Fann Prinsinn aftur

Listamaðurinn Svavar Pétur Eysteinsson segist eiga auðveldara með að fjalla um myrka hluti í sköpun sinni eftir að hann greindist með ólæknandi krabbamein.

Fann Prinsinn aftur

Þó að Svavar sé landsþekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló finnur sköpunarþráin sér margar aðrar útleiðir en tónlist, enda óslökkvandi í hans tilfelli og hreinlega lífsspursmál.

„Ég hef bara þessa þörf til að búa eitthvað til og það er bara það sem ég geri frá morgni til kvölds. Ég er að búa eitthvað til. Sama hvort það sé flík eða málverk eða tónlist eða ljósmynd eða vídeó eða eitthvað. Og það er í rauninni það sem heldur mér á lífi. Því ég hef alveg átt tímabil þar sem ég hef ekki haft löngun til að skapa og þá finnst mér ég vera bara algjörlega dauður. Bara ekki til,“ segir Svavar.

Fjallað verður um listsköpun Svavars og hvaða augum hann lítur dauðann í Kveik á RÚV í kvöld.

Svavar er alinn upp í Breiðholtinu og er mótaður af menningarstraumum níunda áratugarins. Hann lærði grafíska hönnun í Listaháskólanum en hefur hitt þjóðina í hjartastað með margverðlaunaðri tónlist sinni og textum þar sem yrkisefnið er nakinn hversdagsleikinn.

„Sem Prins, þá er ég svona svolítið að dýrka hversdagsleikann og upphefja hversdagsleikann og setja hann í hátíðlegri búning,“ segir hann.

Svavar og kona hans Berglind Häsler fluttu til Reykjavíkur síðasta sumar með börn sín þrjú, frá Karlsstöðum í Berufirði. Þar höfðu þau gert upp býlið, sinnt ferðaþjónustu, matarframleiðslu og blómlegri menningarstarfsemi í sjö ár. Flutningurinn kom í kjölfar þess að Svavar greindist með krabbamein í vélinda árið 2018. Meinið er óskurðtækt og er á fjórða og síðasta stigi, haldið niðri með reglulegum lyfjagjöfum.

„Það er svo mikið sjokk að fá svona greiningu að þú ert kannski bara fyrsta árið svolítið stjarfur. En svo þegar þú áttar þig á því að þú ert ennþá hérna, og það hefur kannski ekki svo mikið breyst, þá heldur maður áfram að skapa. Og eftir það tímabil, eftir langt stöðnunartímabil, og þegar ég fann að ég gat farið að skapa aftur og ég gat farið að vera Prinsinn aftur, bara hömlulaust, þá varð bara lífið aftur eins og það var að mjög miklu leyti. Þó svo að auðvitað sé svona sjúkdómur alltaf stór hluti af deginum líka,“ segir Svavar.

Aðspurður segir hann að sú lífsreynsla að hafa greinst með krabbamein komi að einhverju leiti fram í þeim listaverkum sem hann hefur skapað síðan.

„Mér finnst auðveldara að tala um myrka hluti núna. Mér finnst auðveldara að semja um þá og skrifa um þá. Næsta plata Prinsins, sem er í smíðum núna, það verður kannski meira af dimmari setningum þar inni.“

Rætt verður við Svavar í Kveik sem hefst á RÚV kl. 20:05 í kvöld.