Samgöngustofa taldi að ferjan gæti lagst á hliðina eða henni hvolft við leka

Áður en ferjan Baldur var flutt til landsins taldi Samgöngustofa að mjög líklegt væri að skipið myndi tapa stöðugleika og leggjast á hliðina eða hvolfa ef leki kæmi að miðrými þess. Samgöngustofa hafnaði útgerðinni um leyfi til að skrá skipið en innanríkisráðuneytið leyfði innflutninginn.

Farþegaferjan Vågan var smíðuð í Noregi árið 1979. Í áratugi sigldi hún með farþega og bíla norður við Lófót.

Vågan siglir ekki lengur við Noregsstrendur. Á gömlu siglingaleiðinni er komin önnur ferja. En gamla ferjan siglir á Breiðafirði, rúmum 40 árum eftir að hún var smíðuð, og heitir núna Baldur.

Árið 2014, þegar Sæferðir óskuðu eftir leyfi til að skrá Baldur, sem þá hét enn Vågan, á íslenska skipaskrá, hafnaði Samgöngustofa því og taldi gögn vanta. Útgerðin kærði niðurstöðuna til innanríkisráðuneytisins sem leyfði innflutning skipsins.

Fjallað var um málið í fjölmiðlum á sínum tíma. Það sem fór hins vegar ekki hátt var að Samgöngustofa hafði í málsmeðferðinni lýst efasemdum um öryggi skipsins.

Baldur sigldi við Noregsstrendur í áratugi og hét þá Vågan. Hér mun skipið vera nýsmíðað árið 1979. Mynd: Eyolf Apold.

Í umsögn Samgöngustofu til ráðuneytisins sagði meðal annars að takmörkuð niðurhólfun skipsins væri þannig að miðrými þess frá fremra vélarrúmsþili að afturþili bógskrúfurýmis væri eitt stórt rými án niðurhólfunar, 39 metrar að lengd.

„Við leka að þessu rými þykir mjög líklegt að skipið muni tapa stöðugleika og leggjast á hliðina eða hvolfa,“ segir í umsögninni.

„Stærð rýmisins gefur til kynna að skerðing stöðugleika geti gerst hratt, svo hratt að ekki gefist svigrúm fyrir farþega til að komast upp á þilfar og um borð í björgunarför vegna þeirrar slagsíðu eða hliðarhalla sem skipið kynni að hafa fengið eftir slíkt atvik.“

Úr umsögn Samgöngustofu til innanríkisráðuneytisins 2014.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, segir að þetta sé það álit sem var gefið út á sínum tíma og í eðli sínu sé þetta atriði til að velta upp og skoða.

„En það uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru,“ segir Jón Gunnar um skipið, „og er löglegt á skrá.“

Hann segir að ákveðnar kröfur hafi verið gerðar til skipsins þegar það var smíðað. „Það uppfyllir þær kröfur.“

„Þú myndir ekki smíða svona skip í dag, nei,“ segir hann. „En þú í raun og veru ert í þeim sporum samt að það uppfyllir þær kröfur sem voru gerðar, og þá er ekki hægt að segja að það sé óöruggt. En auðvitað eru nýrri skip betur búin.“

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu.

Efasemdir Samgöngustofu um lekastöðugleika Baldurs eru meðal spurninga sem hafa vaknað um öryggi ferjunnar.

Fréttir af Baldri hafa ekki allar verið traustvekjandi. Í mars fyrir rúmu ári varð Baldur vélarvana úti á Breiðafirði. Í skipinu er bara ein vél og þurfti að draga það í land. Áhöfn og farþegar voru á sjó í meira en  sólarhring. Síðast bilaði skipið í höfninni í Stykkishólmi í febrúar.

Fréttamenn Kveiks keyptu sér far með ferjunni 24. mars og fengu Einar Jóhannes Einarsson, vélfræðing og fyrrverandi skipaeftirlitsmann hjá Samgöngustofu, til að koma með og skoða skipið.

Athugasemdir Einars Jóhannesar hófust á bryggjunni: dældir á stefnishleranum.

