Skjáfíkn: „Raunverulegt samfélagslegt vandamál“

Óhófleg skjánotkun barna og unglinga er samfélagslegt vandamál sem landsmenn þurfa að takast á við í sameiningu. Þetta er mat geðlæknis á Landspítalanum. Hann segir að þangað leiti fjöldi barna sem eigi við skjáfíkn að stríða, og að þau séu sett í það sem hann kallar stafræna afvötnun.

Skjáfíkn: „Raunverulegt samfélagslegt vandamál“

Skjánotkun barna og unglinga hér á landi eykst með hverju árinu sem líður. Samkvæmt nýrri íslenskri rannsókn sem greint verður frá í Kveik í kvöld hefur mikil skjánotkun neikvæð áhrif á bæði svefn og andlega heilsu barna og unglinga.

Björn Hjálmarsson, geðlæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, segir að þangað leiti mörg börn sem hann segir að séu orðin óþægilega háð skjátækjum.

„Og þessi börn, ef þau ánetjast tækjunum, það sem maður sér fljótast er að skólasókn fer hrakandi, svefninn raskast og það fer að koma upp kvíði og vanlíðan, meira en áður,“ segir Björn.

„Það kemur nefnilega ekkert í staðinn fyrir mannleg tengsl. Og ef mannleg tengsl detta út, þá fer okkur öllum að líða verr.“ 

Björn Hjálmarsson, geðlæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítalans.

Björn kallar eftir samfélagssáttmála um það hvernig börn eru alin upp með tilliti til þessarar tækni.

„Það er látið í léttu rúmi liggja að þetta sé ekkert vandamál, að þetta sé bara tilbúningur sérvitra vísindamanna. En ég er ekki á þeirri skoðun. Ég tel að hér sé um raunverulegt samfélagslegt vandamál að ræða, sem við þurfum að læra að takast á við í sameiningu.“

Fjallað verður um skjáfíkn barna og unglinga í Kveik sem er á dagskrá RÚV kl. 20:05 í kvöld.