Faraldur 21. aldarinnar: „Þetta bara heltekur hann“

Þegar sonur Huldu Sjafnar Kristinsdóttur var 10 ára, fór hún að taka eftir því hvað það gat verið erfitt að slíta hann frá skjánum. Þá gilti einu hvort það var sími, tölva eða sjónvarp. Smám saman fór þessi mikla skjánotkun að hafa áhrif á bæði skólagöngu og tómstundir. Hann hætti að æfa íshokkí og svo hætti hann líka í lúðrasveitinni sem hann hafði spilað með um árabil og haft mikla ánægju af.

,,Hann var mjög góður að spila á trompet þannig að það er svolítil synd. Hann dró sig bara í hlé og vildi bara vera í þessum heimi, að vera í tölvunni. Og ef hann er ekki í tölvunni þá er það síminn. Og ef hann er ekki með símann, þá er það sjónvarpið,” segir Hulda, en sonur hennar er nú 16 ára og glímir enn við vandamál sem tengjast skjánotkun.

Réði ekki við skólaspjaldtölvuna

Hulda bjó í Reykjavík með eiginmanni og tveimur sonum. Þegar fjölskyldan flutti í Kópavog fóru synirnir í skóla þar og fengu afhentar spjaldtölvur.

,,Þá kemur mjög sterkt í ljós hvað hann veldur þessu engan veginn. Við þurftum að fara fram á að hann fengi ekki spjaldtölvu, að hann fengi að læra á pappír í skólanum eins og hann hafði gert í öðrum skóla [í Reykjavík]. Og það tók ansi langan tíma að koma því í gegn.”

„Og ef hann fengi að vera í tölvunni, ég slekk á netinu klukkan tíu, þá myndi hann bara halda áfram,“ segir Hulda um skjáhegðun sonar síns.

Þegar sonurinn fermdist eignaðist hann svo tölvu. Og þá segir Hulda að hann hafi misst tökin fyrir alvöru. Hann hafi til að mynda tekið kort sem hann átti ekki og eytt miklum fjárhæðum út af því. Hann hafi einangrast og átt erfitt með að eignast vini.

,,Ef hann fengi frjálsar hendur með það, þá væri síminn á nefinu á honum allan daginn. Og ef hann fengi að vera í tölvunni, ég slekk á netinu klukkan tíu, þá myndi hann bara halda áfram. Ég sé ekki fyrir mér að hann myndi stoppa,” segir Hulda.

Sonur hennar er sannarlega ekki einn um að hafa sogast inn í undraheima skjátilverunnar með afdrifaríkum afleiðingum. Hvert einasta foreldri er líklega stöðugt að velta því fyrir sér hver ramminn eigi að vera utan um skjánotkun barnanna.

„Óþægilega mikið háðir sínum skjátækjum“

Björn Hjálmarsson, geðlæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, hefur að undanförnu gert hvað hann getur til þess að vekja fólk til vitundar um hætturnar sem geta fylgt skjátækjum. Á Læknadögum sem haldnir voru í Hörpu í lok mars hélt hann fyrirlestur um þessi mál, og lét stór orð falla.

„Skjáfíkn verður faraldur 21. aldarinnar við hliðina á offitunni,“ sagði Björn meðal annars í erindi sínu.

Í viðtali við Kveik segir hann að skjáfíkn sé sjúkdómur sem minni um margt á spilakassafíkn. ,,Notkun á rafrænum skjám er farin að taka yfir stjórnina á lífi viðkomandi, þannig að hann hættir að sinna vinnu eða skóla, hann vanrækir fjölskyldu og öll félagsleg tengsl utan heimilis. Og þá geta einu félagslegu tengslin orðið í gegnum samskipti á netinu.”

Björn Hjálmarsson, geðlæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítalans.

Er skjáfíkn að aukast? 

„Sko, við vitum það ekki. Það vantar tilfinnanlega vísindalegar rannsóknir á Íslandi, á þessum veruleika. En í þriðju línu þjónustunni sjáum við einstaklinga sem eru orðnir mjög óþægilega mikið háðir sínum skjátækjum. Þeir eru jafnvel hættir að mæta í skóla, þeir eru hættir að hitta vini utan heimilis, þeir vanrækja öll fjölskyldutengsl.“

Björn segir að engar tölur séu til um fjölda þeirra sem hafa leitað á BUGL vegna skjáfíknar.