Dæld á stefnishlera Baldurs sem Einar Jóhannes gerði athugasemd við.

Bílaþilfar Baldurs, sem er aðalþilfar skipsins, er lokað, en hægt er að opna stefnið og skutinn til að hleypa bílum til og frá borði.

Þegar komið var inn á bílaþilfarið sást að gat hafði verið gert á síðu skipsins og útbúin lúga.

„Þetta líst mér illa á,“ sagði Einar Jóhannes þegar hann skoðaði lúguna. „Þetta má ekki. Þetta bara má ekki.“ Hann sagði að ef eitthvað kæmi fyrir skipið og það legðist myndi sjór flæða inn á bílaþilfarið um lúguna.

Lúga sem var gerð á bílaþilfari Baldurs, séð innan af þilfarinu. Út um gatið sést í bryggjuna.

Á bílaþilfarinu eru sérstök niðurföll til að hreinsa þilfarið. En þau stíflast víst gjarnan af sandi. Lúgan auðveldaði áhöfn að hreinsa þilfarið.

Jón Gunnar, forstjóri Samgöngustofu, segir að þetta sé alvarlegt mál og gert í leyfisleysi.

„Þetta á að vera vatnsþétt. Þetta er ekki vatnsþétt. Þetta er lúga sem er stíf í, þetta er breyting sem greinilega hefur átt sér stað eftir að við skoðuðum skipið síðast,“ segir hann.

Samkvæmt lögum má ekki gera meiri háttar breytingar á skipi án leyfis. Brot á lögunum geta verið refsiverð.

Einar Jóhannes segist halda að lúgan sé lögreglumál. Jón Gunnar segist ekki geta svarað því hvort svo sé. Hann sé ekki viss um það. „En þetta er alla vega alvarlegt, þetta á ekki að gera. Það er alveg klárt. Við skoðun yrði gerð alvarleg athugasemd við þetta,“ segir Jón Gunnar.

Einar Jóhannes skoðar lúguna á bílaþilfari Baldurs.

„Ef þú fyllir skipið af vatni, eða ákveðin rými skipsins af vatni, þá breytirðu stöðugleika skipsins. Og það er náttúrulega það sem getur orðið mjög alvarlegt,“ segir Jón Gunnar.

Eigandi Baldurs er Sæferðir, dótturfélag Eimskipafélags Íslands, en ríkið greiðir rúmlega 300 milljónir króna á ári til að halda úti siglingum yfir veturinn.

Ferjan siglir frá heimahöfn í Stykkishólmi, norður yfir Breiðafjörð til Brjánslækjar, oft með viðkomu í Flatey, og tengir þannig saman Vesturland og sunnanverða Vestfirði.

„Við búum ennþá við það að Klettshálsinn lokast reglulega og þar geta orðið mikil veðravíti,“ segir Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð. „Þá í rauninni erum við svolítið ígildi eyju og þurfum þá að geta treyst á þessar samgöngur hérna yfir Breiðafjörðinn.“

Flutningar á fiski úr fiskeldi hafa aukist síðustu ár og þar er ferjan nýtt.

Einar Jóhannes skoðaði ýmis atriði á bílaþilfarinu. En svo kom að því að skipið skyldi halda úr höfn og tímabært að ganga upp í farþegarýmið. Þar var gengið fram hjá neðri landgangshurð skipsins og þar kom önnur athugasemd, við að hurðin væri ekki vatnsþétt.

Þéttikantur lafði niður að gólfi neðst á neðri landgangshurð Baldurs þegar Kveikur og Einar Jóhannes skoðuðu skipið.

„Maður sér út þarna,“ sagði Einar Jóhannes um lítið gat við hurðina. Hluti af þéttikanti lafði líka niður á gólf.

„Ef að skipið fer á hliðina eða eitthvað þá rennur hér inn,“ sagði Einar Jóhannes.

Athugasemdum hans var ekki lokið. Úti á bátaþilfari standa kistur fullar af björgunarvestum. Kisturnar eru lokaðar með hespum og læsingarsplittum síðan stungið í gegn. En splittin voru meira og minna ryðguð.

