Kvíði, þunglyndi og streita hjá aðstandendum aldraðra

Kvíði, þunglyndi, streita og svefnleysi er meðal þess sem hrjáir aðstandendur veikra aldraðra, samkvæmt nýrri íslenskri rannsókn. Álagið gengur iðulega mjög nærri heilsu þeirra. Niðurstöðurnar eru sláandi, að sögn hjúkrunarfræðingsins sem gerði rannsóknina.

Kvíði, þunglyndi og streita hjá aðstandendum aldraðra

Fjóla Bjarna, hjúkrunarfræðingur, segir rannsóknina sýna að aðstandendur fái minni stuðning og upplýsingar hér en í nágrannalöndum okkar, sem leiði til þess að margir séu að bugast vegna álagsins.

Fjóla Bjarna, hjúkrunarfræðingur

Sigurbjörg Hjörleifsdóttir á aldraða foreldra sem hún og systkini hennar reyna að sinna eftir bestu getu, því foreldrarnir fá ekki þá heimaþjónustu sem þarf og komast ekki að á hjúkrunarheimili. „Ég er búin að vera fara í gegnum þetta bara á hnefanum. Ég hef ekki vitað neitt sko og enginn sagt mér neitt og ég hefði örugglega getað komist hjá mörgum grátköstum ef einhver hefði komið og leitt mig,“ segir Sigurbjörg í viðtali við Kveik.

Sigurbjörg Hjörleifsdóttir

Fjóla Bjarna segir að sér hafi brugðið við að sjá og heyra hversu alvarlegt ástandið væri hjá þeim sem tóku þátt í rannsókn hennar. „Þú veist, þær felldu tár þær voru svo ofboðslega uppgefnar.“

Tólf konur tóku þátt í rannsókninni sem er eigindleg og gerð árið 2020.  Fjóla segir að ekki fari á milli mála að mun algengara sé að konur sinni þessu umönnunarhlutverki, gjarnan með fullri vinnu og rekstri eigin heimilis.

Fjallað verður um úrræðaleysi í málefnum veikra aldraðra og álag á aðstandendur í Kveik í kvöld.