„En það sem við sjáum er að börn með flókinn geðrænan vanda glíma við meiri erfiðleika ef alvarlegur skjáávani eða skjáfíkn kemur til. Og þá verður hann miklu erfiðari í meðferð,“ segir hann. „Við þurfum markviss meðferðarúrræði, og við þurfum markvissar forvarnir.“

Björn segir að nútíma skjátæki geti virkjað verðlaunabrautir í heilanum, sem leiði til þess að notandinn upplifi sigurvímu eða -gleði. Það ýti svo aftur undir meiri notkun. Þá sýni rannsóknir að þeir sem séu í mestri hættu á að ánetjast skjátækjum séu börn sem eigi einnig við aðra erfiðleika að stríða.

„Það eru til dæmis börn sem eru með flókin frávik í taugaþroska. Þau eru til dæmis með athyglisbrest og ofvirkni, þau eru með tourette heilkenni eða eru á einhverfurófinu. Þessum börnum er meiri hætta búin að ánetjast tækjunum af því að þetta er svo kærkomin flóttaleið. Þegar þau eru í tækjunum þá sér enginn hömlur þeirra, þau geta bara verið eins og hver annar, og geta þá jafnvel fengið meiri gleði og ánægju út úr tækjunum og náð að virkja verðlaunabrautirnar sínar.“

Björn segir að þegar þessi börn ánetjast skjátækjunum fari skólasókn þeirra fljótt hrakandi, að svefninn raskist auk þess sem þau fari að upplifa kvíða og vanlíðan.

„Það kemur nefnilega ekkert í staðinn fyrir mannleg tengsl. Og ef mannleg tengsl detta út, þá fer okkur öllum að líða verr.“

Öryrki við 18 ára aldur

Í starfi sínu á BUGL hittir Björn ungmenni í miklum vanda. Þau sem eru lögð inn fara í meðferð sem hann kallar stafræna afvötnun. „Ég fyllist stundum skelfingu á mínum vinnustað,“ sagði Björn í erindi sínu á Læknadögum og lýsti svo því þegar 12 ára drengur í „verulegri yfirþyngd“ kom til hans viku fyrr.

„Hann hafði engan áhuga á að vera þarna, hann var hálfsofandi, ég held að hann hafi náð því að sofa 2-3 tíma nóttina á undan. Hann var sofandalegur, lágvaxinn í gríðarlegri offitu. Af hverju kom hann á BUGL? Hann vildi ekki fara í skólann lengur. Nú er mjög líklegt að þessi drengur hafi mjög flókin frávik í taugaþroska sem við eigum eftir að skoða en hann var algjörlega áhugalaus um að þiggja hjálp á BUGL.“

Þá sagði Björn að móðir drengsins hafi verið einstæð, og að hún hafi verið búin að fá alls kyns leiðbeiningar um skjátíma barna.

„Því þessi strákur var í skjánum allar nætur og alla daga. Hún hafði fengið þá ráðgjöf að ef hann færi ekki í skólann og væri ekki líkamlega veikur, þá ætti að taka af honum leikjatölvuna. Og mamman gerir það. En strákurinn er svo sniðugur að hann fer bara í farsímann og sjónvarpið í staðinn. Þessi drengur er 12 ára gamall og ef við finnum ekki einhverjar leiðir til að hjálpa honum, þá get ég sagt á þessari stundu: Hann verður öryrki við 18 ára aldur.“

Björn tók annað dæmi af tæplega 16 ára gamalli stúlku sem væri bæði félagslega og námslega sterk, ætti góða foreldra og væri í góðu sambandi við tvo yngri bræður sína. Þá tók hann sérstaklega fram að engin saga væri um áföll eða geðræn veikindi hjá henni.