Læsingarsplitti á kistum fyrir björgunarvesti voru meira og minna ryðguð.

Um 40 sekúndur tók fyrir fréttamann Kveiks að ná splitti úr einni hespunni. Fleiri splitti voru prófuð og það tók mislangan tíma að losa þau. Einar Jóhannes gerði athugasemd við ástandið á læsingarsplittunum.

„Þetta með sko splittið á kisturnar. Það er náttúrulega stóralvarlegt,“ segir Jón Gunnar. „Þetta á að vera til staðar.“

Björgunarhringir sem Kveikur og Einar Jóhannes skoðuðu virtust líka vera komnir til ára sinna. Hann gerði athugasemd við ástand björgunarhringja, þar á meðal ástand endurskinsmerkja á hringjunum.

Á bátaþilfarinu er líka léttabátur til að bjarga fólki ef það fer fyrir borð og safna fólki í björgunarbáta.

Einar Jóhannes gerði meðal annars athugasemd við að leitarljósið í bátnum virkaði ekki. Hann gerði líka athugasemd við opinn rafmagnskassa í klefa inn af bátaþilfarinu.

Einari Jóhannesi tókst ekki að kveikja á leitarljósinu í léttabáti Baldurs.

Kveikur fékk leyfi til að fara með Einari Jóhannesi niður í vélarrúm. Þar gerði hann athugasemd við að opið var milli vélarrúms og stýrisvélarrúms.

„Þetta er sér rými,“ sagði hann. Ef gat kæmi á stýrisvélarrúmið ætti sjórinn ekki að eiga greiða leið inn í vélarrúm, þó að hann myndi fylla stýrisvélarrúmið.

Forstjóri Samgöngustofu tekur undir þetta og segir mikilvægt að þarna sé lokað á milli til að tryggja stöðugleika skipsins.

Opið var milli vélarrúms og stýrisvélarrúms skipsins.

Kveikur skoðaði myndir með Einari Jóhannesi sem sýna vatnsslökkvikerfi á bílaþilfari Baldurs og munu hafa verið teknar þegar hluti kerfisins var prófaður í vetur.

Hann taldi að slökkvikerfið væri ekki í lagi og gerði athugasemd við það.

„Svona búnaður á að vera prófaður reglulega og fólk á þá náttúrulega að bregðast við og gera við og setja stúta,“ segir Jón Gunnar, forstjóri Samgöngustofu. „Ef það er ekki nægur þrýstingur, þá þarf að bregðast við því, klárlega. Þetta á að vera í lagi.“

Eftir skoðunina, og eftir að hafa gaumgæft myndefnið eftir á, var það niðurstaða Einars Jóhannesar að ferjan væri ekki örugg til farþegaflutninga á Breiðafirði.

Hann sagði að það væri „eiginlega ótrúlegt“ að þetta skip væri í þessum flutningum.

Einar Jóhannes taldi eftir skoðunina að Baldur væri ekki öruggur til siglinga með farþega á Breiðafirði.

Kveikur spurði Einar Jóhannes hvort hann teldi að Samgöngustofa ætti að grípa til einhverra aðgerða. „Já, hún ætti bara að kyrrsetja skipið þangað til það yrði haffært,“ sagði hann. „Það er mín skoðun.“

„Þarna eru atriði sem eru ekki í lagi og þarf að laga. Það er náttúrulega greinilegt,“ sagði Jón Gunnar eftir að honum höfðu verið kynntar athugasemdir Einars Jóhannesar og sýndar myndir. „Hlutum hefur hrakað frá því sem skoðað var fyrir ári.“

Kveikur fékk aðgang að skoðunarskýrslum Baldurs síðan í fyrravor. Þar eru litlar sem engar athugasemdir gerðar, hvorki við bol skipsins né búnað.

Spurður hvort honum fyndist líklegt að svo mikil breyting hefði orðið á þessum tíma sagði Jón Gunnar að hann teldi líklegt að margt af því sem væri tilgreint hefði breyst á þessum tíma.

