrir í Kveiksþætti vikunnar. Auk umfjöllunar um fækkun skordýra var rætt um mikilvægi uppljóstrara.  Þrátt fyrir að málin tvö séu ansi ólík eiga þau það sameiginlegt að varða hagsmuni okkar allra.

Lára Ómarsdóttir umsjónarmaður, sagði í hlaðvarpsþættinum, að hún hefði oft tekið við gögnum frá fólki sem vill koma upplýsingum um brot eða ámælisverða háttsemi á framfæri, og það við allskonar aðstæður; í bílakjallara, bílskúr í Kópavogi og á heimili fólks, svo dæmi séu nefnd.

Oft þarf að glíma við viðfangsefnið og vinna að því að koma því vel og rétt til skila, sagði Freyr Arnarson pródúsent. Að halda sinni persónulegu skoðun utan þáttagerðarinnar sé hluti af því, enda mikilvægt að allar raddir og sjónarmið fái að heyrast.

Í næstu viku verður Kveiksþáttur þess þriðjudags til umfjöllunar í hlaðvarpinu og þáttagerðarmenn til viðræðna um hann. Hlaðvarpið er að finna í öllum helstu hlaðvarpsöppum og í appi og á vef Rúv. #kveikur er fyrir alla þá sem vilja taka virkan þátt í umræðunni og [email protected] fyrir ábendingar.