„Hún kom ölvuð heim í fyrsta skipti. Var skömmuð af foreldrum, farsíminn var tekinn af henni; fjögurra vikna straff. Daginn eftir tekur hún inn 12 grömm af íbúfeni í sjálfsskaðatilgangi. Ég spurði hana: „Hvernig stendur á því að svona flott stúlka eins og þú sért að gera svona lífshættulega vitleysu?“ Hún sagðist hafa verið að deyfa sig, henni leið svo illa með viðbrögð foreldra sinna og var hrædd um að vera búin að missa traust þeirra. Hún treysti sér ekki til að nefna að hún óttaðist að félagslega staðan myndi hrynja af því að hún missti af tengslunum á Instagram.“

Símalausir grunnskólar

Nokkrir grunnskólar á landinu hafa hreinlega brugðið á það ráð að banna símnotkun í skólanum. Stjórnendur Öldutúnsskóla í Hafnarfirði töldu sig sjá það strax árið 2018 að símarnir hefðu mjög truflandi áhrif á skólastarfið. Þar hefur því gilt símabann í rúm þrjú ár. Það má reyndar koma með símann í skólann, en hann verður þá annað hvort að vera ofan í tösku eða inni í skáp.

Valdimar Víðisson, skólastjóri í Öldutúnsskóla.

Valdimar Víðisson, skólastjóri, segir þetta hafa dregið úr ýmsum vandamálum. Truflun á kennslu, áreiti að utan, neteineltismálum og fleiru. Ónæði af völdum síma sé nú nánast ekkert í kennslustundum. ,,Svo eftir að þetta tók gildi fóru kennarar að tala við okkur stjórnendur um hvað það væri gaman að sjá allt í einu unglingana tala meira saman. Þeir fóru að tala meira saman í frímínútum, þeir voru ekki alveg ofan í sínum síma,” segir Valdimar.

En hvað með nemendurna í Öldutúnsskóla? Eru þeir jafn hrifnir af þessu fyrirkomulagi? Þrír nemendur á fimmtánda ári samþykktu að ræða við Kveik um sína reynslu og viðhorf. Þau Adam Ernir Níelsson, Marta Björnsdóttir og Hanna Sigríður Jónsdóttir segjast öll sátt við símabannið.

„Mér finnst ég geta einbeitt mér miklu betur, bæði að náminu, að spjalla við krakkana, spjalla við vini mína. Mér finnst það mjög næs, persónulega,“ segir Marta.

„Þá fer athyglin ekki í símann, að heyra einhver skilaboð,“ segir Hanna.

„Öll þessi ping,“ segir Marta.

„Já bara „bing“!“ segir Hanna.

„Þetta er bara góð æfing í mannlegum samskiptum,“ segir Adam. „Samfélagið í dag fer svo mikið í gegnum samfélagsmiðla.“

Marta bendir einnig á að sá kostur fylgi símalausum skóla, að þá viti hún að vinir hennar séu ekki heldur í símanum á skólatíma.

„Maður er kannski heima og mamma tekur símann af þér, og þú ert bara: „Ó shit, þú ert að missa af ógeðslega miklu, allir að skipuleggja eitthvað.“ En hérna er enginn í símanum, þú ert ekki að missa af neinu. Mér finnst það mjög næs og það er smá frí frá öllum tilkynningunum og öllu sem er í gangi heima.“

Hanna Sigríður Jónsdóttir, Marta Björnsdóttir og Adam Ernir Níelsson, nemendur í Öldutúnsskóla.

Krakkarnir eru sammála um að símaleysið hafi jákvæð áhrif á samskipti þeirra við önnur börn og unglinga. Þau tali til dæmis mun meira saman. Þegar þau eru spurð hvað gerist eftir skóla, hvort börnin rífi símana upp um leið og bjallan glymur, viðurkenna þau hins vegar að sú sé raunin.

„Það er verið að tékka allar tilkynningarnar sem þú fékkst um morguninn, eða yfir daginn. Og ég geri það alveg líka sko, að tékka hvað var að gerast í dag á meðan þú varst aftengdur,“ segir Marta. „Þú kemur út, og það taka allir upp símann. Jafnvel bara frammi í anddyri sko.“

„Þetta er náttúrulega ekki eðlilegt, hversu háð við erum símanum,“ segir Hanna.

Marta bendir hins vegar á að margir kostir fylgi skjátækjunum.