Jón Gunnar sagðist telja líklegt að margt af því sem væri tilgreint hefði breyst síðan Samgöngustofa skoðaði Baldur í fyrra.

Hann sagði að það væri alveg klárt að það sæi á við erfiðar aðstæður. „En ég ætla ekkert að verja það að auðvitað þarf að viðhalda og passa upp á þessa hluti.“

Ef það sé ekki gert verði það til þess að öryggi geti verið stefnt í tvísýnu. „Það þarf þá náttúrulega að bregðast við því. Hvort að það sé það ástand sem er get ég ekki svarað.“

Er ekki mögulegt að skoðun og eftirlit Samgöngustofu hafi ekki verið nógu strangt? „Stutta svarið er nei,“ segir Jón Gunnar.

Kveikur kynnti athugasemdir Einars Jóhannesar fyrir Vegagerðinni sem semur við Sæferðir um ferjusiglingar á Breiðafirði.

„Við tökum þær í fyrsta lagi mjög alvarlega,“ sagði Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. „Við höfum bara áhyggjur.“

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

Vegagerðin ákvað að fá skipatæknifræðing til að fara og skoða skipið.

„Hann tekur alveg undir það að það er margt þarna sem betur má fara, en ekkert af þessum athugasemdum er þess eðlis að þær varði haffærni skipsins,“ sagði Bergþóra.

Hún segir að það breyti því ekki Vegagerðin taki málið mjög alvarlega.

Þegar skipatæknifræðingurinn kom um borð í Baldur 2. apríl var búið að laga ýmislegt: líma gúmmíkantinn á landgangshurðinni, laga endurskin á bjarghringjum og lokað var milli vélarrúms og stýrisvélarrúms.

Og það var búið að fjarlægja lúguna á bílaþilfarinu og sjóða í gatið.

Þegar skipatæknifræðingur, sem Vegagerðin sendi til að skoða Baldur, kom í skipið 2. apríl var búið að fjarlægja lúguna á bílaþilfarinu.

Bergþóra dregur þá ályktun að daglegu viðhaldi og umgengni hafi verið ábótavant í Baldri.

Hún segir að henni finnist afleitt að lúgan hafi verið skorin í síðu skipsins án leyfis. „Það er bara þannig.“

Svo fór að Samgöngustofa ákvað að gera aukaskoðun á Baldri. Hún fór fram 5. apríl. Úttektir Samgöngustofu og Vegagerðarinnar voru báðar gerðar eftir að viðtölin við Einar Jóhannes og forstjóra Samgöngustofu voru tekin.

Í svari Samgöngustofu til Kveiks eftir aukaskoðun stofnunarinnar segir:

Í stuttu máli kom ekkert fram við skoðun sem leiðir til þess að haffæri þess skuli afturkallað eða farbann lagt á skipið. Athugasemdir voru gerðar við stök atriði varðandi viðhald og umgengni. Bætt hafði verið úr mörgum atriðum sem fram komu við skoðun Kveiks.
Baldur við bryggju í Stykkishólmi.

Lúgan mun hafa verið gerð í fyrravor. Kveikur sendi skriflega fyrirspurn á Samgöngustofu fyrir helgi og spurði hvaða dæmingu hún ætti að fá við skoðun, að mati Samgöngustofu, ef ekki hefði verið búið að fjarlægja hana. Svarið var dæminguna þrjá, sem er hæsta dæming og þýðir að sjósókn sé óheimil þangað til búið er að laga viðkomandi atriði.

En Baldur sigldi mánuðum saman fram og til baka yfir Breiðafjörð eftir að lúgan var útbúin. Og útgerðin fjarlægði hana ekki fyrr en eftir athugasemdir Einars Jóhannesar.

Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, segir að ákveðnir þættir hefðu mátt betur fara. Útgerðin hafi farið beint í að laga þá. „Það er bara í standi, og sýnir kannski bara hvað þetta var léttvægt og einfalt mál.“

Spurður hvort ekki hefði átt að vera búið að gera við dældirnar á stefnishleranum segir hann að það sé ekki endilega svo. „Ekki ef þær eru innan mála.“

Kveikur spurði Gunnlaug líka um vatnsslökkvikerfið á bílaþilfarinu.