„Ég held að það sé samt mjög gott, þörfin hjá unglingum að vera vel upplýst og vita allt sem er að gerast í kringum þau. Ég held að það sé mjög jákvætt. Að unglingar og fólk vilji vita hvað er í gangi í kringum þau,“ segir hún. „En þetta er komið út í öfgar. Ég hef heyrt um unglinga sem eru að vakna á nóttunni við notifications, bara til þess að svara. Þannig að það er komið út í hött, það er ekki gott sko.“

Samfélagsmiðlar verri en tölvuleikir

Rannsóknamiðstöðin Rannsóknir og greining hefur um árabil rannsakað andlega heilsu barna og unglinga. Í nýjustu rannsókn miðstöðvarinnar kemur meðal annars fram að um það bil fjórðungur unglinga í áttunda til tíunda bekk eru í fjóra klukkutíma á samfélagsmiðlum á dag, eða meira. Þar er mikill munur á kynjunum, því 33% stúlkna verja svo miklum tíma á samfélagsmiðlum á hverjum degi, en aðeins 15% stráka.

Dæmið snýst við þegar tölvuleikir eru skoðaðir því að 22% drengja verja fjórum klukkutímum á dag eða meira í að spila tölvuleiki, en aðeins 3% stúlkna.

Kveikur fékk Rannsóknir og greiningu einnig til þess að skoða sérstaklega hvaða áhrif skjátími geti haft á mikilvæga þætti í lífi barna og unglinga.

„Við sjáum að krakkar sem eru að nota samfélagsmiðla óhóflega eða eru í öðrum skjá óhóflega, það bitnar alla jafna á svefninum,“ segir Ingibjörg Eva Þórisdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu.

Sem dæmi má nefna að af þeim sem vörðu meira en 6 tímum á samfélagsmiðlum á dag sváfu rúmlega 70 prósent undir 7 tímum, en aðeins tæplega 30 prósent þeirra sváfu meira en 8 tíma. Sem sagt; því meiri samfélagsmiðlar, því minni svefn.

Tengsl samfélagsmiðlanotkunar og andlegrar heilsu voru líka skoðuð. Bein línuleg fylgni er á milli þess að vera mikið á samfélagsmiðlum og að vera stundum eða oft einmana. Sem sagt; því meiri samfélagsmiðlar, því meiri einmanaleiki.

Börnin voru einnig spurð hvernig þau mætu andlega heilsu sína. Þegar þau svör eru keyrð saman við samfélagsmiðlanotkun kemur í ljós að andlegri heilsu hrakar eftir því sem samfélagsmiðlanotkun barnanna er meiri.

Hjá stúlkunum eru tölurnar sláandi; 70% þeirra sem verja nær engum tíma á samfélagsmiðlum sögðu andlega heilsu góða eða mjög góða, en aðeins 20% þeirra sem vörðu sex tímum eða meira á samfélagsmiðlum á dag.

Ingibjörg bendir á að það skiptir miklu máli hvað börnin gera í skjátækjunum. Það sé til dæmis töluverður munur á því að vera mikið á samfélagsmiðlum, og að vera lengi að spila tölvuleiki. Samfélagsmiðlarnir virðist hafa neikvæðari áhrif.

Ingibjörg Eva Þórisdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu.

„Núna erum við að spyrja hvort þú sért að spila tölvuleiki einn eða hvort þú sért að spila tölvuleiki með öðrum,“ segir Ingibjörg. „Vegna þess að flestir þessara tölvuleikja eru þannig að þetta eru krakkar heima hjá sér að spila með vinum sínum sem er líka félagslegt. Þannig að það eru ekki jafnsterk tengsl þar við til dæmis einmanaleika og ekki svefninn heldur.“

Niðurstaðan er sem sagt sú að samfélagsmiðlar virðast hafa neikvæðari áhrif á bæði svefn og einmanaleika en tölvuleikir gera. Og stelpur eru mun meira á samfélagsmiðlum en strákar.

Í ströngum ramma

Hulda Sjöfn, móðir 16 ára drengsins sem fjallað var um hér í upphafi, segir að fjölskyldan hafi reynt margt til þess að reyna að draga úr skjánotkun sonarins. Til dæmis hafi þau farið á námskeið, leitað til sálfræðings og geðlæknis og gert samninga við drenginn sem hann standi svo ekki við.