„Kerfið auðvitað virkar prýðilega, ágætlega. En það eru sannarlega einhverjir stútar sem vantaði þarna þegar þessar myndir voru teknar,“ segir Gunnlaugur. Við þessu hafi verið brugðist og kerfið sé „í fullkomnu standi í dag.“

Önnur athugasemd var að neðri landgangshurðin væri ekki vatnsþétt.

„Hurðin er vatnsþétt,“ segir Gunnlaugur. Engum blöðum sé um það að fletta. „En þarna var sannarlega gat sem hafði þann tilgang að drena vatn sem kemur inn bara í rigningu þegar skipið stendur opið eða í snjókomu og slíku.“

Spurður í viðtali hvernig hann geti fullyrt að hurðin sé vatnsþétt þegar gúmmíkanturinn lafi að hluta niður að gólfi segir Gunnlaugur að hann telji erfitt að ræða það í tveggja manna tali manna sem ekki séu fagmenn í málinu.

„En skipið hefur verið tekið út margoft og það stenst allar skoðanir og er traust og gott skip,“ segir hann.

Önnur athugasemd var við ryðguð splitti á björgunarvestakistum.

Gunnlaugur segir að búið sé að panta ryðfrí splitti. Honum fróðari menn segi þó að það sé ekkert sérstaklega gott, því að hætta sé á að þau séu hreinlega tekin og þeim kastað í sjóinn. „Það að það taki einhverjar nokkrar sekúndur að opna svona kistu, ég myndi nú segja að það væri nú ekkert tiltökumál,“ segir hann.

Hann segir að björgunarhringir verði merktir betur og mögulega verði einhverjum skipt út, en segir að hringirnir virki. Hann segir líka að léttabátur skipsins sé í mjög góðu standi og að leitarljósið sé „alveg örugglega komið í lag í dag.“

Gunnlaugur segir að rafmagnstengiboxið sem Einar Jóhannes gerði athugasemd við sé ekki lengur opið.

Hann segir að ekki tíðkist að hafa opið milli vélarrúms og stýrisvélarrúms. „Nei nei, og þarna eiga auðvitað engir að fara um nema áhafnarmeðlimir, þó að því miður í einhverjum tilfellum, eins og ykkar, þá fara þarna aðrir sem eiga svo sem ekki þangað erindi. En nei nei, hurðin er alla jafna lokuð,“ segir Gunnlaugur.

Svo er það athugasemdin við að lúgan hafi verið gerð á bílaþilfarinu.

Gunnlaugur segir að hún hafi ekki verið gerð að hans beiðni. „Satt best að segja að þá vissi ég það ekki fyrr en ég sá þessa punkta að þarna væri lúga,“ segir hann. Hann hafi strax brugðist við með því að að láta loka henni.

Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, segir að Baldur sé algjörlega öruggt skip.

„Fyrir og eftir er skipið öruggt,“ segir Gunnlaugur, og bætir við að það hafi verið tekið út að loknum slipp síðasta vor. Hann fullyrðir að það hafi verið eftir að lúgan var gerð, en segir að það sé „ekki aðalmálið í þessu.“

Hann segist telja að skipið hafi verið öruggt þótt lúgan hafi verið á síðu þess.

„Ekki í nokkrum vafa, skipið er algjörlega, algjörlega öruggt. Hefur alltaf verið það.“

„Niðurstaða ykkar sérfræðings á sér ekki við rök að styðjast, að það eigi að svipta skipið haffærni út af því að öryggismálum sé ábótavant,“ segir Gunnlaugur.

Hann segir um þætti sem hann viðurkennir að Sæferðir hefðu getað gert betur í að huga að að útgerðin sé „að koma út úr mjög erfiðum vetri.“

Unnar Valby Gunnarsson, skipstjóri á Baldri, telur að mikil þörf sé á nýrri ferju.

Áhöfnin á Baldri tók fréttateymi Kveiks vel og leyfði því að mynda uppi í brú. Þar var við stýrið Unnar Valby Gunnarsson skipstjóri sem þekkir Breiðafjörðinn vel. Hann telur að mikil þörf sé á nýrri ferju.

„Nýja ferju, tvær ferðir á dag,“ segir hann. Baldur sé of lítill og kominn til ára sinna.

Kveikur mælti sér mót við Rebekku Hilmarsdóttur, bæjarstjórann í Vesturbyggð, á bryggjunni á Brjánslæk. Hún telur að það hafi töluverð áhrif á nýtingu á ferjunni gagnvart íbúum hvernig aðstaðan sé um borð.

„Líka það þegar þú hefur upplifað það að vera fastur um borð í ferjunni, svamlandi hérna í sólarhring, þá ertu ekki mikið að taka kannski sénsinn,“ segir hún.

Eyjólfur Ármannsson er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu sem liggur fyrir Alþingi um kaup á nýrri Breiðafjarðarferju.

Hann sagði á Alþingi í febrúar að þegar kæmi að aðstöðu og þægindum fyrir farþega væri sigling með Baldri líkt og að fara áratugi aftur í tímann.

„Gamaldags gluggalaus matsalur er niðri í kili og gömul, slitin, óþægileg sæti undir brú. Núverandi Baldur stenst engan veginn nútímakröfur um þægindi í farþegaflutningum og er í engu samhengi við það að ferðaþjónusta er í dag mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar,“ sagði Eyjólfur.

Gunnlaugur Grettisson segir, spurður hvort honum finnist vera í samræmi við þá ímynd sem Eimskip vilji hafa að reka skip sem sé í því standi sem Baldur er í, að það sé „ákveðinn gæðastaðall að nefna Eimskip sem í hæsta flokki.“

„Við getum gert betur í ákveðnum þáttum þarna hjá Sæferðum, og Sæferðir bera ábyrgð á þessu og ég sem framkvæmdastjóri ber ábyrgð á þessu,“ segir hann.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, segir að það sé „alveg ljóst að Baldur er ekki draumaskipið.“

„Þetta er gamalt og lúið skip og ekkert okkar langar sérstaklega til að hafa það í þjónustu okkar,“ segir hún.

„Það er einn aðili sem býður fram sína þjónustu og hefur öll tilskilin réttindi og við gerum samning við hann.“

Samningur ríkisins við Sæferðir hefur verið framlengdur til vorsins 2023.

Spurð hvort það geti hafa verið mistök á sínum tíma að samþykkja Baldur í þessar siglingar segir Bergþóra að miðað við hvað Vegagerðin sé búin að leita mikið að öðru skipi síðastliðið ár, án árangurs, telji hún að það hafi ekki verið.

„Stundum verður maður nú bara að horfast í augu við raunheima,“ segir Bergþóra.

Bryggjan á Brjánslæk.

Í minnisblaði Vegagerðarinnar síðan í fyrra um valkosti í ferjusiglingum á Breiðafirði segir að ný hafnarmannvirki, þar með talið breiðari ekjubrýr, séu forsenda fyrir áframhaldandi ferjurekstri á Breiðafirði.

Bergþóra segir að ákvörðun hafi verið tekin um að byggja upp hafnaraðstöðuna á Brjánslæk og í Stykkishólmi og verið sé að hanna framkvæmdirnar. Reiknað sé með að Vegagerðin verði klár með þær framkvæmdir seint á næsta ári. Þá verði hægt að nýta gamla Herjólf til að sigla á Breiðafirði.

„Þess utan erum við að hefja hönnun á nýju skipi,“ segir Bergþóra. „Við gerum ráð fyrir því að nýtt skip geti þá verið klárt eftir kannski um það bil fimm ár.“

Kveikur spurði Bergþóru hvort Vegagerðin teldi, í ljósi þeirra upplýsinga sem hún hefði, að Baldur væri öruggur til ferjusiglinga með farþega á Breiðafirði.

Bergþóra svaraði að það væri upplifun Vegagerðarinnar „að Baldur sé öruggt, gamalt skip.“

Baldur við bryggju í Stykkishólmi.