Eina leiðin sem virki sé hreinlega að aftengja netið hjá drengnum. Þrátt fyrir þetta finnst Huldu hann ekki átta sig nægjanlega vel á alvarleika málsins.

„Honum finnst þetta ekki vera eins mikið vandamál og mér finnst það vera,“ segir hún. „En ég er með hann í mjög ströngum ramma, ég aftengi hann hægri vinstri og hann er í tölvubanni núna. Og hann er ósáttur við að ég skuli setja hann í þessar aðstæður þannig að mér finnst hann ekki skynja það nógu vel, nei.“

Þegar Hulda er spurð hvort hún hefði viljað gera eitthvað öðruvísi, þegar hún horfir sex ár aftur í tímann, til þess tíma þegar sonur hennar var að byrja að sogast inn í heim skjásins, segir hún:

„Ég hefði kosið að það væri ekki afhent spjald[tölva] í skólanum. Og ég hefði kannski ekki leyft honum að kaupa tölvu þegar hann fermdist.“

Nota nútímasálfræði til að auka fíknina

Í sjónvarpsþáttunum Dopesick sem hafa slegið í gegn er því lýst hvernig Sackler-fjölskyldan vann markvisst að því að þeir sem notuðu verkjalyfið OxyContin, ánetjuðust því. Björn geðlæknir telur að samfélagsmiðlafyrirtækin og önnur netfyrirtæki, vinni með svipuðum hætti.

„Það er verið að nota aðferðir nútímasálfræði til að gera tæknina meira ávanabindandi.“

Þannig að þú vilt meina að þessir framleiðendur séu markvisst að gera fólk háð sínum vörum?

„Já þeir nota aðferðir sem gera okkur háðari þeim og ýta undir notkunina,“ segir Björn.

Úr bandarísku sjónvarpsþáttunum Dopesick.

„Við þurfum að koma okkur upp svona samfélagssáttmála um það hvernig við ölum börnin okkar upp með tilliti til þessarar tækni, því að börn og unglingar eru algjörlega varnarlausir gagnvart því þegar það er verið að selja þeim ávanabindandi vörur og þjónustu.“

Björn segir að þeir sem koma í meðferð á BUGL fái sérstaka meðferð við þessum vanda.

„Við tökum SIM-kortið úr símunum hjá öllum sem leggjast inn og þau fá eins konar stafræna afvötnun,“ segir hann. „Og það sem er svo einkennandi með þá langflesta, er að þeir verða einhvern veginn þögninni fegnir.“

Það er auðvelt að ímynda sér að þegar fólk hefur útskrifast úr meðferð við skjáfíkn virki skjáir á svipaðan hátt og eiturlyf virka fyrir óvirka fíkla, og að óvirkir skjáfíklar verði því að halda sig frá hvers kyns skjátækjum að meðferð lokinni. Björn segir hins vegar að nærtækara sé að líkja skjáfíkninni við matarfíkn.

„Af því að þessi tæki eru lífsnauðsynleg fyrir okkur í nútímanum. Við getum ekki borgað reikningana okkar án þessara tækja, við getum ekki farið í heimabankann okkar án þessara tækja. En með vitundarvakningu, með því að skjólstæðingur viðurkenni; „Notkun mín á skjátækjum er orðin meiri en góðu hófi gegnir, þetta er farið að valda skaðsemi, ég er farinn að vanrækja skólann eða vinnuna, ég er farinn að vanrækja fjölskylduna.“ Um leið og þessi vakning verður, þá er komið svigrúm til þess að byggja upp líf með viðkomandi þar sem skjánotkuninni verður stillt í hóf. Því að meðalhófið er alltaf best.“

Eru að læra að ná stjórn á tækninni

Í flestum símum er með einföldum hætti hægt að sjá yfirlit yfir notkunina. Við komum aðeins aftan að krökkunum í Öldutúnsskóla og báðum þá að skoða sína meðalnotkun á dag.

Hanna opnaði sinn síma fyrst og komst að því að meðalnotkun hennar hafði verið 3 klukkutímar og 46 mínútur á dag vikuna á undan.

„Það er samt miklu meira en allar hinar vikurnar mínar,“ segir hún.

Finnst þér það mikið?

„Já. Þetta er of mikið en samt ekki þannig að ég skammist mín mikið fyrir það.“

Marta vildi ekki gefa upp sinn skjátíma, en viðurkenndi samt að hún væri of mikið í símanum.

Skjátími Adams var um það bil fjórar og hálf klukkustund á dag.

„Það er mest á samfélagsmiðlum.“

Hvað finnst þér um það?

„Mér finnst það mikið. Ég er ekki að reyna að bjarga mér, ég held að það sé meira en vanalega, en kannski er ég að eignast nýja vini eða eitthvað,“ segir Adam, og bætir því við að það sé mjög mikilvægt að eiga skjálausar gæðastundir með vinum sínum. Til dæmis sé gott að fara með þeim í sund, enda sundlaugar símalausir staðir.

„Mér finnst það gott og þægilegt, af því að við spjöllum bara, við gerum ekki neitt annað, við erum bara að spjalla og hafa gaman. Og þetta eru mannleg samskipti, ég er ekki að spjalla við þá í gegnum Snapchat eða neitt þannig. Og það er svo gaman stundum.“

Marta viðurkennir að hún sé enn að læra að hafa stjórn á þessari tækni. Það komi hins vegar tímar þar sem hún hreinlega nenni því ekki.

„En ég veit mjög vel að ég þarf mikið að taka mig á í mínum skjátíma. Ég er með meira en þau. Þetta er eitthvað sem ég þarf að laga, sérstaklega á kvöldin. Maður er að fara að sofa, tekur upp símann, og ég hef heyrt að það er eitthvað svona í heilanum sem fer í gang og eitthvað svona, bláa ljósið, og þá sefur maður verr og eitthvað. Og ég finn alveg oft fyrir þreytu. Þannig að ég veit að ég þarf að taka mig á. Og ég ætla að gera það.“

„Ég held að þú sért svo alls ekki ein í þessu, það eru svo margir sem eru að díla við það sama,“ segir Adam.

Krakkarnir eru sammála um að mikil skjánotkun geti bitnað á ýmsum þáttum í daglegu lífi þeirra, svo sem félagslífi og svefni, og auðvitað skólanum og náminu.

„Einn af erfiðustu hlutum fyrir unglinga við að læra heima, er að slökkva á símanum, og einbeita sér að efninu,“ segir Adam. „Ég held að námið sjálft sé ekkert endilega erfiðasti hluturinn við það, ég held að það sé hreinlega að ná að einbeita sér að því.“

Af því að síminn...?

„Af því að síminn liggur við hliðina á þér og það eru alltaf einhver hljóð í gangi eða einhverjar tilkynningar sem koma upp og þig langar að vita hvað er í gangi.“

Leiðbeiningar til foreldra

Björn segir að barnaverndarnefndir um allt land séu að glíma við þessi mál, og að þær séu að hjálpa foreldrum að ramma inn skjánotkun barna sinna. En hvað er það sem foreldrar eiga að gera? Hvað er hægt að gera til þess að koma í veg fyrir að börnin okkar ánetjist þessari tækni?

„Að byrja strax í frumbernskunni,“ segir Björn. Að mjólkandi mæður séu ekki í símanum á meðan þær gefi brjóst og skjátækin ekki notuð sem snuð fyrir smábörn. Það geti ýtt undir ávana seinna meir. Mikil skjánotkun geti sömuleiðis hægt á málþroskanum.

Heilt yfir segir Björn að þetta séu helstu ráð til foreldra:

 • Börn yngri en 18 mánaða eiga að forðast allan skjátíma, annan en netspjall.
 • Foreldrar 18-24 mánaða barna eigi að halda sig við hágæðaefni og vera með börnunum til þess að hjálpa þeim að skilja það sem þau sjá.
 • Fyrir 2-5 ára börn eigi að takmarka skjátíma sem snýst ekki um nám við 1 klukkutíma á dag á virkum dögum og 3 tíma um helgar.

Og fyrir börn sex ára og eldri eru þetta ráðin:

 • Tryggið nægan svefn.
 • Hafið skjáfría matartíma.
 • Tryggið að börnin sinni tómstundum, svo sem íþróttum og tónlist.
 • Sjáið til þess að börnin leiki við vini sína, og að þau séu ekki bara í tengslum við vinina í gegnum skjátækin.
 • Fáið börnin til þess að ljúka heimanámi áður en þau fara í skjátæki eftir skóla.
 • Forðist að nota skjái sem barnapíur eða til þess að stöðva skapofsa.
 • Slökkvið á skjám og takið þá úr svefnherbergjum klukkutíma fyrir svefntíma.
 • Verið góðar fyrirmyndir, takmarkið eigin skjátíma, sérstaklega fyrir framan börnin.

Síðast en ekki síst þarf fjölskyldan að setja sér sameiginleg skjátímaviðmið, bæði fyrir fullorðna og börn. Þar leggur Björn mikla áherslu á að foreldrar beiti hvorki agaleysi, þar sem börnin fá að vera eins mikið í skjátækjum og þau vilja, né ofuraga, þar sem börnin fá aldrei að gera neitt sem tengist skjám. Þess í stað leggur hann til aðferð sem hann kallar kjöragann; hinn gullna meðalveg með hæfilegum skjátíma sem hann telur að hámarki frelsið og skili bestum árangri.

Björn útskýrir kjöragann með þessum þríhyrningi.

Aðspurður segir Björn að foreldrasamráð skipti einnig mjög miklu máli. Til dæmis sé mikilvægt að foreldrar í bekkjum, vinahópum eða jafnvel heilu skólunum samræmi skjátíma barna sinna. Það gangi til dæmis ekki að sum börn megi vera í skjátækjum í einn klukkutíma á dag, en önnur börn megi vera fimm klukkutíma. Slíkt geti skapað árekstra og gert foreldrum enn erfiðara fyrir að halda utan um skjátíma barna sinna.

„Við höfum lyft Grettistaki á Íslandi varðandi útivistartíma barna. Þá settum við okkur bara sameiginlegar reglur sem allir hjálpuðust að við að framfylgja. Við þurfum líka að koma okkur upp svona útivistartíma á netinu,“ segir Björn.

Vonbrigði og vonleysi

En svo má auðvitað ekki gleyma því að þessi vandi snýst ekki bara um fíkn. Þetta snýst líka um að börnin okkar haldi áfram að geta verið ein með sjálfum sér. Að þau kunni að láta hugann reika, hugsa um lífið og tilveruna, án þess að skjárinn sé að trufla þau. Eða eins og Björn orðaði það í erindi sínu á Læknadögum:

„Ég veit ekki hvort þið munið eftir því úr bernsku, en þegar ég kvartaði við ömmu; „amma mér leiðist“, þá svaraði hún: „Bjössi minn það er svo hollt. Það er svo hollt að láta sér leiðast því það virkjar ímyndunaraflið.“

Við enduðum spjall okkar við Huldu Sjöfn á því að spyrja hana hvernig það sé að vera foreldri að takast á við þennan vanda.

„Það eru bara endalaus vonbrigði. Maður er að leggja línurnar, maður er að reyna að fara eftir leiðbeiningum sem maður fær, eins og frá sálfræðingi, frá geðlækni, og maður reynir að framfylgja því og tekur spjallið mikið við drenginn og reynir að leggja honum línurnar og fá hann í samþykkt með manni og svona. Og svo gengur ekki neitt. Svo kannski í einn, tvo daga er þetta rosalega flott hjá honum en svo getur hann ekki meir. Þannig að þetta er mjög erfitt við að eiga,“ segir Hulda.

„Og maður er svolítið vonlaus bara: Hvernig á ég að taka á þessu? Hvar get ég fengið meiri hjálp? Hvað er rétt í þessu? Maður er bara ráðþrota og maður vill svo innilega hjálpa honum að verða besti einstaklingur sem hann getur orðið, af því að hann er svo rosalega flottur þessi strákur, og hann hefur svo margt. En þetta bara heltekur hann.“

Ertu bjartsýn á að þetta muni lagast?

„Ég hef fulla trú á syni mínum. Við höldum áfram að berjast.“